Henging í fyrramálið

Jæja, nú á aftur að fara að hengja í Írak. Svo segir í frétt Mbl.is

Ramadan, sem var einn af meðsakborningum Saddams Husseins, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína þegar 148 írösk yfirvöld drápu 148 sjíta á níunda áratug síðustu aldar.

En hvað varð um hin 147 írösku yfirvöldin?

En án útúrsnúnings, þá lýsi ég frati á þetta. Hvaða hengingaárátta er þetta eiginlega? Væri ekki nær að látann dúsa í Abu Graib við vatn og brauð. Yrði það ekki betri refsing?

En annars skil ég Íraka vel, að vilja jafna sakirnar við svona kauða. En er henging virkilega rétta lausnin?


mbl.is Fyrrum varaforseti Íraks og samstarfsmaður Saddams Husseins verður hengdur í dögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 3. hluti - Yfirheyrsla FBI

Ég var nú ekkert sérlega upplitsdjarfur þegar flugvallarlöggann ýtti mér á undan sér eftir ganginum, þangað sem FBI agentinn beið mín.

Ég var orðinn þreyttur. Þetta hafði verið langur dagur. Ég hafði farið á Helfararsafnið smá stund um morguninn, en síðan drifið mig heim á hótel og tékkað út. Þar fékk ég síðan far niðrá brautarstöð, þaðan sem ég tók lestina út á BWI - flugvöll, eins og ég hafði oft gert áður.

Það er varla hægt að segja, að Washington sé fögur borg. Í mínum huga er hún þó einstök. Ég hafði búið þarna hluta árs 1998 og búið þá í Alexandríu, Virginíu, rétt hinumegin Potomac. Mér leið vel þarna og naut þess að dvelja í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni og ýmsum merkilegum úthverfum.

Þá hafði ég farið sex daga í viku niður í miðbæ. Tók fyrst buss niðrí Pentagon, þar sem ég gat valið um ýmsar lestarferðir, gula eða bláa línu.

Þessi áramót 2001-2002 hafði ég farið á gamlar slóðir. Já, heimsótt gamla húsið við Glebe Rd., fengið mér kaffi með International Delight kaffirjóma á 7-11, skroppið smástund niðrí gömlu Alexandríu og séð "litla Skotland". Mjög gaman.

Þessi tími hafði verið mjög góður fræðilega séð. Ég hafði fundið helling af nýjum heimildum á safninu, hitt gamla samstarfsmenn og var ánægður með ferðina þegar ég kom út á BWI seinni partinn. Ég var þreyttur og vildi komast heim. En ekki aldeilis.

Nú var verið að leiða mig til fundar við FBI agent, sem hafði það hlutverk að rannsaka, hvort ég væri í raun terroristi eins og starfsmaður Flugleiða hafði grunað, eða ekki.

Ég var enn á sokkaleistunum, því skórnir höfðu verið teknir af mér í flughöfninni, enda vafalaust uppfullir af sprengiefni. Þegar ég gekk inn í herbergið, þar sem ég hafði skilið föggur mínar eftir, beið mín hálf úrillur FBI maður. Hann hafði verið í afmæli dóttur sinnar, ef ég man rétt, og verið kallaður út af bakvakt.

Á borðinu lá kortið, sem ég hafði haft með mér. Þar hafði ég merkt inn á ákveðna staði. Hvíta húsið, Pentagon, Helfararsafnið, Dupont Circle og vísast eitthvað fleira.

"Af hverju ertu með hring yfir Pentagon?" var það fyrsta sem FBI agentinn spurði mig, eftir að hafa bent mér á, að setjast við borðið. Þá voru reyndar ekki nema nokkrir mánuðir síðan terroristar höfðu flogið farþegaflugvél á þá stóru byggingu. Ég útskýrði það fyrir manninum, en bætti við, að ég hefði reyndar farið úr í Pentagon City, farið í Macys og bókabúðir, og tekið lestina þaðan áfram yfir í DC, en ekki frá Pentagon stöðinni sjálfri.

Hann tók mig trúanlegan, en hóf nú alls konar spurningar. Hann tók mig þó ekki trúanlegan, þegar ég útskýrði mína hlið á málinu. Ég sagði hreint út, að Flugleiðastarfsmaðurinn hefði greinilega ekki sagt satt og rétt frá og rakti forsöguna um skógegnumlýsingarfréttina í Washington Post.

Hann spurði síðan sömu spurninganna aftur og aftur, en kom sér síðan að kjarna málsins. Við rannsókn á ferðatölvunni minni hefðu fundist skjöl um íslam. Nú ætti ég bara að játa, að vera terroristi.

Ég sagði honum frá því, um hvað það snerist. Ég hafði skrifað 1995-96 ráðstefnuritið The Nature of Islam, sem hafði verið gefið út í Jerúsalem 1996. Ég hefði verið að vinna í handritinu nokkrum mánuðum áður og því væri þarna folder sem héti "Islam". Hann tók mig ekki trúanlegan, en hélt áfram að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur.

Og til að fara úr öskunni í eldinn var ég ekki nógu snöggur að svara neitandi, þegar hann spurði mig hvort ég þekkti einhverja hryðjuverkamen. Hann sá á svipnum á mér, býst ég við, að ég væri ekki alsaklaus á þeim vettvangi. Ég þekki reyndar einn alræmdasta hryðjuverkamenn 9. áratugarins, Jamshid Hassani. Þessi fyrrum yfirmaður lífvarðasveita Íranskeisara var ágætis kunningi minn, en ég las yfir fyrir hann ævisögu hans, Walk to the Heights, og handrit hans að sögu Írans. Við höfðum reyndar haft nokkuð saman að sælda, en hann var nú orðinn vita meinlaus. Var að vísu enn eftirlýstur víða um heim og hafði komið af stað milliríkjadeilu milli Írans og Ástralíu, og hafði að baki ýmsan terrorisma gegn írönsku klerkastjórninni, m.a. rænt eldflaugabát íranska sjóhersins, og fleira. En ég sagði ekki þekkja neina íslamska terrorista, bara einn Írana sem væri meðal forystumanna írönsku útlagastjórnarinnar og hefði áður verið vígreifur, en nýlega snúist til kristinnar trúar og væri meðlimur í ensku biskupakirkjunni. FBI agentinn hripaði þetta hjá sér. Loksins var hann kominn í feitt!

En nú birtist minn frelsandi engill, Friðrik Jónsson sendiráðsstarfsmaður. Hann var kominn til skjalana. (sjá 1. hluta). Hlé var gert á yfirheyrslunum og ég var sendur aftur í klefann.

Á leiðinni bað ég um klósettpappír, eða amk tissue. Þeirri beiðni var neitað. "This is not a ***** hotel" var svarað. En vörðurinn var nú aðeins mildari í rómnum en áður, þó greinilega pirraður út í mig af einhverjum ástæðum. En að þessu sinni fékk ég að leggja mig smástund á hörðu blikkinu, með jakkann yfir búknum og hendurnar fyrir kodda.

Þar sem ég lá á blikkinu hugsaði ég aðeins um eitt. FBI maðurinn hafði sagt mér, að ég yrði næst leiddur fyrir æðra yfirvald og sennilega dæmdur til 20-30 ára fangelsisvistar, auk 2-3 milljóna dollara sektar. Ef ég myndi játa allt gæti ég átt von á linkind. Þrátt fyrir þessar hótanir vissi ég ekki hvað ég ætti að játa á mig. Mitt í þessum hugleiðingum datt ég út af. Batteríin voru búin.


Játningar í Guantanamo

Allt í lagi. Vel má vera, að maður þessi sé í raun sekur um það, sem hér kemur fram. Það má vel vera, að játningar hans séu sannar.

klefi2En samkvæmt persónulegri reynslu þá hef ég á tilfinningunni, að maður þessi hefði verið tilbúinn að játa á sig morðið á Lincoln, bara til að fá að fara aftur í klefann sinn, sem þó hefur varla verið upp á marga fiska.


mbl.is Játar árásir á bandarískt herskip og sendiráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsmálið

Jæja, aðeins að hvíla mig á framhaldssögunni af þeim atburði, þegar ég var handtekinn, grunaður um að vera hryðjuverkamaður.

vinstri grisEn hér kemur Kjartan Gunnarsson fram, og kannast ekkert við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið nærri Baugsmálinu, eins og m.a. Samfó hefur reynt að troða á flokkinn. Og þar hefur formaðurinn, ISG, farið hamförum, en aðeins borið fram dylgjur, en hvorki heimildir né beinar sannanir. Og hún sjálf var nú ekki alsaklaus af því, að hafa verið með puttana í upphafi Baugsmálsins. Og þáverandi formaður kratanna var með ásakanir og hótanir í garð Baugs. En jæja.

Fleiri innanbúðarmenn Sjálfstæðisflokks hafa sagt frá svipuðu undanfarið, enda ekki annað hægt en að leiðrétta þessar dylgjur kratanna. Og Samfómenn skilja ekki enn, af hverju þjóðin treystir þeim ekki; hvorki formanninum né öðrum foringjum. Og jafnvel formaðurinn treystir ekki þingflokknum, og þjóðin treystir ekki formanninum.

En persónulega er ég orðinn þreyttur á þessu Baugsmáli. Vona að því ljúki sem fyrst.


mbl.is Fráleitar falsanir og rangfærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 2. hluti - Í klefanum

Jæja, framhaldssagan frá 1. hlutanum.

Ég var semsagt handtekinn fyrir eitthvað sem ég sagði ekki, og gerði ekki. Ég var grunaður um að vera hryðjuverkamaður.

klefi1Flugvallarlöggann færði mig niður í fangageymslu flugvallarins. Ég gekk þar inn á sokkunum, óþægilegt eins og það var. Flugvallarlöggan lét mig taka allt úr vösunum og tæma tölvutöskuna. Ég var síðan settur inn í lítinn og andstyggilegan fangaklefa. Hér skyldi ég bíða, uns FBI gaurar kæmu að yfirheyra mig.

Fangaklefinn var c.a. 6 fermetrar. Yfir miðju gólfinu var hálfur-veggur, og að baki hans klósett, án setu. Ekkert handklæði, enginn salernispappír.

Til hliðar var blikkrúm, engin dýna, engar ábreiður. Ekkert.

klefi2Ekkert annað var þarna inni. Og enginn gluggi til að glápa út um.

Maður var semsagt kominn í fangelsi á Flintstone tímanum, áður en menn fundu upp dýnu, salernispappír og handklæði.

Það var liðið á kvöld og þetta hafði verið langur dagur. Ég lagðist dauðþreyttur á blikkið og notaði jakkann sem kodda. Við dyrnar var löggan. Ég skildi sem sagt ekki sleppa út. Þegar ég var við það að sofna, barði hann í rimlana og spurði mig um hæð. Ég sagði honum það, og hann öskraði á mig.

"Ertu hálfviti". Hann skildi semsagt ekki hvað 1,78 mtr. var hátt. Hann vildi fá þetta í einhverri amerískri útgáfu. Ég kunni þá útgáfu ekki og varð hann næsta reiður. En jæja, hann cirkaði þetta út og skrifaði á blað.

Ég var næstum sofnaður aftur, þegar löggan lamdi aftur á rimlana. Nú vildi hann fá að vita hvað ég væri þungur. Sama sagan endurtók sig þar. Hann skildi ekki hvað kílógramm var mikið og vildi fá etta í einhverjum amerískum útgáfum. Replay!

Mér var mál að fara á klósettið, en ákvað að halda í mér. Reyndi þó að vekja athygli varðarins á, að það vanti salernispappír. Hann svaraði mér engu. Ég reyndi því að sofna aftur. En vörðurinn lamdi í rimlana.

Ég átti semsagt ekki að fá að sofna. En þetta skiptið spurði hann engra heimskulegra spurninga. Hann reyndi ekki lengur að þykjast. Þetta hefur víst verið hluti af dæminu. Ég skildi ekki fá að sofna fyrr en FBI hefði yfirheyrt mig.

En síðan náði ég að dotta aðeins, að ég held. En þá var aftur barið í rimlana. Að þessu sinni átti ég að koma til yfirheyrslu. FBI var mætt á staðinn.

 


Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 1. hluti

Dálitlar umræður áttu sér stað hér í gær um þann atburð, þegar ég var handtekinn af Könunum fyrir að vera terroristi. Þetta gerðist 2. janúar 2002, ef ég man rétt.

Ýmsar sögur hafa gengið um þennan atburð, flestar ósannar. Í ofanálag þurfti ég, undir hótunum um 20 ára fangelsi og milljóna dollara sektir, að skrifa undir skýrslu, sem var röng, rétt til að sleppa heill á húfi frá Bandaríkjunum. Í þessu samhendi benti ég á, að úr því  svona var komið fram við mig, hvernig ætli Kanarnir komi fram við meinta eða raunverulega terrorista í Guantanamo eða í Írak/Afghanistan?

En svona var þetta framsett:

Úr Mbl. 4. janúar 2002.

ÍSLENSKUR maður, sem var á heimleið frá Washington í Bandaríkjunum í fyrrakvöld, var handtekinn og færður í fangageymslur á flugvellinum eftir að hafa sagt að hann væri "alla vega ekki með sprengjur í skónum". Þurfti hann að dúsa um þrjá og hálfan klukkutíma í steininum áður en fulltrúar lögreglunnar og bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) ákváðu að láta mál hans niður falla.

Friðrik Jónsson, sendiráðsritari í Washington, var fyrir tilviljun staddur á flugvellinum þegar atvikið átti sér stað. "Maðurinn var í innrituninni hjá Flugleiðum þar sem verið var að fara yfir þessar hefðbundnu öryggisspurningar. Þar var hann meðal annars spurður að því hvort hann hefði pakkað sjálfur í töskurnar sínar. Í einhverju gríni svaraði hann því til að það hefði hann gert og alla vega væri hann ekki með sprengjur í skónum. Þá var hann umsvifalaust handtekinn og færður í fangageymslur."

Friðrik segist hafa tekið eftir manninum þegar búið var að handtaka hann og verið var að flytja hann í fangaklefa. Hafi hann þegar látið vaktstjóra Flugleiða á staðnum vita um að hann væri frá sendiráðinu. Í kjölfarið ræddi hann við yfirmann lögreglunnar á flugvellinum og fulltrúa FBI auk þess sem hann lét ferðamanninn vita af því að hann væri að vinna í máli hans.

Forsagan var sú, að 1998 hafði ég dvalið nokkra mánuði í Washington, þar sem ég var gestafræðimaður við Helfararsafnið. Ég kynntist þar nokkrum Íslendingum, m.a. Friðriki þessum, ágætis manni, sem starfaði þá fyrir sendiráðið í DC. Nú, fjórum árum síðar, var hann staddur á Baltimore flugvelli og varð vitni að því, þegar ég var handtekinn fyrir að vera terroristi. En ég vil ræða  þetta aðeins nánar.

  • "... eftir að hafa sagt að hann væri "alla vega ekki með sprengjur í skónum". Þurfti hann að dúsa um þrjá og hálfan klukkutíma í steininum áður en fulltrúar lögreglunnar og bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) ákváðu að láta mál hans niður falla."

Þetta er þvæla, kvótið a.m.k. Málavextir voru þeir, að meðan ég var í USA, frá 21. des til 2. jan, hafði verið í fréttum, bæði í sjónvarpi og blöðum, að vegna frægs sprengjumáls hefði verið ákveðið, að farþegar í millilandaflugi skuli fara úr skónum og eftirláta þá til gegnumlýsingar. Af einhverjum ástæðum las ég þetta þannig, að þetta væri þegar hafið, en ekki, að þetta stæði til. Þetta var því misskilningur af minni hálfu.

En þegar ég var að innrita mig hjá Flugleiðum á vellinum, spurði ég afgreiðslumanninn, sem var Kani, hvort byrjað væri að gegnumlýsa skó manna? Hann svaraði því til, að það hefði hann ekki heyrt og bætti við: "Af hverju ætti að gera það"? Ég svaraði c.a.: "Til að athuga hvort menn hefðu sprengjur"? Hann sagði þá: "Ert þú með sprengju í skónum?" Ég varð hissa og svaraði: "Nei, auðvitað ekki."

Síðan tékkaði ég mig inn, fór á Burger King og labbaði aðeins um völlinn, enda svoldið í fyrri kantinum, tímalega séð. Síðan ætlaði ég inn, en þá var komin nokkuð löng röð. Sá ég þar náungann frá FLugleiðum og spurði: Er alltaf svona mikil biðröð?

Hann vildi ekkert við mig tala og fór ég í röðina. Kom þá nokkru síðar öryggisvörður, með byssu, og spurði mig hvort ég hefði sagst hafa sprengju í skónum, hvort ég hefði verið að hóta að detóneita sprengju hér á flugvellinum? Ég neitaði því. Hann lét þá aðstoðarmann sinn hafa á mér gætur, og fór og talaði við þennan starfsmann Flugleiða. Öryggisvörður kom síðan aftur og sagði mér, að hann hefði vitni að því, að ég hefði sagst hafa haft sprengju í skónum. og hefði verið með hótanir.

Þetta var auðvitað tóm della hjá honum.

Ég var nú handtekinn, rifinn úr skónum og handjárnaður fyrir aftan bak. Ég var síðan færður, með svollu offorsi út í löggubíl fyrir utan völlinn (og þurfti að ganga þangað á sokkunum). Mér verkjaði í vinstri öxlina, þar sem ég hafði meiðst forðum, en flugvallarlöggan tók ekki í mál að færa handjárnin framfyrir. "Handtaka er ekki lautarferð drengur. Þér á ekki að líða vel!".

Hananú!  Ég var semsagt handtekinn fyrir eitthvað, sem ég sagði aldrei. En  það var aðeins byrjunin.

En ég skil ekki hvað þessi starfsmaður FLugleiða var að pæla. Hann laug. Ég sagðist aldrei hafa haft sprengju í skónum, eins og hann sagði öryggisverðinum. Hann var að segja ósatt.

Því má bæta við, daginn eftir, þegar ég komst úr landi, þá var umræddur  maður á vakt. Ég reyndi að tala við hann, en hann svaraði engu, en var skömmustulegur á svipinn, nánast rauður í framan. Hugsanlega hefur hann skammast sín fyrir að segja ósatt...vonum það amk.

En svo segir í framhaldinu og vitnað í Friðrik sendiráðsstarfsmann:

"Maðurinn var í innrituninni hjá Flugleiðum þar sem verið var að fara yfir þessar hefðbundnu öryggisspurningar. Þar var hann meðal annars spurður að því hvort hann hefði pakkað sjálfur í töskurnar sínar. Í einhverju gríni svaraði hann því til að það hefði hann gert og alla vega væri hann ekki með sprengjur í skónum. Þá var hann umsvifalaust handtekinn og færður í fangageymslur."

Af því, sem ég hef sagt áður, er þessi frásögn röng. Ég grínaðist aldrei með neinar öryggisspurningar. En þetta var sú útgáfa, sem Friðrik fékk frá Könunum og hafði enga ástæðu til að efast um.  En ég var heldur ekki umsvifalaust handtekinn...það gerðist c.a. 2 klst síðar, eftir að ég hefði spurt Flugleiðastarfsmanninn, hvort það væri alltaf svona mikil biðröð.

 Vissulega skil ég, að menn skuli hafa varann á þegar kemur að öryggi á flugvöllum. En það er algjör óþarfi að ljúgja til að búa til terrorista. Ég hélt að nóg væri af þeim fyrir.

 


Eftirlitsmyndavélarnar á Sögu?

Jæja, nú virðast eftirlitsmyndavélarnar á Sögu hafa skilað sínu. Maðurinn náðist á mynd, að mér skilst, og löggan hafði því öll færi á, að elta þennan gaur uppi og handtaka hann.

En ég vil vekja athygli á einu. Starfsfólk Hótel Sögu reyndi að halda manninum, en tókst ekki. Hann slapp burtu og hljóp inná Birkimel og einhver með honum.

Spurning hvort a.m.k. stærstu hótel landsins ættu að fara að ráða öryggisvörð, til að vera á staðnum á hótelinu? A.m.k. um kvöld og helgar. Það var t.d. gert á BSÍ, þar sem nokkuð hafði verið um ólæti og vesen, en eftir að öryggisvörðurinn tók að vera þar til staðar á helstu "áhættutímum", datt allt í ljúfa löð.

En jæja, ágætlega gert hjá löggunni.


mbl.is Meintur nauðgari handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband