Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 3. hluti - Yfirheyrsla FBI

Ég var nú ekkert sérlega upplitsdjarfur þegar flugvallarlöggann ýtti mér á undan sér eftir ganginum, þangað sem FBI agentinn beið mín.

Ég var orðinn þreyttur. Þetta hafði verið langur dagur. Ég hafði farið á Helfararsafnið smá stund um morguninn, en síðan drifið mig heim á hótel og tékkað út. Þar fékk ég síðan far niðrá brautarstöð, þaðan sem ég tók lestina út á BWI - flugvöll, eins og ég hafði oft gert áður.

Það er varla hægt að segja, að Washington sé fögur borg. Í mínum huga er hún þó einstök. Ég hafði búið þarna hluta árs 1998 og búið þá í Alexandríu, Virginíu, rétt hinumegin Potomac. Mér leið vel þarna og naut þess að dvelja í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni og ýmsum merkilegum úthverfum.

Þá hafði ég farið sex daga í viku niður í miðbæ. Tók fyrst buss niðrí Pentagon, þar sem ég gat valið um ýmsar lestarferðir, gula eða bláa línu.

Þessi áramót 2001-2002 hafði ég farið á gamlar slóðir. Já, heimsótt gamla húsið við Glebe Rd., fengið mér kaffi með International Delight kaffirjóma á 7-11, skroppið smástund niðrí gömlu Alexandríu og séð "litla Skotland". Mjög gaman.

Þessi tími hafði verið mjög góður fræðilega séð. Ég hafði fundið helling af nýjum heimildum á safninu, hitt gamla samstarfsmenn og var ánægður með ferðina þegar ég kom út á BWI seinni partinn. Ég var þreyttur og vildi komast heim. En ekki aldeilis.

Nú var verið að leiða mig til fundar við FBI agent, sem hafði það hlutverk að rannsaka, hvort ég væri í raun terroristi eins og starfsmaður Flugleiða hafði grunað, eða ekki.

Ég var enn á sokkaleistunum, því skórnir höfðu verið teknir af mér í flughöfninni, enda vafalaust uppfullir af sprengiefni. Þegar ég gekk inn í herbergið, þar sem ég hafði skilið föggur mínar eftir, beið mín hálf úrillur FBI maður. Hann hafði verið í afmæli dóttur sinnar, ef ég man rétt, og verið kallaður út af bakvakt.

Á borðinu lá kortið, sem ég hafði haft með mér. Þar hafði ég merkt inn á ákveðna staði. Hvíta húsið, Pentagon, Helfararsafnið, Dupont Circle og vísast eitthvað fleira.

"Af hverju ertu með hring yfir Pentagon?" var það fyrsta sem FBI agentinn spurði mig, eftir að hafa bent mér á, að setjast við borðið. Þá voru reyndar ekki nema nokkrir mánuðir síðan terroristar höfðu flogið farþegaflugvél á þá stóru byggingu. Ég útskýrði það fyrir manninum, en bætti við, að ég hefði reyndar farið úr í Pentagon City, farið í Macys og bókabúðir, og tekið lestina þaðan áfram yfir í DC, en ekki frá Pentagon stöðinni sjálfri.

Hann tók mig trúanlegan, en hóf nú alls konar spurningar. Hann tók mig þó ekki trúanlegan, þegar ég útskýrði mína hlið á málinu. Ég sagði hreint út, að Flugleiðastarfsmaðurinn hefði greinilega ekki sagt satt og rétt frá og rakti forsöguna um skógegnumlýsingarfréttina í Washington Post.

Hann spurði síðan sömu spurninganna aftur og aftur, en kom sér síðan að kjarna málsins. Við rannsókn á ferðatölvunni minni hefðu fundist skjöl um íslam. Nú ætti ég bara að játa, að vera terroristi.

Ég sagði honum frá því, um hvað það snerist. Ég hafði skrifað 1995-96 ráðstefnuritið The Nature of Islam, sem hafði verið gefið út í Jerúsalem 1996. Ég hefði verið að vinna í handritinu nokkrum mánuðum áður og því væri þarna folder sem héti "Islam". Hann tók mig ekki trúanlegan, en hélt áfram að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur.

Og til að fara úr öskunni í eldinn var ég ekki nógu snöggur að svara neitandi, þegar hann spurði mig hvort ég þekkti einhverja hryðjuverkamen. Hann sá á svipnum á mér, býst ég við, að ég væri ekki alsaklaus á þeim vettvangi. Ég þekki reyndar einn alræmdasta hryðjuverkamenn 9. áratugarins, Jamshid Hassani. Þessi fyrrum yfirmaður lífvarðasveita Íranskeisara var ágætis kunningi minn, en ég las yfir fyrir hann ævisögu hans, Walk to the Heights, og handrit hans að sögu Írans. Við höfðum reyndar haft nokkuð saman að sælda, en hann var nú orðinn vita meinlaus. Var að vísu enn eftirlýstur víða um heim og hafði komið af stað milliríkjadeilu milli Írans og Ástralíu, og hafði að baki ýmsan terrorisma gegn írönsku klerkastjórninni, m.a. rænt eldflaugabát íranska sjóhersins, og fleira. En ég sagði ekki þekkja neina íslamska terrorista, bara einn Írana sem væri meðal forystumanna írönsku útlagastjórnarinnar og hefði áður verið vígreifur, en nýlega snúist til kristinnar trúar og væri meðlimur í ensku biskupakirkjunni. FBI agentinn hripaði þetta hjá sér. Loksins var hann kominn í feitt!

En nú birtist minn frelsandi engill, Friðrik Jónsson sendiráðsstarfsmaður. Hann var kominn til skjalana. (sjá 1. hluta). Hlé var gert á yfirheyrslunum og ég var sendur aftur í klefann.

Á leiðinni bað ég um klósettpappír, eða amk tissue. Þeirri beiðni var neitað. "This is not a ***** hotel" var svarað. En vörðurinn var nú aðeins mildari í rómnum en áður, þó greinilega pirraður út í mig af einhverjum ástæðum. En að þessu sinni fékk ég að leggja mig smástund á hörðu blikkinu, með jakkann yfir búknum og hendurnar fyrir kodda.

Þar sem ég lá á blikkinu hugsaði ég aðeins um eitt. FBI maðurinn hafði sagt mér, að ég yrði næst leiddur fyrir æðra yfirvald og sennilega dæmdur til 20-30 ára fangelsisvistar, auk 2-3 milljóna dollara sektar. Ef ég myndi játa allt gæti ég átt von á linkind. Þrátt fyrir þessar hótanir vissi ég ekki hvað ég ætti að játa á mig. Mitt í þessum hugleiðingum datt ég út af. Batteríin voru búin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er búin að vera ansi áhugaverð lesning og ég hef velt ýmsu fyrir mér, eins og t.d fyrst að þú fékkst svona meðferð, hvernig er þá farið með fólk af arabískum uppruna. Jafnframt hefur þetta gefið manni annað sjónarhorn á þankargang bandaríkjamanna sem var nú ekki hátt skrifður fyrir. Bíð spenntur eftir að heyra restina af sögunni, því þó þetta sé alls ekki skemmtileg reynsla að þá er frásögnin hjá þér ansi skemmtileg og vel uppsett.

Davíð Hafstein (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband