Stefnubreyting í Írak?

Jæja, nú er von á Íraksskýrslu nefndar, sem skammstöfuð er eins og nafn formanns evrópusósíalistaflokksins. Breytingar á stefnu Bandaríkjanna liggja í loftinu, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu. Í breytingaferli þessu er James Baker þriðji, fyrrverandi utanríkisráðherra Bush gamla og formaður Íraksnefndarinnar, innsti koppur í búri.

Þegar Bandaríkin og fylgiríki þeirra réðust á Írak var ég í þeim hópi, sem lýsti yfir verulegum efasemdum um innrásina. Ég var ekki endilega á móti henni, sem slíkri, en taldi hana mjög vafasama, og taldi að Bandaríkin, og enn síður fylgiríkin, væru tilbúin að lenda í öðru Víetnam og þar að auki efaðist ég um, að ef Saddam yrði steypt af stóli, myndi ekkert betra taka við.

Íslam skiptir heiminum í tvo hluta: Dar al islam og Dar al Harb (vona að ég muni þetta rétt); heim íslams annars vegar, og heim stríðs hins vegar.  Heimur íslams nær yfir öll þau ríki, sem íslam hefur einu sinni stjórnað, þar á meðal núverandi Ísrael, Balkanskagi, Spánn, suðurhluti Frakklands og svæði norður af Svartahafi, auk t.d. svæða í Kína og á Indlandi (t.d. Kasmír); eða þar sem múslimar eru í meiri hluta og ættu að stjórna. Önnur svæði eru löggild stríðssvæði fyrir hermenn íslams, sem skuli, þegar tækifæri er til, heyja jihad gegn heiðingjunum og koma á íslamskri stjórn út um allan heim. Jafnframt er óviðundandi að heiðingjarnir stjórni nokkru svæði í heimi íslams, jafnvel "fólk bókarinnar", þ.e. einkum kristnir menn, Gyðingar, Saraþústrumenn og Hindúar. Það á t.d. við um Ísrael, Líbanon (þar sem kristnir menn áttu lengi vel í fullu tré við múslima og Drúsa um stjórn landsins), Kasmír osfrv.

Af þessari ástæðu var ljós, að múslimar gætu aldrei sætt sig við stjórn Bandaríkjanna í Írak, ekki einu sinni leppstjórn þeirra, eða stjórn sem sæti í skjóli þeirra. Íslam getur umborið t.d. stjórn kaþólskra manna á Spáni, Sikiley og víðar, enda voru þessi lönd ekki hluti af kjarnasvæði íslams, en um Írak gildi öðru. Þar sátu kalífarnir forðum, í Bagdad (sem var þriðja sæti kalífanna, á eftir Mekku/Medínu og Damaskus), og því er það algjörlega útilokað, að samþykkja veru herliðs Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra þar. Írak er ekki jafn heilög jörð og svæðið umhverfis Mekku og Medínu, en nógu heilög til að hundruðir manna séu tilbúnar að sprengja sig í loft upp til að frelsa.

Það sem kemur mér mest á óvart er, að ekki sé meiri óöld í Írak en raun ber vitni.

En Bandaríkjamenn munu aldrei ná að berja andstöðu Íraka og erlendra trúbræðra þeirra niður. Ég held að Bush-stjórnin sé loksins að fatta það núna. Og Blair-stjórnin fylgir væntanlega á eftir. Og síðan Geir-stjórnin. Ég geri ekkert mál út af því, þótt Íslendingar hafi verið á lista hinna viljugu þjóða. Við vorum þar bara til skrauts, svipað og þegar frambjóðendur í prófkjörum birta lista í blöðunum yfir stuðningsmenn sína, sem sumir munu jafnvel ekki kjósa umræddan flokk í kosningum. En ég hefði frekar óskað, að ríkisstjórn Íslands hefði látið þetta vera.

En hver verður framtíð Íraks? Að mínum dómi væri farsælast, blóðsúthellingalega séð, að stofna þrjú "heimastjórnarsvæði" (eða jafnvel ríki) á landsvæði núverandi Íraks; Kúrdistan, og svæði  súnníta og sjía. Írak hefur þegar einu sinni verið skipt, þegar Bretar launuðu vinsamlegum sheikhum vinsemdina og bjuggu til Kúveit úr litlu en olíuauðugu svæði syðst í landinu, og mætti jafnvel skipta aftur, en ég tel þó ólíklegt að landsmenn samþykki slíka skiptingu, nema auðvitað Kúrdar. Ennfremur  myndu þá fleiri vandamál skapast, t.d. ef Kúrdar færu að krefjast þeirra kúrdísku svæða, sem liggja í Íran og Tyrklandi. Persónulega hef ég mikla samúð með Kúrdum, en ég tel ólíklegt að þeir nái sínu fram, til þess eru Tyrkir og Íranir of sterkir.

En hvað munu Bandaríkjamenn gera í framhaldinu? Líklegast munu þeir halda herliðinu áfram í Írak, en áskilja sér rétt til að fækka hermönnum smám saman, rétt eins og þeir gerðu í Keflavík, og fara frá Írak ekki seinna en í árslok 2007. Jafnframt er líklegt, að Bandaríkjamenn reyni að gera einhvern pakkadíl við íslamska heiminn og taki með ályktanir um Miðausturlönd í víðari skilningi, allt frá Ísrael/Palestínu til Afghanistans. Hafa ber í huga, að James Baker, aðal skýrsluhöfundur og ráðgjafi George W. Bush, er annar aðaleigenda Baker og Botts lögfræðifyrirtækisins, sem annast málefni Saudi Arabíu-stjórnar í Bandaríkjununum og  hefur hagsmuni að gæta í, að halda Ríad-stjórninni ánægðri. Spurning hvort t.d. friðaráætlun Saudi Arabíu frá 2002 verði hluti af þeim pakkadíl, sem Bandaríkin muni gera við Íraka og íslamska heiminn á næstunni?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband