Magnað - stórkostleg vísa

Fékk eftirfarandi sent frá Kokknum: 


 

Vonandi er það öllum ljóst að upplýsingar úr sjúkraskrám eru og verða aldrei birtar á netinu né á öðrum opinberum vettvangi. Þó verður hér gerð undantekning frá þeirri reglu með samþykki viðkomandi sjúklings. Sagan er dagsönn, um það getur vefsmiður vitnað.

Bóndi úr Laxárdalnum kom til læknis í Búðardal. Þegar læknirinn innti manninn eftir því hvað að honum amaði rétti hann honum blað með eftirfarandi texta:
   
Nú líður mér illa,
lasinn er ég,
margs konar kvilla
merki ber ég,
um allan skrokkinn
frá skalla að il
mér finnst ég alls staðar
finna til.
Þessi andskoti birtist í ýmsum myndum,
- fjölbreytnin er með ólíkindum:
í vindverkjum sterkum,
vondu kvefi,
ræmu í kverkum
rennsli úr nefi,
svo er þrálátur hósti
og þyngsli fyrir brjósti,
en beinverkir þjarma að baki og fótum,
og það brakar í öllum liðamótum,
þar grasserar sem sé giktarfjandi,
sem almennt er talinn ólæknandi.
Þá er sljóleiki í augum,
en slappelsi á taugum,
og svo þessi eilífa syfja,
eða sárindin milli rifja,
og óþægindi í einhverri mynd,
oftast báðu megin við þind.
Yfir höfðinu er þessi þráláti svimi,
en þreyta gagntekur alla limi.
Loks fylgir þessu lítill máttur,
óreglulegur andardráttur,
bólgnir eitlar og blásvört tunga,
bronkíttis í hægra lunga.
Svo safnast á skrokkinn skvapkennd fita
þótt ég skeri við nögl hvern matarbita,
og í sjö vikur hef ég, segi og rita,
sofnað með köldu og vaknað með hita.
Samt hefði ég aldrei uppphátt kvartað,
ef lasleikinn væri ekki lagstur á hjartað,
þar hef ég nú stöðuga stingi,
sem stafa af of háum blóðþrýstingi.
Og lon og don
hjá læknum er ég,
með litla von
frá langflestum fer ég,
því að lítið er gagnið
að geislum, bökstrum og sprautum
við svona fjölbreyttri
vanlíðan og þrautum.
Það ber helst við
að mér batni á köflum
af brúnum skömmtum
og magnyl töflum.
Sem sagt: ég er á eilífum hlaupum
milli sérfróðra lækna og í lyfjakaupum.
Já, útlitið er ekki gott.
Ég þoli orðið hvorki þurrt né vott,
það er að segja fæði.
Og friðlaus af fjörefnaskorti
til fróunar mér ég orti
þetta kvalastillandi kvæði.
                             
Böðvar Guðlaugsson

Varla þarf að taka það fram að læknirinn gat ósköp lítið fyrir sjúklinginn gert. Höfundur ljóðsins mun vera móðurbróðir bóndans og vita þá kunnugir við hvern er átt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Snilld. Ég ætla að prenta þetta út og færa bridge-sveitarfélaga mínum þetta, en hann er læknir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.2.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband