Obrenovac einu sinni enn

 

 

 

Jæja, þá er kominn sunnudagsmorgunn í Obrenovac. Roar, ég tapaði fyrir serbneska stórmeistaranum Dusan Rajkovic (2522) í gær, en Robbi vann þriðja „Slobodjaninn“ (2097) í gær og var meðal þeirra allra síðustu til að klára, því kallinn tefldi fram í rauðann dauðann, eins og þeir gera hér jafnan. Það er eins og H. B. hefði verið að kenna hér skák í Skákfélagi miðaldra og eldri borgara. En á borðinu við hliðina á mér sigraði Ivan Martic, hinn geðþekki vinur vor, búlgarska stórmeistarann Radulski glæsilega með hvítu í Chigorin afbrigðinu í spænskum leik. Glæsilega teflt hjá stráknum, sem ætlar að endurtaka leikinn og taka okkur Robba í skoðunarferð um Belgrað á frídegi okkar eftir mót. Þessi drengur er algjör perla og talar frábæra ensku, enda stundar hann enskunám í Belgrað háskóla, ef ég man rétt, og kennir ensku í hjáverkum.

Ég er óánægður með asann í mér. Ég lenti í dálitlum ógöngum í byrjuninni, tapaði tempói með þvi að rugla saman varíöntum, en klóraði mig snyrtilega út úr þeim og var kominn með solid stöðu með skiptamunsfórn, sem hann því miður tók ekki. En þá varð ég aðeins of ákafur að vinna karlinn (við gerðum jafntefli í fyrra) og fór í ótímabærar sóknaraðgerðir, í stað þess að valda mitt lið og bíða betri tíma. En mér tókst þó a.m.k. að tefla frísklega og hugmyndaríkt, a la Bjössi Ofurhúnn, en teygði mig aðeins of langt. Skákin var þó lengst af umsetin áhorfendum, sem hópuðust að borðinu, svo stundum lá við að maður kæmist ekki að sjálfur. Og þegar við stúderuðum skákina eftir á (já, ég mæli með að Dusan Rajkovic verði boðið á næsta Reykjavík open; þetta er sennilega einn frábærasti skákmaður Austur-Evrópu; ótrúlega skemmtilegur, kurteis og þægilegur og hefur ekkert stórmeistaramikilmennskubrjálæði) þyrptust menn að. Þar fékk ég merkilegt comment á lélegri ensku: „You play like Tal...but not as good.“

Robbi hafði líka svart og tefldi mótherjinn eins morkið og hægt var. Ég meina, í samanburði má segja að Jón Árni Halldórsson, hinn ágæti bókasafnsfræðingur úr Fjölni, sé grimmur sóknarskákmaður. Ljúflingurinn Jón er þekktasti jafnteflisskákmaður landsins og vegna þeirrar hneigðar hans og sósíalískra lífsskoðana, kom Hrafn Jökulsson nýlega með þá skilgreiningu, að í stað „Frelsi, jafnrétti bræðralag“, boði Jón „Frelsi, jafntefli, bræðralag“. Ergo, það er hægt að vinna svona menn með svörtu, en menn þurfa að hafa verulega fyrir hlutunum.

Robbi þurfti því að hafa fyrir sigrinum, en þetta hafðist að lokum eftir manúveringar. Og ég fylgdist með í 1,5 klst, gjörsamlega að drepast úr hungri, þar sem Robbi kreisti gaurinn glæsilega, og þrátt fyrir að Serbinn næði að verjast ótrúlega vel og lengi, var þetta bara spurning um hvenær, en ekki hvort, en rúmri klst. áður en skákinni lauk laumaðist Robbi fram til að hvíla hugann og glotti þegar ég gekk hjá: „Ég er meðann“, og vitnaði í meistara Tété.

Nú, laugardagskvöld í Obrenovac og partí niðrí diskóteki / næturklúbbi staðarins. Músíkin glumdi, en við Robbi fórum bara út í Internetkaffi, fengum okkur hinn venjulega skammt, stoppuðum í kaupmanninum á horninu á leiðinni heim og gengum beint framhjá diskótekinu. Hvorugur okkar hafði neinn áhuga á að kíkja þar inn. „Æ, maður er orðinn gamall og lúinn“, sagði Robbi og nuddaði á sér andlitið, þar sem skeggbroddar eru byrjaðir að gægjast fram að nýju eftir raksturinn á miðvikudaginn. „En ég fer í rakstur á mánudaginn, ekki spurning“. Ég kinkaði kolli. Slaka á bara.

Við fórum semsagt upp á herbergi um hálf ellefu til ellefu. Man ekki alveg hvað klukkan var. Við höfðum keypt nokkra solid DVD diska fyrr um daginn og Robbi vildi fara upp á herbergi að klára Fílamanninn. Klukkutíma áður hafði allt verið morandi af fólki á hótelinu, á hótelbarnum fyrir utan skáksalinn, en nú voru þar aðeins nokkrir gamlir kallar að horfa á sjónvarpið og skáksysturnar, sem höfðu víst tékkað smástund á diskótekinu og misst af bussinum niðrí Belgrað. „Það kostar“, eins og Stonestone markaðsstjóri hefði sagt. Leigubíll niðrí Belgrað er rándýr, það höfðum við Robbi reynt í fyrra.


Hótelið

Hótel Obrenovac er tveggja stjöru hótel, „gamalt sovéthótel“, eins og maður kallar það. Það segir allt sem segja þarf. Við höfum þó bæði kapalsjónvarp og ísskáp á víðáttumiklum herbergjunum, stóra skápa og stórt rúm, sem maður getur legið í á hvaða kant sem er. En þar er ekkert nýtt; við vorum með sömu herbergi í fyrra.

Við fáum fullt fæði, innifalið í herberginu, en það er stundum þreytt. Þjónarnir tala eiginlega enga ensku og því er stundum erfitt að panta. Við fáum kjötsúpu í hvert mál, mismunandi blæbrigði þó, og erum eiginlega ánægðir með það, því súpan er góð og hellingur af brauði með. Súpan er þó amk betri en núðlusúpan sem maður fékk oftar en ekki í fyrra og hittiðfyrra. Og síðan er jafnan snitzel í matinn, með ýmsum afbrigðum þó (amk þremur), en það fáum við okkur jafnan, því við vitum að við fáum þá amk ekki flugferð til Svíþjóðar af matnum, eins og jafnan gerðist í fyrra og gerðist nú í gær, eftir litla kjúllann. Og þegar þjónninn kemur til okkar og heldur framboðsræðu á serbnesku yppum við bara öxlum og svörum: „Snitzel“? Málið dautt. En stundum spyrja þeir ekki, heldur koma bara með eitthvað.

Við fengum lambakjöt óspurðir í hádeginu í dag, og ógeðslega morkið gúllas í gær. Þannig að þetta er ekki algjört snitzel ævintýri. Annars er ég nokkuð sáttur við snitzelið, en þá kemur mér í huga gamall vinur, íslenskur af þýskum ættum. Af einhverjum ástæðum fórum við strákarnir að kalla hann Fritz Snitzel, en jæja.

En hótelið er þó alveg ágætt miðað við prísinn. En hér gæti Þorgrímur Þráinsson aldrei funkerað, því hér má reykja alls staðar, nema í lyftunni og inni í skáksalnum. Og Siggi Hall fengi sjokk við að sjá matseðilinn og myndi vísast frekar fara í föstu en að láta það spyrjast út að hafa borðað á hótelinu. Maturinn er semsagt hvorki flottur né góður, en maður nær að seðja sárasta hungrið, og hér er maður eiginlega alltaf svangur, enda brennir maður slatta á þessum gönguferðum okkar.


Obrenovac borg

Obrenovac borg liggur norður af Belgrað, c.a. 30 km frá miðborginni. Bærinn hýsir m.a. raforkuver Belgrað svæðisins, en það var að hluta til sprengt upp, eins og frægt var, í loftárás NATO fyrir tæpum áratug. En annars starfa held ég flestir borgarbúar við einhverja smáiðju, vinna í Belgrað eða eru opinberir starfsmenn. Að vísu er hér nokkuð atvinnuleysi, en það er algengt í A-Evrópu nú til dags. Og það besta er, amk fyrir einhleypa karlmenn, að hér eru 99% stúlkna á aldrinum 18-40, mjög eða frekar spengilegar. Offita er hér semsagt óþekkt vandamál, amk á þessum aldri. En málin standa öðruvísi í Belgrað borg sjálfri.

Hér eru engar stórverslanir. Allar verslanir eru litlar, flestar bara nokkrir fermetrar að stærð og oft sérhæfðar. Og sumt stendur oftar til boða en annað. Af hverjum sex verslunarhúsum eru c.a.

ein hárgreiðslustofa / rakarastofa
eitt apótek
ein skóbúð
ein „allskonarbúð“
eitt kaffihús, 1x2 tippunarstaður eða litlar sjoppur
og síðan ein sérverslun, t.d. með föt eða rafmagnstæki eða annað.

Obrenovac er svona dæmigerð a-evrópsk borg, með um eða yfir 100.000 íbúa. Göturnar mætti þrífa oftar og svoldið shabby umhverfi er hér allsráðandi, ekki síst utan vega. Til dæmis þykir greinilega mikill sómi af ljótu veggjakroti, sem er alls staðar, og moldardrulla er víða, og rusl má víða sjá á götum, en mun minna en í fyrra. Ég efast annars um, að hreinsunardeild borgarinnar sé skipuð nægjanlega mörgum starfsmönnum. Og hér er líka töluverð mengun, eins og Robbi sagði spekingslega í gær: „Maður bætir bara loftið með því að losa nokkrar solid gastegundir.“ En við eigum líka eftir að fara á mót í Síberíu.

Ok, ég er kannski að ýkja aðeins, en hér mætti amk vera hreinna.

Obrenovac er alls ekki túristaborg. Hér er eiginlega ekkert að sjá og skoða. Borgin var stofnuð og nefnd í höfuðið á einhverjum fursta, sem barðist af hörku við Tyrki einmitt á þessum stað. Það er einna helst fortíðin sem er heillandi við staðinn...og e.t.v. framtíðin. En hér er þó reyndar töluverður uppgangur.

Það er þó kostur við borgina, að hér er flest allt mun ódýrara en heima, og jafnvel ódýrara en í Belgrað. Klipping kostar minna en lítill kaffi og mineral vatn, og margt er nokkuð ódýrt, en innfluttur varningur oft á tíðum næstum því eins dýr og heima, t.d. hefur Gillette rakblaðapakki hækkað og er orðinn svipaður að verði og heima. Það er næstum því ódýrara að sleppa þvi að raka sig sjálfur og fara bara út á næsta horn til frizörsins 2-3 sinnum í viku.

Hér er forláta útimarkaður, en hann var miklu betri í hittiðfyrra en nú og í fyrra. Þá voru margskonar fataverslanir þarna og margar „allskonar búðir“, en nú er stærstur hluti markaðarins undirlagður af mat og slíku. Ég var ekki ánægður með skiptin. Og skóburstarinn, sem reyndi að okra eftirminnilega á mér í fyrra, er hvergi sjáaanlegur.


Að lokum


Þrátt fyrir að borgin og hótelið hafi ákveðna ágalla, verð ég að segja að mér líkar ágætlega hérna. Annars væri ég ekki að koma hér þriðja árið í röð. Og mótið er þrælsterkt. Allskonar gaukar, sem eiga að vera auðveld bráð, tefla merkilega vel. Hér eru því engir auðveldir punktar, jafnvel ekki gamlir kallar um sjötugt, sem tefla af reynslu og þrótti. Skákáhugi hér er gríðarlegur, miklu meiri en heima. Og mér skilst að í morgun hafi ég komið í einhverju dagblaði í Belgrað og var mér sagt að fréttin yrði c.a. svona: „Á öðru borði sigraði Dusan Rajkovic hinn sterka íslenska meistara, Bergsson.“ Ég vona að frægðin stígi mér ekki til höfuðs. Og ekki ætti að vanta myndir, en sæta stelpan sem er að vinna við mótið smellti af manni einhverjum myndum þarna í gær. En vísast hefur hún bara vilja eiga þær sjálf!?

Íslendingar eru vinsælir hér. Annars vegar helgast það af góðum kynnum, en mér skilst að tvö síðustu ár höfum skilið eftir okkur gott orðspor, en sumir V-Evrópubúar aðrir hafa verið með stæla, nöldur og leiðindi í gegnum tíðina. Einnig helgast það af því, að Ísland bjargaði Fischer, sem er í miklum metum hér í Serbíu.

Vegna þessa njótum við ákveðinna forréttinda hér. Við fengum bestu herbergin á hótelinu, svo eitthvað sé nefnt. Og á Internetkaffinu þurfa menn að víkja úr tölvunni (og gera það merkilega glaðir) þegar við komum. „Islandi“ heyrir maður bara og allir brosa. Og annar hver maður í mótinu hefur reynt að bjóða okkur Robba upp á bjór á barnum, stundum fyrir skák, og jafnvel á meðan á skák stendur og eftir skák þurfum við að forða okkur hið snarasta í mat og síðan upp á herbergi, til að losna við bjórdrykkjubónorð.

En að lokum; leikir í gær. Liðin okkar Robba unnu; Arsenal vann Wigan og Liverpool vann einhverja. Og Man Utd tapaði fyrir Bolton. Ágætis úrslit út frá stöðunni í deildinni. Mínir menn í Arsenal eru með þriggja stiga forystu og leik til góða á næsta lið. Koma svo drengir.

 

Að lokum; hér hafa óvenju fá nýyrði litið dagsins ljós og fá merkileg kvót fæðst. Sennilega söknum við Rúnars Berg, sem er, ásamt Bjössa Ofurhúni og StoneStone, færasti nýyrðasmiður í heimi skákmanna. Þau helstu eru:

„Hvalur sjálfur“ – en „hvala“ (sbr. hvala.blog.is) merkir „takk“ á serbó-króatísku, en þetta nýyrði merkir semsagt „sömuleiðis“ eða „velkomið“ og vall út óvart.

„Solid sjálfur“ fæddist þegar við fórum á markaðinn og einhver sölumaður hrópaði „solide, solide, solide.“


„Sænskt skáktímarit“ – þetta þarf varla að útskýra fyrir lesendum þessa bloggs, en til útskýringar, just in case, merkir þetta „salernisrúlla“.


„Humar“ – snitzel

„Landsliðsmennirnir“ – litlu, ógeðslegu pöddurnar sem stundum skríða inn á herbergin, skríða þar um en gera ekkert gagn og bíða eftir því að einhver kremji sig.

„Fransmenn“ – Serbar sem kunna ekkert annað mál en serbó-króatísku.

Á miðað við nýyrðaflauminn hér á síðasta ári, er þetta rýr uppskera.

En jæja, adios amigos

 

Au revoir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

takk fyrir skemmtilegan pistil!

pozdrav!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.11.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir!

Afhverju er enginn Íslendingur á Heimsbikarmótinu í Rússlandi og bara tveir Norðurlandabúar af um 120 keppendum? Sýnist bara Carlsen og Emanuel Berg vera þarna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.11.2007 kl. 04:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband