1. maí 1923: fyrsta kröfugangan. 3. hluti

1. hluti

2. hluti

 

 

althyduflokkurinnUm hádegisbil tóku jafnaðarmenn að safnast saman við Bárubúð með kröfu­spjöld og rauða fána. Kröfugöngunefndin greindi viðstöddum frá göngu­leiðinni og lagði lokahönd á undirbúninginn. Nú blöktu rauðir fánar í há­degis­golunni og áttu nú vel við ljóðlínur Jóhannesar frá Kötlum: „Nú blakta rauðir fánar í mjúk­um morgunblænum/ og menn af svefni rísa og horfa í aust­ur­veg.”[1]

Hinn rauði fáni sósíalista blakti nú í fyrsta skipti í kröfugöngu á Ís­landi og undir honum gengu menn af stað um hálfþrjú leytið. Fremstur í flokki gekk merkis­berinn, með hinn rauða fána á lofti. Á eftir honum þrammaði Lúðrasveit Reykja­víkur, sem lék undir á göng­unni og hófu menn jafnvel upp raust sína í söng: „Sko roð­ann í austri” og „Inter­nat­­ionale”, al­þjóðasöng sósíalista. Þar á eftir kom stjórn Alþýðu­sam­bands­ins og tveir og tveir verka­menn saman í halarófu. Gengið var eftir Von­arstræti, Lækjar­götu, Bók­hlöðustíg, Laufásvegi, Skálholts­stíg, Bjarg­ar­­stíg, Freyju­götu, Baldurs­götu, Skólavörðustíg, Kárastíg, Njáls­götu, Vita­­stíg, Lauga­­­­veg, Banka­str­æti, Austurstræti, Aðalstræti, Vestur­götu, Bræðra­­borgar­stíg, Tún­götu, Kirkju­stræti, Pósthússtræti, Austur­str­æti, Lækjar­götu og Hverfisgötu, og safnast saman til fundar við Al­þýðu­­húsið á horni Ing­ólfs­stræt­is.[2]

 

   leninÍ grein Péturs Péturssonar um kröfugönguna birtast nokkrar skemmtilegar myndir úr göngunni. Í þeirri fyrstu sjást göngumenn halda af stað frá Bárunni með Kjartan Ólafsson fánabera í fararbroddi, en síðan má greina Héðin Vald­imarsson, Jón Baldvinsson, Harald Guðmundsson, Björn Blönd­al Jónsson, Stefán Jóhann Stefánsson og fleiri, síðan framsóknarkonur. Á síðari myndum má þó greina Hendrik Ottósson og félaga hans úr Áhugaliði alþýðu, sem gengu fremstir þegar halarófan var komin á Laugaveg, um­kringd­um forvitnum krakkaskara. Hendik var þá einmitt borða, sem táknaði forystu göngunnar.[3] Það var vísast vel vð hæfi.

 

Gangan fór að mestu vel fram, en víð­ast hvar fylgdust áhorfendur með af gang­stétt­um eða úr hús­glugg­­um. Björn Bjarna­son, síðar formaður Iðju, sagði svo frá, að gangan hafi farið frið­sam­lega fram, að öðru leyti en því, að „kastað var að okkur kerskni­yrðum af fólkinu á gangstéttunum, en enginn að­súgur.” Hann mundi einna mest eftir þessu fólki, því

  

Reykjavík var lítill bær í þá daga, menn þekktu þá í sjón alla bæjarbúa og mér er svo minnisstætt að fólkið sem á gangstéttunum stóð var að benda á eina og eina mann­eskju og segja „þarna er þessi og þarna er þessi sem vinnur þarna og þarna.” Maður heyrði það á fólkinu sem á gang­stéttunum stóð, að því fannst gangan hálfgerður, og sumum alger kjánaskapur. Að labba þarna um göturnar haldandi á nokkrum spjöldum, það þótti ekki merkilegt 1923.[4]

  

Lítið markvert gerðist því á hinni löngu göngu frá Bárubúð, upp í Þing­holtin, þaðan vestur í bæ og svo upp á Hverfisgötu. Vagn­hestur einn fældist þó á Lauga­vegi, líkast til við lúðrablástur göngumanna, en stökk þá Ólafur Friðriks­son á hestinn og náði að hemja æði hans, að því að aðdáandi hans greindi frá.[5] Víða í fylkingunni mátti líta hina rauðu fána jafnaðarmanna, auk nokk­urra tuga kröfu­borða og spjalda, þar sem slagorð jafnaðarmanna voru áletruð. Jafn­að­ar­menn voru þó ekki þeir einu, sem notuðu daginn til að leggja áherslur á kröfur sínar. Nokkrir drengir bættust nú í hópinn með eigin kröfuspjöld: „Það, sem við biðjum um, er Blöndahls brjóstsykur”, „Fleiri lít­il kaffihús”, „Fleiri hljóð­­færa­hús”,[6] en Ólafur Friðriksson rak þá Litla kaffi­húsið neðarlega á Lauga­veg­­inum, og eiginkona hans Hljóðfærahúsið í Austurstræti.

   

Kröfur og slagorð verkamanna að þessu sinni voru af ýmsum toga, s.s.:[7]

  • Framleiðslutækin þjóðareign
  • Einkasala á afurðum landsins
  • Vinnan ein skapar auðinn
  • Fátækt er enginn glæpur
  • Atvinnubætur gegn atvinnuleysi
  • Átta tíma vinna, átta tíma hvíld, átta tíma svefn
  • Enga tolla á nauðsynjavörur
  • Algert bann á áfengi
  • Fullnægjandi alþýðutryggingar
  • Réttláta kjördæmisskipan
  • Átta þingmenn fyrir Reykjavík
  • Kosningarétt 21 árs
  • Engan réttindamissi vegna fátæktar
  • Enga helgidagavinnu
  • Enga næturvinnu.
  • Næga dagvinnu
  • Engar kjallarakompur
  • Mannabústaði
  • Bærinn á að byggja
  • Bæjarlandið í rækt
  • Vökulögin bestu lögin.
  • Áfram þá braut
  • Fátækralögin eru svívirðing
  • Ófæra menn úr embættum
  • Rannsókn á Íslandsbanka
  • Niður með vínsalana
  • Er sjómannslífið ekki nema 2000 króna virði?
  • Hvar er landsspítalinn?

Á fundinum við Alþýðuhúsið hóf Hallgrímur Jónsson ræðuhöld og síðan hver af öðrum: Héðinn Vald­imars­son, Ólafur Friðriksson, Einar Jóh­­­anns­son bú­fræð­ing­ur og síðast Felix Guðmundsson. Skipulagðri dag­skrá lauk síðan um fjögur­leytið. Alþýðu­blaðið taldi, að um eða yfir 500 manns hafi tekið þátt í göngunni, en síðan hafi síðan 3-4 þúsund verkamenn safnast saman við Alþýðuhúsið. Hendrik Ottósson taldi síðar, að „það sé nokkurnveginn rétt.” Blaðið taldi jafn­framt, að and­stæð­­­ingar jafnaðarmanna hefðu ekki sýnt af sér neinn fjandskap, með ör­fáum undantekningum þó. „Enginn efi er á að kröfuganga þessi hefir á margan hátt mikil áhrif haft á almenning í bænum, ýtt við hugum þeirra í ýmsum efn­um og vakið þá til alvarlegrar umhugsunar um alvarleg mál, og munu þess bráð­lega sjást merki.” Ólafur Friðriksson, sem talaði um viðgang jafnaðar­stefnunnar, vitnaði í orð skáldsins, sem sagði: „Hér þarf vakandi hönd, hér þarf vinnandi hönd, til að velta í rústir og byggja á ný”.[8] Þessi hending sómaði sér vel í munni Ólafs, sem öðrum fremur hafði reynt að framkvæma þessa ósk skáldsins á Íslandi.


[1] Jóhannes Jónasson frá Kötlum: „Morgunsöngur”, í Ég læt sem ég sofi (1932).

[2] „Kröfugangan”, Abl. 2. maí 1923. „Tvær myndir úr sögu 1. maí á Íslandi — 1923 og 1931”, Þjóðviljinn 3. maí 1944.

[3] Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 57-59.

[4] „,Maður skildi ekki þýðingu þess þá’” (rætt við Björn Bjarnason), Þjóðviljinn 1. maí 1973. Margrét Ottósdóttir greindi þó frá því, að alla „þessa leið var æpt og hrópað að okkur og skítkastið dundi yfir; sumir köstuðu mas [meira að segja] grjóti”, en göngumenn ekki skipt sér af því, fyrr en kom að girðingunni á horni Hverfisgötu, þegar tveir strákar, bræður og synir íhaldsbroddborgara, hafi tæmt þolinmæði hennar. Hafi hún rokið á þá og „slóst við þá þarna á horninu.” Sjá; „Það varð lítið eftir af hvítu skónum” (viðtal við Margréti Ottósdóttur), Þjóðviljinn 1. maí 1923.

[5] Pædagogos: „Snarræði”, Abl. 5. maí 1923. Sjá einnig; Felix Guðmundsson: „Opið bréf til séra Jes Gíslasonar”, Abl. 1. okt. 1923.

[6] „Kröfugangan”, Mbl. 3. maí 1923. Um Blöndahls-brjóstsykurinn, sjá: Guðjón Friðriks­son: „Magnús Th. S. Blöndahl”, í Gils Guð­munds­son (ritstjóri): Þeir settu svip á öldina. Íslenskir athafnamenn III (Rvk, 1989), 177.

[7] „Kröfur og kjörorð borin í kröfugöngunni 1. maí 1923”, Þjv. 1. maí 1953. V[ilhjálmur] S. V[il­hjálmsson]: „Fyrsta kröfugangan 1. maí 1923”, Abl. 1. maí 1935.

[8] „Kröfugangan”, Abl. 2. maí 1923. (Ræða frummælanda á útifundinum, Hallgríms Jóns­sonar, birtist síðan í Alþýðublaðinu 3. og 5. maí.) Hendrik Ottósson: Vegamót, 51. Sjá einnig mynd af ræðuhöldum á Alþýðuhússlóðinni, 63.

 í Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996),


mbl.is Almannahagsmunir ráði för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband