1. maí 1923: Fyrsta kröfugangan: 2. hluti

Fyrsti hluti:

 

communismHendrik Ottósson kynnti síðan hátíðahöldin og tilefni þeirra formlega í Al­þýðublaðinu, enda var hann potturinn og pannan í öllum undirbún­ingi þeirra. Hann rakti þar sögu dagsins og hefur væntanlega bitið í tunguna þegar hann sagði frá því, að 2. alþjóðasambandið hafi á sínum tíma komið þeim siði á, að halda Haymarket-daginn hátíðlegan og „beita sér fyrir því, að verka­menn legðu niður vinnu 1. maí til þess að láta auðvaldið og fylgifiska þess verða vara við hreyfinguna í öllum löndum og krefjast 8 stunda vinnu­dags.” Það lægi beint við, að verkalýðs­hreyf­ing­unni hafi einkum tekist að innleiða frídag þennan í þeim löndum, þar sem jafnaðar­menn væru sterkir, en annarsstaðar hafi auðvaldið reynt að and­æfa, og stundum með góðum árangri. Í Englandi, Skandinavíu og víða í Þýska­­landi hafi verka­menn fengið að reka erindi sín 1. maí með friði og spekt, en ann­ars staðar, einkum í Frakklandi, hafi auðvaldið „sjaldan getað horft á kröfugöngu verkamanna án þess að áreita þá á einhvern hátt, og hafa jafnvel stundum orðið blóðugar skærur.” En nú væri röðin komin að ís­lenskum verka­mönnum, að taka undir með félögum sínum erlendis, og bera fram kröfur sínar 1. maí, ásamt því að minnast þeirra, sem fallið hafa í baráttu fyrir öreigalýðinn. Þetta sé „helgur dagur, — sann­helgur dagur”, sem verkamönnum beri skylda til að halda há­tíð­leg­an.[1]

    Að kvöldi 28. apríl hélt Alþýðuflokkurinn fjölmennan fund í Báruhúsinu, meðal annars til að ræða Íslandsbankamálið, sem þá lá þungt á jafn­aðar­mönnum, ekki síst Ólafi Friðrikssyni, sem hafði á liðnum árum átt í deilum við bankann, jafnvel fyrir dómstólum. Taldi hann, að óstjórnin væri slík í bank­anum, að ekki yrði þolað lengur og samþykkti fundurinn kröfu þess efnis, að opinber rannsókn fari fram á starfsemi bankans. Enginn af banka­stjórum hans, eða þingmönnum og ráðherrum, sem boðið hafði verið til fundar, sá sér fært að mæta til leiks. Næsta mál var „kröfuganga alþýð­unn­ar”, og héldu margir ræður þess efnis, að hvetja menn til dáða og „ganga rösk­lega eftir réttmætum kröfum sínum.” Hendrik talaði fyrstur og tóku aðrir jafnan undir ræðu hans. Að lokum var það samþykkt, að skora á at­vinnu­rekenda og verkstjóra, að veita verkamönnum frí á þessum degi.[2] Mánudaginn 30. apríl birtist síðan á­varp nokkurra verkalýðs­félaga á forsíðu Alþýðublaðsins:  

Til alþýðunnar í Reykjavík Fulltrúaráð verklýðsfélaganna í Reykjavík hefir ákveðið, að gengin skuli kröfuganga á morgun, 1. maí, sama dag sem alþýðan um allan heim heldur hátíðlegan og ber fram kröfur sínar. Þar sem fjölmargir alþýðu­menn eru nú burtu frá heimilum sínum og geta því ekki sótt þessa kröfu­göngu, er þess meiri ástæða fyrir þá, sem dvelja hér í bænum, til þess að fjölmenna. Við skorum á alt alþýðufólk, konur, karla og börn, að mæta á morgun kl. 1. e.h. í Bárubúð. Mætið í vinnuklæðum, ef ekki er tækifæri til að hafa fataskifti.
 

Undirritaðir voru: Héðinn Valdimarsson frá Dagsbrún, Sigurjón Á. Ól­afs­­son, Sjó­mannafélaginu, Ólafur Friðriksson, Jafn­­­aðar­mannafélaginu, Guð­mund­ur Ól­afs­­son, Stein­­­smiðafélaginu, Erlendur Erlendsson, Iðnnema­fél­­ag­inu, Guð­mundur Oddsson, Bakarasveina­fél­aginu, og Gunnar Einarsson, Hinu íslenzka prentara­fél­agi.[3] Athygli vekur, að nafn Jóns Baldvinssonar for­s­eta var þar ekki að finna.

   Kröfugöngunefndin birti eigin aug­­lýsingu á forsíðu Alþýðublaðsins og mátti þar einnig lesa baráttugrein, þar sem sagði m.a.:  

 

Alþýðumenn og konur! Á morgun eigið þið að safnast saman til þess að gera skyldu ykkar! Það er skylda ykkar að mótmæla misskiftingu auð­æfanna, — fá­tæktinni, höfuðmeinsemd núverandi þjóðskipulags, sem að eins er haldið við vegna hagsmuna örfárra einstaklinga. Það er skylda ykkar að mótmæla hinum illræmdu þrælalögum, sem kölluð eru fá­tækra­­lög, sem leyfa aðra eins svívirðu og þá, að menn séu fluttir í járn­um á einhverja ákveðna staði, sem þeir ekki vilja vera á, — að eins fyrir þá sök, að þeir eru fátækir.
 

Höfundur lét sér þó ekki nægja, að mótmæla kapítalismanum og hreppa­flutn­ing­um ómaga, heldur hélt áfram að brýna lesendum sínum sk­yldu þeirra, að mót­mæla ofþrælkun vegna langra vinnudaga, spill­ingu í em­bættis­veitingum, heimsku­legri kjördæmaskiptingu, og krefjast þjóð­nýt­ingar fram­leiðslutækjanna. „Á morgun er helgi dagur hjá jafn­aðar­mönnum um allan heim. Á morgun ganga jafnaðarmenn hvarvetna undir blaktandi fánum um göt­ur borganna og sýna auðvaldinu mátt sinn, mátt samtakanna. Íslenzkra al­þýða! Á morgun átt þú að sýna, að þú sért ekki eftirbátur alþýðu annarra landa.”[4] Dagur var að kvöldi, en að morgni reis maísól hins vinnandi manns:  

Að morgni hins 1. maí fóru sendiboðar til þess að hvetja verkamenn og konur til þátttöku. Þetta var erfitt verk og óvinsælt, því atvinnuleysi var og lítið til hnífs og skeiðar hjá alþýðu. Fólk sem fór úr vinnu vissi gerla, að það átti ekki afturkvæmt. Bezt gengu fram konur úr Verkakvenna­félaginu, en móttökurnar sem þær fengu voru misjafnar.[5]
 

Fremstar fóru valkyrjur þrjár, Caroline Siemsen, Jónína Jónatansdóttir og Jóh­anna Egilsdóttir (amma Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns) en þær gengu tvisvar á milli stakkastæðanna og reyndu að fá verkakonur til að taka þátt í kröfugöngunni. Jafnan uppskáru þær að­eins andúð „og það var kastað í þær skít og grjóti og ó­kvæðis­orðin flugu yfir”, jafnvel klám­fengin. Einn verk­stjóri kastaði hörð­um saltfiski í Caroline og skipaði starfsfólki sínu að gera hið sama. Hún gafst ekki upp, en peysuföt henn­ar rifnuðu í at­gangn­um.[6]

[1] Hendrik J. S. Ottósson: „1. maí”, Abl. 26. apríl 1923.

[2] „Alþýðuflokksfundur”, Abl. 1. maí 1923.

[3] „Til alþýðunnar í Reykjavík” (áskorun), Abl. 30. apríl 1923.

[4] Hörður: „1. maí”, Abl. 30. apríl 1923.

[5] „Djarfmannlegt áræði er eldstólpinn”, Þjóðviljinn 1. maí 1973.

[6] „Það varð lítið eftir af hvítu skónum” (viðtal við Margréti Ottósdóttur), Þjóðviljinn 1. maí 1973. „Djarfmannlegt áræði er eldstólpinn”, Þjóðviljinn 1. maí 1973. Hendrik Ottósson: Vegamót, 48.


mbl.is Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband