Miðvikudagur, 28. mars 2007
Er þjóðin í hlekkjum hugarfarsins?
Ísland var öldum saman nær óþekkt land á mörkum hins byggilega heims. Það var Ultima Thule, landið yst í norðri, fyrst setið af þræli og ef til vill nokkrum munkum. Þar grúfði myrkur yfir djúpinu stóran hluta árs, en á hásumri gátu einsetumenn týnt af sér lýs að nóttu til.
Á landi þessu þróaðist sérkennilegt mannlíf í drungalegum moldarkofum og afskekktum dalverpum, þar sem grámosinn glóði og eldfjöllin spúðu. Þar ríkti blóðhefnigjarnt lýðræðissamfélag, með fjölda smákónga, sem troða reyndu börnum sínum undir hvert annað og planta niður kirkju á hverjum hóli, einkum til að sanka að sér tíundargreiðslum.
Í sambúð elds og ísa hélt til stolt eyþjóð í landi, sem hafði með harðærum, jarðskjálftum, eldgosum og með sinni kjánalegu legu á jarðhnettinum strádrepið hvorki meira né minna en helming þjóðarinnar og gert þúsundir manna að flækingum, lúsugum aumingjum, niðursetningum, þjófum og ræningjum.[1]
Þeir fáu meginlandsbúar, sem vissu eitthvað um landið, fengu gjarnan fréttir sínar úr ferðasögum manna, sem jafnan dæmdu það og landsmenn sjálfa eftir eigin viðmiðunum. Þá var jafnan greint rangt frá aðstæðum og farið ófögrum orðum um hætti þjóðarinnar. Frásagnir manna eins og Dietmars Bliefkens og annarra froðusnakka æstu Íslendinga til reiði,[2] enda væri illa að þeim vegið. Á hinn bóginn er ljóst, að nokkuð af hinum ófögru frásögnum erlendra ferðalanga átti við rök að styðjast. Íslendingar gátu þó afsakað sig með því, að land þeirra hafði öldum saman verið einangrað frá umheiminum og íbúarnir aðeins haft nokkra glugga til að gægjast út um eða hleypa inn um fersku lofti.
Hin þjóðkunna Íslandssaga er að stærstum hluta skrifuð af mönnum, sem grundvölluðu skoðanir sínar á þjóðernissinnaðri ofurást á landsins gæðum og íbúanna göfugleika. Samhliða því að móta söguvitund þjóðarinnar stigu þeir á stokk og kröfðust sjálfstæðis frá aldalangri kúgun Danakóngs eða brottreksturs erlendra tindáta, sem héldu til einhvers staðar úti í hrauni og borguðu stórfé fyrir að verja þetta land fyrir væringjaþjóð af fjarlægu landi.
Það væri því ekki landið sjálft, sem gert hafði helming þjóðarinnar að lúsugum aumingjum og niðursetningum, heldur hið útlenda vald og svikræði óþjóðhollra aftaníossa þess hér á landi. Síðan hóf hið breska heimsveldi að senda hingað herskip til að verja þorskaþjófa sína, svo skyndilega urðu enskir sæfarendur allra tíma að eljum Íslendinga líka. Af þeim sökum voru t.d. enskir kaupmenn, sem verulega bættu hag Íslendinga á 15. öld, úthrópaðir og gerðir að hinum verstu skúrkum.
Á móti var jafnvel Björn ríki Þorleifsson hirðstjóri, einn mesti þrjótur Íslandssögunnar, gerður að þjóðhetju fyrir að hafa rænt Englendinga þessa og liðið píslarvætti af höndum þeirra í ránsferð að Rifi 1467.[3] Hetja þessi, sem reið um héruð með ribböldum og rumparalýð, hafði sölsað undir sig stóreignir víða um land, jafnan með vafasömum hætti. Hann réðist jafnvel á Skálholtsstað þegar biskupslaust var. Þar rændi hann og ruplaði, og skeytti lítt um helga dóma og eignarétt. Vegna þjóðrembings sumra sagnaritara var þessi mesti glæpamaður Íslandssögunnar gerður að þjóðhetju fyrir það helst, að hafa byrjað að ræna útlendinga, þegar hann gat ekki stolið meiru frá íslenskum ættmennum sínum.
[1] Þórbergur Þórðarson: Rauða hættan (Rvík 1935), 160-161.
[2] Frásagnir þessar eru teknar saman í; Glöggt er gests augað.
[3] Sjá t.d.: Björn Þorsteinsson: Tíu þorskastríð (Rvík 1975).
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.