Laugardagur, 27. nóvember 2010
Að morgni 4. umferðar
Jæja, klukkan er sjö að morgni hér í Obrenovac og minn er kominn niður í brekka. Ég tafðist aðeins, því ég stóð um stund og velti fyrir mér, hvort ég ætti að taka sturtuna á undan brekkanum eða öfugt. Niðurstaðan varð, að taka brekkann fyrst og skella sér síðan í morgunþrifin. Ef ég væri í Samfó, hefði ég vísað skipað nefnd til að ræða þetta vandamál, en eins og kom fram í blöðunum í vikunni eru samfóistarnir, já og nýkommúnistarnir, mjög duglegir við svoleiðis, eins og t.d. R-listinn áður.
Skákin gekk ágætlega hjá mér í gær. Upp kom Kalashnikov-afbrigðið í Sikileyjarvörn, en það er hvasst og hættulegt þeim, sem ekki kunna fræðin. En ég mundi bara fyrstu 15-16 leikina (enda þurfti að leggja mörg afbrigði á minnið og ég kunni ekkert í þessu), en gleymdi síðan að f4 er málið og kom með nýjung (óvart) og hleypti þessu upp með vafasamri peðsfórn. Eftir fórnina tefldi ég óaðfinnanlega, en náunginn, sterkur alþjóðlegur meistari (verðandi stórmeistari) með yfir 2500 stig, tefldi ónákvæmt og fór bara niður í logum. Ég trúði varla þegar hann lék suma leikina, sem voru "eðlilegir" en samt slæmir. Stundum er þetta bara svona.
Jón Árni sveið andstæðing sinn, efnilega stúlku, í gær, en Siggi tapaði fyrir náunga sem ég sveið í fyrra. Sá gaur er með hressari mönnum, er síbrosandi og kátur, og reyndi oft að ræða við mig, þótt hann tali enga ensku. Eftir skákina var ég svo þreyttur að ég fór bara upp á herbergi (eftir kvöldmatinn), lagði mig smástund, stúderaði andstæðinginn aðeins fram yfir miðnætti og sofnaði síðan. Því er ekkert að segja frá svosem.
Ég fæ í dag búlgarskan alþjóðlegan meistara, svipaðan styrkleika og þessi í gær. Hann er þreyttur.is, því erfitt er að undirbúa sig fyrir hann. Hann hefur á síðustu þremur árum nánast teflt allar almennar byrjanir gegn 1.e4, t.d. Drekann, Rauzer, Paulsen, Kan, og fleiri afbrigði í Sikileyjarvörn, 3 meginafbrigði í Spænskum leik, Tískuvorn 1...g6, Pirc, Caro kann og Franska vörn, já og líka Skandinavann! Kannski ég taki bara Ble á þetta og leiki 1.a3 i fyrsta leik?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.