Sporin hræða

hannesÉg hef verið að bíða eftir, að einhver myndi ræða hér grein Hannesar Hólmsteins í Fréttablaðinu á föstudaginn síðasta. Ég hef bara séð Gísla Frey benda á hana, en ekki ræða. Menn geta jafnframt lesið hana á Vísi. Þar rekur Hannes hvernig vinstri menn hafa stjórnað á síðustu misserum og það er ekki glæsileg lesning.

Í fyrsta lagi má styðjast við reynsluna af fyrri vinstri stjórnum á Íslandi. Vinstri stjórnin 1971-1974 skildi eftir sig 50% verðbólgu, en vinstri stjórnin 1980-1983 100% verðbólgu. Vinstri stjórnin 1988-1991 sóaði almannafé í loðdýrarækt og fiskeldi og lét eftir sig stórkostlegan fjárlagahalla.

Í öðru lagi má styðjast við reynsluna af stjórn Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík 1994-2002. Á sama tíma og ríkið lækkaði skatta verulega, hækkaði R-listinn opinber gjöld í Reykjavík. Útsvar hækkaði úr 9,2% 1994 í 13,03% 2005. Skatttekjur borgarinnar jukust um fjórðung. Á sama tíma og ríkið lækkaði hreinar skuldir sínar úr 172 milljörðum kr. 1997 niður í 45 milljarða kr. 2006, tífölduðust hreinar skuldir borgarinnar, úr röskum 4 milljörðum kr. 1993 í 44 milljarða kr. 2002.

Í þriðja lagi má styðjast við reynsluna af stjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð, en Samfylkingin vill fara „sænsku leiðina". Svíar voru löngum ríkasta þjóð Norðurlanda, en eru nú hin fátækasta. Landsframleiðsla á mann í Svíþjóð var 1964 um 90% af landsframleiðslu á mann í Bandaríkjunum, en er nú um 75%. Raunverulegt atvinnuleysi er um 15-17% og bitnar aðallega á æskufólki. Nánast öll ný störf frá 1950 hafa orðið til í opinbera geiranum. Skattheimta nemur um 60% af landsframleiðslu. Í fjórða lagi má styðjast við orð Ingibjargar Sólrúnar og annarra forkólfa Samfylkingarinnar. Þau virðast ekki geta á heilum sér tekið, því að í góðæri síðustu tíu ára hefur sumum gengið enn betur en öðrum. Þau tala um, að fjármagnstekjuskattur sé of lágur og auka þurfi framlög til velferðarmála (þótt þau hafi stóraukist síðustu ár). Þau vilja stöðva virkjanir og hafa í hótunum við útgerðarfyrirtæki. Þau virðast ekki hafa neinn áhuga á hagvexti.

 

Já, "sporin hræða", eins og Hannes lýkur með grein sinni. Þetta yrði annars milljón. Stjórnin myndi byrja á því að stofna c.a. 50 nefndir til að fullnægja umræðustjórnmálafíkn kratanna. Þar fengju inni c.a. 300 vinstri menn, sem fengju vænar fúlgur í greiðslur og það fyrir að gera verra en ekki neitt. Þessar nefndir eru yfirleitt til trafala, eins og ég hef m.a. tekið dæmi um. Nú, þegar hagsmunagæsluhópur atvinnunefndarmanna hefði lokið sér af, tæki þjóðernissinnasósíalistaflokkurinn við með sínar áherslur. Atvinnunefndarmenn Kratanna yrði nú leigðir og þeir gerðir að atvinnumótmælendum, og skrifstofa þýsku atvinnumótmælendanna fengi að koma hér upp afleggjara. Fólk myndi nú streyma til að mótmæla fyrir framan höfuðstöðvar þeirra fyrirtækja, sem hafa fleiri en tíu manns í vinnu, ganga frá einu til annars, áfram gakk, 1,2,3. Síðan myndi Steingrímur leiða blótfund á Austurvelli, þar sem þjóðinni verður kennt að blóta, og Hlynur bloggvinur vor fengi í gegn lagasetningu um að banna hálsbindi og skylda menn til bera barmmerki. Það skásta við þennan pakka væri, að Katrín menntamálaráðherra myndi stórauka framlög til menntamála, leysa vanda Þjóðskjalasafns og Landsbókasafns, svo eitthvað sé nefnt. En segjum svo að Framfaraflokkurinn verði þarna líka. Þá verða sett lög um nýbúa og þeir látnir bera merki á barmi sínum eins og gerðist í Þýskalandi á fjórða áratugi síðustu aldar.

Ok, þetta eru ýkjur, en sjaldan er reykur án elds. Málið er, að þegar maður fer að velta fyrir sér hvað vinstri stjórn myndi gera, kemur manni eiginlega ekkert í hug nema:

Samfylkingin mun gera skoðanakannanir - VG framboð mun mótmæla einhverju -Framfaraflokkurinn mun sitja á rassinum og þingmenn hans slást innbyrðis.

Í greininni í Fréttablaðinu nefnir Hannes Hólmsteinn þó nokkur líkleg atriði:

 Ríkisútgjöld munu stóraukast og skattar hækka. Skatttekjur ríkisins munu minnka vegna aukinnar skattheimtu, því að atvinnulífið mun dragast saman, og þá verða tekin lán, svo að hreinar skuldir ríkisins munu stóraukast.

Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður úr 10% í 20%, en við það hverfur skattstofninn áreiðanlega að mestu leyti, svo að ríkið missir af 15-20 milljarða tekjum á ári. Tekjuskattur á fyrirtæki verður hækkaður úr 18% í 30%, en við það minnka tekjur ríkisins (alveg eins og þær jukust við lækkunina), líklega um 10 milljarða. Sérstakur skattur á útgerðarfyrirtæki verður stórhækkaður.

Þetta verður atvinnulífinu þungbært. Seðlabankinn verður sviptur sjálfstæði og látinn „leysa" vandann með lánsfjárþenslu. Verðbólga eykst þá í 20-30% að minnsta kosti, en fjöldi fólks mun ekki ráða við afborganir af húsnæðislánum og missa heimili sín. Bankar munu lenda í miklum erfiðleikum. Ríkt fólk hraðar sér til útlanda með fyrirtæki sín og fjármagn (en við það verður tekjuskipting vissulega jafnari). Atvinnuleysi eykst í 10-15%, sérstaklega í röðum æskufólks. Nú eru hreinar skuldir ríkisins á mann um 150 þúsund kr. Þær munu tífaldast, í 1,5 millj. kr. á mann.

Skattheimta ríkisins, sem á samkvæmt áætlunum að fara í 32% 2008, mun þess í stað aukast um fjórðung, í 40%, svo að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, mun samtals taka til sín 52% af landsframleiðslu. Ísland mun dragast aftur úr Danmörku og Noregi í almennum lífskjörum og lenda við hlið Svíþjóðar.

 

En í öllu falli virðist deginum ljósa, að taki stjórnarandstaðan við stjórnartaumunum hljóta menn að fara að velta því fyrir sér, að pakka bara niður og flytja til Kanarí. Og fremstir í flokki yrði bankarnir og aðrir þeir, sem sósíalistaflokkarnir vilja brjóta niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Björnsson

Hannes reyndar "gleymir" að minnast á að það var vinstri stjórnin 1988-1991 sem loks náði stjórn á verðbólgunni.  

Gunnar Björnsson, 27.1.2007 kl. 15:08

2 Smámynd: Snorri Bergz

Var til of mikils ætlast, Gunzó minn, að vinstri menn myndu nú reyna að hreinsa upp eftir sig skítinn? Það voru sjálfstæðismenn sem þurftu að skeina efnahagslífið, því slettur vinstri óstjórnar voru út um alls samfélagið.

Snorri Bergz, 27.1.2007 kl. 15:30

3 Smámynd: Snorri Bergz

Vinstri stjórnir eru þær, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á ekki aðild að. Gunnar Thor var reyndar lengst til vinstri í Sjálfstæðisflokknum, og stjórn hans hafði vinstri sinnaða stefnu. Ergo: vinstri stjórn.

Snorri Bergz, 27.1.2007 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband