Miðvikudagur, 21. mars 2007
Handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 5. hluti
Það var komið fram á kvöld og flugvélin á leiðinni í loftið þegar ég var loksins kallaður aftur fram í herbergi til yfirheyrslu. Hugarástand mitt hafði breyst mjög skyndilega og var ekki lengur óttasleginn vegna hótana FBI-mannsins og kauða hans. Og þar fyrir utan var mér ekki lengur illt í vinstri öxlinni, eftir meðferð flugvallarlöggunnar.
Eg vissi það ekki þá, en Friðrik Jónsson sendiráðsritari hafði hringt heim til foreldra minna og látið þá vita um, hvað gerst hafði. Móðir mín, sem er kjarnorkukona eins og ættmæður hennar, hafði ekki tekið þeim upplýsingum með stóískri ró, heldur farið í herbúðir Ólafar ríku á Skarði, formóður sinnar. Nú þurfti að safna liði. Hún hafði gert sér lítið fyrir og haft samband við einn ráðherrann. Þetta hefði hvergi verið hægt nema á Íslandi og e.t.v. í öðrum friðsömum smáríkjum. Skilst mér svo, að fleiri ráðherra hafi í kjölfarið þurft að fara á fætur í kjölfarið, þó ég hafi ekki öruggar heimildir fyrir því.
Ég veit ekki hvort þetta liðsinni hafi komið nógu snemma, en þegar á hólminn er komið standa Íslendingar saman.Ég held reyndar að Friðrik Jónsson hafi í aðalatriðum barist í þessu máli fyrir eigin vélarafli. Ég tel þó líklegt að hann hafi haft samband við sendiherrann, sem hefur vísast munað hver ég var. Og síðan hafði ég jafnframt leitað liðsinnis á hæstu hæðum (sjá 4. hluta). Mál mín voru í góðum höndum.
Eitthvað furðulegt hafði gerst síðan ég var í yfirheyrslu í fyrra skiptið. Það var ekki nóg með, að hugarástand mitt hefði breyst, þar sem ég skipti út ótta fyrir frið, angist fyrir hugarró. FBI-maðurinn var nú gjörbreyttur líka. Hann hafði áður verið kurteis en ógnandi. Hann hafði haft einhverjar hugmyndir um meinta sek mína, en nú skyndilega var hann með það á hreinu, að þetta hefðu allt verið ein stór og hræðileg mistök og varð hinn ljúfasti -- fór jafnvel að tala við mig um fjölskyldu sína.
Hann sagði þó, að engu breytti í hvaða samhengi ég hefði sagt einhver orð í flugafgreiðslunni, bara það að hafa nefnt hið hræðilega orð, "sprengja", hefði ég verið rættmætt target fyrir öryggisyfirvöld. Engu skipti í raun þótt ég hefði ekki verið að hóta neinu og að þetta hefði í raun verið stormur í vatnsglasi.
Ég veit ekki alveg hvort sú niðurstaða, sem hann bauð mér, hafi verið samin í samráði við Friðrik, en niðurstaðan var, að ég fengi að fara frjáls ferða minna, eftir að hafa skrifað undir skýrsluna. Ég var meira en til í það.
Ég fékk nú að fara aftur í skóna og taka saman föggur mínar. Kanarnir höfðu reyndar verið eitthvað hranalegir til tölvuna mína, og rifið tölvutöskuna í sundur, gramsaði í farangri mínum og gert ýmsan óskunda. En mér var sama. Ég gæti keypt nýja tölvutösku heima. Leifarnar af hinni fyrri yrðu að duga mér heim.Ég hafði verið í haldi bandarískra yfirvalda í hátt í fjóra tíma. Nú leið að lokum. Ég þurfti aðeins að skrifa undir skýrsluna. Ég las hana ekki einu sinni. En FBI-maðurinn sagði mér, að þar kæmi fram, að ég hefði gerst sekur um dómgreindarbrest með því að hafa alvarleg mál í flimtingum.En í viðtalinu við Moggann sagði Friðrik sendiráðsritari svo frá:
Segir hann viðkomandi hafa verið fullan iðrunar á því að hafa misst þetta út úr sér og hafi það eflaust hjálpað til við lausn málsins. "Þegar menn gera eitthvað svona getur það annaðhvort orðið fylkisglæpur eða alríkisglæpur og FBI-maðurinn og kapteinninn á staðnum gátu ekki ákveðið sig hvor þeirra vildi gefa út ákæru á hann," segir Friðrik og bætir því við að eftir viðræður milli aðila og afsökunarbeiðni hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að best væri að láta málið niður falla.
Af þessu sýnist mér fyrst og fremst, að Friðrik hafi trúað skýringum Bandaríkjamanna á því, hvers vegna ég var handtekinn og lýsingum þeirra á, hverju ég átti að hafa sagt. En rétt er, að þegar FBI maðurinn spurði mig hvort ég iðrist þess ekki að hafa "misst þetta út úr mér", þá kom auðvitað ekkert annað til greina en að segja "já". Ég var enn ekki viss um, hvers ég hefði átt að iðrast. Glæpur minn var að hafa lesið og misskilið Washington Post, og í sakleysi mínu spurt starfsmann Flugleiða, hvort gegnumlýsing á skóm væri þegar hafin. Þetta var þessi mikla sök. En ég varð auðvitað að spila með. Bandaríkjamenn gátu ekki verið sekir um neitt óeðlilegt í þessu máli. Þeir voru í stríðið við terrorista og urðu að viðhalda þeirri ímynd, að vera "góði gæinn".En Friðrik bætti við:
"Ég held að þeir séu í eilitlum vandræðum með hvernig þeir eiga að meðhöndla útlendinga í þessu og það var alveg ljóst að maðurinn var engin ógn. Hann var fyrst og fremst sekur um skelfilegt dómgreindarleysi og lélegan húmor og það er spurning hvort menn vilji endilega setja menn í fangelsi fyrir slíkt."
Eins og Pétur Gunnarsson, hinn huxandi, benti á einhvers staðar í commentakerfinu, er ljóst að þetta með lélegan húmor er alls ekki svo vitlaust! Hann orðaði þetta þó aðeins öðruvísi. Auðvitað er ég sekur um lélegan húmor, það geta lesendur þessarar bloggsiðu vitnað um. En slíkt kom þessu máli ekkert við. Ég hafði ekki reynt að vera fyndinn, hafði heldur ekki áttað mig á, að ég væri að segja brandara.
Ég hafði reyndar áður lent í vandræðum í USA fyrir að vera með snorríska kímnigáfu. Þegar ég var gestafræðimaður við Helfararsafnið í Washington, sem er alríkisstofnun, hafði Clinton-Lewinski málið verið í hámælum. Ég átti þá erfitt með að halda aftur af mér. Eitt sinn hafði ég gleymt að taka með mér kaffirjóma á skrifstofuna og því var instant-kaffið þar algjörlega ódrekkandi óþverri. Ég missti því út úr mér í eldhúsinu:
"This coffee is like a cigar. Well, it´s better than nothing, but not as good as the real thing."
Fyrir þessa athugasemd hafði ég verið kallaður á teppið hjá yfirmanni deildarinnar!
Ég slapp þó næsta skiptið, þegar virtir fræðimenn voru að ræða um ýmsar ákærur aðrar gegn Clinton, s.s. frá einhverjum konum sem hann hafði unnið með. Forseti USA væri því í fjárhagsvandræðum vegna lögfræðikostnaðar og yrði að safna fé. En hvernig? Jú, þá hafði ég svarað án þess að hugsa: "Auction the cigar" og þegar menn slóð hljóða, hafði ég bent út um gluggann á obelixinn sem þar stóð, minnismerkið um Washington ef ég man rétt, og sagt: Ja, eða selt aðgang að minnismerkinu sínu. (Mér var síðar tjáð, að einn starfsmannanna hefði sett þennan brandara á netið og að Jay Leno hafi stolið honum þaðan...sel það ekki dýrara en ég keypti.)Þetta er snorrískur húmor. Ekki þetta bull sem flugvallarstarfsmaðurinn var að halda fram.
Ég var því ekki sekur um lélegan húmor, heldur húmorsleysi. Hefði ég viljað gantast með sprengjur, hefði ég frekar sagt t.d.:
"Well, I just got back from the toilet. I reckon you better call in the bomb squad".
Ég hefði reyndar átt að hafa í huga, þegar ég talaði við þennan bandaríska starfsmann Flugleiða, að maður má ekki gera of miklar kröfur til hinna óbreyttu Kana, þeirra sem ekki eru nýlega fluttir til landsins eða börn þeirra. Það var dómgreindarbrestur, ég skal fúslega viðurkenna það. Og auðvitað átti ég að snarhalda kjafti og láta eins og ég hefði ekki lesið neitt merkilegt meðan á dvöl minni stóð.
En ég skrifaði athugasemdalaust undir skýrsluna, þótt þar stæði ýmislegt sem ekki væri rétt. Ég var því að fremja skjalafals, var að játa á mig eitthvað, sem ég hvorki gerði né sagði. En hvað gerir maður ekki til að losna úr bandaríska terrordjeilinu?
![]() |
Uppreisnarmenn í Írak sagðir hafa beitt börnum í sjálfsvígsárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Breska stjórnin heimilar blæjubann í skólum
Breska stjórnin hefur nú gefið skólayfirvöldum heimild til að banna múslimum að ganga með andlitsblæjur í skólum, skv. fréttum,m.a. á CNN, með ákveðnum skilyrðum þó.
Hér heldur áfram umræðan sem háð var í Frakklandi í fyrra og hittiðfyrra um aðlögun innflytjenda og umburðarlyndi hinna innfæddu.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að það eigi almennt að taka tillit til menningar og hefða innflytjenda, en með undantekningum þó. Málið er, að innflytjendur verða líka að taka tillit til hefða og menningar gistilandsins. Innflutningur til framandi lands setur ekki aðeins skyldur á herðar hinna innfæddu, heldur aðkomufólksins líka. Og nefna verður, að ætli t.d. Evrópubúar að flytjast til íslamskra landa, verða þeir að aðlagast siðum og menningu hinna innfæddu þar. Því er alls ekki ósanngjarnt að múslimar þurfi að taka tillit til evrópskrar menningar, kjósi þeir að flytjast þangað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Baugur selur Baugi?
Ok, leiðréttið þið mig endilega ef ég hef rangt fyrir mér, en er ekki Baugur stærsti (eða amk stór) hluthafinn í 365? Er þetta ekki bara tilfærsla á fé og skráðri eignaraðild innan sama batterís?
Ef ég man rétt, var rekstur 365 miðla erfiður á síðasta ári og töluvert varð tap á rekstrinum. Getur ekki verið að Baugur sé að redda 365 úr verstu súpunni og styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins?
En það hlýtur að vera bara hið besta mál? Þá þarf t.d. Bónus kannski ekki að auglýsa eins mikið í Fréttablaðinu og áður?
Annars hef ég ekkert vit á svona löguðu og er löngu hættur að skilja hvað er Baugur og hvað eru dótturfyrirtæki eða tengd fyrirtæki.
![]() |
Baugur kaupir 17% hlut í Daybreak af 365 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Traustar almenningssamgöngur?

![]() |
Verkfall hjá strætisvögnum lamar umferð í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Reykjavík lokuð
Jæja, nú er eiginlega búið að loka Reykvíkinga inni. Það leiður hugann að því, hvort ekki sé kominn tími á Hellisheiðargöng og að leggja Suðurlandsveg við Norðlingaholt í stokk.
En það er aldeilis veðrið úti á landsbyggðinni. Nú er gott að búa EKKI í úthverfunum.
![]() |
Vitlaust veður á Suðurlands- og Vesturlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 4. hluti
Það er ljóst af þessari frétt, að margir meintir hryðjuverkamenn ganga lausir. Ég ku vera einn þeirra. Mér var reyndar sleppt aftur eftir handtökuna. Komið hafði í ljós, að ég var sárameinlaus og alls ekki líklegur til að vera viðriðinn sprengjuárásir á flugvélar eða önnur tæki í eigu vestrænna aðila.
En þetta var engu að síður frekar óskemmtileg lífsreynsla, eins og ég hef rakið í nokkrum hlutum.
Ég gerði hlé á frásögninni í gær þegar ég náði loksins að dotta smástund á dýnulausa blikkrúminu, með hendurnar sem kodda og jakkann sem ábreiðu. Mér hafði verið sagt að búast við að vera fluttur fyrir æðra yfirvald, þar sem líklegt yrði, að ég fengið c.a. 20 ára fangelsi og milljóna dollara fjársektir.
Ég hafði varla náð að blunda nema nokkrar mínútur þegar ég hrökk upp við einhvern hávaða. Ég sá engan og ekkert gerðist. Ég lá þarna bara og beið þess fyrirsjáanlega. Ég yrði semsagt settur í djeilið með ótíndum glæponum.
Ég tautaði nokkur uppörvunarorð fyrir munni mér og lyfti huga mínum hærra. Ég var hræddur. Hvað gera menn í svona aðstæðum? Ja, þarna dugði ekki að leita til Darwins, hann er dauður. Vísindi eða fræði hjálpuðu ekkert. Ég hóf því að tauta það sem mundi af gömlum sálmum, lyfti huga mínum upp til hæða og leitaði þar liðstyrks.
Svona aðstæður er ekki hægt að útskýra fyrir þeim, sem ekki hafa reynt þær. Ég var hræddur. Allt í lagi að viðurkenna það. En eftir að hafa farið með stutta bæn lagðist ég aftur og sofnaði.
Ég veit ekki hvað eiginlega gerðist næst, en ég heyrði skyndilega rödd, eins og í morgunsvalanum. "Óttast eigi, óttast eigi". Ég reis upp og fann þá, að óttinn var farinn. Ég var ekki lengur hræddur. Þetta var eitt af þessum mómentum, sem maður gleymir aldrei. Ég get ekki útskýrt hvernig mér leið. En í hjarta mér var friður.
Þá var skyndilega barið á rimlana og vörðurinn benti mér að fylgja sér. Íslenskur sendiráðsstarfsmaður var kominn á staðinn og vildi eiga tal af mér.
Ég man ekki alveg tímaröðunina í þessu, hvort sendiráðsstarfsmaðurinn hefði komið þarna áður eða ekki. En núna, þegar ég fer að hugsa um þetta betur, held ég eiginlega að hann hafi verið kominn fyrir fyrri yfirheyrslunar. En hann sagði amk að sendiráðið væri að gangast í málinu. Og ég bað hann að hringja heim til foreldra minna og láta þau vita.
En í öllu falli hafði Friðrik Jónsson sendiráðsritari verið staddur á flugvellinum "fyrir tilviljun". Æ, ég er eitthvað voðalega vantrúaður á tilviljanir. En hann hafði séð mig leiddan burtu í járnum og kannast við gripinn. Jú, við höfðum setið í sendiráðsbústað Jóns Baldvins og Bryndísar rúmum þremur árum áður og rætt um heima og geima. Og hann mundi eftir fanganum.
Hvað ætli hefði gerst, ef Friðrik hefði ekki verið þarna staddur "fyrir tilviljun"? Þá hugsun þori ég eiginlega ekki hugsa til enda. Og ekki var verra, að þarna var kominn maður sem hafði greinilega hæfileika til að bjarga nauðstöddum skákmönnum, en ég sá hann síðar í sjónvarpinu vera að hjálpa Fischer að komast á milli farartækja á leiðinni til Íslands (að mér sýndist amk). Og báðir höfðum við verið handteknir af bandarískum yfirvöldum.
En Friðrik sagði, að verið væri að vinna í málinu. Já, ég var ekki lengur hræddur.
![]() |
Sprengjuárásir í Afganistan þrefölduðust á milli ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Hraðakstur á Reykjanesbraut?
Ég hef nú verið nokkuð tíður bloggari á fréttum um aðgerðir lögreglu gegn hraðakstri og jafnan borið fram nokkuð róttækar skoðanir um, hvað gera skuli við ökufanta.
En að þessu sinni fer maður að spá: er virkilega þess virði að taka menn e.t.v á rúmlega hundrað á Reykjanesbrautinni? Sá sem hraðast ók fór á 118 km/klst. Hinir 10 hafa því varla mjög hratt heldur.
Persónulega finnst mér hámarkshraði á Reykjanesbraut og annars staðar þar sem aðstæður eru með sóma (og þar sem eru 2+1 osfrv) vera of lágur. Þar mætti vel hafa 100 km/klst hámarkshraða. Það keyra nánast allir á 100 eða yfir á Reykjanesbrautinni hvort sem er.
![]() |
Ellefu teknir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: Yfirlit
Það barst í tal í gær, hér á blogginu, að ég hefði fyrir nokkrum árum verið handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverk, grunaður um að vera terroristi. Sá grunur kom til af misskilningi starfsmanns Flugleiða, manni sem fór með rangar sakargiftir og hafði rangt eftir mér. Afleiðingin var frekar ónotaleg af minni hálfu.
Ég hef í dag rakið þessa sögu að nokkru leyti, og komið hluta hennar á framfæri í þremur hlutum. Mér datt í hug, fyrir þá sem hafa misst af þessu, að renna yfir þetta í aðalatriðum.
1. hluti: Nokkrir punktar:
Ég var nú handtekinn, rifinn úr skónum og handjárnaður fyrir aftan bak. Ég var síðan færður, með svollu offorsi út í löggubíl fyrir utan völlinn (og þurfti að ganga þangað á sokkunum). Mér verkjaði í vinstri öxlina, þar sem ég hafði meiðst forðum, en flugvallarlöggan tók ekki í mál að færa handjárnin framfyrir. "Handtaka er ekki lautarferð drengur. Þér á ekki að líða vel!".
Hananú! Ég var semsagt handtekinn fyrir eitthvað, sem ég sagði aldrei. En það var aðeins byrjunin.
2. hluti: Nokkrir punktar:
Fangaklefinn var c.a. 6 fermetrar. Yfir miðju gólfinu var hálfur-veggur, og að baki hans klósett, án setu. Ekkert handklæði, enginn salernispappír.
Til hliðar var blikkrúm, engin dýna, engar ábreiður. Ekkert.
Ekkert annað var þarna inni. Og enginn gluggi til að glápa út um.
Maður var semsagt kominn í fangelsi á Flintstone tímanum, áður en menn fundu upp dýnu, salernispappír og handklæði.
3. hluti: Nokkrir punktar:
Þar sem ég lá á blikkinu hugsaði ég aðeins um eitt. FBI maðurinn hafði sagt mér, að ég yrði næst leiddur fyrir æðra yfirvald og sennilega dæmdur til 20-30 ára fangelsisvistar, auk 2-3 milljóna dollara sektar. Ef ég myndi játa allt gæti ég átt von á linkind. Þrátt fyrir þessar hótanir vissi ég ekki hvað ég ætti að játa á mig. Mitt í þessum hugleiðingum datt ég út af. Batteríin voru búin.
Dægurmál | Breytt 19.3.2007 kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. mars 2007
Henging í fyrramálið
Jæja, nú á aftur að fara að hengja í Írak. Svo segir í frétt Mbl.is
Ramadan, sem var einn af meðsakborningum Saddams Husseins, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína þegar 148 írösk yfirvöld drápu 148 sjíta á níunda áratug síðustu aldar.
En hvað varð um hin 147 írösku yfirvöldin?
En án útúrsnúnings, þá lýsi ég frati á þetta. Hvaða hengingaárátta er þetta eiginlega? Væri ekki nær að látann dúsa í Abu Graib við vatn og brauð. Yrði það ekki betri refsing?
En annars skil ég Íraka vel, að vilja jafna sakirnar við svona kauða. En er henging virkilega rétta lausnin?
![]() |
Fyrrum varaforseti Íraks og samstarfsmaður Saddams Husseins verður hengdur í dögun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 19. mars 2007
Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 3. hluti - Yfirheyrsla FBI
Ég var nú ekkert sérlega upplitsdjarfur þegar flugvallarlöggann ýtti mér á undan sér eftir ganginum, þangað sem FBI agentinn beið mín.
Ég var orðinn þreyttur. Þetta hafði verið langur dagur. Ég hafði farið á Helfararsafnið smá stund um morguninn, en síðan drifið mig heim á hótel og tékkað út. Þar fékk ég síðan far niðrá brautarstöð, þaðan sem ég tók lestina út á BWI - flugvöll, eins og ég hafði oft gert áður.
Það er varla hægt að segja, að Washington sé fögur borg. Í mínum huga er hún þó einstök. Ég hafði búið þarna hluta árs 1998 og búið þá í Alexandríu, Virginíu, rétt hinumegin Potomac. Mér leið vel þarna og naut þess að dvelja í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni og ýmsum merkilegum úthverfum.
Þá hafði ég farið sex daga í viku niður í miðbæ. Tók fyrst buss niðrí Pentagon, þar sem ég gat valið um ýmsar lestarferðir, gula eða bláa línu.
Þessi áramót 2001-2002 hafði ég farið á gamlar slóðir. Já, heimsótt gamla húsið við Glebe Rd., fengið mér kaffi með International Delight kaffirjóma á 7-11, skroppið smástund niðrí gömlu Alexandríu og séð "litla Skotland". Mjög gaman.
Þessi tími hafði verið mjög góður fræðilega séð. Ég hafði fundið helling af nýjum heimildum á safninu, hitt gamla samstarfsmenn og var ánægður með ferðina þegar ég kom út á BWI seinni partinn. Ég var þreyttur og vildi komast heim. En ekki aldeilis.
Nú var verið að leiða mig til fundar við FBI agent, sem hafði það hlutverk að rannsaka, hvort ég væri í raun terroristi eins og starfsmaður Flugleiða hafði grunað, eða ekki.
Ég var enn á sokkaleistunum, því skórnir höfðu verið teknir af mér í flughöfninni, enda vafalaust uppfullir af sprengiefni. Þegar ég gekk inn í herbergið, þar sem ég hafði skilið föggur mínar eftir, beið mín hálf úrillur FBI maður. Hann hafði verið í afmæli dóttur sinnar, ef ég man rétt, og verið kallaður út af bakvakt.
Á borðinu lá kortið, sem ég hafði haft með mér. Þar hafði ég merkt inn á ákveðna staði. Hvíta húsið, Pentagon, Helfararsafnið, Dupont Circle og vísast eitthvað fleira.
"Af hverju ertu með hring yfir Pentagon?" var það fyrsta sem FBI agentinn spurði mig, eftir að hafa bent mér á, að setjast við borðið. Þá voru reyndar ekki nema nokkrir mánuðir síðan terroristar höfðu flogið farþegaflugvél á þá stóru byggingu. Ég útskýrði það fyrir manninum, en bætti við, að ég hefði reyndar farið úr í Pentagon City, farið í Macys og bókabúðir, og tekið lestina þaðan áfram yfir í DC, en ekki frá Pentagon stöðinni sjálfri.
Hann tók mig trúanlegan, en hóf nú alls konar spurningar. Hann tók mig þó ekki trúanlegan, þegar ég útskýrði mína hlið á málinu. Ég sagði hreint út, að Flugleiðastarfsmaðurinn hefði greinilega ekki sagt satt og rétt frá og rakti forsöguna um skógegnumlýsingarfréttina í Washington Post.
Hann spurði síðan sömu spurninganna aftur og aftur, en kom sér síðan að kjarna málsins. Við rannsókn á ferðatölvunni minni hefðu fundist skjöl um íslam. Nú ætti ég bara að játa, að vera terroristi.
Ég sagði honum frá því, um hvað það snerist. Ég hafði skrifað 1995-96 ráðstefnuritið The Nature of Islam, sem hafði verið gefið út í Jerúsalem 1996. Ég hefði verið að vinna í handritinu nokkrum mánuðum áður og því væri þarna folder sem héti "Islam". Hann tók mig ekki trúanlegan, en hélt áfram að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur.
Og til að fara úr öskunni í eldinn var ég ekki nógu snöggur að svara neitandi, þegar hann spurði mig hvort ég þekkti einhverja hryðjuverkamen. Hann sá á svipnum á mér, býst ég við, að ég væri ekki alsaklaus á þeim vettvangi. Ég þekki reyndar einn alræmdasta hryðjuverkamenn 9. áratugarins, Jamshid Hassani. Þessi fyrrum yfirmaður lífvarðasveita Íranskeisara var ágætis kunningi minn, en ég las yfir fyrir hann ævisögu hans, Walk to the Heights, og handrit hans að sögu Írans. Við höfðum reyndar haft nokkuð saman að sælda, en hann var nú orðinn vita meinlaus. Var að vísu enn eftirlýstur víða um heim og hafði komið af stað milliríkjadeilu milli Írans og Ástralíu, og hafði að baki ýmsan terrorisma gegn írönsku klerkastjórninni, m.a. rænt eldflaugabát íranska sjóhersins, og fleira. En ég sagði ekki þekkja neina íslamska terrorista, bara einn Írana sem væri meðal forystumanna írönsku útlagastjórnarinnar og hefði áður verið vígreifur, en nýlega snúist til kristinnar trúar og væri meðlimur í ensku biskupakirkjunni. FBI agentinn hripaði þetta hjá sér. Loksins var hann kominn í feitt!
En nú birtist minn frelsandi engill, Friðrik Jónsson sendiráðsstarfsmaður. Hann var kominn til skjalana. (sjá 1. hluta). Hlé var gert á yfirheyrslunum og ég var sendur aftur í klefann.
Á leiðinni bað ég um klósettpappír, eða amk tissue. Þeirri beiðni var neitað. "This is not a ***** hotel" var svarað. En vörðurinn var nú aðeins mildari í rómnum en áður, þó greinilega pirraður út í mig af einhverjum ástæðum. En að þessu sinni fékk ég að leggja mig smástund á hörðu blikkinu, með jakkann yfir búknum og hendurnar fyrir kodda.
Þar sem ég lá á blikkinu hugsaði ég aðeins um eitt. FBI maðurinn hafði sagt mér, að ég yrði næst leiddur fyrir æðra yfirvald og sennilega dæmdur til 20-30 ára fangelsisvistar, auk 2-3 milljóna dollara sektar. Ef ég myndi játa allt gæti ég átt von á linkind. Þrátt fyrir þessar hótanir vissi ég ekki hvað ég ætti að játa á mig. Mitt í þessum hugleiðingum datt ég út af. Batteríin voru búin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)