Greind, heiðarleiki, konur og Alþingi

Var að keyra upp á skrifstofu í morgun og hlustaði þá á lok viðtals morgunhana Bylgjunar við Guðfríði Lilju, forseta Skáksambands Íslands og tilvonandi þingmann (og hugsanlega ráðherra?). Þar var klikkt út með, að Lilja væri mjög gáfuð og hugsanlega alltof heiðarleg fyrir Alþingi!!

Ég hefði haldið, að hvort tveggja væri kostur fyrir þingmenn, en því miður virðast ekki allir þingmenn þessum kostum gæddir, sérstaklega í ákveðnum "hópum"!

En rétt er það, að Lilja er bæði gáfuð og heiðarleg. Ég hef þekkt hana síðan hún var smástelpa í stígvélum, og fjölskyldu hennar hef ég þekkt mjög lengi. Foreldrar hennar, mikið ágætis fólk, voru bæði formenn Taflfélags Reykjavíkur og þau og systkinin afburða vel gefin; Sigurður Áss verkfræðingur, Andri Áss (sem ég ólst að nokkru leyti upp með í skákinni, báðir f. 1969) viðskiptafræðingur og einn af toppmönnum Icelandair, og Helgi Áss, stórmeistari í skák og einn efnilegasti lögfræðingur landsins. Í mínum huga er ljóst, að genasamsetningin er góð og Lilja stendur strákunum alls ekki að baki. Hún mun, komist hún á þing, hækka meðalgreindarvísitölu þingsins og vega upp á móti amk tveimur þingmönnum frjálslyndra.

liljakatrin

Önnur af svipuðu kaliberi er Katrín Jakobsdóttir, sem ég hef líka mikið álit á. Þótt bæði hún og Lilja séu andspænis mér á hinum pólítíska vettvangi, þá vil ég frekar hafa gáfaða og heiðarlega þingmenn með "rangar" skoðanir, en vitlausa rugludalla með réttar skoðanir. Ég þekki Katrínu minna en Lilju, en nógu vel þó til að hafa lagt hart að henni fyrir margt löngu að fara í framboð og drífa sig á þing. Röksemd mín var þá einmitt þessi: hækkum meðalgreindarvísitölu alþingismanna. Ég þekki þó bræður hennar betur, þá Ármann og Sverri, en þá þarf vart að kynna, tveir af gáfuðustu mönnum landsins og þar að auki fínir drengir, þrátt fyrir hræðilegar skoðanir í stjórnmálum!! Smile En með Katrínu og Lilju breytir litlu þó frjálslyndir fái 5-6 þingmenn, því þessar tvær konur myndu vega þá upp, meðalgreindarvísitölulega séð.

Fleiri mætti nefna, úr þessum ranni sósíalistanna, svo sem Svandísi Svavarsdóttur, sem ég hef mikla trú á, en með sömu fyrirvörum og snertir hinar kjarnorkukonurnar hér að ofan. Það er síðan gaman að sjá, að Guðfinna Bjarnadóttir er að koma inn fyrir Sjálfstæðisflokk og e.t.v. Sigríður Andersen. "Now you are talking!" Og síðan þarf varla að minnast á Þorgerði Katrínu. Ef femínistar fá að ráða og konur verði helmingur ríkisstjórnar eða nærri því, er ljóst, að D og U verða að eiga aðild, til að inn komist konur ekki út á kynferði sitt, heldur hæfileika. Með t.d. Þorgerði, Lilju, Katrínu og Guðfinnu (sem eru nógu ofarlega á listum til að koma til greina) verða sterkar konur í stjórn. Því miður virðist t.d. Samfó hvorki hafa magn né gæði á þessum vettvangi, nema einna helst Katrínu Júlíusdóttir og e.t.v. madd. Jóhönnu, og frambærilegustu kvenþingmenn framsóknar virðast á leiðinni út. Valgerður hefur þó komið á óvart í stóli utanríkisráðherra. En karlaveldið ræður hjá Frjálslynda flokknum, og þar er jafnframt lítið um gæði.

En jæja, látum þetta nægja.


50.000: hugleiðingar um Moggabloggið

Jæja, það gerðist einhvern tíma í nótt, að ég fór í 50.000 gesti hér á hvala-blogginu. Ég þakka kærlega fyrir mig -- "hvala", sem merkir takk á serbó-króatísku, ef ég hef skilið þetta rétt.

Þó að gestafjöldi skipti í raun litlu máli (nema við bloggarar fáum að selja auglýsingar á síðuna okkar), er alltaf gaman að sjá, að fólk kemur svona oft inn á síðuna. Fyrir c.a. 10 dögum fattaði ég "vinsældalista" bloggins og var ég þá í 27. sæti fyrir síðustu sjö daga, nú er ég kominn í 9. sæti og á uppleið. Er ég nokkur sáttur, sér í lagi vegna þess, að af topp tíu bloggurunum eins og er, er ég sá eini sem ekki hef komist á forsíðu bloggsins. Flestir hinna eru þar nokkuð reglulega, ef ég man rétt. Þó hefur nýliðinn á listanum, Hollywood-bloggarinn, held ég ekki sést þar oft.

En jæja, ég lagði upp í þessa vegferð snemma í desember, þegar ég kom heim frá skákmóti í Serbíu, lasinn og niðurbrotinn, eftir að hafa teflt lasinn á mótinu og farið niður í logum. Þar sem maður sat lokaður inni og orkulaus til aðgerða, ákvað ég að taka mér bloggstafi í hendur og láta vaða. Fyrstu vikurnar komu fáir gestir inn. Ég man hvað ég var glaður, 2 vikum síðar, þegar ég komst í 500 gesti á dag. Ég komst síðan í fyrsta skipti yfir 1.000 gesti á dag einhvern tíma um jólin, og komst í 3.000 og 2x yfir 2.000 um áramótin. Síðan datt ég niður, þegar ég var á skákmóti í Prag 9.-18. janúar, en reis fljótt aftur. Nú hef ég í raun haft rétt um 20.000 gesti á mánuði og tel það mjög gott. Mest komst ég í tæpa 12.000 gesti á einni viku, þarna um áramótin.

Blogglífið hefur í mörgu verið skemmtilegt. Greinilegt er, að þeir sem starfa við þess háttar störf, að þeir sitja hvort sem er við tölvu liðlangan daginn, eiga auðveldara með að blogga en aðrir. Einnig er ljóst, að þekkt nöfn úr samfélaginu, ekki síst blaða- og stjórnmálamenn, fá auðveldari aðgang en aðrir. Þeir eiga t.d. margir fast sæti á forsíðu bloggsins. Þeir fá aðgang ekki endilega vegna merkilegra skrifa, heldur nafns síns. En sú frægðarsól dugar ekki alltaf til lengdar, þar eð fólk þarf að skrifa eitthvað, sem blogglesendum líkar. Og þá dugar ekki að vera alltaf með sama nöldrið, það þarf að sýna fjölbreytni.

Að mínum dómi er blogg Stefáns Friðriks Stefánssonar besta bloggið hér á mbl. Hver einasta grein hans er vönduð og vel skrifuð, og jafnan um mál, sem eru í umræðunni. Það kemur mér á óvart, hversu "litla" lesningu hann fær, miðað við það, en við skiptum einmitt um sæti á blogglistanum í nótt, ég fór í níunda, hann í það tíunda.

Áhugaverðasta bloggið hlýtur að vera blogg Áslaugar Hinriksdóttur, en þar er mest fjallað um alvarleg veikindi dóttur hennar, ef ég hef lesið rétt.

Skemmtilegasta bloggið er að mínum dómi blogg Sigmars í Kastljósinu. Hann skrifar mjög skemmtilega. Hann var einmitt að skríða í fyrsta sætið á vinsældalistanum í nótt, en meðan ég hef fylgst með, hefur hann gjarnan verið 1-2000 gestum á eftir samkeppnisaðilanum, Steingrími Sævarri, nú í Íslandi í dag.

En jæja, síðan eru hér mörg pólítísk blogg. Í umræðunni nýlega hefur verið minnst á, að stjórnmálaflokkar væru hér að skipuleggja blogg í aðdraganda kosninga. Pétur Gunnarsson "hux" kallaði þetta "samræmdan spuna". Þar bendir hann á, að kratar hafa upp á síðkastið streymt hér fram með alls konar bloggsíður, þar sem rætt er um pólítík og kosningar. Telur Pétur upp nokkrar slíkar. Hann segir:

Samfylkingin er komin langt á undan öðrum flokkum í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna. Hún auglýsir nú grimmt í blöðum, nánast daglega. Hún hefur skipulagt og miðstýrir fjölmörgum bloggsíðum hér á moggablogginu. Loks stendur nú yfir skipulögð greinaherferð í blöðum þar sem hver Samfylkingarmaðurinn og - konan á eftir öðrum úrfærir spunann um það að Ingibjörg Sólrún sæti einhverju sérstöku einelti í pólitískri umræðu. Það er ein svona grein í Fréttablaðinu í dag og í Mogganum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, um þetta sama. Um daginn var svo Hallgrímur Helgason með makalausa grein í þessum anda. Bloggfærslurnar eru fleiri en ég kem tölu á en nærtækast er að nefna að truno.blog.is var að því er mér sýnist stofnað til þess að halda þessari umræðu á lofti.

Mér finnst þetta athyglivert. Vegna þessa hefur Eygló Harðar, sem missti sæti í framboði Framsóknar á "Suðurlandi" hafið umræðu um pólítíkina hér á moggabloggi, og m.a. lagt til, að þeir, sem skrifa hér um pólítík, greini frá því hvar í pólítík þeir standi, svo menn geti lesið skrif þeirra í réttu ljósi.

Já, ef maður les topplistann sér maður, að framsóknarmenn, eða aðilar tengdir honum, virðast vera hlutfallslega flestir, a.m.k. á toppnum. Vinstri grænir eiga nokkra fulltrúa þar (topp 50), en frekar fáa, enda skrifa ofurbloggarar þess flokks á Múrnum eða annars staðar. Og kratarnir eru að koma sterkir inn, en við sjálfstæðismenn erum hlutfallslega fámennir, ef tekið er mið af fylgi flokksins á landsvísu. Þá á ég við menn, sem vitað er að hafi starfað á vegum flokksins.

Sjálfur er ég félagi í Sjálfstæðisflokknum, ég gekk í hann 1991 til að kjósa frænda minn í prófkjöri. Það var mér sársaukalaust, því hann stendur hugsjónum mínum næst. En síðan hef ég þó aldrei mætt á neina stjórnmálafundi flokksins, nema að því leyti, að ég hef fengið boð á Landsfund nokkrum sinnum, en skilað umboði mínu inn við upphaf fundar, því mér hefur fundist ég ekki eiga skilið að taka þar sæti, eftir að hafa aldrei tekið neinn þátt í störfum flokksins.

En jæja, pólítískt séð líkar mér best við blogg Gísla Freys, Hjartar sveiflukóngs, Friðjóns og þeirra stráka. Nokkrir ungliðar hafa einnig verið að koma inn, en ég þekki minna til þeirra. Síðan verð ég að nefna líka blogg framsóknarmannsins Sveins Hjartar, en hann er svona temmilega íhaldssamur, eins og ég sjálfur, og set í heiðurssætið ofurbloggarann, Björn Bjarnason, sem vitaskuld er kóngur pólítískra bloggara.

Jæja, ég vona að menn geti nú lesið bloggið mitt með nægjanlegum upplýsingum um minn pólítíska bakgrunn. En ég skrifa minnst um pólítík, heldur er ég að þessu mér til gamans, og set inn athugasemdir við ýmis mál, lauma inn youtube.com myndböndum, sem mér þykja athygliverð eða fyndin (ég er með sérstakan flokk sem heitir "aulahúmor"!), og margs konar upplýsingum. Stundum lauma ég inn fræðilegum greinum, þó aðallega um atburði í Miðausturlöndum, þar sem ég bjó um tíma og var bæði í námi og einskonar vinnu. En fyrst og fremst er þetta blogg sjálfum mér til skemmtunar og vinum mínum til angurs, en t.d. er "þessi stöðugi áróður gegn Samfó", eins og einn þeirra orðaði það, fyrst og fremst skrifaður til að ergja nokkra krata í þeim hópi, og einstaka leiðinlega krata þar utanvið, menn sem ég kallaði forðum "þjóhnappakrata" og ekki að ástæðulausu.

Ég hef síðan verið tiltölulega jákvæður í garð VG og Framsóknar. Ég stend að sumu leyti nærri þeim síðarnefndu í ýmsum málum, en er nánast andsnúinn öllu sem VG stendur fyrir, nema andstöðunni til ESB og einstaka velferðarmál. En ég met þann flokk, þrátt fyrir allt, fyrir að hafa ljósa stefnu og hnika ekki frá henni, a.m.k. ekki mikið! Það sama er ekki hægt að segja um Samfó og er vingulsháttur kratanna ein helsta ástæða þess, að ég hef lítið álit á þeim flokki og formanni hans. Nú, ég hef lítið álit á Frjálslynda flokknum, og þá fyrst og fremst vegna þess, að mér hefur fundist sá flokkur gjörónýtur og málsvarar hans á þingi fyrir neðan allar hellur, formaðurinn þó skástur. Og ekki bætir úr skák, að lið þetta virðist stundum ekki vera í sambandi við raunveruleikann og reyna að skreyta sig vafasömum fjöðrum til fylgisaukningar.

En jæja, nú er komið að ábót á kaffið, þar sem ég sit hér með tölvuna á BSÍ, umkringdur leigubílstjórum og útigangsmönnum.

Adios

 


Bullandi stemning hjá stjórnarandstöðunni?

nullJæja, þetta hlýtur að vera ótrúleg niðurstaða hjá Steingrími Joð, að það sé stemning í að fella stjórnina? Ég veit ekki betur en, að meðal stjórnarandstöðunnar sé jafnan stemning fyrir því, að fella stjórnina, sér í lagi vikurnar fyrir kosningar.

Ég hef þó ekki orðið mikið var við þessa stemningu, nema meðal einstakra málsvara andstöðuflokkanna. Undantekningin er kannski sá áhugi meðal áhrifamanna í stjórnarandstöðuflokkunum um, að sparka Framsókn út og gerast "hækja" Sjálfstæðisflokksins, eins og kratar og kommar kalla yfirleitt þennan fylgislitla bændaflokk. Einstaka menn vilja síðan mynda vinstri stjórn  afturhaldskommatitta og nýkommúnista. Slíkir hafa hátt, en ég efast um að margir trúi slíkum niðurstöðum kosninganna.

En hér að ofan birti ég mynd sem ég tók af stemningsfundi stjórnarandstöðuflokkanna nýverið.


mbl.is Steingrímur: Bullandi stemning fyrir því að fella ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnlausa lögfræðibréfið!

Jæja, hér er nú bréfið, tekið af vísi.is. Þetta er annað nokkur merkileg lesning og má þar ráða ýmislegt, s.s. að bréfritarar telji að Baugsmenn hafi verið á heimavelli þarna og að dómarar hæstaréttar séu heimadómarar. Jafnframt eru þarna á ferðinni mjög alvarlegar ásakanir. M.a. segir:

 Enn eru þeir sem segja að meirihluti dómara Hæstaréttar sé að hefna sín. Þeir eru reiðir yfir því að hafa ekki fengið að ráða nýskipunum dómara í réttinn að undanförnu.

Þar koma einkum til skipanir Ólafs Barkar, frænda Davíðs, og Jóns Steinar, vinar Davíðs. En merkilegt þetta allt saman. Hér á áratugum áður skipuðu hinir pólítísku herrar í stöður dómara, bæði við Héraðsdóm og Hæstarétt, og þá oft á tíðum vini sína og jafnvel flokksbræður. Ég man ekki eftir því, að það hafi verið vandamál eða mikið rætt, og hef ég nú skannar dagblöð landsins nær alla síðustu öld. Minnir þó að það hafi orðið einstaka mál, t.d. þegar Jónatan Hallvarðsson var skipaður í eitthvert dómarastarf, en þori þó ekki að fara með það.

En a.m.k. skal ég taka undir, að frammistaða Ísbergs er skuggaleg, þó ekki sé meira sagt, sér í lagi hvað snertir Sullenberger. En um aðra dómara þarna hef ég ekki mótað mér skoðun.

Þetta er annars athygliverð lesning, en það rétt hjá bréfritara, að hann er heigull að skrifa ekki naf sitt undir. Hann hlýtur að hafa hagsmuna að gæta, að ergja ekki dómara. Ergo: hann virðist vera lögfræðingur.

Getur verið að hann sé líka Framari?

 


mbl.is Áttu stuttan fund um nafnlaust bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagbók frá megrunarhælinu

Þetta var langt og erfitt ferðalag, alla leið suður til svissnesku Alpanna. Flogið var um London og Zurich, og síðan lest tekin upp til Fatzerie, rétt við svissnesk-frönsku landamærin. Ég fékk herbergi í þeirri álmu megrunarhótelsins, sem hýsir fátækari gestina, þarna voru t.d. nokkrir Pólverjar og aðrir Austur-Evrópumenn, sem fengu styrk frá ESB til að sækja þetta megrunarátak.

Ég svaf ágætlega um nóttina í sérstyrkta rúminu mínu. Fannst það þó dálítið hart, enda ætlast til að gestir hafi sjálfir yfir nægri mýkt að ráða. Um morguninn var haldið til morgunverðar, þar sem hver og einn fékk eina hrökkbrauðssneið, með engu áleggi, og vatnsglas. Síðan var farið út að hlaupa. Flestir áttum við fitubollurnar í erfiðleikum með prógrammið, nema hvað tveir menn, greinilega ekki meðlimir í Frjálslynda flokknum, höfðu töluvert forskot á okkur hina og voru komnir aftur heim á hótelið, búnir að taka sturtu og komnir í rafmagnstækin, þegar við hin skriðum inn í anddyrið.

Við mættum nokkru síðar í tækjasalinn, og þá voru þeir að klára prógrammið þar. Annar þeirra, sköllóttur, glotti til okkar svo skein í frekjuskarðið, og tók hinn undir og sýndi góminn, ásamt því að hrista taglið aðeins.

Öll mættumst við síðan í matsalnum, þar sem matseðlinn blasti við okkur: harðfiskur með gervisúkkulaði. Ég er rétt búinn með skammtinn og er kominn upp á herbergi til smá hvíldar og ákvað þá að blogga aðeins, meðan ég hefði tíma.

Jæja, læt þetta nægja í bili.

Kv

Snorri feiti

 

 


mbl.is Á Ronaldinho í baráttu við aukakílóin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Saga Hotel áður melluhótel?

sagahotel Já, smá nafnadæmi.

Þegar við skákstrákarnir fórum á Norðurlandamót í skólaskák forðum var það regla, að flogið var um Kaupmannahöfn og gist þar amk yfir nótt. Jafnan var gist á Cosmopole eða öðrum hótelum í eða við Colbjornsensgade, nærri járnbrautarstöðinni. Einu sinni sem oftar vorum við með glugga út að Istedgade, beint gegn "hættulegasta horni Evrópu", þar sem fram fór vændi, dópsala (þ.e. hryðjuverkastarfsemi!) og fleira slíkt.

Við skemmtum okkur við það stundum, að horfa út um gluggann og veðja um, hvort ákveðin mella næði kúnna. Eftir samtal fóru hvort um sig ólíka leið, til hægri eða vinstri, en fóru síðan bæði inn á Gala hotel, sem stóð aðeins innar í Colbjornsensgade. Bingó.

Nú, jæja, síðan gerði löggan razziu og lokaði Gala. Málið dautt. En 1991 fórum við sagnfræðinemar í vísindaferð til Köben og fengum hótel á vegum Veraldar, held ég að það hafi þá heitið - fyrirtæki Andra Más Ingólfssonar. Það hét Saga hotel - Hótel Saga þeas. Og mér til furðu, var það sama hótel og áður var melluhótelið Gala Hotel.

Ég vildi bara deila þessari sögu rétt til skemmtunar, í því ljósi að Hótel Saga í Reykjavík hefur nú úthýst klámhundunum og ætlar nú að úthýsa klámmyndunum líka.


Nafnlausa bréfið

Maður fær nú alveg sjokk við að lesa svona frétt. Hvað gengur mönnum eiginlega til? Ég er alltaf á móti nafnlausum bréfum, mér finnst þau heigulsleg, jafnvel þegar menn skrifa undir dulnefni. Ef menn þora ekki að koma fram undir nafni, eiga menn bara að þegja.

Þetta á sérstaklega við, þegar koma fram grófar ásakanir á hendur mönnum. Ég neita að trúa því, að dómarar reyni ekki amk að vera hlutlausir og láta persónulegar skoðanir sínar á mönnum og málefnum hvíla utan garðs.


mbl.is Óskar eftir fundi vegna nafnlauss bréfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundur VG

imagesCAT44SI9Jæja, nú vill VG setja í lög, ef ég hef skilið þetta rétt, að jafnt hlutfall verði milli kalla og kvenna í stjórnum fyrirtækja, á Alþingi og vísast þá einnig í ríkisstjórn.

Þetta er í fyrsta lagi óframkvæmanlegt, í öðru lagi heimskulegt, í þriðja lagi niðurlægjandi fyrir konur, að mínu mati.

Það getur varla verið uppörvandi fyrir konur, að eina leið þeirra til áhrifa komi vegna kynferðis þeirra, ekki hæfileika. Persónulega finnst mér konur a.m.k. ekki síðri stjórnendur en karlar, reyndar tel ég, af fenginni reynslu, að konur séu að mörgu leyti betri stjórnendur. En að mínum dómi á að velja hæfasta einstaklinginn hverju sinni í hvert starf, burtséð frá kyni, trúarbrögðum, litarhætti, uppáhalds liði í enska boltanum, osfrv. Ef tveir sækja um stjórnunarstarf, einn MBA og skúringarkona, á þá að ráða skúringarkonuna með barnaskólapróf, bara af því að það eru fleiri karlar í sambærilegum stöðum í sama fyrirtæki. Eða ef báðir umsækjendur hafa sama próf og svipaða reynslu, á þá að ráða konuna, bara af því að hún er kona? Það eru mannréttindabrot á karlinum. En varðandi stjórnir fyrirtækja: nú veit ég ekki nákvæma útlistun á þessu hjá VG, en tökum fjölskyldufyrirtæki sem dæmi; þar eru hjón um sextugt, og þrír ógiftir synir. Þessi fimm sitja í stjórn. Hvers vegna ætti að troða einhverjum óviðkomandi konum í stjórnina? Jafnvel hjá fyrirtækjum á markaði, þá efast ég um að þetta sé framkvæmanlegt. Ég neita hreinlega að gútera það, að VG vilji koma á sovéti með valdi. Hafa sósíalistar ekkert lært af sögunni? Það er ekki hægt að koma á breytingum til sæluríkis Marx með valdi, með kúgunum, með því að stjórnvöld neyði venjulegt fólk til að afsala sér réttindum.

Persónulega vil ég hafa fleiri konur á Alþingi en nú er. Mér finnst þær oft koma með sjónarhorn, sem við kallarnir höfum ekki. Því fagna ég t.d. því, að sjá kjarnorkukonur koma inn á þing frá VG, t.d. í Reykjavík og á Reykjanesi. En þessu á ekki að handstjórna, eins og VG gerir með kynjakvóta, heldur á að kjósa hæfasta fólkið í hvert sæti -  eða öllu heldur, þá sem hæfastir eru að smala eða hafa sýnt af sér hæfileika.

Fleiri mál ætlar VG að bera fram fyrir þjóðina. Mér lýst ekki á pakkann. Ég hef hér áður boðað, að vænlegasti stjórnarkosturinn í vor verði Sjálfstæðisflokkur og VG, þ.e. ef núverandi stjórn fellur og jafnvel þótt hún standi með naumum meiri hluta. En ég er ekki viss öllu lengur. Ég efast hreinlega um, í ljósi stefnumála VG á þessu þingi, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi samleið með flokknum. Sjallar hafa allt frá upphafi staðið gegn kommúnisma og getur því varla samþykkt hann nú, þótt nú sé um að ræða "ný-kommúnisma". Flokkurinn mun aldrei getað samþykkt, að afmá einstaklingsfrelsi þegnanna. Og VG er vísast ekki tilbúið að slaka mikið á stefnu sinni. Stjórn D og U mun því vísast ekki komast á koppinn í vor.

imagesÞá eru tveir kostir í stöðunni: vinstri stjórn, vísast undir forystu Steingríms Joð, eða ný "viðreisn". Seinni kosturinn er skárri fyrir þjóðina. En mér er ekki rótt.


Bloggið í Egyptalandi

Ég skal játa það, að þetta kemur mér nokkuð á óvart. Hélt að Egyptaland væri komið lengra en þetta. En þegar maður fer að hugsa aðeins aftur, hefði maður svosem ekki átt að vera hissa. Mannréttindi eru því miður ekki í hávegum höfð í Egyptalandi, þar sem ástandið er þó einna skást meðal arabaríkjanna við botn Miðjarðarhafs.

En það er greinilega ekki tekið út með sældinni að vera bloggari.


mbl.is Egypskur bloggari dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna móðgunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggert Magnússon skrifar: merkilegt!

eggertSlá á myndina til að sjá bréfið í stærri útgáfu, eða slá hér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband