"Strákurinn hans Sigursteins"

Magnús (Sigursteinsson) Magnússon er látinn.

Ég er viss um, að margir muni minnast hans hér á blogginu, en ég vil aðeins fá að rifja upp nokkur atriði, sem ég held að fáum séu kunn.

Faðir Magnúsar, Sigursteinn Magnússon, starfaði ekki aðeins á vegum einkaaðila í Edinborg, heldur einnig á vegum íslenska ríkisins. Hann var ræðismaður Íslands í Edinborg og hef ég lesið margar frásagnir af gjörðum hans þar. Sigursteinn var, samkvæmt þessum frásögnum, óvenjulega vel gerður maður, samviskusamur og duglegur, ráðagóður þegar á bjátaði og heiðarlegur. Hann sinnti starfi sínu vel, bæði fyrir SÍS og íslenska ríkið. Hann þjónaði vel þeim Íslendingum, sem þurftu á hjálp að halda, ekki síst á tíð síðari heimsstyrjaldar. Áður en Íslendingar komu upp sendiskrifstofu - síðar sendiráði - í London, þar sem m.a. Stefán Þorvarðsson áður ráðuneytisstjóri og Pétur Benediktsson störfuðu, var Sigursteinn í raun og veru fulltrúi Íslendinga í Bretlandi. Ég man ekki eftir að hafa séð neinn tala illa eða niðrandi um þennan öðlingsmann.

Ég man sérstaklega eftir nokkrum frásögnum Íslendinga, sem flúðu frá Evrópu á tíð Hitlers, til Svíþjóðar og þaðan með "ensku flugvélinni" til Bretlands. Þar tók Sigursteinn jafnan á móti þeim, og stundum með lítinn gutta með sér. Þá tók stundum "strákurinn hans Sigursteins" undir töskur ferðalanganna og hjálpaði föður sínum að greiða leið þessa fólks, þá aðeins ungur að aldri. Þar hlýtur Magnús að hafa átt í hlut.

Fleiri frásagnir eru til af störfum Sigursteins frá því eftir stríð, en þá tók að togna úr stráknum og gekk hann menntaveginn og hvarf sjónum þeirra gagna, sem ég hef undir höndum. En eplið fellur sjaldan langt frá eplatrénu. Magnús var verðugur fulltrúi Íslands á erlendri grundu, hélt íslensku ríkisfangi sínu og tengslum við Ísland. Það er meira en flestir aðrir gerðu, þeir sem búsettir voru nær allt sitt líf í framandi landi.

Ég er stoltur af Magnúsi Magnússyni og lít með þakklæti á störf hans, og fjölskyldu hans, í þágu Íslendinga og Íslands á umliðnum áratugum. Megi minning hans lifa.


mbl.is Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband