Ný sókn frjálslyndrar jafnaðarstefnu?

 Já, á landsfundi Samfylkingarinnar 2005 segir m.a.:

Samfylkingin lítur á það sem höfuðverkefni að hafa forystu um að fella þá ríkisstjórn misskiptingar og valdbeitingar, sem nú situr, í næstu þingkosningum, og leiða frjálslynda velferðarstjórn sem einsetur sér að auka félagslegt réttlæti í landinu, treysta stöðu fólks á vinnumarkaði og stuðla að launajafnrétti í reynd.

Höfuðverkefni Samfylkingarinnar, frá stofnun hennar, var að komast til valda. Til þess var flokkur þessi stofnaður. Og þetta var samþykkt undir kjörorðinu: "Ný sókn frjálslyndrar jafnaðarstefnu". En einhverra hluta vegna virðist þetta ekki ætla að ganga eftir. Hugsanlega vegna þess, að það er ekki nóg að hafa "frjálslynda jafnaðarstefnu" í titlinum og á blogginu hjá Össuri, þegar formaðurinn virðist með hverju skrefi rifja upp fleira og fleira úr fortíðinni, þegar hann, eða öllu heldur hún, vildi bylta þjóðfélaginu og ríkisstjórninni, með róttækum aðferðum, ef rétt hefur verið haft eftir. Með öðrum orðum; Samfylkingin hefur þokað sér hljóðlega til vinstri, burt frá frjálslyndri jafnaðarstefnu í áttina að gamaldags sósíalisma með örlitum breytingum.

"Jafnaðarstefna" er reyndar íslenska orðið yfir "sósíalismi". Ég er ekki viss um hver bjó til þetta orð á íslensku, en ég veit að Valdimar Ásmundsson, faðir Héðins síðar alþm., fjallaði nokkuð um sósíalista og menn með skyldar skoðanir, og sagði að þessir hópar stefndu að jöfnuði -- væri semsagt jafnaðarmenn. En ég veit ekki hvort þetta orð kom þaðan. Hugsanlega hefur Pjetur G. Guðmundsson, forvígismaður jafnaðarstefnunnar á Íslandi, búið þetta orð til, þegar hann neyddist til að útskýra stefnumál málgagns verkalýðssinna við upphaf 20. aldar, þegar blaðið var skyndilega ásakað um að vera óþjóðhollt -- og vilja ekki taka undir helstu kröfur um tafarlaust sjálfstæði frá Dönum. Jafnaðarmenn voru síðan gjarnan ófúsir að nefna sjálfstæði, fyrst 1918 (en í stefnuskrá Alþýðuflokksins var talað gegn tafarlausu sjálfstæði frá Dönum og því ekki breytt fyrr en með stefnuskránni 1922), siðan 1944 og nú vilja jafnaðarmenn formlega séð afleggja sjálfstæði landsins og ganga í Bandaríki Evrópu, rétt eins og foringi jafnaðarmanna, Ólafur Friðriksson, mælti með, beint eða óbeint, í Stefnuskrá jafnaðarmanna (1915), ef ég hef lesið rétt. Ólafur var fyrsti "Evrópusinni" Íslendinga...síðar vildi hann reyndar tengjast Moskvuvaldinu, en sá sem betur fer að sér.

En jafnaðarstefna, sósíalismi, er aðeins annað orðið á sömu merkingu. Sósíalismi var það orð, sem franskir baráttumenn notuðu, einstaka sinnum í frönsku byltingunni, en síðan á árunum eftir 1800, aðallega þegar Saint Simon og félagar voru að prédika félagslegan jöfnuð, já, og Louis Blanc og fleiri. En þegar hugmyndafræði sósíalismans var bókfærð í fast kerfi, var það kallað kommúnismi. Fram undir 1900 var í raun enginn munur á orðunum "sósíalismi" og "kommúnismi". Síðar þróaðist það svo, að sósíalistar klofnuðu í meginatriðum í þrjár fylkingar; sósíaldemókrata (endurskoðaunarsinna að hætti Bernsteins og félaga), miðju-sósíalista (Ramsey McDonald og fleiri) og síðan byltingarsinna, þar sem syndikalistar, anarkistar og bolsévíkar voru fyrirferðamestir, en blönduðust stundum innbyrðis. Þeir síðastnefndu tóku síðan yfir hugtakið "kommúnismi", en aðrir héldu hinu gamla, sósíalismi, sem dregið er af "socius", sem merkir "félagi". Þannig er einnig komin félagshyggja, vísast eftir einhverjum leiðum.

En hvað er þá "frjálslynd jafnaðarstefna"? Er það sú stefna, sem Frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi  kynnti á flokksþingum sínum á árunum eftir 1900, eða stefna breska Verkamannaflokksins c.a. 1911, þegar hann tók upp einskonar frjálslyndan sósíalisma. Á 19. öld gerðu menn lítinn mun á frjálslyndi og sósíalisma, fylgismenn beggja stefna voru þá í aðalatriðum sammála um helstu markmið og hverju þyrfti að breyta í samfélaginu (þ.e. í Evrópu).

Jafnaðarstefnan á Íslandi var í raun aldrei verulega frjálslynd, þó "frjálslyndi" hafi oft á tíðum verið notað um stefnu ísl. sósíalista, en aldrei af miklu sanngirni, að mér finnst amk. Kjarni stefnu sósíalista bauð upp á hömlur á athafnafrelsi einstaklinga, ríkisrekstri og allskyns ófrjálslyndi öðru. Síðan tóku sósíalistar að jafna sig á þessu, sér í lagi kratarnir, sósíaldemókratar, og þá helst þegar þeir gengu með Sjálfstæðisflokknum til stjórnar 1959. Gylfi Þ. Gíslason hefur rætt þetta í góðri bók sinni um viðreisnarárin. Á viðreisnarárunum varð Alþýðuflokkurinn töluvert frjálslyndur, í einhverri merkingu þess orðs... á árunum þegar hann fylgdi sama straumi og þeir, að breyta þjóðfélaginu úr hafta- og hamlasamfélagi, og til frelsis á sem flestum sviðum. En þetta gekk hægt, því skrefin voru bæði smá og stutt.

En síðan gerðist það, að Framsóknarflokkurinn tók upp á arma sína frjálslynda félagshyggju, og færði sig smám saman í það far, sem Alþýðuflokkurinn hafði á viðreisnarárunum, þegar gamla Keynes-hyggjan var aflögð með Steingrími Hermannssyni. Upphófst nú ný "viðreisn", en án kratanna, sem fylgdust með úr fjarlægð, en fengu ekki að vera með. Vinstri menn reyndu nú að sameinast í einn flokk, þar sem hófsamir og róttækir sósíalistar kæmu saman, þ.e. afturhvarf til áranna 1918-1930, með smá tíðarandabreytingum. En þeir róttækari vildu ekki setjast að þessu borði, og í sjálfu sér var það ekki að undra. Nú hélt þetta áfram. Lengst til vinstri stóð "vinstri sósíalistaflokkur" og nokkrum fetum innar "sósíaldemókrataflokkur". Ekkert hafði breyst, nema nú vantaði byltingarsinnana, en þeir, Ingibjörg Sólrún og fleiri, hurfu smám saman neðanjarðar, aflögðu fyrri skoðanir sínar eða þögðu um þær. Í B.A. ritgerð sinni fjallaði Ingibjörg um "samfylkingartímann" og komst að þeirri niðurstöðu, í grófum dráttum, að kratarnir hefðu eyðilagt allt saman. Að vísu fór hún þar halloka á ýmsum heimildum og ályktunum, og hefur vísast skipt um skoðun núna. En þá kenndi hún krötunum um, að hafa eyðilagt samfylkingu jafnaðarmanna og klofið Alþýðuflokkinn.

Síðan var komið í Kryddsíldina...þegar meint og væntanleg samfylking jafnaðarmanna í stjórn, vísast ásamt "frjálslyndum jafnaðarmönnum", þ.e. Frjálslynda flokknum, sprakk í loft upp. Var sú "sprenging" enn "sósíaldemókrötum" að kenna, eða "kommunum"? Hvor var það, Steingrímur Joð eða Ingibjörg Sólrún, sem að þessu sinni kom í veg fyrir "samfylkingu jafnaðarmanna", eins og allskonar fólk vildi koma á koppinn 1937-1938 - gegn hægra brosi Hriflu-Jónasar og íhaldinu. 1938 strandaði raunveruleg samfylking jafnaðarmanna á því, að sumir vildu innleiða hér stjórnkerfi og yfirþjóðlegt vald erlendra aðila, þá Ráðstjórnarríkjanna. Mun samfylking jafnaðarmanna 2007 stranda á því sama... þegar Kreml hefur breyst í Brussel?

Og hver er þá "sókn frjálslyndar jafnaðarstefnu" þegar erfitt er, í fyrsta lagi, að átta sig á því, um hvaða stefnu er verið að ræða. Frjálslyndur sósíalismi er í sjálfu sér mótsögn, því annað hvort eru menn frjálslyndir eða sósíalistar, nema menn reyni að grundvalla sig á nýrri tegund sósíalisma, stefnu sem í raun er ekki sósíalismi, jafnaðarstefna, heldur einhver bræðingur, sem fylgjendurnir sjálfir eiga stundum erfitt með að átta sig á. Og þess vegna þurfa þeir að ganga fyrir nýtískulegu eldsneyti, sem kallast skoðanakannanir.

Stefna Samfylkingarinnar er í raun ekki jafnaðarstefna, eins og hún var búin til upphaflega. það er í raun eðlilegt, því stjórnmálastefnur breytast í tímans rás. Þannig tók Frjálslyndi flokkurinn í raun yfir Íhaldsflokkinn 1929 og úr varð Sjálfstæðisflokkurinn - frjálslyndur íhaldsflokkur! En hvað á barnið að heita, þegar frjálslynd jafnaðarstefna er hvorki frjálslynd né jafnaðarstefna...ef miðað er við hinar klassísku skilgreiningar þessara hugtaka.

Hér á blogginu var minnst á orðið "nýkonnar", þ.e. "ný-íhaldsmenn - neo-conservatives" í tengslum við grein VL í Lesbókinni (þar sem þetta var stafað "nýkommar", vísast af prófarkalesara). Eins mætti nefna þessa samsuðu Samfylkingarinnar úr hægri og vinstri í rauðahafssokkið miðjumoð "ný-sósíalismi" eða "ný-jafnaðarstefna" eða "þriðja leiðin"....eða "nýkommar", eins og réttast væri að kalla hana. Spurning er þá, hvort það verða "nýkonnar" eða "nýkommar" sem munu standa uppi með pálmann í höndunum í vor?

Og nú er ég kominn í hring um sjálfan mig, eins og hundurinn sem elti skottið á sér...og held að þá sé best að hætta...en niðurstaðan úr þessari flækju er, að "nýkommarnir" í Samfó hafa haft þrjá formenn, ef ég man rétt, allt gamla "komma". Það er ekki nóg að breyta bara um nafn...til að sækja fram, að þessu sinni, þarf að skipta um fólk. Hvernig eiga nýkommar að sækja fram, með sama gamla vælið í farteskinu, og sama gamla fólkið að breiða það út? Það er ekki nog að skipta um umbúðir, þegar söluvaran er komin yfir síðasta söludag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband