Aftökur í Írak

irakJæja, ég var víst meðal þeirra fáu, hér á blogginu, sem var ekkert mjög ósáttur við aftöku Saddams Husseins, var henni reyndar frekar hlynntari en hitt. Eins og aðrir er ég þó og var andvígur aftökum, en leyfi fyrir mitt leyti undantekningar, eins og í tilviki Saddams og einstakra annarra stórfelldra glæpamanna.

Aftökur eru, sem betur fer, frekar sjaldséðar í hinum vestræna menningarheimi, það er helst að einstaka ríki í Bandaríkjunum noti þessa aðferð til að losna við glæpamenn. En þær aftökur get ég að jafnaði illa sætt mig við og finnst vera smánarblettur á bandarísku réttarkerfi. Aftökur eru á hinn bóginn tíðar í löndum eins og Kína, og síðan í mörgum löndum íslams og í einstaka löndum öðrum. En einnig má benda á, að sums staðar er jafnvel enn ómannúðlegra að dæma menn í lífstíðar fangelsi, þar sem aðstæður eru svo slæmar, að lífstíðardómur jafngildir dauðadómi.

En varðandi fauta þessa, sem störfuðu með Saddam. Ef menn líta til t.d. Nurnberg réttarhaldanna þá var ólíku saman að jafna. Þar voru nánustu samstarfsmenn Hitlers teknir af lífi (ef þeir drápu sig ekki sjálfur fyrir aftöku), aðrir geymdir í Spandau fangelsinu, og sumir sluppu vegna skorts á sönnunum. Þar kom til, að menn þessir höfðu oft á tíðum farið jafnvel á undan Hitler og stundað glæpi gegn mannkyninu á eigin reikning, vitandi að þetta væri Foringjanum vegsamlegt. En maður spyr sig, hvaða ábyrgð þessir einna nánustu samstarfsmenn Saddams báru á ógnaröldinni í Írak. Voru þeir að fylgja skipunum Saddams, eða ráku þeir "sjálfstæða starfsemi". Ég hef ekki kynnt mér málið nægjanlega vel til að taka afstöðu hvað þetta snertir, en mig grunar þó að þessir tveir hafi verið á sama stalli og samstarfsmenn Hitlers. Þeir vissu hver heildarsýn Foringjans var, stefna hans og markmið. Þeir vissu, að veldi þeirra varð að vernda skilyrðislaust og sáu því gegnum fingur sér með morð og aðrar athafnir. Allt var löglegt til að vernda stjórnina, og auðga þá, sem þar sátu við kjötkatlana.

Ef við berum glæpi þessara manna saman við t.d. glæpi þá, sem framdir voru á Balkanskaga um og eftir 1990, er ólíku saman að jafna, þó morð sé morð, sama hver drýgir eða fremur. Á Balkanskaga var stríð, þar sem fólk skiptist í "við" og "hinir". Og "hina" varð að knésetja. En í Írak voru Saddam og kumpánar hans að drepa og kúga eigin þegna, og það í stórum stíl. En menn geta síðan metið það fyrir sig, hver og einn, hvort sé alvarlegra, að myrða eigin þegna eða "hina" - óvinina, sé einhver munur þar á, siðferðislega séð.

Ég veit satt best að segja ekki hvað mér á að finnast um dauðadómana yfir þessum tveimur glæpamönnum. Ég hallast þó frekar að því persónulega, að þessa náunga eigi að loka inni, en mín skoðun ræður engu í þessu. Væri þó ekki ágætis lausn, að sleppa a.m.k. flestum Guantanamó-föngum, og hola þessu hyski þarna niður? En á móti kemur, að menn þessir eru Írakar og eiga víst að dæmast eftir íröskum lögum, sem meira eða minna voru sett af þeim stjórnarherrum, sem nú eru dæmdir. Annað er, að hingað til hefur það ekki þótt mikið tiltökumál í hinum íslamska heimi, að taka glæpamenn af lífi, eða fallna stjórnarherra. Því má ætla, að jafnvel þótt Bandaríkjamenn reynist óviljugir að hola þeim niður nokkur fet, er líklegt, að núverandi stjórnvöld í Írak verði því andsnúin, enda er þetta fyrst og fremst íraskt innanríkismál, þótt ýmsir aðilar hafi viljað gera úr því áróðursboðskap gegn Bandaríkjunum. Brot þessara manna voru gegn Írökum og því eiga Írakar sjálfir að dæma þá. Og ef Írakar vilja hengja þá eins og hunda, hlýtur sú lausn að verða niðurstaðan, þegar öll kurl verða komin til grafar, sama þótt einhver muppets í Evrópu eða annars staðar rísi upp og mótmæli.


mbl.is Aftökum í Írak frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband