Þegar Saddam gerðist njósnari CIA!

Don'tEatSaddam Hussein Abd al-Majid al-Tikriti  fæddist 28. apríl 1937 í bænum Al-Awja, nærri borginni Tikrik, inn í fjölskyldu súnníta. Faðir hans, Hussein Abd´ al-Majid stakk af þegar Saddam var enn í móðurkviði og skömmu síðar lést eldri bróðir hans, 13 ára, úr krabbameini. Móðir hans gat ekki séð ein um strákinn og sendi hann til bróður síns, Khairallah Talfah, sem ól Saddam upp fyrstu þrjú árin. Móðir hans giftist þá aftur, manni að nafni Ibrahim al-Hassan, og eignaðist með honum þrjá sonu; en a.m.k. tveir þeirra sitja nú í fangelsi í Írak, fyrir þátt sinn í ógnarstjórn Saddams. En Hassan var vondur við Saddam litla, sem flúði tíu ára gamall til Talfah, sem ól hann upp og veitti honum síðar dóttur sína að konu.

Talfah þessi var maðurinn sem bjó til Saddam. Hann var ákafur og róttækur þjóðernissinni, af þeim hópi sem stutt hafði Möndulveldin í seinni heimsstyrjöld og staðið m.a. að byltingu í Írak, en Bretar höfðu barið hana niður og komið Hashemítum aftur til valda, þ.e. af þeirri ætt, sem nú ríkir í Jórdaníu. Saddam var um tvítugt þegar hann gekk í Baath flokkinn, flokk þjóðernissósíalista, sem höfðu þá stefnu að sameina Araba í einskonar þjóðernislegt kalífadæmi; nýtt stórveldi, sem staðið gæti uppi í hárinu á Vesturlöndum og öðrum óvinum.

En síðan komst Nasser til valda og byltingaraldan barst víða um Miðausturlönd. 1958, ári eftir inngöngu Saddams í Baath-flokkinn, gerðu herforingjar, undir stjórn Abdul Karims Kassims byltingu og steyptu Faisal II Hashemíta. Þeir frændur voru af ýmsum ástæðum andvígir hinni nýju stjórn og var Saddam þátttakandi í tilraun til að ráða Kassim af dögum, með stuðningi Bandaríkjanna, enda hafði Kassim farið að halla sér að Sovétríkjunum. Saddam særðist á fæti, en komst undan til Tikrit, með aðstoð CIA (!!) og egypskra leyniþjónustumanna. Hann komst til Sýrlands og þaðan áfram til Beirút, þar sem hann fór í þjálfun hjá CIA, og áfram til Egyptalands. Þá, 1959, var Saddam Hussein útsendari CIA og þarmeð Bandaríkjastjórnar. En fljótt skipast veður í lofti. Þetta merkilega mál er rakið hér, lesendum til glöggvunar, en um ævi og störf Saddams má einnig fræðast á Wikipediu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Magnússon

Fyrir áhugamenn um Írak og Saddam Hussein er vert að benda á bókin The Iraq War eftir John Keegan, virtan hernaðarsagnfræðing sem skrifar að staðaldri í Daily Telegraph. Fyrri hluti bókarinnar reifar á aðgengilegan hátt sögu Íraks á 20. öld og blóði drifinn uppgang Saddams.

Andrés Magnússon, 30.12.2006 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband