Leslie Lynch King jr. látinn

Hann fæddist Leslie Lynch King jr. í Omaha, Nebreska, 14. júlí 1913, en áður en hann fagnaði sínum fyrsta afmælisdegi höfðu foreldrar hans skilið. Móðir hans giftist þá aftur, manni að nafni Ford. Hann tók þá upp nafnið Gerald Rudolff Ford, eftir stjúpföður sínum. Ford varð ágætis íþróttamaður og komst á íþróttaskólastyrk til University of Michigan, þar sem hann lauk BA-gráðu. Hann hélt áfram námi og kláraði laganám við Yale-háskólann.

Ford þjónaði í bandaríska flotanum á tíð síðari heimsstyrjaldar. Við heimkomuna hellti hann sér út í stjórnmálin með heimssýn, sem þótti full frjálsleg. Fyrir stríðið höfðu Repúblikanar almennt verið einangrunarsinnar, þjóðernissinnaðir, þröngsýnir og nánast fastir í þeirri heimsmynd, sem þróast hafði í lok fyrra stríðs. Ford kom með nýjan og ferskan andblæ inn í stjórnmálin, ásamt mörgum öðrum af hinni nýju kynslóð stjórnmálamanna. Í þeim krafti sínum hlaut hann ágæta kosningu til fulltrúardeildar Bandaríkjaþings 1948 fyrir Michigan og sat í því embætti til 1973. Þá hafði hann verið leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni frá 1963. Árið 1973 var bandarískt samfélag klofið, m.a. vegna Víetnam-stríðsins og mannréttindabaráttu minnihluta hópa. Og Richard Nixon, Bandaríkjaforseti, var í vandræðum vegna Watergate-málsins. Nú gerðist það, að Spiro Agnew varaforseti sagði af sér og var þá Ford skipaður varaforseti, sá fyrsti, sem ekki hafði verið sérstaklega kosinn í það embætti. Ári síðar, 1974, sagði Nixon af sér og Ford tók við. Hann varð þá einnig fyrsti forsetinn, sem ekki hafði verið kosinn.

Ford-stjórnin annaðist brotthvarf Bandaríkjahers frá Víetnam og hafði í kjölfarið mikil áhrif á þá þíðu, sem komst á milli stórveldanna tveggja um þessar mundir. En hann hafði kefli að fótum sér. Annars vegar var hann harðlega gagnrýndur fyrir að veita Richard Nixon, fráfarandi forseta, sakaruppgjöf og einnig fyrir að ná ekki tökum á verðbólgunni. Bandarískt efnahagslíf var óvenju illa statt og var forsetanum vitaskuld kennt um, þótt ástæður þess hafi ekki síður verið þær, að Demókratar réðu fulltrúadeild Bandaríkjaþings og höfðu þar mikinn meiri hluta. Tilraunir Fords til umbóta strönduðu því á þinginu, þar sem Demókratar komu í veg fyrir helstu breytingar, stundum til þess eins að höggva í forsetann. 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings rak öfluga stjórnarandstöðu og tókst jafnframt að koma allri sökinni á forsetann, þegar í ljós kom, að efnahagslífið var á hraðri niðurleið. Því fór svo, 1976, að Ford beið lægri hlut fyrir Jimmy Carter, Demókrata frá Suðurríkjunum. (Heimild: Wikipedia)

Undirritaður hefur tvisvar setið námskeið um sögu Bandaríkjanna, fyrst hér heima hjá Bergsteini Jónssyni heitnum, en síðar við Háskólann í Leicester í Englandi. Í síðari skiptið var nokkuð rætt um forseta Bandaríkjanna, kosti þeirra og galla. Mér er það sérstaklega minnisstætt, þegar kennarinn, maður að nafni Bailey (ef ég man rétt) ræddi um forsetakosningarnar 1976 og sagði eitthvað á þá leið, að aldrei fyrr hafi jafn vanhæfir menn verið í framboði til forseta. Kannski hef ég tekið þetta inn á mig, en ég er, eftirá að hyggja, eiginlega sammála honum. Carter var hvorki búinn persónutöfrum Ronalds Reagans né gáfum Williams Clintons. Ford var á svipuðum slóðum, en virðist þó hafa verið persónulega betur útbúinn en Carter, sem að mínum dómi var og er ekki mikið ofan á brauð.

En Ford náði því, að verða elsti forseti Bandaríkjanna og var rúmum mánuði eldri en Ronald Reagan, þegar hann lést nú 26. desember 2006, 93 ára að aldri.


mbl.is Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband