Stríð

Íslamistar í Sómalíu vilja nú stríð, skv. RUV. Þeir skora nú á múslima hvarvetna að koma til landsins og taka þátt í heilögu stríði gegn Eþíópíu, sem gerði sér það eitt til saka, að hafa sent einhverja hermenn til Sómalíu til að verja lögleg yfirvöld landsins gegn uppreistarher öfgasinnaðra múslima. En veltum þessu aðeins fyrir okkur:

1. Saga Sómalíu er hvorki ýkja fögur né friðsamleg. Áður var þetta land tvær nýlengur: Breska Sómaliland og Ítalska Sómaliland. Þær sameinuðust í eitt ríki, Sómalíu, sem var jafnan fátækt og lítt iðnvætt. Tíminn leið og ekkert breyttist til batnaðar. Herinn gerði þá uppreist og kom spilltum rugludöllum úr valdastóli og mál skánuðu nokkuð, en ekki nóg. Herforingjarnir tóku nú að berjast innbyrðis og norðurhluti landsins klauf sig frá suðurhlutanum. Síðan kom stríð við Eþíópíu, þar sem Sovétmenn studdu sósíalistana í Addis Abeba, en Bandaríkin einræðisherrann í Mogadishu. Það hefur varla komið mörgum á óvart!

2. Þegar púðurreyknum slotaði, var landið stjórnlaust. Valdamiklir menn skutu hverjir aðra og að lokum stóðu eftir stríðsherrar, sem hver um sig taldi sig ráða á ákveðnu svæði og skeyttu í engu um hina valdalitlu ríkisstjórn landsins, sem í raun var aðeins til skrauts. Sómalía var hrunin, svona svipað eins og Afghanistan eftir brotthvarf sovéska hersins.

3. Þá komu íslamistar til sögunnar; hópar múslimar sem sáu, að svona mætti ekki ganga lengur. Markmið þeirra var að sumu leyti göfugt, þ.e. að stilla til friðar í landinu, en vafasamt að öðru leyti (að mínu mati), þ.e. með því að stofna íslamskt ríki í ætt við Talabana-Afghanistan. Þeir náðu smám saman tökum á landinu og ráða því nú nánast öllu. Bráðabirgðastjórn, sem samansett er allskonar mönnum úr sitt hverri áttinni og eftirlifandi stríðsherrum, er starfandi, en ræður aðeins yfir litlu svæði og á þar í vök að verjast. Hún væri vísast fallin nú, hefði eþíópski herinn ekki farið í sunnudagsgöngu yfir landamærin, að sumu leyti með vilja og vitund nágrannaríkjanna.

En mig langar að spyrja:

Hvort er betra að hafa stríðsástand ríkjandi, þar sem anarkí ræður, með meðfylgjandi ofbeldi og réttindaskorti þegnanna, eða íslamskt heittrúarríki, sem gæti jafnvel orðið miðstöð terrorista, eins og reyndin var í Afghanistan?

Persónulega efast ég um, að "íslamistar" í Sómalíu hefðu opnað land sitt fyrir allskonar lýð frá nágrannalöndunum, komið upp þjálfunarbúðum etc., hefðu þeir unnið stríðið án vandkvæða. Ég held, að markmið þeirra hafi í raun verið göfug, þ.e. að koma á friði, þó slíkt hafi jafnan haft ákveðnar aukaverkanir. Hafa ber í huga, á hinn bóginn, að Talibanar höfðu göfuð markmið í fyrstu; koma kommúnistum úr landi og koma síðan á friði í landinu. En þá tóku aukaverkanirnar að koma í ljós; svipaðar aukaverkanir hefðu vísast komið fram í Sómalíu. Ef af tveimur slæmum kostum hefði ég frekar viljað búa í Talibanaríki en stríðsherraríkinu, sem var til staðar í Sómalíu fram á síðustu misseri.  EN...það færi reyndar allt eftir því, hversu róttækir íslamistar í Sómalíu yrði í túlkun sinni á Kóraninum og "hadith". Hvaða "sunna" myndu þeir fylgja?

Innrás Eþíópíu hefur, að mér sýnist, gert íslamista róttækari en áður; nú eru þeir ekki aðeins að berjast gegn rugluðum stríðsherrum, heldur einnig innrásarher. Komist þeir til valda í landinu öllu gætu þeir tekið upp sharía að hætti Talibana, en ekki t.d. Súdana eða Saudi-Araba. Þá væri hugsanlega betur heima setið en af stað farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband