Flóttamenn frá Kúrdistan á Íslandi?

Ég tjáði mig hér áðan um þá frétt, að Saddam Hussein hafi viljað útrýma Kúrdum. En þá datt mér í hug lítinn undirkafla, sem forðum átti að vera hluti af doktorsritgerðinni minni, meðan ég hafði tíma til að veita mér slíkar rannsóknir. Ritgerðinni minni var síðan stolið, og afritunum með, í innbroti á skrifstofu mína, en í skúffum fann ég einstaka undirkafla, m.a. þennan, sem hér birtist.

Flakkararnir

Hinn 24. maí 1904 skrifaði íbúi á Eyrarbakka­ með merki­legar fréttir: „Í morg­un komu hingað 3 útlendir flakkarar, og er haft eftir þeim, að þeir hafi gengið hingað með ströndum fram sunn­an úr Reikja­vík. Þeir litu mjög aumk­unarlega út og kváðust vera Armen­ingar." Menn þessir höfðu víst kom­ið hingað sex saman en skipt sér í tvo hópa og farið sitt í hvora áttina um landið. Með­ferðis hefðu þeir „gyllt­krossaða betlibók á brjóst­inu" og færu síðan um betlandi með slíkum harm­­kvælum, að lands­menn sjái sér ekki fært annað en það, að veita þeim nokkra aura, gistingu, mat og jafnvel klæðnað. Bréf­ritari undraðist fram­­gang þeirra, en að hans sögn höfðu þeir náð verulegum árangri í betli sínu. Hann taldi, að þessa menn skyldi varast þar sem enginn vissi hverjir þeir væru og auk þess gætu þeir flutt hingað sjúk­dóma. Það væri furðulegt, að nú þegar Íslendingar væru hættir að betla -enda vilji landsmenn ekki taka þátt í svo­leiðis- skuli útlenskir betlarar fá að leika hér lausum hala og sanka að sér krónum í bók sína. Að vísu væri þess óskandi, að „greiin" fengju eitthvað fyrir sinn snúð, úr því þeim var hleypt hingað inn, en sú hætta væri fólgin í þessu ferðalagi þeirra, að konur og börn væru oft ein heima og væru varnarlaus gegn þessum mönnum. Síðan þyrfti að huga að því, hvort von væri á fleirum.

 

Getur ekki þessi betliför dregið dilk á eftir sér? Er óhugsandi, að ferð þessara kump­ána verði til að íta undir aðra og fleiri samverkamenn þeirra að heimsækja okkur í sömu erindagerðum, ef þessum gengur vel? Á þá að gera upp á milli greianna? Nei, víst ekki, nei. Bara filla gamla Ísland með útlendri „flökkuþjóð og ... líði".

 

Því þurfi að koma í veg fyrir, að svona hyski kæmist hingað til landsins.[1]

   Árið eftir varð síðan vart við grunsamlegar mannaferðir í ýmsum­ sveit­um lands­­ins. Ókunnugir menn sáust fara um landið, tveir og tveir saman í hóp­um. Lands­­­blöðin kvörtuðu yfir vergangi þeirra og sumir sveitamenn óttuð­­ust, að þeir væru vopn­­aðir. Þeir hefðu með sér einskonar leiðarbók á íslensku, þar sem beðið væri um aðstoð við menn þessa, sem hefðu mátt þola miklar raunir. Þeir hefðu náð góðum árangri, fengið hér frían kost og peninga, en hvað myndi gerast, ef lands­menn skyldu nú neita þeim um hjálp? Myndu þeir ekki taka það með valdi, sem þeir þarfnist? Af því stæði hætta, sagði einn bréfritari í grein í Þjóð­ólfi, því kon­ur og börn væru oft ein heima. Slíkt hefði jafnvel gerst, þar sem hann hafi verið gestkomandi. Þeir voru í upphafi gleiðir mjög, en þegar þeir fengu ekkert í aðra hönd, breyttist svipur þeirra. Drógu þeir jafnvel fingur þvert yfir barka, eins og þegar sauðkind er slátrað og höfðu í frammi ógnanir. Góðu heilli voru 10 karl­menn staddir á bænum, svo engir eftirmálar urðu. En hvað hefði ein veikbyggð kona getað gert? Verst væri síðan, að í „þessum tveimur mönnum felst vísir til stóreflis förumannaflokks af sama þjóðerni hér um landið að fáum árum liðnum, og það eitt út af fyrir sig ætti að vera nægilegt til þess, að flækingum þessum væri veitt eptirtekt í tíma."[2]

   Stjórnvöld sáu sér nú ekki annað fært en að grípa í taumana. Í bréfi stjórnar­ráðs Íslands til sýslu­manna lands­­­ins og bæjar­­­fógetans í Reykj­avík var málum þeirra gerð skil. Flakk­ar­ar­­nir þættust vera „Arm­eningar" og „færu hjer um land á vergangi."

 

Með því að slíkt flakk eða betl útlendra manna hjer á landi á engan hátt má eiga sjer hjer stað, eruð þjer, herra sýslumaður (herra bæj­ar­­fógeti), um­beð­inn að láta taka umrædda utanríkis­betlara fasta, ef þeir koma fram í lög­sagn­ar­um­dæmi yðar, eptir atvikum láta þá sæta ábyrgð fyrir at­hæfi þeirra og að minnsta kosti vísa þeim burtu úr landinu. Kostnaður við flutning þeirra burtu hjeðan af landi greiðist úr land­sjóði, svo framar­lega sem þeir eru eigi sjálfir þess megn­ug­ir að greiða þennan kostnað.[3]

 

Í janúarbyrjun 1906 fékk sýslumaður Mýra-­ og Borgarfjarðarsýslu „pata af að tv­eir útlendingar væru á flakki í uppsveitum Borgar­fjarðarsýslu og mundu vera vænt­an­legir vestur yfir Hvítá." Skrifaði hann hreppstjóra Hvít­ár­­síðu­hrepps og fól hon­um að leita þessa menn uppi, taka þá fasta og flytja til Reykja­­víkur. Hélt hrepp­stjóri af stað 13. janúar og daginn eftir fann hann flakk­­ar­­ana í Hálsasveit. Hreppstjóri beið þeirra í Hvítár­síðu­hreppi við fimmta mann. Grunaði flakkar­ana hvað bjó að baki og „gerðust þeir honum erfiðir, þótt­ust hvorki geta gert sig skiljanlega né skilið það hann sagði og meðan hann var að hafa saman menn til að flytja þá, stukku þeir frá honum upp í Þver­ár­hlíð, en þar tók hrepp­stjóri þá 17. s.m. og flutti þá til Borgarness."[4] Frá Borgarnesi voru þeir færðir til Reykja­víkur með gufu­bátnum. Við komuna þangað voru þeir yfir­heyrðir af Halldóri bæjar­fógeta Daníelssyni, fyrrum þing­manni og bónda í Borgar­­firði. Sögðust þeir heita Abra­ham Simon og Zebrael Abraham frá hérað­inu Armen­­íu í pers­neska Kúrd­istan.

Meðan á yfir­heyrslu þeirra stóð, renndi Laura inn til Reykjavíkur með kynd­ugan karl innanborðs. Að sögn bæjar­fógeta héti hann Johan Gabr­iel og væri arm­enskur prestur frá Kúrdistan, hingað kominn til að hitta sam­starfs­mann sinn í Hafnarfirði. En sök­um þess, að enginn arm­ensk­ur prestur var þekktur í þeim bæ og enginn til að ann­ast mann­inn og sjá honum farborða, ákvað bæjar­­­fógeti að vísa honum úr landi.[5] Halld­óri bæjar­fógeta virðist þó ekki hafa komið til hugar, að sam­band kynni að vera milli Gabr­iels og hinna tveggja Arm­en­­­anna, sem þá sátu í varð­haldi í Reykja­vík. Sama dag og Gabriel yfirgaf landið, tilkynnti bæj­ar­fógeti stjórn­ar­­ráðinu um brottvísun hinna tveggja í öðru bréfi. Lík­legt verður að telja, að þessi týndi starfs­bróðir Gabriels hafi verið annar hinna hand­­­­teknu frá Borgar­firði.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði það verið gustuk, að hjálpa þessum mönnum, þar eð Armenar voru þá, eins og svo oft áður, í miklum hremmingum. Hluti Armeníu var þá í Rússlandi, annar hluti í Tyrkjaveldi og sá þriðji í Persíu. Alls staðar áttu þeir undir högg að sækja og ekki síst hjá Tyrkjum, sem um þetta leyti tóku að ofsækja hina vantrúuðu Armena. En Íslendingar gátu alls ekki leyft þessum mönnum að þvælast í sníkjuferðum um landið, ekki síst þar eð fram­koma þeirra hafði ekki verið mjög til eftirbreytni. Það var því kannski við hæfi í þessu samhengi, að her­foringi frá Tyrk­landi, Ismail Hakki Bey, skyldi skrifa íslenskum stjórn­völdum í apríl 1906 og spyrj­ast fyrir um íbúafjölda landsins, fjölda múslima og hlutfall sunni og shíta múslima í hópi þeirra. Hannes Hafstein ráðherra virðist hafa verið hvumsa við þessu undar­lega erindi herforingjans -sem virðist hafa verið hátt­­sett­ur, því að­eins mikilvægir menn, yfirleitt hátt­settir herfor­ingjar og em­b­ættis­menn, höfðu leyfi til að bera titilinn Bey eða Beg- og svaraði því kurt­­ei­sis­lega, að Ísland væri fá­mennt og múslimalaust land.[6] En þr­átt fyrir mús­lima­leysi, virt­ist eng­inn skortur vera á Arm­en­­um í byggð­um lands­ins.

   Síðari hluta árs 1907 urðu Snæfellingar varir við tvo einkennilega menn sem flæktust um héraðið. Sýslumaður lét handtaka mennina, með skír­skot­un til bréfs stjórn­arráðsins frá nóvember 1905 og flytja þá til Reykjavíkur. Kváð­ust þeir heita Mahon og Petrus og vera Armenar. Þeir höfðu með­ferðis rúmlega 370 krónur, sem þeim hafði áskotnast á ferðum sínum um land­ið.[7] Líklegt er, að menn þessir hafi verið þeir sömu og spurðist til á Aust­fjörðum í þann mund, sem armensku flakk­arar­nir í Borgarfirði voru hand­teknir. Í bréfi sýslu­manns Suður­-Múlasýslu til stjórnar­­ráðsins kom þá fram, að tveir Armenar væru á flæk­ingi um sýsluna. Þeir gengju milli bæja og nytu gestrisni Íslendinga og borg­uðu þá aðeins fyrir kostinn, þegar þess væri beinlínis krafist. Betl þeirra væri þó ekki eins mikið og menn teldu: „Hið ein­asta betl sem mjer var sagt af þeim, var beiðni um gjafir handa kirkju þeirra, og er líklegt að það hafi verið yfirskyn." Sýslu­maður vissi til að þeir hafi átt peninga, en varla háar upp­hæðir.[8] En upp frá þessu varð ekki vart við fleiri Armena á Íslandi, ef fólk af slíku þjóðerni hafði þá komið hingað á annað borð.

   Málavextir voru þeir, að danska myndablaðið „Hver 8. Dag" birti grein 12. júlí 1903 um, að til Danmerkur væri kominn hópur fólks, sem þættist „hafa orðið fyrir illri meðferð af Kúrdum eða Tyrkjum, og gengu fyrir hvers manns kné og beiddust beininga." Það komst síðan upp, að fólk þetta var ekki af ætt Armen­inga, „heldur beitikindur úr Litlu-Asíu, sem höfðu það fyrir atvinnu, að fara sníkjandi land úr landi og látast vera Armen­ingar, sem hefðu orðið að flýja land sitt." Það væri orðin sérstök atvinnugrein fólks þar suðurfrá, að fara í betliferðir til Norðurálfu og snúa síðan heim með fulla vasa fjár. Sérstakir menn útbúi handa þeim leiðarbækur og riti kynningu á þeim og þjáningu þeirra á máli inn­fæddra. Að þessu sinni hefði fólkið komið frá Sýrlandi „og höfðu aldrei orðið fyrir neinum trúarofsóknum." Þjóðólfur greindi frá þessari frétt í maí 1904 og benti þá á, að samskonar lið væri nú hingað kom­ið, með betlibók á brjósti og sníkjur í frammi.[9] En hafa ber í huga, að stærsta samfélag Armena utan Armen­íu var í Jerúsalem, sem þá var undir stjórn Tyrkja, en taldist stjórnunarlega séð til Sýrlands. Fólk þetta gat því hafa verið að segja satt um það, að vera Armenar og eiga í vök að verjast gegn Tyrkjum, en hafa síðan skreytt frásagnir sínar til að líta aumkunarlegar út, en efni stóðu til.

   „Sýrlenskar" betlikindur voru þó ekki einu austrænu flakkararnir á Íslandi. Í febrúar 1909 til­kynnti sýslumaður Skaftafellssýslu stjórnar­ráðinu, að flæk­ingur hefði verið á ferða­lagi í grennd við Vík í Mýrdal. Hann segðist heita Veseli Vas­lefi frá Rúss­landi og hefði komið til Íslands í atvinnuleit. Taldi sýslu­maður, að flakk­ar­inn væri líklega strokumaður og mjög dularfullur að flestu leyti. Hefði hann verið tekinn til yfirheyrslu, en „fyrir rjettinum ljet hann enga ástæðu uppi fyrir ferðum sínum. Enda þótt að jeg hafi ekki sjeð mjer fært að taka nefndan flæking fastan, þá hef jeg þó grun um að ekki sje allt með felldu um ferðalag hans og hefi því sent 2 menn með hann suð­ur."[10] Samkvæmt dóms­málabók Skafta­fells­sýslu hafði Vaslefi komið til Reykja­­­­víkur á enska tog­ar­an­um Mosel og yfir­gefið skipið sökum sjó­veiki. Hann hefði enga vinnu fengið í bænum og því haldið út á lands­byggðina í atvinnu­leit. Vaslefi fékk þó vinnu á togara og vann síð­ar al­menn störf. Að öðru leyti sagðist hann ekkert vita um ferðir sínar, fátt muna eftir atvik­um og kunna litlar tíðir á flakki sínu. Dómur lög­reglu­­­réttar Skafta­­fellssýslu hljóð­aði upp á brott­vikn­ingu Vaslefis frá land­inu. Sýslu­maður vildi þó bæta því við, að sá „útlend­ingur sem hjer ræðir um, virð­­ist eptir fram­­komu sinni annað­hvort simulera fá­bjána, eða vera fá­bjáni."[11] Sök Rúss­ans var sú, að þekkja ekki til staðhátta á Ísl­andi og geta því ekki sagt til um ferðir sínar. Hann hafði feng­ið vinnu á breskum og síð­­an íslensk­um togara og virð­ist honum því ekki hafa verið alls varnað. Virð­­ist Sigurður sýslu­maður Egg­erz, sem síðar varð bæði ráðherra og for­sæt­­isráðherra Íslands, hafa verið fljót­ur til for­dóm­anna, þeg­ar á skaft­fellsku skipbrots­fjörur­nar rak út­lending, sem frá­brugð­inn var Ís­lend­ing­um. En hann var ekki sá eini, sem slík viðhorf bar í brjósti. Íslendingar virðast, á þessum tíma, hafa tekið vel hingaðkomu nákominna þjóða, einkum norrænna manna og Breta, þar eð þær væru þekktar og menn vissu, að þeir væru að öllu jöfnu frið­samt og duglegt fólk. En þegar kom að framandi þjóðum úr Austurvegi, hvort þeir væru Rússar eða af öðrum toga, tók að teygjast dálítið á þjóðernisstrengj­unum, sem ákveðnir menn léku þá á við hvurn sinn fingur.

 


 

 

[1] 7.9.: „Flakkarar", Ingólfur 12. júní 1904. Sjá einnig; Gunnar M. Magnúss: Það voraði vel 1904, 145-146.

[2] S.B.: „Ógeðslegur flakkaralýður", Þjóðólfur 27. okt. 1905.

[3] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/600: Stjórnarráð Íslands til sýslumanna (bæjarfógeta) landsins,  28. nóv­. 1905.

[4] Sama heimild: Sýslumaðurinn í Mýra­ og Borgarfjarðarsýslu til stjórnarráðs Íslands, 9. júlí 1906.

[5] Sama heimild: Bæjarfógetinn í Reykjavík til stjórnarráðs Íslands, 24. febrúar 1906.

[6] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/679: Ismail Hakki Bey.

[7] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/600: Sýslumaður Snæfellsnes­ og Hnappadalssýslu til stjórnarráðs Ís­lands, 14. desember 1907 og 24. janúar 1908.

[8] Sama heimild: Sýslumaður Suður-­Múlasýslu til stjórnarráðs Íslands, 25. janúar 1906.

[9] „Armeningar??", Þjóðólfur 27. maí 1904.

[10] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/600: Sýslumaður Skaftafellssýslu til stjórnarráðs Íslands, 16. febrúar 1909.

[11] Sama heimild: Eftirrit af dómsmálabók Skaftafellssýslu, 16. febrúar 1909.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband