Gluggað í gamlar möppur -- Íslenskur stríðsfangi

 

Hér forðum skrifaði ég heilmikið sagnfræðiefni, sem aldrei komst á prent, en safnaðist saman í geymslurými á tölvunni minni, þar sem ég hrúgaði saman því, sem ekki átti að verða hluti af doktorsritgerðinni minni frægu, þeirri sem var stolið með öllum afritum, mér til eilífðar háðungar. En mér datt í hug, að rifja upp eitt og annað úr þessum gögnum. Hér kemur stutt yfirlit um sögu Hafnfirðings, sem reyndi eitt og annað á tíð síðari heimsstyrjaldar...eins og ég skildi við það forðum, þegar ég kastaði því oní geymslu.

Einar Guðmundsson

Einn af fáum Íslend­ingum sem gistu stríðsfangabúðir Banda­manna var Ein­­ar Guð­­­munds­son, ungur maður af hafnfirskum föðurættum. Hann hafði fæðst 7. febr­úar 1926 í borginni Velsen í Hollandi. Faðir hans og al­nafni hafði yfir­gefið heimabæ sinn, Hafnarfjörð, 1914 og stund­­að sigl­ing­ar í Holl­andi, gifst þar­lendri stúlku og eignast með henni þrjú börn. Einar eldri hafði stöku sinnum komið til Íslands frá brott­­­­hvarfi sínu, enda átti hann ætt­ingja og vini í Hafnar­firði. En fjöl­skylda hans hafði aldrei stigið fæti á ís­lenska jörð, þrátt fyrir að hafa hér rík­is­borg­ara­­rétt.

     Einar eldri hafði sest að í bænum Ijmuiden í Hollandi 1914 og stundað sjó­mennsku, bæði á Norðursjó og á úthafi við Ísland. Hann kvæntist 1919, Jac­obu van Es, dóttur skipstjóra sem verslaði meðal annars síld við Þjóð­verja. Keyptu þau sér tvö hús í bænum og leigðu annað þeirra út. Hann tók skip­stjórapróf veturinn 1927-28 og sigldi víða, meðal annars var hann stadd­ur í Gdynia í Póllandi þegar þýskir herir æddu yfir landið. Komst hann með skip sitt við illan leik aftur til Hollands. Þá tók ekki betra við. Þjóðverjar æddu yfir Holland og lokuðu höfninni í Ijmuiden, en þá var Einar tilbúinn að sigla á brott. Hafði hann þá innréttað skip sitt með leynilegum vistarverum til þess, að smygla Gyðingum yfir til Bretlands. Hugsanlega hefur hann ætlað fjölskyldu sinni hluta þeirrar aðstöðu.

Skömmu eftir að Þjóðverjar komu til Ijmuiden í maí árið 1940, fékk Einar einn daginn strengileg boð frá þýzku lögreglunni að mæta til viðtals og gera grein fyrir sér og sínum...Fýsti nú þýzku lögregluna að vita deili á fjölskyldunni. Einar hafði verið svo forsjáll rétt fyrir stríðið að fá sent heiman frá Hafnarfirði fæðingarvottorð og ýmis önnur skil­ríki. Fór hann nú með þetta á fund þýzku lögreglunnar. Öll voru skjölin á íslenzku, en Einar þýddi fyrir lögreglumennina. Létu þeir það gott heita, enda skildist Einari, að þeir væru fyrst og fremst að leita eftir, hvort hann væri Gyðingaættar. Eftir þetta litu Þjóðverjar á fjöl­skyld­una sem hverja aðra Hollendinga.[1]

Hugsanlega hefur það vakið athygli Þjóðverja, að eiginkona Einars eldra hét Jacoba og bar eftirnafn, van Es, sem mun hafa verið þekkt meðal hol­lenskra Gyð­inga. Hugsanlegur hefur Jacoba verið af gyðinga­ætt­um, þótt það skipti litlu máli hér.

     Eftir að hafa lent í breskri skothríð á Norðursjó hætti hann sjómennsku. „Nú fer ég ekki meira á sjó. Mér dettur ekki í hug að gera það fyrir Þjóðverja að láta drepa mig." Starfaði hann því við ýmis störf í landi fram til 1943, þegar Þjóðverjar tóku að smala saman mönnum til starfa í Þýskalandi. Í ágúst fóru um 7.000 manna hópur frá Ijmuiden til Þýzkalands og var það hlutverk hans að „hreinsa til og endurbyggja á þeim svæðum á þeim svæðum, sem verst urðu úti í loftárásum."  Starfaði Einar nauðugur fyrir Þjóðverja næstu misserum og lét dálítið finna fyrir sér. Hlaut hann oft bágt fyrir, en aldrei alvarlega. Þegar vinnuflokkurinn hafði færst nær vesturlandamærum Þýskalands bárúst fréttir af framsókn Bandamanna, sumarið 1944. Nótt eina flýðu hann og nokkrir félagar hans. Komst hann undan og faldi sig í hlöðu í 14 sólarhringa, þar til hann gat, ásamt 40 vinnu­félögum sínum, gefið sig á vald ameríska hersins. Voru þeir fluttir til Cherbourg í Frakklandi og þaðan áfram til Englands, þar sem hann fékk vinnu á hollenskum togara í Fleetwood, í desember 1944.[2]

     Meðan Einar eldri stóð í þessum hrakningum, leystist heimili hans upp. Þjóðverjar töldu sig hafa not fyrir þær lóðir, þar sem húsin hans tvö stóðu og skipuðu fjölskyldunum að halda á brott. Samdægurs voru húsin jöfnuð við jörðu og vígalegum fallbyssum komið þar fyrir.[3] Fjölskyldan fór því á flakk, en sameinaðist á ný í Haarlem vorið eftir, en Einar hafði fengið spurn­ir af afdrifum fjölskyldu sinnar, nema Einars yngra. Stríðið gekk í Einar við­líka og aðra hollenska pilta. Hann var fjórtán ára gamall við hernám Hol­lands og sextán ára þegar þýska hernáms­liðið hóf að smala ungum „germ­önskum" mönnum í hernaðartengd störf og til verk­smiðju­starfa í Þýskalandi. Ekki er vitað hvað Einar yngri að­hafðist í stríð­­inu, en við landgöngu Banda­manna í Normandí flúði hann yfir til Frakkalands, væntanlega í því skyni að komast undan stjórn Þjóð­verja. Þar var hann handtekinn og fluttur til Happ­end­on-stríðs­­fanga­búðanna í Dougl­as, Lanc­ashire og kom þangað 30. ágúst 1944, en var síðan sendur til eynnar Man­ar í Írlandshafi, en þá hafði borg­­­­­­ara­legum stríðsföngum sem áður gistu eyna verið skilað aftur til Þýska­lands. Hinn 22. desember reit Lundúnadeild hollenska rauða krossins íslenska sendiráðinu þar í borg og spurðist fyrir um afdrif Einars Guðmundssonar yngra, sem hefði verið fluttur frá Frakklandi til Englands í vörslu bandarískra her­manna fimm eða sex vikum áður. Einar eldri hefði komið til Hollands tveimur dög­um áður og leitaði nú ákaft sonar síns. Eina vitneska Rauða krossins væri sú, að Einar hefði verið fluttur til Englands með Banda­ríkja­mönnum, en bandar­íska sendinefndin í Holl­andi hefði engar frekari upplýs­ing­ar, enda héldi hún ekki skrá yfir flóttamenn sem færu yfir hafið á þeirra vegum.[4] Sendiráðið hóf þá fyrirspurnir hjá kjörræðismönnum Íslands í Bretlandi og hjá breskum yfirvöldum. Ræðis­menn Íslands höfðu ekkert frétt af Einari og bentu sendiráðinu á það, að hafa frekar samband við innan­rík­is­­ráðuneytið.[5] Í bréfi frá 6. febrúar spurðist sendiráðið fyrir um mál Ein­ars hjá útlendingaeftirliti ráðu­neytisins. Um miðjan maí barst svarbréf þess og kom þar fram, að Einar Guðmundsson hefði verið sendur til fangabúða í Banda­ríkjunum í hópi stríðs­fanga.[6] Stef­án Þorvarðs­son sendiherra lét þá þau boð berast til Ís­lands, að sendiráðið væri komið á slóðina og hafði síðan samband við sendiráð Banda­ríkjanna í London með frekari fyrirspurn­ir.[7]

     Þegar utanríkisráðuneytið hafði meðtekið símskeyti Stefáns í júníbyrjun hóf það að leita hófanna með ættingja Einars á Íslandi. „Ráðuneytið vill mælast til að birt verði í...eftirfarandi, ekki sem aug­­lýsing. Þeir sem kynnu að geta gefið upplýsingar um Einar Guð­munds­son, sem fæddur er 9. febr­úar [7. febr.] 1926 í Hollandi eða að­stand­endur hans eru vinsamlegast beðnir að láta þær utan­rík­is­ráð­u­neytinu í té. Utanríkis­ráðu­neytið. Reykjavík, 4. júlí 1945." Íslensk stjórnvöld voru nú komin í spillið og gerðu sitt besta til að finna hina týndu fjöl­skyldu. Og systir Einars eldra, Guðrún Guðmunds­dóttir í Hafn­­ar­firði og Vilborg Stef­áns­dóttir móðir þeirra, voru í sambandi við ut­an­­­ríkis­ráðuneytið með allar þær upplýsingar, sem komið gætu að haldi. Erfitt reyndist að hafa uppi á drengum, en tengiliðir úr hópi bandar­­ísku og bresku herstjórnanna gengust í málinu. Um mitt sumar 1945 hafði slóð Ein­ars verið rakin: Hann hafði verið fluttur til Banda­ríkjanna í stríðsfanga­búðir og þaðan sendur aftur til Hollands um sum­ar­ið.[8]

     Þegar líða tók á stríðið, einkum eftir innrás Bandamanna í Norður-Afríku, Ítalíu og síðar Normandí, fór baráttuþrek þýska hersins dvín­andi og fjöl­margir her­menn gáfust upp í stað þess að týna lífi sínu í bar­áttu gegn ofur­efli. Því mynd­uð­ust stórar stríðs­fanga­búðir í Bretlandi og síðar í Banda­ríkjunum, þar sem búð­ir höfðu verið reistar í nær öllum fylkjum fyrir innrás­ina í Normandí og tæp­lega 400.000 fangar gistu. Ef tekið er mið að erf­ið­um aðbúnaði stríðs­fanga Þjóð­­­verja, var dvöl þýskra fanga með besta móti, eink­um í Banda­ríkj­un­um, þar sem aðbúnaður var að mörgu leyti mun betri en í þýska hernum. Stríðsfanga­búðir Banda­ríkjamanna hafa fengið góða um­­­fjöllun í mörgum bókum, m.a. ein­stakar frásagnir Rons Robins í The Barb­­ed Wire College.[9] Því hafði Einar vart yfir miklu að kvarta, við að vera sett­ur á náðir Banda­manna, en það var ólíkt skárra hlutskipti en þvinguð her­­þjón­usta á veg­um nas­ista. Einar hafði ver­ið sendur aftur til Hollands í júní 1945 og virðist hafa leitað fjöl­skyldu sinnar, en árangurslaust. Í október sneri hann sér því til íslenskra yfir­valda. Svo segir í bréfi ráðu­neyt­is­ins:

Sendiráðið leyfir sér að skýra frá því, að ofangreindur stríðsfangi, sem sendiráðið hefir lagt mikið kapp á að hafa upp á, hefir hinn 18. okt. s.l. skrifað eins og hér segir: „Hérmeð bið ég yður um nýtt, íslenskt vega­bréf, því, eins og þú sjálfsagt veist, týndi ég því fyrra á síðasta ári. Ég var sendur til Bandaríkjanna ásamt 140 Hollend­ing­um sem stríðsfangi. Við vorum send­ir þangað fyrir misskilning, þar­ sem við vorum ekki stríðs­fangar. Þeir sendu okkur til baka síðasta júní. Faðir minn er í sjó­róðri, annars hefði hann skrifað þér, því ég get ekki skrifað íslensku.[10]

Íslenskir embættismenn önduðu léttar. Einar Guðmundsson var ekki að­eins fundinn, heldur var hann við góða heilsu, en vegabréfslaus og hafði ekki fund­ið hollenska fjölskyldu sína í Haarlem. Hinn 26. nóvember úr­skurð­aði dóms­mála­ráðuneytið að Einar yngri væri íslenskur ríkisborgari og ætti því rétt á ís­lensku vegabréfi.[11] Og Sendiráðið í London gaf út yfirlýsingu sína: „Sendi­ráðið hefir í dag gefið út vegabréf til handa Einari Guðmunds­­­­syni sam­­­kvæmt heimild utanríkis­ráðuneyt­is­ins í ofan­greindu bréfi og úrskurði dóms­­málaráðu­neytis­ins."[12]

Ekki er vitað um aðra Ís­lendinga sem setið höfðu í stríðs­­fangabúðum Banda­­­manna, nema Erich Hübner, þótt menn þekki söguna af nokkrum eig­in­mönn­um ís­lenskra kvenna, en þá sögu rakti ég í "Fangarnir á Mön" í Nýrri sögu 1996. Ef þeir voru fleiri, hafði vera þeirra þar engan eftirmála svo vitað sé.[13]

 

 

[1] Stefán Júlíusson, „Römm er sú taug", Mörg er mannsævin (Reykjavík 1971), 75,76.

[2] Sama heimild, 75-82.

[3] Sama heimild, 83-84.

[4] ÞÍ. UR. 30.K.2: Rauði kross Hollands til Sendiráðs Íslands, 22. desember 1944.

[5] ÞÍ. UR. 30.K.2.: Íslenska sendiráðið í London til vararæðismanna Íslands í Bretlandi, 25. janúar 1945.  Ræðismaður Íslands í Hull til Sendiráðs Íslands í London, 31. janúar 1945. Ræðismaður Íslands í Edinborg til sama, 31. janúar 1945.

[6] Sama heimild, Íslenska sendinefndin í London til Immigration Branch, Home Office, 6. febrúar 1945.  V. A. Spinks, Home Office, til íslensku sendinefndarinnar, 16. maí 1945.

[7] Sama, Stefán Þorvarðsson til utanríkisráðuneytisins, 26. maí 1945. Sami til Sendiráðs Bandaríkjanna í London, 13. júní 1945.

[8]  ÞÍ. UR. 9.T.3. Einar Guðmundsson, ýmis skjöl.

[9] Ron Robin: The Barbed Wire College (Princeton 1995).

[10] ÞÍ. UR. 9.T.3: Sendiráð Íslands í London til utanríkisráðuneytisins, 2. nóvember 1945.

[11] ÞÍ. UR. 9.T.13: Dómsmálaráðuneytið til utanríkisráðuneytis, 26 nóvember 1945. Utanríkisráðuneytið til sendiráðs Íslands í London, 26. nóvember 1945.

[12] ÞÍ.UR db. 9.T.13: Sendiráðið í London til utanríkisráðuneytisins, 28. des. 1945.

[13] ÞÍ.UR db. 9.U.5: Ýmis skjöl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband