Miðvikudagur, 6. desember 2006
Kemur lítið á óvart
Jæja, skýrsla Íraksnefndar Bandaríkjamanna er nú komin fram. Þar kemur ekki mikið á óvart svosem. Ég skrifaði einmitt um þetta efni hér fyrr í morgun og taldi þá líklegt, að Bandaríkjastjórn muni leggja fram drög um brottflutning herliðs frá Írak, og taldi að herinn myndi hverfa smám saman á brott, eins og frá Keflavík, og vera orðinn óvirkur þar suðurfrá fyrir árslok 2007. Í skýrslu þessari voru þó engar dagsetningar nefndar, en mér sýnist innihaldið vera af svipuðum toga og ég spáði fyrir.
Viðbætur að kvöldi: Jæja, nú var ég að frétta úr fjölmiðlum, að reyndar hafi þarna verið nefnd dagsetning, "í ársbyrjun 2008", sem er nokkurn veginn það sama og árslok 2007. Stundum er gott að vera spámannlega vaxinn!
Jafnframt kemur þarna fram vísan í vandamál svæðisins almennt, þar á meðal deilu Ísraela og Palestínumanna. Um þetta skrifaði ég í morgun:
Jafnframt er líklegt, að Bandaríkjamenn reyni að gera einhvern pakkadíl við íslamska heiminn og taki með ályktanir um Miðausturlönd í víðari skilningi, allt frá Ísrael/Palestínu til Afghanistans. Hafa ber í huga, að James Baker, aðal skýrsluhöfundur og ráðgjafi George W. Bush, er annar aðaleigenda Baker og Botts lögfræðifyrirtækisins, sem annast málefni Saudi Arabíu-stjórnar í Bandaríkjununum og hefur hagsmuni að gæta í, að halda Ríad-stjórninni ánægðri. Spurning hvort t.d. friðaráætlun Saudi Arabíu frá 2002 verði hluti af þeim pakkadíl, sem Bandaríkin muni gera við Íraka og íslamska heiminn á næstunni?
Ég veit ekki hvað Írökum mun finnast um þessa skýrslu, en mig grunar að hún eigi eftir að skila litlu árangri, a.m.k. ekki árangri í friðarátt. Ennfremur er ljóst, að tvö "lobbí" munu nú takast á í Bandaríkjunum, annars vegar "Ísraelslobbíið" og hins vegar "Arabalobbíið". Hið fyrrnefnda hefur jafnan verið sterkt á Capitol Hill, ekki síst á stjórnartíð Clintons og síðan á fyrri kjörtímabili Bush yngra. En nú hefur George dobbeljú greinilega tekið að halla sér að genginu sem veitti föður hans ráð, James Baker þriðja og öðrum, sem hafa meiri áhuga á góðum samskiptum við Araba en Ísrael. Hugsanlega hefur "pabbi gamli" átt þar hlut að máli, en hann var sá forseti Bandaríkjanna, sem var síst vinsamlegum Ísraelum á stjórnartíð sinni og mjög andvígur Ísrael meðan hann var hjá C.I.A. Hann vissi t.d. af árás Egypta, Sýrlendinga og co á Ísrael 1973, en bannaði að sú vitneskja yrði látin Ísraelum í té. Jafnframt sýndi hann af sér töluverða óvinsemd á köflum, en vegna Flóabardaga varð hann að friða Ísraela, til að forða því að Flóabandalagið myndi springa við, að Ísraelar hefðu svarað Scud árásum Saddams Husseins. En annars var George eldri lítt merkilegur forseti, þegar á heildina er litið. En nóg um hann.
Mig grunar, að framhaldið verði nú, að þessi tvö mál, Íraksmálið og deila Ísraela og Palestínumanna, verði ekki aðskilin framvegis, heldur tekið fyrir í einum pakkadíl...og Afghanistan jafnvel bætt inn í pakkann. Mun þá Bush vísast kaupa sér aflátsbréf með því að þrýsta ennfrekar á Ísraela, en gert hefur verið undanfarið, að gefa eftir og láta undan kröfum Araba, án þess að fá mikið í staðinn. Slíkt gæti keypt frið um skamma hríð, en ekki varanlega, meðan ráðandi öfl meðal Palestínumanna, Sýrlendinga, Írana, og fleiri nágrannaríkja Ísraels hafa enn ekki gefið eyðingu Ísraels upp á bátinn.
En hvað um Írak? Kemst þar á lýðræði? Það tel ég útilokað, nema um skamma stund. Lýðræði er fjarlægt hugsun Araba, þar sem frá örófi alda hefur tíðkast að sterkur höfðingi stjórni óskoraður. Tilraunir til lýðræðis, s.s. í Egyptalandi, hafa aðeins skapað lýðræðislega kjörinn einræðisherra, Hosni Mubarak, sem þó er einna skásti þjóðhöfðinginn á svæðinu. Í raun merkir orðið "lýðræði" í þessum menningarheimi, að fólk fær að kjósa sér einræðisherra...slíkt mun vísast gerast í Írak fyrr eða síðar, annað hvort beint eða í kjölfar veikra ríkisstjórna, sem munu standa máttlitlar á brauðfótum uns hinn sterki foringi kemur fram, vísast úr hernum.
Kemur þá ekki í ljós, að Íraksstríðið hefur því einu skilað, að skipt var um einræðisherra? Spurningin er síðan, hvort sá eigi eftir að verða eitthvað skárri en Saddam?
Sagt skipta sköpum í Írak að Bandaríkjastjórn og þingið taki höndum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 11.12.2006 kl. 18:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.