Fimmtudagur, 4. september 2008
Grúsk: Reykjavík um og eftir aldamótin 1900, I.hluti
Var að fletta gömlum "fælum" í tölvunni og rakst á nokkra kafla sem áttu að vera í M.A. ritgerðinni og síðar doktorsritgerðinni sem hvarf í innbrotinu fræga með öllum afritum. Ég fékk þá hugmynd að lauma þessu hér á bloggið í litlum bútum.
Vil jafnframt benda á smá sögukafla, sem ég tók saman um stofnun Taflfélags Reykjavíkur 1900, á heimasíðu Taflfélagsins.
-----------
Eins og hegðun lýsir innri manni, birtist skapgerð þjóðar í háborg hennar. Reykjavík reis eins og fuglinn Fönix úr öskustó sveitanna og þandi vængi sína stöðugt lengra inn í landið. Vöxtur bæjarins var hægur til að byrja með, en loks þegar angar sveitakolbrabbans losuðu tök sín af þjóðarsálinni, hófust stórfelldir fólksflutningar á mölina. Íslenski torfbærinn, sem verið hafði menningartákn frumþjóðar,[1] var nú á undanhaldi fyrir steinsteypu og innfluttu timbri. Íslendingar höfðu fengið sína eigin háborg stjórnsýslu og viðskipta, menntunar og menningar. Hún var Aþena sumra en Sódóma annarra, elskuð og hötuð, heimili hundruða en fjarlægur draumur margra, sem þjakaðir voru af átthagafjötrum og vistarbandi. Skapgerð þjóðarinnar var ekki lengur opinberuð frá hálfhrundum moldarkofum, heldur virðulegum miðbæ Reykjavíkur. Hinn öri vöxtur Reykjavíkur, sem að sögn Laxness var erfðamenningarlaust nýlenduþorp,[2] hafði þau áhrif, að heimsmenningin hóf smám saman að festa dýpri rætur í reykvískri mold. Veitinga-, gisti- og kaffihús höfðu sprottið upp með reglulegu millibili, og skemmtanalíf erfðamenningarlausra Reykvíkinga varð sífellt fjölbreyttara. Síðan var Leikfélag Reykjavíkur stofnað 1897, kvikmyndahús hófu starfsemi sína og fleira mætti telja til.[3] Íslensku sveitalubbarnir voru nú smám saman að taka á sig nýju klæðin heimsborgarans.
[1] Halldór Laxness: Alþýðubókin, 125.
[2] Sama, 96.
[3] Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur 1870-1940. Bærinn vaknar (I-bindi. Rvík 1991), 167-200, 449-473.
Meginflokkur: Grúsk | Aukaflokkar: Saga, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ja, ég var búinn að skrifa ritgerðina, setti hana í salt í nokkrar vikur og ætlaði síðan að stytta og skerpa stílinn. Síðan var innbrot, tölvan tekin og öll bakkuppin (sem því miður voru geymd á sama stað). Ég skrifaði hana aftur, að mestu, en fekk bara ógeð.
Ég stefni því ekki að því að klára. Amk ekki á næstunni.
Snorri Bergz, 5.9.2008 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.