Dorrit þeirra Frakkanna

Frakkar eru yfir sig hrifnir af nýju forsetafrúnni, Cörlu Bruni, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birtar eru í dag. Samband forsetans við hana virðist þó hafa haft slæm áhrif á vinsældir hans.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem dagblaðið Le Parisien birtir í dag, telja níu af hverjum tíu að Bruni sé „glæsileg“ og „nútímaleg.“

Hún vakti mikla athygli er hún fygldi forsetanum í opinbera heimsókn til Bretlands fyrir tíu dögum, og líktu bresku blöðin henni við Díönu prinsessu og Jackie Kennedy.

Sextíu af hundraði þátttakenda í könnuninni kváðust telja að Bruni myndi gera ímynd Frakklands erlendis nútímalegri, og 47% sögðust telja að hún myndi auka athygli á franskri menningu erlendis.

En meirihluti þátttakenda, eða 64%, sögðu að Bruni myndi ekki bæta það álit sem þeir hefðu á forsetanum.

 

Jahá, þetta er semsagt frétt Mbl. um hina bráðmyndarlegu Bruni sem giftist franska forsetanum Sarkozy. Ef ég man rétt var hún síðast söngkona en áður fyrirsæta.

Ég neita því ekki að þetta er hin huggulegasta kona. Ég neita því ekki heldur að ég er ánægður með störf og stefnumál eiginmanns hennar, þó heima fyrir hafi hann misst töluvert fylgi upp á síðkastið. Og ég neita því enn síður að mér verði hugsað til íslensku forsetafrúarinnar Dorritar þegar ég heyri minnst á frú Bruni-Sarkozy.

Og hér er Bruni sett á stall með Díönu prinsessu og Jackie Kennedy (síðar Onassis). Í þennan flokk mætti auðvitað bæta Grace Kelly af Mónakó og Dorrit Moussaeff (Grímsson). Margir Íslendingar geta með engu móti stutt eða viðurkennt Ólaf Ragnar Grímsson, þó hann hafi að mörgu leyti staðið sig ágætlega í embætti. Ég skal alveg viðurkenna það, þótt ég þekki of vel þá forsögu, sem hann bar með sér í embætti. En hann hefur vakið athygli á málstað Íslands erlendis, tekið þátt í "vörusýningum" og margt, marft fleira. En hann hefur líka breytt farvegi forsetaembættisins og tekið nokkrar umdeildar ákvarðanir. Jafnframt hefur hann verið nefndur "Séð og heyrt" forsetinn vegna þess glamúrs sem honum ku fylgja og ef til vill líka sökum þess að hann er amk verulega unglegur og sællegur á miðað við aldur! En ef samband Sarkozys við Bruni hefur dregið úr vinsældum hans er því öfugt farið hér á Íslandi.

En burtséð frá því hvort mönnum líki eða líki ekki við Ólaf Ragnar Grímsson, hafi misst álit á honum eða á hinn veginn, eru held ég fáir Íslendingar sem "fíla" ekki Dorrit Moussaeff "í ræmur", svo maður noti nú unglingaslangrið pínulítið. Þó hún hafi einstaka sinnum farið yfir strikið að mínu mati (en ekki mjög langt þó) er ég á heildina litið hæstánægður með forsetafrúna. Hún er glæsilegur fulltrúi Íslands, "glæsileg" og "nútímaleg", eins og sagt var um Bruni. Annað það sem sagt var um Bruni í frétt Mbl.is gæti alveg eins átt við Dorrit. Hvaða álit sem menn hafa á Ólafi Ragnari má fullyrða með sanni að hann hafi mjög góðan smekk á kvenfólki, bæði hvað snerti núverandi og fyrrverandi forsetafrú (og heldur ekki ef sögusagnir af fyrri vinkonum/kærustum eru teknar með í reikninginn). Hið sama má segja um Nicolas Paul Stéphane Sarközy de Nagy-Bocsa Frakklandsforseta. Faðir "Sarkos" var ungverskur, en móðir hans af kaþólsk-frönskum og grískum gyðingaættum - en langa-langafi hans var einn stofnandi Rabbíaskóla í Salóníki.

Ok, ég tengist þessu öllu á einhvern hátt. Ég hef búið í Ísrael, þaðan sem Dorrit er ættuð og komið til Salóníki og Parísar, þar sem ég fór á skákmót, já og einu átti ég gítar eins og Carla. Jafnframt er mér sagt að einn af forfeðrum mínum hafi verið franskur aðalsmaður, sem hafði orðið að kasta titli og fara til sjós á flótta undan brjáluðum Jakobínum. Hann strandaði með skipi sínu á Meðallandsfjörum segja mér fróðir menn og tók gistingu hjá formóður minni meðan maður hennar var í kaupstað á Eyrarbakka. Og merkilega nokk mun hún hafa orðið þunguð meðan að maður hennar var á föller fyrir sunnan.  En þetta er nú bara "ættarsaga" (sbr. þjóðsaga) og þarf hún ekkert endilega að vera sönn, nema hvað ég myndi fíla það ágætlega að vera af frönskum aðalsættum og gæti það útskýrt af hverju er ég með kolsvarta, djúpa skeggrót og fæ alltaf hroll þegar ég les um frönsku byltinguna.

En ef ég gleymi þessum útúrdúr aðeins og sný aftur að efninu má sjá eftirfarandi:

Carla Bruni: fyrirsæta og skemmtikraftur, glamúr,  "Séð og heyrt" týpa.
Ólafur Ragnar Grímsson: fjölmiðlamaður, glamúr, "Séð og heyrt" týpa.

Dorrit Moussaeff: Af gyðingaættum frá Bukhara (og þar áður frá Persíu-Babýloníu)
Nikolas Sarkozy: Af gyðingaættum frá Salóníki (og þar áður frá Spáni!)


Já, hvaða niðurstöðu ætli menn dragi af þessu?

En í öllu falli eiga Íslendingar og Frakkar glæsilegustu forsetafrúr í Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Jæja best að hætta þessu bulli og fara aftur að vinna.


mbl.is Frakkar hrifnir af forsetafrúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband