Af spjöldum sögunnar: Grikkland hið forna II

mykene_liongate Mýkenska tímabilið


Um svipað leyti og veldi Krítverja hnignar, verður Mýkena umfangsmikil í viðskiptum og pólítísku lífi grísku borgríkjanna. Blómaskeið Mýkenu, og nágrannaborgarinnar Týryns, hefst fyrir alvöru eftir hrun Knossos um 1400, þegar landflótta Krítverjar settust þar að. Taka þá Mýkenumenn við þeim verslunarsiglingum, sem Krítverjar höfðu áður haldið úti um Miðjarðarhafið, allt frá Spáni til Egyptalands og efldust á hinum pólítíska vettvangi í krafti auðsins.


Þjóðernislega voru Mýkenumenn jafn ólíkir Krítverjum og Babýloníumenn voru Súmerum, en menningu þeirra fengu þeir að láni, rétt eins og verslunarleiðir, siglingartækni og flest annað það, sem hélt nafni Mýkenu á lofti. Sú menning, sem Mýkenumenn fengu að láni frá Krítverjum og blönduðu eigin siðum, breiddist síðan víða um Grikkland og varð undirstaða þeirra menningar, sem samfélög flestra borgríkja byggðust á. Veldi Mýkenu leið þó undir lok skömmu eftir 1200 f. Kr., ekki síst vegna innrása óvinaþjóða úr norðri.


Með falli Mýkenu lýkur eiröld Grikkja og járnöld tekur við.Á tólftu öld f. Kr. ruddist erlendur þjóðflokkur inn í Grikkland. Þetta voru hinir svokölluðu Dórar, hávaxnir og sterklegir, afburða hermenn og vægðarlausir eftir því. Þeir voru afsprengi Hallstatt-menningarinnar frá Mið-Evrópu, en höfðu áður ráðið ríkjum á Adríahafsströnd Balkanskaga, gróflega þar sem nú er Albanía.


Kraftur Dóra fólst ekki síst í notkun járnvopna, sem höfðu mikla yfirburði yfir eirvopn og verjur Grikkja. Þeir brenndu bæði Mýkenu og Tíryns til grunna og lögðu í rústir mörg helstu menningarsetur landsins. Allsstaðar skildu Dórar eftir sig ógn og skelfingu, eyðingu og blóð fallinna manna. Bændur flúðu jarðir sínar og leituðu til grísku eyjanna eða til Litlu-Asíu, verslun hnignaði og menning sneri aftur á frumstætt stig, eins og hún verið hafði fyrir daga Krítverja. Hinar myrku aldir, sem hófust í Grikklandi við innrás Dóra, voru því ekki sjálfskaparvíti íbúanna, heldur afleiðing ófriðarins.


Um miðja 11. öld voru Dórar orðnir allsráðandi víðast hvar um Grikkland, með beinum yfirráðum eða bandalögum.
   Stór hluti hinna fyrri íbúa Grikklands, svokallaðir Jónar, settist að á grísku eyjunum og í Litlu-Asíu, en Mýkenumenn höfðu nokkru áður náð þar fótfestu, einkum í borginni Míletus, sem var ein auðugasta borg fornaldar. Sökum nýlendumyndunar Jóna, breiddist grísk menning út um nær allan hinn þekkta heim. Frá innrás Dóra og fram til persnesku stríðanna á fimmtu öld f. Kr. voru grísku ríkin í Litlu-Asíu í fararbroddi borgríkjanna á sviðum stjórnmála, viðskipta og menningar.  



Um 800 f. Kr. var konungsríkið Frýgía stofnað, með höfuðborg í Gordíon. Mídas var þekktastur konunga Frýgíu og er hans víða minnst í sögum Grikkja fyrir stórkostlega fjársjóði og mikið ríkidæmi. Veldi Frýgíumanna stóð þó ekki lengi, því 709 gerðust þeir skattskyldir Assýringum og nokkrum áratugum síðar réðust Kimmerar, sem síðar kölluðust Keltar, á Gordíon og lögðu borgina í rústir.


Nýtt borgríki, Lýdía, komst þá til áhrifa í Litlu-Asíu, en höfuðborg þess var Sardes. Lýdía var verslunarstórveldi, sem auðgaðist mjög af verslun og skattheimtu. Á stjórnartíð Krösusar konungs (560–545) lutu honum öll grísku borgríkin í Litlu-Asíu, að Míletus undanskilinni. Hafnarborgin Efesus varð önnur mikilvægasta hafnarborgin við austanvert Miðjarðarhaf og reis þar Artemisarhofið mikla, eitt af sjö undrum veraldar.

Mikilvægi Lýdíumanna er meira en margra grunar, því í einhverri borg þeirra, sennilega Sardes eða Efesus, hófu kaupmenn að slá mynt, fyrstir allra. Frá þeim barst þessi hefð síðan um allan hinn þekkta heim. Í grísku borgríkjunum í Jóníu þreifst hin veraldlega menning betur en annars staðar á hinu gríska menningarsvæði. Jónískir spekingar, bæði af grískum og fönískum uppruna, urðu síðar brautryðjendur í heimspeki og vísindum Grikkja. 

Borgríkin og þegnar þeirra  



Grísku borgríkin (pólís) mynduðust eins og flestar aðrir borgir hið forna. Kjarni borgarinnar var einskonar kastali, sem yfirleitt var staðsettur á hæð (acropólis) eða á stöðum, þar sem auðvelt var að verja gegn ásókn óvina.


Upphaflega voru þessi virki, og nærliggjandi landbúnaðarhérað, miðstöð ákveðinnar ættar (genos), en síðar söfnuðust genos saman í bræðralög, fratria, þar sem fleiri en ein ætt hafði sömu siði, menningu og trúarbrögð. Stjórnandi borgríkisins var konungurinn, hinn voldugasti meðal höfðingja þess, fremstur meðal jafningja. Hann var kosinn af borgarþinginu (ecclesia) og fór með framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald í umboði þess, var foringi í stríði og ábyrgur fyrir vopnabúri hersins.


Hann gat þó ekki skattlagt þegnanna, svo sem til að halda uppi hirð, heldur byggðist innkoma hans á tollum eða herfangi, eða tekjum af eigin starfsemi eða jarðeignum. Borgaraþingið fjallaði einnig um lagasetningar, framkvæmdir á vegum hins opinbera og ræddi ófriðarhorfur. Á þingum þessum þróaðist ræðulist Grikkja, þar sem sérstakir ræðusnillingar voru fengnir til að snúa almenningi til fylgis eða andstöðu við stefnu yfirvalda.  


Þegar Grikkir flúðu heimaland sitt undan ásókn Dóra, fluttu þeir siði sína með sér og varð grísk menning fljótlega ráðandi víðast hvar um Miðjarðarhafið. Grikkir lærðu einnig margt af framandi þjóðum, sem þeir lifðu yfirleitt í sátt við, ekki síst margskonar nýjungar, sem þar höfðu komið fram. Þannig lærðu grískir kaupmenn myntsláttu af Lýdíumönnum, stafróf af Föníkumönnum og svo framvegis. Einnig lærðu þeir notkun nytjaskepna og jurta. Menning hinna innfæddu blandaðist einnig við hellenska menningu, þar eð Grikkir voru ekki aðeins tilbúnir að virða trúarbrögð annarra þjóða, heldur tóku oftsinnis upp einhverja þætti þeirra, ásamt siðum og venjum, sem þeim þóttu skynsamlegar.

Um 700 f. Kr. hófu spakir menn, í mörgum af hinum 600 borgríkjum Grikklands, að skrásetja hin munnlegu lög, sem gengið höfðu mann fram af manni í grísku borgríkjunum. Það var reyndar gert í óþökk höfðingjanna, sem þannig misstu töluvert af völdum sínum. Með þessum hætti hlaut alþýða manna betri lagavernd en áður hafði verið. Dómar í deilum manna byggðust því ekki lengur á duttlungum örfárra dómenda, heldur á skrásettum lögum, sem vitna mátti til bæði af verjendum og sækjendum.


Í framhaldi af staðfestingu lögbóka hófu fulltrúar alþýðunnar í síauknum mæli að krefjast frekari umbóta á stjórnskipun borgríkjanna. Höfðingjarnir vildu ógjarnan missa spón úr aski sínum og reyndu því að kæfa frelsisbaráttu almúgans. Víða leiddu deilur höfðingja og alþýðusinna til þess, að svokallaðir týrannar tóku völdin, einvaldar sem komust yfirleitt til valda fyir atbeina almennings.


Mörg borgríki Grikkja tóku upp einvaldsstjórnina, sem lengi vel þótti vel heppnuð, einkum af þeim sem báru aukalega úr býtum. En andstaða höfðingjanna leiddi oft til hörku í stjórnvaldsaðgerðum þeirra, svo týrannar fengu fljótt á sig yfirbragð harðstjóra. Einvaldsstjórn hélt því sjaldan velli til frambúðar, svo höfðingjar steyptu þeim af stóli og mynduðu fáveldi (oligarki). Sú breyting var þó vart til batnaðar, þar sem einum harðstjóra var þá skipt út fyrir marga, svo alþýða manna tók að krefjast aukinna réttinda og valda, einkum í Aþenu, þar sem síðar myndaðist lýðræði, eða demokrati.

Jónaborgin Aþena hefur um aldir verið fyrirmynd og háborg lýðræðissinna, en öflugasta borg Dóra, Sparta, hefur fengið á sig ímynd harðstjórnar og hernaðarhyggju.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Snorri minn. Alltof mikil lognmolla hér á blogginu þínu. Geturðu ekki æst upp liðið og fengið að njóta þín.  Búin að lesa númer eitt og einnig númer þrjú. Las pistil eitt aftur uppá samhengið og að rifja upp. Kærar þakkir fyrir pistilinn.

Guð blessi þig og varðveiti.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.3.2008 kl. 14:59

2 Smámynd: Snorri Bergz

Ég er orðinn og gamall til að nenna að rífast. Reyni að forðast það núorðið. Fæ nóg af því á umræðuhorni skákmanna þar sem dýrið gengur laust.

Snorri Bergz, 20.3.2008 kl. 15:59

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Snorri minn. Þú ert nú unglamb miðað við mig.  

Setti inn fallega mynd þar sem þú varst með blogg um skítandi máf eða skítavarg.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 20.3.2008 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband