Mun Hillary Clinton spila með Liverpool?

Merkilegt grein í Deiglunni hjá Borgari-næstumþví-Haarde. Þar segir hann að FOx News sé í raun sá aðili, sem tapaði mestu í forvalskosningunum í New Hampshire í gær. Ég tapaði líka rosalega miklu á falli Berlínarmúrsins, en jæja, tökum strákinn trúanlegan, hann er jú lögfræðingur.

En hann segir svo:



"Það er auðvitað algjörlega fráleitt að halda því fram að sigur Hillary í New Hampshire í gær hafi verið neitt annað en glæsilegur. Endurkoma Liverpool í bikarúrslitaleiknum við West Ham sl. vor, þar sem þeir rauðu lentu tveimur mörkum undir en náðu að jafna á lokamínútunum og sigra í vítaspyrnukeppni, var glæsilegt afrek, þrátt fyrir að Liverpool hefði verið talið sigurstranglegra liðið áður en flautað var til leiks. Sama máli gegnir um Hillary, Obama og forvalið í New Hampshire."


Æ, nú veit ég ekki. Ég man að nýlega var ég að tefla við dreng, sem er miklu lélegri en ég samkvæmt mælikvarða skákmanna, þ.e. eló-stigunum. Ég fékk koltapað en náði að grísa á sigur.


Var þetta glæsilegur sigur hjá mér? Ég var búinn að tapa skákinni, faktískt, gegn mun veikari skákmanni, en náði að snúa taflinu mér í hag undir lokin með trikkum (ja, ég grét þó að vísu ekki við borðið). En sigurinn var ekki glæsilegur.


Ég fagnaði reyndar sigri Hillary, enda tel ég hana besta kostinn af demókrötum. Ég skil vel að Borgar styðji Hillary, enda gæti hann vísað í hana, ef hún sigrar, með þá kenningu, að völd í lýðræðisríki eiga jafnan að haldast í sömu fjölskyldunum (t.d. Bush og Bush, Clinton og Clinton vs t.d. Steingrímur - Hermann, Geir - Borgar), hvort sem um er að ræða völd í landi eða í flokki.


Ég hef ekkert á móti Borgari persónulega og enn síður á móti fósturföður hans, hinum ágæta manni Geir Haarde. Og við erum samherjar í pólítík, báðir félagar í stærsta jafnaðarmannaflokki landsins. En ég fæ alltaf illt í magann þegar nánir ættingjar valdhafa eru að troða sér fram hvort sem þeir eru góðra gjalda verðir eður ei.


Ég legg til að Borgar verði gerður að héraðsdómara fyrir austan líka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband