Mánudagur, 26. nóvember 2007
Slobodjanar enn og aftur
Æjá, Slobodjanar einu sinni enn. Maður lærir seint. Ég vissi það, og Ivan vinur minn Martic hafði margítrekað það við mann: Serbarnir eru skelfilega underrated.
Serbía hefur farið mjög illa út úr breytingaskeiðinu. Þótt skákáhugi sé gríðarlegur hér í landinu, og hlutfallslega margfalt meiri en á Íslandi, er lítið um alvöru mót, rétt eins og var einnig reyndin á Íslandi. Ég man ekki hversu oft ég nöldraði og tuðaði á skákhorninu, yfirleitt fyrir daufum eyrum, um að skákin væri að deyja á Íslandi og þyrfti á alþjóðlegum skákmótum að halda til að lifa. Sumir voru reyndar sammála og skyndilega fóru menn að halda mót á báðar hendur. En Serbarnir eiga marga svona, en þeir ná ekki að fjármagna skákmót, alþjóðleg skákmót, nema einstaka sinnum. Það sagði mér reyndar Dragan Kotevski, sem er forseti Belgraðska skáksambandsins og tvífari Vlastimils Horts, eins og þýski Tékkinn leit út 1977.
En þess í stað er skáklífið hér í Serbíu neðanjarðar. Menn tefla í tíma og ótíma í klúbbum. Hér í Obrenovac er t.d. nokkuð stór skákklúbbur í áberandi húsi við aðal-hliðargötuna og göngum við Robbi framhjá honum á hverjum degi á leið í Internet-kaffihúsið. En enginn þeirra, sem við sjáum tefla inn um gluggann, tefla á alþjóðamótinu hér. Þarna tefla menn bara sér til skemmtunar.
En 214 keppendur eru með á Meistaramóti Belgrað, Trofej Beograda, sem nu er haldið í 20 skipti og má segja, að allir Serbarnir, sem ekki eru IM, séu verulega underrated, þ.e. séu í raun miklu sterkari en stigin segja til um. Ivan margtendurtekur þetta: Be careful Snorri. We are very, very underrated.
En ég er kominn með Húnsbragð í munninn og er farinn að tefla í skákstíl Björns Þorfinnssonar. Amk tefldi ég svoleiðis í dag. Mótherji minn teflir ofurpassívt og fæst varla til að leika mönnum framar en á 5. reitaröð með svörtu, nema þegar hann leikur 3...Rxe4 í Petroffsvorn. Og í dag lék hann Caro kann og ætlaði að halda sér fast. Ég nennti ekki að fá á mig 4...Rd7, svo ég hleypti þessu aðeins upp með 2.Rc3-d5 3.Df3, sem er byrjun sem ég myndi ekki láta sjást á ferilsskránni að öllu jöfnu. Nú skyldi tefla hvasst og Húnslega, sem felst í að tefla að nokkru leyti órökrétt, en hvasst og ógnandi og velja frekar fjörugasta leikinn en þann besta. Ég hleypti þessu því semsagt upp í tóma vitleysu, en merkilegt nokk, það sem ég hélt að væri rugl, reyndist merkilega gott.
Ég fór því bara áann og passívi Serbinn skalf og nötraði. Og þegar á reyndi hafði hann tvær leiðir; önnur hefði leitt út í stöðu, þar sem materialið var jafnt en ég var með yfirburðastöðu og taldi ég líklegt að ég myndi vinna þá stöðu frekar auðveldlega í endataflinu, þegar skipst hafði upp, því menn hans voru lokaðir inni. En þess í stað lék hann leik, sem virtist flottur, en þar beið hans týpískt Húnstrikk. Hann rataði á skástu leiðina og þá átti ég tvær vinningsleiðir. Að sjálfsögðu valdi þá flottari, en ekki hina sem ynni örugglega. En, roar eins og björninn segir, þá skaut hann skyndilega inn hrókeringu og skildi mann eftir í uppnámi. Ég fölnaði og sór þess að eið að lagfæra þetta í næstu skák! Ekkert kæruleysi góurinn.
Ég var semsagt manni yfir en hann fékk ógnvænleg miðborðspeð. Ég tefldi framhaldið aðeins ómarkvisst, en var alltaf með betra, en staðan var hættuleg. Svo fór tímahrakið að knýja á, sérstaklega hjá honum, og þá setti ég Húninn í gang aftur. Ég gat komist út í hróksendatafl peði yfir, en þó held ég að vinningsmöguleikar þar hafi verið takmarkaðir gegn bestu vörn, en ákvað að egna hann aðeins. Jú, hann gekk beint í gildruna mína, eins og Hildur Berglind hefði sagt, en fann bestu leiðina út og hefði með bestu taflmennsku (og með því að sjá 10 leikja einstigi í tímahrakinu) getað þvingað fram jafnteflislega stöðu, en lét trikka sig aftur!
Ég landaði því sigri og var lifandis skelfingar feginn að hafa náð að landa þessu. Ég átti þennan vinning þó fyllilega inni...ég hefði getað verið búinn með hann fyrir löngu. En þessi ungi maður (á sama aldri og ég!) hefur teflt vel í mótinu og gert 2 jafntefli við sterkari menn og unnið eina fram að þessu.
Robbi lenti hins vegar í Ml. Knezevic. Milorad Knezevic var einu sinni argasta jafnteflisvél í heimi, að vísu ásamt Ungverjanum Szekély. Þetta var á þeim tíma þegar ég fór að tefla fyrir alvöru. Knezevic þessi tefldi á Reykjavíkurmótinu 1984 held ég, eða 1986, eða c.a. um þetta leyti og gerði held ég jafntefli í flestum skákunum og kreisti vinning gegn sér minnimáttar. Þetta virðist fylgja nafninu, því Robbi komst ekkert áfram gegn Caro-kann vörn Knezevic yngra (sem getur vel verið sonur þess gamla) og var með töluvert verra, að eigin sögn, þegar pulsugerðarmaðurinn bauð jafntefli, sem Robbi þáði. Robbi var semsagt búinn eftir um klukkutíma taflmennsku. Óþolandi hvað þessir stigalágu Serbar eru góðir. En þeir eru stundum slakir í taktík og hefði Bjössi Ofurhúnn vísast lent í veislu, hefði hann komist með okkur á mótið, eins og lengi stóð til. Hann hefði trikkað þá á báðar hendur og farið létt með það.
En sem betur er enginn Szekely með í mótinu, hvorki yngri né eldri.
Ég fór síðan í mat, og fékk snitzel og kjötsúpu, að venju, að þessu sinn í vænni kantinum. Við fengum líka góðan mat í dag, amk miðað við standard hótelsins.
Jæja, við fórum smá rúnt fyrir hádegið, út kl. 9 og heim hálf tólf, með hálftíma stopp á Internet kaffihúsinu og smá stoppi í einstaka verslun, bara að skoða!
Ég hafði sofið merkilega vel og lengi í nótt, en Robbi bæði stutt og eitthvað morkið. Hann hafði m.a. fundið, þar sem hann lá uppí og var að klára að horfa á Fílamanninn, að forljót padda var að skríða eftir honum. Sú var snarlega aflífuð. Ég sá eina stóra og ógeðslega inni hjá mér í dag og setti yfir hana glas og eitthvað undir, og henti henni út med det samme. Og jafnframt raulaði ég fyrir munni mér á meðan: Út með jólaköttinn. Hann á ekki lögheimili hér. Vonandi sé ég pöddugreyið aldrei aftur, en hún hefur vísast eitthvað hlutverk í lífskeðjunni.
Annars er það að frétta, að við Robbi erum búnir að eignast fjölda vina hérna, og einnig nokkra góðkunningja, eins og löggan myndi segja. Einn þeirra er kallinn sem fór svona rosalega í taugarnar á mér í gær. Hann er ágætis náungi inni við beinið, en kann bara ekki skákreglurnar nógu vel. Hann var á nálum í dag, því frammi á barnum var verið að sýna Cagliari og Milan í ítölsku Serie A. Staðan var um hríð 1-0 fyrir Cagliari, en hann hafði veðjað á sigur Milan, en getraunaveðmál eru þjóðaríþrótt hérna og alls staðar má sjá 1x2 búllur hér í Obrenovac. Ég veit ekki hvernig fór í leiknum, en hann brosti sínu breiðasta og sýndi allar þrjár tennurnar í efri gómnum (hinar höfðu Króatar tekið í stríðinu) þegar Milan jafnaði. Og hinir andstæðingar okkar Robba eru alltaf að reyna að troða bjór inn á okkur, bæði fyrir og eftir skák, og stundum í henni miðri, og margir fleiri. Pétur læknir, sem gerði jafntefli við Robba í 2. umferð, er þeirra aðgangsharðastur, en svona er lífið.
Jæja, við Robbi fórum upp á herbergið beint eftir matinn, rúmlega níu. Robbi ætlaði snemma að hátta, en ætlaði að glápa á einhverja mynd áður. Deginum lokið. Ég sofnaði smástund en fór niður um tíu. Ég fæ Milos Popovic IM (2419) á morgun með hvítu, en Robbi fær Ivica Pantic (2192), einn underrated Serbann enn, með svörtu.
Milos þessi hefur fáar skákir í gagnagrunninum, sem er merkilegt miðað við að vera IM (alþjóðlegur meistari), en mér sýnist hann tefla 2...Rc6 Drekann og Chigorin afbrigðið gegn 1.e4. Jæja, ætli ég reyni ekki að brugga honum einhver launráð í kvöld og fyrramálið, og sjá svo til. En þessi strákur er víst mjög góður, er mér sagt. Nú er að duga eða drepast. Sigur á morgun yrði kærkominn og yrði ég þá í góðri stöðu. En það getur allt gerst í skák. En ég ætla ekki að fara niður baráttulaust...eins og Pétur W. sagði: ...hvernig sem fer, ekki stendur á mér, ég kominn er í gamla formið.... Og vonandi heldur það áfram.
Dobre, dobre.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.