Föstudagur, 23. nóvember 2007
Obrenovac, Serbía 1. til 3. pistill
Jæja, þá er að prófa þetta einu sinni enn. Pistill frá skákmóti erlendis. Ég ætlaði ekki að skrifa neitt núna, af ástæðum sem a.m.k. skákmenn og tryggir lesendur þessa bloggs ættu að þekkja. En ég er skrítin skrúfa. Maður lærir aldrei af reynslunni .
Þetta er sjötta skiptið, sem ég fer út á skákmót á síðustu 13 mánuðum, rúmlega. Fyrst var það Evrópumót félagsliða í október 2006, síðan Serbía í fyrra, Prag í janúar, Lúxemborg í júlí, EM félagsliða 2007, og nú aftur Serbía.
Í öllum þessum ferðum hefur Róbert Lagerman (Harðarson) verið með. Við fórum þar af einir til Serbíu og Prag, og nú til Serbíu aftur.
Það er mjög gott að fara út með Robba, a.k.a. Bigtime, eins og hann hefur verið kallaður í fjölda ára. Rúnar Berg þýddi þetta sem Stóritími í Lúx í sumar. Það orð hefur lifað af mánuðina og mun vonandi lifa áfram.
En jæja, ég fór niðrá BSÍ að morgni þriðjudags og tók flæbussinn út á völl. Þar hitti ég Robba, sem hafði gist hjá systur sinni í Reykjanesbæ þá um nóttina. Þetta var rólegt og þægilegt eins og venjulega.
Og eftir leiðinlega ferð, með meðfylgjandi töfum og andstyggilegri kaldri samloku í serbnesku vélinni, komum við til Serbíu og vorum sóttir af erindrekum mótshaldara, en hann hafði greinilega bara mitt nafn og kallaði okkur Mr. Bergsson og Mr. Snorr. Við komum síðan á Hótel Obrenovac. Allt var eins og síðast. Við fengum jafnvel sömu herbergin og á síðasta ári, tvö bestu single herbergin á staðnum. Og eins og síðast fékk Robbi stóra herbergið, en það minna. Hann er ekki kallaður Stóritími fyrir ekkert. Og hann fékk svalirnar. En ég fékk CNN og Sky og BBC í kapalkerfinu, en helmingurinn af hans stöðvum eru arabískar stöðvar, sumar frekar vafasamar.
Það sem helst hafði breyst frá því síðast var, að úti var snjór og hitinn við frostmark, en síðast var hiti og ljúft. Snjóinn er reyndar að taka upp, en aðeins veðrið annars svipað og heima, nema ENGINN VINDUR! Solid.
Við erum hér einn dag í hvíld fyrir mótið og ekki veitir af. Ég var a.m.k. gjörsamlega örmagna þegar ég kom út. Maður var alveg að leka niður, eftir erfiðar og langar tarnir upp á síðkastið.
Það góða við veðrið er, að nú er minna um skordýr, t.d. þessa ógeðslegu, brúnu, serbnesku kakkalakka. Ég fann reyndar tvo staka og eina vísitölufjölskyldu á borðinu mínu þegar ég kom í herbergið, en var fljótur að afgreiða þá. Ég held að þeir hafi flúið veðrið og þeir sem flúðu í tíma hafi þegar komið sér fyrir inni, en aðrir dauðir. Því vonast ég til að finna ekki fleiri slíka hér.
En jæja, við vorum báðir þreyttir eftir ferðalagið og komum okkur fyrir á herberginu um 10 leytið. Ég slappaði af fyrir framan gamanþætti, sem ég hafði keypt á Heathrow. Ég sofnaði síðan eins og barn og svaf eins og steinn til rúmlega fimm. Þá dúllaði ég mér aðeins og bankaði hjá Stóratíma rúmlega níu. Hann var þá nývaknaður og kominn úr sturtunni. Við fórum niður í morgumat, sem var hinn sami og venjulega:
Kaffi, djús, egg og skinka, og meðfylgjandi aukahlutir.
Maturinn fór illa í okkur síðast. Þegar við borðuðum kvöldmat kvöldið við komuna sögðum við: a) annað hvort núðlusúpa eða kjötsúpa, b) snitzel, annað hvort Serbian eða Vínar.
Ok, það var kjötsúpa þá fyrsta kvöldið og Serbian snitzel, og í hádeginu í dag var sama kjötsúpan og síðan Vínarsnitzel sem ég pantaði frekar en eitthvað sem ég vissi ekki hvað var. En þetta var annars ágætt og við báðir saddir og ánægðir.
Við fórum í okkar hefðbundna göngutúr, en aðeins lengri. Fórum út um 10 og komum heim um 14. Stoppuðum á Internet-kaffinu hjá ofurskutlunum, fórum á markaðinn og eftir Laugavegnum, rúntuðum síðan um, fórum í apótek, osfrv.
Við slökum nú af til klukkan fjögur, en þegar þetta er skrifað á fartölvuna mína er klukkan akkúrat 15.00.
Um fjögurleytið ætlum við út aftur, en bara í stutta gönguferð eftir Laugaveginum. Robbi ætlar að fá sér inniskó og eitthvað smotterí (og við þurfum að heimsækja hraðbankann aftur! - við tókum út svo lítið á flugvellinum). Ég held að ég sé kominn með allt sem ég þarf, amk í bili.
En jæja. Planið er að fara semsagt út kl. 16.00, vera komnir heim rúmlega 18.00 og slaka á fram að mat, og fara síðan út (eða hanga á herberginu) og horfa á EM, væntanlega Serbía Pólland.
Skákmótið byrjar síðan á morgun.
Framhald fimmtudagsmorgun 22 .nóvember:
Jájá, ég hef, síðan í gær, aflífað fjórar pöddur til viðbótar. Ég þoli ekki þessar pöddur, þó þær séu vísast meinlausar. En maður veit aldrei.
Jæja, við fórum út að ganga í gærdag, röltum í bæinn. Robbi fékk sér rakstur hjá kvenrakara á aðalgötunni. Alúðleg kona, sem var afskaplega fær, babúska af sovéska skólanum. Hann hefur yngst um mörg ár síðan!
Kvöldið var síðan solid. Við ætluðum að horfa á Serbíuleikinn, en ég var kominn með smá hálsbólgueinkenni og sat heima. Robbi horfði á leikinn niðri. Ég tók þessu semsagt rólega, sofnaði um eitt leytið og vaknaði að verða sex í morgun.
Maður er búinn með heilan pakka af Strepslis og hálsinn er betri. Og maður er ágætlega úthvíldur eftir frídaginn í gær. En maður veit samt aldrei. Einhver þreyta situr þó enn í manni, kannski vegna hinna löngu gönguferða í gær.
Þriðji smápistill, föstudagur kl. 12.29
Jæja, þetta skrifa ég heima á lappanum og seiva á kubbinn. Sólin er komin hátt á loft og hitinn c.a. 15 stig, eins og spáð var. Þetta veður mun semsagt haldast næstu vikuna, ef spár ganga eftir. Veðrið er semsagt nú orðið það sama og á síðasta ári. Snjóinn er að taka upp og allt í gúddígúddí.
Við tefldum báðir við underrated gaura í gær. Minn gaf færi á trikki, sem hann ætlaði að svara með gagntrikki og ná betri stöðu. En sá einum leik lengra. Ég græddi ekkert lið á trikkinu, en losaði um biskupinn hjá mér og skapaði veikt peð hjá honum, d4-peð í isolani stöðu. Byrjunin hafði annars ekki verið mjög skemmtileg: 1.e4-c5 2.c3-g6 3.Rf3-Bg7 4.d4-cd 5.cd-d5 6.e5. Ég ætlaði síðan að sprengja upp með f6, þegar ég hafði lokið liðsskipan, sbr. Gurgenidze-planið, en ákvað frekar að eiga það inni og lék Db6 í staðinn á crucial mómentinu. Hann lék einhverju (kominn með verri stöðu), og þegar ég var búnað hugsa í c.a. 5 mínútur bauð hann skyndilega jafntefli! Í fyrsta lagi var hann með verri stöðu, í öðru lagi 300 stigum rúmlega lægri, og síðan má ekki bjóða þegar andstæðingurinn er að hugsa um næsta leik á sínum tíma. En jæja, síðan byrjaði hann að bryðja gotterí og smjattaði þessi ósköp. Ég þoli ekki svoleiðis, að öllu jöfnu, en þar sem staðan var góð lét ég þetta ekki fara neitt í taugarnar á mér. Ég hirti peð, trikkaði síðan annað og var með kolunnið endatafl, sem hann tefldi alveg fram í rauðann. Hann hélt greinilega að ég væri algjört idíót. Ég meina, jafnvel Hrannar hefði verið búnað gefa fyrir löngu og hann huxaði þessi lifandis ósköp, þrátt fyrir að eiga engan séns. Og Mr. Bergz orðinn glorsoltinn. Og síðan vildann fara að stúdera skákina eftir á. Nei, takk. Hann er svokallað muppet og það af verstu sort.
Robbi tefldi Cozio-Húns bragð með svörtu og fékk eðlilega slæma stöðu sem fór sífellt versnandi. Já, ég hef ekkert álit á þessari byrjun, sérstaklega ekki þeim varíant sem Stóritími valdi. Síðan var hann skyndilega kominn með koltapað, þremur peðum undir, en fór þá að sprikla og náði að véla af hinum peðin til baka og einu betur í tímahraki Serbans. En staðan var samt fræðilegt jafntefli og Serbinn fattaði leiðina strax, þegar tímahrakinu var lokið. Sárt að vinna ekki þennan gaur, en hann tefldi mjög vel og átti reyndar skilið að vinna. En hálfur punktur er betri en enginn.
Við fórum síðan að borða og upp á herbergi í afslöppun. Ég hafði downloadað VLC player fyrir Robba, sem gat nú horft á video myndirnar sem hann hafði keypt á Heathrow og var alsæll. Ég slakaði líka á og sofnaði snemma, dauðþreyttur og vaknaði að venju fyrir allar aldir í morgun.
Við fórum út að labba áðan. Renndum í morgunmat 8.45 og út rúmlega níu. Komum síðan heim hálf tólf eftir vænan rúnt um bæinn.
Við höfðum stoppað á internet kaffinu og fengið okkur skammtinn; dva turkísje expresso, solid orange djús og mineral wasser mit gas. Þar sáum við að dónalegi klerkurinn var enn einu sinni kominn í bann á Skákhorninu, svo nú er hægt að fara að skrifa frá ferðinni án þess að fá yfir sig allt dónó galleríið á horninu eins og á síðustu mótum.
En jæja, nú líður að hádegismat. Við afþökkuðum snitzel í gærkvöldi, en hann hefur staðið til boða í hverjum matartíma síðan við komum, í einhverri mynd, og fengum okkur kjúlla. Úff, ekki leist okkur á gripinn og áttum von á ennfrekari Svíaferðum í gærkvöldi og í morgun, en allt í sóma. En nú líður að næsta snitzel. Best að fá sér einn Vínar...
Síðan ætlum við að skreppa á Internetkaffið...og þar mun ég pósta þessum allllllllllltof langa pistli mínum.
Adios amigos
Mr. Bergz (att) Obrenovac, útborg Belgrað.
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilegan pistil
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2007 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.