Síðasti dagurinn í Kemer: Evrópumótinu lokið


Jæja, þá er þetta búið. Evrópumóti taflfélaga, a.m.k. Meistaradeild Evrópu í skák, er lokið þetta árið. Hér voru saman komnir flestir af sterkustu skákmönnum heims,bæði meðal karla og kvenna. Hreint alveg með ólíkindum, að allir þessir miklu meistarar skuli safnast svo saman á hverju ári.

Mótið núna var óvenju sterkt, a.m.k. sterkara en síðustu árin. Hópurinn „í miðjunni“ var líka þéttari en áður, þ.e. það voru færri léleg lið en oft áður.

Í fyrra lenti T.R. mjög óvænt í 5.-12. sæti, þrátt fyrir að hafa þá tiltölulega veikt lið. Það helgaðist mikið af því, að í þremur síðustu umferðunum fengum við lið, sem voru svipuð að styrkleika og við, eða ekki það mikið sterkari, að við gætum staðið í þeim og, eins og reyndin var, að knýja fram sigur.  En að þessu sinni fengum við nær aðeins „overkill“ lið, þau sem skipuð voru sterkum stórmeisturum á öllum borðum, eða frekar slök „meðallið“. Það var einna helst Svíaliðið sem var nálægt okkur í styrkleika. Og þar féll flest þeirra megin, svo þeir unnu 3,5 – 2,5 og urðu eftir Norðurlandaliða með 9 stig. Við fengum hins vegar fleiri vinninga, ef ég man rétt, en bara 8 stig. Samkvæmt vinningum vorum við mjög  ofarlega, en skv. röðun mótins lentum við í 18. sæti. Hellir lenti í 35. sæti eftir frábæran endasprett. Þeirra hlutskipti varð að tefla í kjallaranum nær allt mótið og lyftu sér upp með góðum sigrum í 2. síðustu umferðunum, fyrst gegn hlutfallslega sterkri sveit Finna en síðan afar slöku svissnesku liði.


Nánar um úrslitin má lesa á www.skak.is


En jæja. Hellismenn fóru með bussinum kl. 2 í morgun.  Við Húnóvitz, liðsstjóri Neandersdalsmanna, vorum hvorugir á liðsstjórafundinum í upphafi móts, þar eð við komum um miðja nótt og höfðum því ekki allar nauðsynlegar upplýsingar, t.d. um að panta far á flugvöllinn í tíma. Liðsstjóri T.R. var þó aðeins sneggri að átta sig – að vísu fyrir tilviljun – og náði fari á góðum tíma, en Húnninn fékk ekki far fyrir liðið kl. 4 að morgni, eins og best hefði verið. Sú rúta var uppbókuð í morgunflugin, en flug þeirra til London fór núna kl. 6.30. Þeir koma heim í kvöld. Við T.R. eigum flug til Frankfurt kl. 15.15 í dag og tökum hádegisbussinn. Við náum semsagt tíma í sólinni fyrir ferð og verður það eitt af mínum síðustu liðsstjóraverkum að vekja liðið í morgunmat og smá strandferð, en enginn þeirra fór á ströndina á meðan á móti stóð – sumir kíktu í laugina stöku sinnum.

Annars var lánið misskipt. Ég kom í gær í fyrsta skipti í herbergi þeirra Löngumýrarbræðra, en það var c.a. helmingi minna en mitt, og loftræstingin í ólagi. Þar var semsagt nær ólíft. Furðulegt, en hótelstarfsmennirnir hafa greinilega tekið eftir greinilegum yfirburðum okkar TRinga – skákaðals Íslendinga --  yfir Hellisbúana og látið okkur hafa bestu herbergin. Mjög eðlilegt, en vísast sárt fyrir Hellismenn. Sig. Daði og Kristján fengu svipað herbergi og bræðurnir, en gömlu kallarnir, Trölli og Stóritími, fengu herbergi, sem var næstum því eins flott og okkar TR-inga.

Jæja, framundan er Íslandsmót skákfélaga næstu helgi, þar sem TR og Hellir, og hugsanlega eitthvað annað lið líka, munu berjast um dolluna eins og oft áður. Merkilegt er samt, í þessu ljósi, að hér í Kemer voru í raun ekki Hellismenn og TR-ingar, heldur bara Íslendingar. Á þessum mótum hefur sú venja skapast, að hér eru allir fyrir einn og einn fyrir alla. Það skiptir engu í hvaða félagi menn tilheyra.  Enda á maður ekki færri vini í Helli en TR og allir hafa þekkst lengi. Hér var því góð samkennd og fínn félagsskapur, enda er félagsskapurinn eitt af því sem gerir svona ferðir skemmtilegar, þó ekki sé mikill tími til að „sósíalæsa“.

Þetta hefur gengið áfallalaust fyrir sig, enda erum við allir orðnir mjög vanir að ferðast. Til að mynda er þetta í 5. skiptið, síðan á sama tíma í fyrra, að ég fer á skákmót erlendis:  EM í Austurríki um miðjan október 2006, mótið hörmulega í Serbíu í nóvember, Prag í janúar, Lúxemborg í júlí og svo Tyrkland núna. En nú er maður kominn á leiðarenda, að minnsta kosti í bili. Það er ekki hægt að leggja þetta lengur á gamlan og þreyttan búk. Alvöru skákmót eru erfið og það tekur á bæði líkama og sál að sitja nær alveg fastir við borð í 5 klst og horfa á skákborð, og upphugsa leikjaraðir. Ég las einhvers staðar að orkueyðsla skákmanns sé með því mesta sem gerist í heimi íþrótta, enda er maður eins og barinn hundur eftir hverja skák, sem tefld er í botn. Og sem dæmi, þá fuku af manni yfir 3 kíló á mótinu í Lúx, jafnvel  þó maður hefði amk flesta daga lifað á T-bone steikum og 12 tommu pizzum, og lítið hreyft sig nema að labba út í bíl.

Jæja, klukkan er nú 8.15 að staðartíma, 5.15 heima á Íslandi. Ég sit hér úti á verönd og horfi út á haf – var að klára omelettuna og kaffið. Ég sá í morgunsjónvarpi Tyrkjanna að spáð er 30 stiga hita í dag í Antalyu. Planið er semsagt: morgunmatur (hjá óbreyttum liðsmönnum TR) kl. 9, afslöppun við stóru laugina og strandferð kl. 9.30, lobbí og checkout 11.30. Við verðum síðan eina nótt í Frankfurt og komum heim á fimmtudaginn.

Í heildina hefur þessi ferð verið mjög skemmtileg. Flestir eru þreyttir, en ná vonandi að láta þreytuna líða úr sér fram að hádegi. Árangurinn var ágætur hjá báðum liðum og bæði lið voru aðeins yfir „pari“. Menn geta því vel við unað. Stefán Kristjánsson fékk flesta vinninga TR-inga, eða 5/7, en Björn Þorfinnsson fékk flesta punkta Hellisbúa, 4,5/7 ef ég man rétt.

Sjálfur er ég sáttur með minn hlut. Liðsstjóradæmið, sem ég er nú að takast á hendur í fyrsta og vonandi síðasta skipti, reyndi svoldið á, en það voru endalaus mál sem þurfti að leysa og var maður því miður ekki í „fríi“ hérna, eins og ég hafði vonað. Og innkoman í lokin, þar sem ég leysti Arnar og Jón Viktor af í liðinu, gekk framar vonum og sný ég heim með solid 18 stig í plús. Og ég tefldi tvær fallegar sigurskákir, þar sem ég fann jafnan besta leikinn í hverri stöðu.  Maður snýr því heim sáttur og vonandi með smá brúnku á kroppinum.

Og myndir frá ferðinni munu birtast hér síðar, en ég fann ekki millisnúruna mína, úr myndavél í tölvu, en því máli verður reddað á fimmtudagskvöld eða föstudag.

Jæja, þá er að vekja strákana.


Áfram Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilegar færslur um mótið!

Þú mættir alveg koma með lista yfir hvaða mönnum  þessi frábæru gælunöfn tilheyra. Svona fyrir utangarðsmenn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2007 kl. 09:45

2 Smámynd: Snorri Bergz

Forrest Gump = Hannes Hlifar
Naddi = Nataf
Throlli = Throstur
Punkid = Stefan
Barbi = Arnar
Uglan = Jon Viktor

Kisi = Bragi
Hunn = Bjorn
Osturinn = Sig. Dadi
Storitimi = Robert
Skjaldbakan = Kristjan
RB (Throllid) = Runar Berg

Er her staddur a morknu hoteli i Frankfurt. Roar.

Snorri Bergz, 10.10.2007 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband