Ítalskir karlmenn

Já, ég hef lúmst gaman að þessum ítölsku siðum, þó ég fatti t.d. ekki hvers vegna ítalskir karlmenn fari með óhreina þvottinn sinn til kærustunnar til að láta þvo. Þeir verða alveg gjörsamlega hjálparlausir greyin og sést það ágætlega þegar þeir bregða undir sig betri fætinum og dvelja lengri eða skemmri tíma í útlöndum.

 

Þegar ég var í Englandi í námi 1992-93 var ég í "heimavist" með nokkrum ítölskum stelpum. Þær furðuðu sig mikið á þeirri sérvisku minni að vilja þvo fötin mín sjálfur, elda mat á eigin spýtur, skúra gólf og svo framvegis. Þeim fannst jafnvel hart að sér vegið þegar ég sinnti mínum eðlilegu húsverkum fyrir sameiginlegar þarfir, t.d. með því að skúra eldhúsið. Þeim fannst ég vera að fara inn á þeirra verksvið. Mér fannst nóg komið þegar hin elskulega ítalska stúlka Daniella Cambiasso  laumaðist inn til mín, þegar ég var að tefla með skákliði Háskólans utan borgarinnar, sótti óhreina þvottinn minn, þvoði hann og straujaði. Ég var ekki að fíla þetta, en þakkaði henni fyrir og bað hana vinsamlegast að leyfa mér að þvo af mér sjálfur. Ég hefndi mín síðan eitt kvöldið þegar hún skrapp í bíó með stelpunum og tók "hennar dag" í húsþrifunum, skrúbbaði eldhúsið hátt og lágt, og skildi eftir blómvönd á eldhúsborðinu. Uppfrá þessu varð maður eins konar legend meðal ítalskra stúlkna þarna á svæðinu, svo að manni þótti nóg um.


Og þetta fór mjög illa í ítölsku strákana. Einn Ítali þarna, Andrea (var með honum í tíma í bandarískri samtímasögu), var mjög ósáttur, en hann hafði einmitt náð sér í ítalska kærustu þarna í skólanum, greinilega aðallega til að fá sér ókeypis ráðskonu, því hann hafði síðan local stelpu "on the side" til að sinna ýmsum öðrum þörfum. Þegar sú ítalska fór síðan að neita að þvo af honum og sagði, að hann geti bara gert eins og þessi skrítni Íslendingur, lét hann mig aldeilis heyra það. Fleiri ítalskir strákar voru einnig óánægðir með þessa þróun, en mér skilst þó, að þeir hafi nú jafnan fengið sínu fram að lokum, amk sumir. En Andrea greyið mætti jafnan í óhreinum fötum í tíma og gekk svo langt að reyna að fá mig til að hjálpa sér að þvo. Já, einmitt!


Ég held að þetta sé fyrst og fremst rótgróinn vani hjá ítölsku kvenfólki, að sinna karlmönnunum með þessum hætti. Ég efast nefnilega stórlega um, að þær séu fullkomlega ánægðar með þetta (amk efast ég um almenna gleði meðal yngri kvenna og þeirra betur menntaðra), þó vissulega sé misjafn sauður í mörgu fé.


En hitt er svo annað mál, að ég efa ekki að íslenskir karlmenn yrðu almennt mjög sáttir, ef þetta ítalska system yrði tekið upp á Íslandi!


mbl.is Mömmustrákur á sjötugsaldri komst í klandur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband