Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Fallegasti staður á meginlandi Evrópu?
Suma morgna er algjör óþarfi að vakna. Sumar nætur er algjör óþarfi að sofa. En maður lætur sig nú samt hafa það.
Menn þurfa jafnan að gera fleira en það, sem þeir vilja sjálfir. Aðstæður geta verið þess eðlis, að fleira þarf að gera, en gott þykir.
Það átti við þennan morgun. Það er smá rigningarúði í höfuðborginni.
Það er e.t.v. ágætt að vökva aðeins gróðurinn og spræna dulítið á borgar- eða úthverfabúa, sem þurfa að sætta sig við þennan glaðning að þessu sinni, eftir mikla þurrka og frábært veður undanfarið.
Ég er ekkert sérlega spenntur fyrir því, að hafa sól og sumaryl alla daga. Um daginn lenti maður í um 35 stiga hita á selíus, að vísu utan íslenska fjöruborðsins og skipsflakanna. Slíku hef ég lent í áður, dag eftir dag, þegar maður bjó suður við Miðjarðarhaf um tíma. En þá var loftið þurrt. En í Lúx-Þýskalandi um daginn var raki í loftinu. Lýsið lak svo af manni, að það hefði verið hægt að tappa því á flöskur.
Og hér á skrifstofunni minni í 108 Reykjavík hefur hitinn verið óbærilegur síðustu daga, jafnvel þó viftan hafi verið á fullu. Ég fagna því smá veðurbreytingum.
En ég vil nú nota tækifærið og segja aðeins frá fallegasta staðnum á meginlandi Evrópu (eyjar ekki taldar með!!). Því miður finn ég hvergi myndavélarsnúruna mína, svo myndirnar verða að bíða en frásögn er myndum ríkari.
Þessi staður heitir Albach-Muhle (með tveimur punktum yfir u-inu) og er staðsettur í Mósel-dalnum. Hvílíkur sældarreitur. Við strákarnir voru strax farnir að skipuleggja þar alþjóðlegt skákmót í huganum. Þetta hlýtur að vera besti staður í heimi til að tefla eða stúdera (hugsanlega að Kirkjubæjarklaustri undanskildu).
Við ókum Mósel-dalinn um miðjan dag, sl. laugardag, og reyndum að finna veitingastað, sem væri opinn. En á þessu svæði reyndist það þrautin þyngri, eins og við reyndum í Lúx. Veitingastaður voru nefnilega lokaðir að jafnaði á milli 14.00 og 18.00 og það um hásumar. Greinilegt að þessi fallegi staður vill helst fækka túristum og öðrum ferðalöngum.
En loksins fundum við á GSP tækinu hans Grétars þennan stað. Við urðum að beygja út af veginum, og síðan aka inn skógarstíg, einbreiðan eins og íslenskar brýr voru gjarnan í denna, uns við komum að hótelinu-veitingastaðnum Albach-Muhle. Það er skemmst frá því að segja, að maturinn þarna var afbragðs góður og jafnvel frekar ódýr.
Og umhverfið var glæsilegt. Umhverfis var skógur á allar hendur, og það enginn smá skógur. Við giskuðum á, að trén þarna væru svona 35-40 metrar og mynduðu þau þétta breiðu eins langt og augað eygði. Og þarna niður við "mylluna" rann lækjarspræna, sem vísast hafði einu sinni verið á. Og þarna var algjör kyrrð, nema hvað seitlandi sprænan gerði undantekningu reglunnar.
Já, og fyrir utan anddyrið, á hinni stóru verönd hússins, höfðu smáhestaeigendur komið saman, sennilega einhver vinahópur. Það kom mér þó mest á óvart, að smáhestar þessir lágu við fætur eiganda sinna og geltu einstaka sinnum. Þarna var Dalamatíu-smáhestur, sem örugglega var þyngri en ég, og þrír eða fjórir aðrir ofboðslega stórir "hundar". Enginn okkar hafði séð slík ferlíki áður, sér í lagi þann stóra, sem virðist hafa verið blendingur af Doberman og Dalmatíuhundi.
Og þegar ég gekk þarna um veröndina og virti fyrir mér umhverfið, gelti einn þeirra beint að baki. Mér dauðbrá svo, að amk 1-2 kiló hrundu af mér með det samme.
En hvílíkur staður. Ég hef aldrei séð annað eins. Og ég skammast mín fyrir að geta ekki sýnt myndir frá þessum stað. Ef ég væri ógeðslega ríkur myndi ég kaupa staðinn og nota hann sem sumarhús. Þetta er draumur. Og náttúran alveg ótrúlega falleg þarna, friður og ró. Skarkali heimins víðsfjarri.
En þangað til verð ég bara að rúnta upp í Biskupstungur til að anda að mér trjáloftinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.