Föstudagur, 11. maí 2007
Stjórnin heldur velli: Sjálfstæðisflokkur yfir 40%
Jæja, enn ein skoðanakönnunin komin, að þessu sinni frá Fréttablaðinu. Samkvæmt henni heldur stjórnin velli og vel það. Sjálfstæðisflokkur vinnur stórsigur, VG dettur niður í "eðlilegt" fylgi, eftir að hafa mælst með minnir mig amk 27% í sumum könnunum. Samfó er líka komin í "eðlilegt" fylgi, svona um 25%. Frjálslyndir fá 3 þingmenn, tapa einum, Framsókn fær sex þingmenn, og fara niður í logum, grínframboðið (sem sendi mér rosa umslag í gær) hans Ómars kemst ekki inn, enda engin ástæða til.
Ég held reyndar, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ofmældur þarna, en þá um "eðlileg" vikmörk, þ.e. 2-3%. Ég á von á c.a. 38% fylgi, þegar talið verður upp úr kössunum að Eurovisionlausu kvöldi 12. maí. Mér þykir líklegt að báðir vinstri flokkarnir sýni hér um það bil rétt fylgi að Vg fái 10 þingmenn og Samfó 16, mínus-plús einn. Framsókn eða Frjálslyndir gætu tekið einn hvor til viðbótar, þá vísast annan frá Sjálfstæðisflokki og hinn frá Samfó.
Mér sýnist, miðað við þetta, að vinstri stjórn sé aðeins möguleg með þátttöku fjögurra flokka, þ.e. kaffibandalagsins og Framsóknar. S, V, og B gætu náð 32 þingmönnum samanlagt, eða 33, en sá meiri hluti yrði tæpur, þar eð málamyndanir yrði margar og efast ég um að það myndi reynast létt verk, sér í lagi á milli VG og Framsóknar.
Niðurstaðan hlýtur því að vera, að D-listinn muni halda áfram í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili og þá vísast í samkrulli með Samfó eða Framsókn.
En hér á eftir er frétt Fréttablaðsins um þessa skoðanakönnun:
Stjórnin með meirihlutafylgi
Kosið verður á morgun til Alþingis og kemur þá í ljós hvernig atkvæðin falla í þessum þingkosningum. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrir þessar kosningar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 42,2 prósent og fengi 28 þingmenn kjörna. Fylgið dalar hjá þeim um 0,3 prósentustig frá könnun blaðsins sem birt var á sunnudag. Vikmörk eru 2,0 prósentustig. Þann fyrirvara verður þó að setja, þar sem Fréttablaðið spyr ekki hvort svarendur séu líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða annan flokk, að reynsla af könnunum fyrir kosningar sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn reynist oft of hátt mældur.
24,6 prósent segjast myndu kjósa Samfylkingu, sem dygði til að fá sextán þingmenn. Vikmörk eru 1,8 prósentustig. Fylgi flokksins eykst um 0,6 prósentustig frá því á sunnudag.
Fylgi Vinstri grænna mælist nú 16,1 prósent, með vikmörk upp á 1,5 prósentustig. Það er nánast sama fylgi og á sunnudag. Ef það verða niðurstöður kosninganna fengi flokkurinn tíu þingmenn.
Framsóknarflokkurinn mælist nú með 9,1 prósents fylgi, 0,4 prósentustigum minna en á sunnudag. Samkvæmt því fengi flokkurinn sex þingmenn kjörna. Þegar fylgið er brotið niður á hvert kjördæmi eru líkur á að Jón Sigurðsson geti fengið úthlutað jöfnunarsætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Fylgi Frjálslynda flokksins hefur ekki breyst frá því um helgi og segjast enn 5,4 prósent myndu kjósa flokkinn. Vikmörk eru 0,9 prósentustig. Samkvæmt því fengi flokkurinn þrjá jöfnunarþingmenn kjörna, en samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins á hvert kjördæmi ná þingmennirnir Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, og Sigurjón Þórðarsson ekki kjöri.
Íslandshreyfingin nær enn ekki nægjanlega miklu fylgi til að fá mann kjörinn. 2,6 prósent segjast nú myndu kjósa flokkinn, hálfu prósentustigi meira en um helgina. Vikmörk eru 0,7 prósentustig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.