Fimmtudagur, 10. maí 2007
Græða framsóknarmenn á kvefinu?
Ég hef setið á BSÍ síðan snemma í morgun við allskonar tölvutengdar athafnir. Ég kem hér jafnan nokkuð snemma og sit í mínu sæti fram undir níu, þegar ég laumast á skrifstofuna. Mér til vinstri handar, á borðinu við hliðina, situr jafnan aldraður höfðingi úr Skagafirði, vinstri grænn að hætti Ragnars Arnalds, og spáir í lífið og tilveruna út frá morgunblöðunum.
Við eigum oft mjög skemmtilegar samræður um pólítík og dægurmál á morgnana, en núna í morgun var eitthvað þungt í þessum skemmtilega manni.
Málavextir eru þeir, að hann hafi fengið kvef í gær eða fyrradag og fór í Lyfju í gærkvöldi og fékk sér brjóstdropa, þetta sígilda hóstasaft, sem Íslendingar hafa löngum svolgað í sig, einkum á veturna. En, svo sagði hann, að framsóknarmenn hefðu laumað einhverjum framsóknarvírus í saftið, því síðan hann tók þetta inn, hafi hann í fyrsta lagi verið sljór og ekki áttað sig á aðstæðum, og í öðru lagi sjái hann bara xB alls staðar.
En ég sneri á þá, sagði hann, ég tók inn lýsistöflur í morgun. Þær ættu nú að reka framsóknarvírusinn á brott! En skömmu seinna heyrðist hann hrópa upp yfir sig, því í DV er frétt á bls 7 um, að lýsishylkin séu "umvafin" með húð, sem gerð sé úr nautgripahúðum.
"Hvurt þó í logandi" sagði hann. Þá hef ég verið að taka inn framsóknarbeljur í morgun? Alls staðar tekst Framsókn að troða þessum kosningavírus sínum inn.
Ekki að undra, sagði hann, þó Framsókn sé að hækka í skoðanakönnunum, þegar þúsundir kvefaðra Íslendinga hafi fengið í sig framsóknarvírus með hóstasafti og lýsistöflum.
Þetta er ekki vitlausari skýring en mörg önnur.
Athugasemdir
Lýsi er hollt.......
Hermann Aðalsteinsson (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 09:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.