Miðvikudagur, 2. maí 2007
1. maí 1923: Fyrsta kröfugangan á Íslandi. 4. hluti.
Fyrri þrír hlutarnir eru hér að neðan:
Það var til marks um eldmóð manna, að kvöldið eftir hélt Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur fund í ungmennafélagshúsinu við Laufásveg, og ræddi Ólafur Friðriksson þá um efnið: Hvernig á að framkvæma alræði alþýðunnar á Íslandi.[1] En Morgunblaðið vildi hvorki sitja undir alræði öreiga né byltingu, og hafði heldur ekki áhuga á kröfugöngum:
Verkalýðsfjelögin hér höfðu efnt til kröfugöngu í gær 1. maí og fóru hana. En furðulega þótti mönnum hún fáliðuð, svo mikið sem á hafði gengið í Alþýðublaðinu um hana daginn áður. Voru það á að giska 40 til 50 fullorðnir menn, og konur, en hitt smábörn, sem lofað hafði verið með til skemmtunar og uppfyllingar. Rauðir fánar blöktu yfir þessum fámenna flokki og allmörg spjöld voru borin með í honum með ýmsum upphrópunum. Er það til sóma verkamönnum, að þeir létu ekki þvæla sér út í þennan leikaraskap.[2]
Morgunblaðið leiðrétti sig síðan og sagði, að líkast til hefði blaðið vanáætlað fjölda göngumanna. Einn þeirra hefði haldið því fram við blaðið, að um 2.000 manns hafi gengið, en Alþýðublaðið nefni 500, og telji þá með hverja sál, jafnvel þá, sem búi í litlum líkama, en börnin hafi verið fjölmennust í göngunni. Blaðið rakti síðan, í stuttu máli, sögu kröfugangna verkamanna 1. maí og taldi, að þær eigi betur við í stórborgum.[3] Steinn Emilsson, ritstjóri Stefnunnar, sagði hins vegar, að íslenzki fáninn í brjóstfylkingu er gæfudrýgri en hinn blóðrauði spillingafáni kommúnista og lögbrjóta. Staðreyndin væri sú, að skrílnum undanteknum, er ekki einn einasti maður í landinu er afneitar íslenzka fánanum.[4] Fulltrúar þess skríls, sem hyllti bæði rauða fána og bláa, létu þó í sér heyra um atburði verkalýðsdagsins:
Fyrsti maí er dagur verkamanna um allan hinn mentaða heim. Á þessum degi fyrir 35 árum, sama ár og hið svonefnda 2. Internationale var stofnað, gengu verkamenn fyrsta sinn kröfugöngu fyrir löggilding átta stunda vinnutíma. Síðan hafa þeir haldið uppteknum hætti og 1. maí er nú löngu orðinn sjálfsagður og ákveðinn frídagur hinna vinnandi þræla auðvaldsins. Í flestum löndum hafa verkamenn fengið þessari kröfu sinni framgengt, en þó ekki alstaðar. Þar sem kröfunni hefir verið fullnægt, halda verkamenn daginn hátíðlegan í minningu þess, og krefjast þess jafnframt, að þessi sigur þeirra verði ekki aftur af þeim tekinn. Og reynslan hefur sýnt, að þessi síðasta krafa var heldur ekki ástæðulaus.
Það versta væri, hélt Rauði fáninn fram, að sósíaldemókratar hefðu svikið stefnuskrá sína hina fornu og verkalýðinn í heild sinni, að þeir eru orðnir leiguþý auðvaldsins og hægri hönd þess í baráttunni gegn verkalýðnum. Kommúnistum einum væri treystandi til þess, að halda dag þennan hátíðlegan og það, sem hann hafi staðið fyrir og muni gera á komandi tíðum, ekki síst á Íslandi.[5] Staðreyndin væri sú, að hægri-jafnaðarstefnan er þess ekki megnug, að leysa verkalýðinn úr fjötrunum.[6] Eina leiðin til þess, væri að hefja skilyrðislausa stéttabaráttu; baráttu við auðvaldið.
[1] Jafnaðarmannafélagið, Abl. 2. maí 1923.
[2] Dagbók Verkalýðsfjelögin, Mbl. 2. maí 1923.
[3] Kröfugangan, Mbl. 3. maí 1923.
[4] Fyrsti maí og Alþýðublaðið, Stefnan II (bls. 13).
[5] 1. maí, Rauði fáninn (maí 1924), 1-2.
[6] Bylting, Rauði fáninn (maí 1924), 3.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.