1. maí 1923: Fyrsta kröfugangan. Söguleg upprifjun, 1. hluti.

comin1communismÍ aprílbyrjun 1923 lagði Hendrik Ottósson, úr andstöðuarmi kommúnista, fram þá tillögu í fulltrúaráði verka­lýðs­félaganna í Reykjavík, að halda 1. maí hátíðlegan að hætti erlendra jafn­aðar­­manna. Upphaf þessa dags mátti rekja til þess, að í kröfu­göngu verka­­manna fyrir átta stunda vinnu­degi, á Haymarket-torgi í Chicago, 1. maí 1886, réðist lög­regl­an til at­­­­lögu og varð mannfall nokk­uð. 2. al­þjóða­­sam­bandið ákvað því síðar, í minn­­ingu píslarvotta þessara, að gera 1. maí að al­þjóð­legum bar­áttudegi verka­lýðsins fyrir kröfunni um átta stunda vinnu­­dag.[1] Verka­lýðs­félögin í nágranna­lönd­unum höfðu þegar fest daginn í sessi og víkkað út merkingu hans, svo hann tæki einnig til annarra hagsmuna verkamanna. En hér á Íslandi hafði spurningin um sér­stakan verka­manna­dag ekki alvar­lega komið til tals fyrr en á nýári 1923.

  Áður höfðum við rætt þetta í stjórn Jafnaðarmannafélagsins, en ekki orðið á eitt sáttir um það. Ólafur Friðriksson var vantrúaður á að tillaga þess efnis myndi ná samþykki fulltrúaráðsins, einkum vegna þess að þessi dagur væri ekki heppi­legur vegna tíðarfars. Við ræddum það líka á Vesturgötu 29, en Ólafur sótti sjaldan þá fundi, sem þar voru haldnir. Eiginlega var heldur ekki til þess ætl­azt. Var hann opt þungyrtur í garð „Vesturgötuklíkunnar”. Taldi hana sam­blástur gegn sér. 

Það virðist þó hafa verið „Vesturgötuklíkan”, sem frumkvæðið átti að því, að halda verkalýðshátíð 1. maí. Áhugalið alþýðu hafði komið sama í hús­næði sínu í kjallara Suðurgötu 14 að kvöldi 1. maí 1922, sungið verka­lýðs­söngva, drukkið kaffi og hlustað á ræður foringjanna. Það var þessi hópur, sem stóð nú fremstur í flokki þeirra, sem börðust fyrir kröfugöngu 1. maí 1923.[2]

Tillaga Hendriks var samþykkt í Fulltrúaráðinu, eftir nokkrar um­ræður. Aðeins einn fulltrúi greiddi at­kvæði gegn tillögunni, væntanlega Pét­ur G. Guðmundsson, sem sjálfkrafa greiddi atkvæði gegn öllum tillögum Hendriks, en aðrir voru þó hræddir við hana, þar sem hún hlyti að vera dul­búinn kommúnismi, úr því Hendrik væri flytjandinn. Sérstök 1. maí nefnd var kosin og var hún skip­uð þeim Ólafi Frið­riks­syni formanni, Þuríði Frið­riks­dóttur, Hendriki Ottós­syni, Erlendi Erlends­syni og Felix Guðmunds­syni.[3] 

Upphaf 1. maí göngunnar 1923 má því rekja til kaffisamsætis hjá Ólafi Frið­rikssyni einu ári áður, þar sem Hendrik Ottósson og félagar voru komnir saman til skrafs og ráðagerða, ef túlka má orð Vilhjálms svo. Pétur Pét­urs­son fræða­þulur telur hins vegar, í grein í Nýrri sögu 1996, að upphaf kröfu­göngu þeirrar hafi átt sér stað í umræðum í Jafnaðar­mannafélaginu 28. maí 1922 í samhengi við væntanlega skemmtigöngu full­trúaráðs verka­lýðs­fél­aganna þá um sumarið. Síðan hafi Guðjón Jónsson verkamaður lagt til, að verkalýðsfélögin ætti að eign­ast sinn hátíðisdag, eins og væri annars staðar og var tekið undir þetta, og Erl­endur minnst á 1. maí. Hendrik Ottósson hafi verið meðal þeirra, sem skrif­uðu undir fundargerðina, en ekki væri skráð ræða frá honum um þetta mál, sem væri óvenjulegt. Pétur segir síðan, það „vekur undrun að Hendrik Ottósson skuli stað­hæfa í fjölda greina og frá­sagna að hann hafi átt frumkvæði að fyrstu kröfu­göngunni en þegja um for­göngu Ólafs og annarra, sem kvöddu sér hljóðs og mælti með því ný­mæli.”[4]

Þessi athugasemd um Hendrik er ósanngjörn, enda var maður sá í litlu upp­áhaldi frá fræðaþulinum.[5] Það er alls ekki ólíklegt, að Hendrik hafi fyrstur manna vakið máls á þessu 1. maí 1922, enda hafði hann sjálfur orðið vitni að mætti kröfuganga, þegar hann stundaði nám í Danmörku nokkrum árum áður. En í öllu falli áttu umræður Áhugaliðsfélaganna sér stað fyrr í tíma en þær, sem fóru fram í Jafnaðarmannafélaginu, og nokkuð sömu mennirnir sem mættu á báða fundi. En vissulega er jafn óþarft að breiða yfir þátt Guð­jóns Jónssonar og annarra fundarmanna, eins og minnka þátt Hendriks í at­burðarásinni.

En á hinn bóginn er ljóst, að engin kröfuganga hefði farið fram 1923 hefði Hendrik Ottós­son ekki komið fram með tillögu sína í full­trúa­ráðinu og fylgt henni eftir með stuðningi félaga sinna. En í öllu falli var nú kröfuganga verkalýðsins skipulögð í fyrsta skipti 1. maí, hver sem má eigna sér hugmyndina, og var Hendrik Ottósson þar í fararbroddi, en hvergi bólaði á Guðjóni, svo vitað sé.Durgur nokkur hefur síðan vakið broddborgara bæjarins af værum blundi, með grein sinni í Alþýðublaðið 25. apríl, þar sem boðuð voru harð­­­­skeytt mót­­mæli verkalýðsins 1. maí, en fulltrúaráð verka­­lýðsfélag­anna hefði ein­mitt sam­þykkt, að gangast fyrir kröfugöngu á þeim degi. Þá yrðu kröfu­spj­öld á lofti, fánar á stöngum og marsérandi lýður: „Slík­­ar kröfu­göngur tíðkast hjá verklýðnum alls staðar í heiminum, — fram að þessu alls staðar nema á Íslandi.” Durgur hét því, að slagorð yrðu höfð í frammi gegn aðgerðaleysi bæjaryfirvalda og ríkisins, og þótt eng­in spj­öld munu bera níð gegn „Sigurði slefa” forsætisráðherra, „þá verða vafalaust einhver merki samt borin fram gegn stjórninni.”[6]


[1] Sjá m.a.; „Bandarískur verkalýður átti upptökin að því að gera 1. maí að baráttudegi”, Þjv. 23. apríl 1953. „Í dag”, Abl. 1. maí 1925. F[riðrik] H[alldórsson]: „1. maí”, Vinnan (apríl 1943), 31-33.

[2] V[ilhjálmur] S. V[ilhjálmsson]: „Fyrsta kröfugangan 1. maí 1923”, Abl. 1. maí 1935.

[3] Hendrik Ottósson: Vegamót, 47. Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 65.

[4] Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 62, 64.

[5] Í einum af nokkrum heimsóknum og símtölum höfundar til Péturs í Garðastrætið 1995-2004 barst Hendrik oft í tal, jafnan í tengslum við flóttamenn Gyðinga á Íslandi um 1938, og lýsti þá Pétur yfir andstöðu við Hendrik, ekki síst vegna skrifa hans um „Hvíta stríðið”, þar sem hann hefði beinlínis viðurkennt, að ríkisstjórnin hefði í sjálfu sér haft á réttu standa í deilunum við Ólaf, en það hefði engu skipt þá, þar eð málið hafi verið hentugt til að koma íhaldinu frá völdum. Þetta vildi Pétur ekki viðurkenna, enda var og er stuðningur hans við Ólaf í því máli nánast sálu­hjálparatriði (sbr. kafla 4).

[6] Durgur: „Kröfuganga 1. maí”, Abl. 25. apríl 1923. Með „Sigurði slefa” var átt við Sigurð Egg­erz forsætisráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband