Íslandsmót framhaldsskólasveita

MRMenntaskólinn í Reykjavík er Íslandsmeistari framhaldsskólasveita, eftir tveggja umferða einvígi við Menntaskólann í Hamrahlíð, hið forna stórveldi.

Jæja, nú er af sem áður var; aðeins tveir skólar senda skáksveitir á Íslandsmót framhaldsskóla.

Ég var að rifja upp gömlu góðu dagana í gærkvöldi með Gunzó Verzlingi og ritstjóra www.skak.is. Hér forðum, meðan ég var formaður skákklúbbs MH (1985-1989) voru jafnan tugir sveita skráðar og aldrei færr en en 4 eða 5 frá MH. Einu sinni sendum við MHingar 9 sveitir til leiks, en það ku vera met. Þar kom m.a. fram frægt lið, G-sveit MH, sem var skipuð harðkjarna Alþýðubandalagsmönnum, en meðal þeirra voru Hrannar B. Arnarsson, Jón Þór Ólafsson heitinn, Steingrímur Ólafsson (báðir synir Óla komma), og einhver einn enn, kannski Hrannar muni hver þar átti í hlut. Kannski það hafi bara verið Helgi Hjörvar sjálfur? Og þessar níu sveitir MH lentu held ég allar frekar ofarlega. Þar oru margir skemmtilegir skákmenn, t.d. þeir félagar úr Álftamýrarskóla, Örn Valdimarsson (síðar á Viðskiptablaðinu), Brynjólfur Hjartarson lögfræðingur og liðsstjóri FRAM, fornir vinir mínir Sveinn Rúnar Eiríksson, þekktari sem briddsari, Ingi Þór Ólafsson, nú læknir, og fleiri.

Þá var skáklíf með blóma í MH og mikill skákáhugi, jafnvel meðal æðstu manna. Ég man, þegar ég fór inn til Örnólfs rektors Thorlacius og fór fram á skákáfanga í MH. Það var umsvifalaust samþykkt. Síðar, þegar aðallega var hleypt inn í MH eftir búsetu, fór ég upp á skrifstofu og fór sterklega fram á að fá tvo félaga úr skákinni, Sigurð Daða Sigfússon og Þröst Árnason, í skólann, þótt þeir væru búsettir í Seljahverfinu. "Eru þeir góðir" var spurt, og þegar ég sagði að þeir væru báðir miklu betri en ég, var þetta sjálfsagt mál, hefðu þeir áhuga á að koma. Já, þetta var í gömlu dagana.


MHVerzló sendi þrjár sveitir og þótti það gott á þeim bænum. Síðan voru helstu skólarnir með, Ármúli, MR, og fleiri. Þetta voru gömlu góðu dagarnir.

Ég man alltaf, þegar ég hringdi í Ólaf Hraunberg Ólafsson, skákstjóra, og sagði: MH verður a.m.k. með níu sveitir í mótinu. Hann hélt ég væri að plata sig, en þá sagði ég: Ok, ég skrái 10 sveitir. Hann féllst þá á að skrá níu, og skipti ég 10. sveitinni niður á hinar aftari, til að hafa varamenn ef einhverjir yrðu illa fyrir kallaðir eftir skemmtanastúss á föstudagskveldi.

En svona hafa tímarnir breyst. Nú þykir gott, jafnvel í MH, að ná einni sveit til leiks.

Því er mikil þörf, að mínu mati, að efla skákáhuga í skólum, eins og nú hefur verið ráðist í, m.a. fyrir tilverknað Hrafns Jökulssonar og félaga í Hróknum, Hellis og TR. Þeir fyrstnefndu þó aðsópsmestir á þeim vettvangi. Það er hreinlega hörmulegt að sjá, að þegar menn fari í menntaskóla, skuli þeir hætta að tefla (hafi þeir teflt áður!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þettu eru afleiðingar þeirrar lægðar sem var í nýliðun í skákinni fyrir nokkrum árum en sveitum á eftir að fjölga nokkuð á næsta ári þegar strákarnir hans Torfa og fleiri koma í Menntaskóla. Það er athyglisvert að lægðin virðist aðeins hafa áhrif fjölda sveita en ekki styrk því Íslandsmeistararnir eru líka Norðurlandameistarar!

Hilmar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband