Föstudagur, 13. apríl 2007
2. umferð
Úff, þetta var erfið skák í gær. Tefldi við Hrannar Baldursson, a.k.a. Don Hrannar de la Breiðholt, hinn ötula kvikmyndagagnrýnanda bloggheima vorra.
Ég taldi mig standa vel að vígi fyrir skákina; 150 stigum hærri og með hvítt. Byrjunin lofaði góðu, Hrannari urðu á deilítil mistök í byrjuninni og fékk ég "alla stöðuna", eins og menn segja. En Hrannar varðist af hörku og þurfti maður að eyða síðustu bensíndropunum til að komast á leiðarenda. En að lokum var skriðþungi stöðunnar of þungur og einn hlekkur gaf sig og þar með hrundi vígið. En Hrannar getur verið ánægður með vörnina. Hann barðist vel og getur vonandi nýtt sér það til framdráttar í 3. umferð í dag.
En að öðru, Ingvar Þór titilveiðari var heppninn með andstæðing, GM Mihail Ivanov frá Rússía. Ivanov er frekar friðsamur og sagðist að fyrra bragði vera hálf smeykur við Íslendinga, sem jafnan eru betri en þeir virðast, stigalega séð. Nefndi hann þar til vitnis fræga skák 2002, þegar hann tapaði endatafli gegn mér skiptamuni yfir (þ.e. hrók gegn riddara, og síðan voru peð á stangli). En jafntefli var staðreynd hjá Ingvar og Mikhail. Ingvar fær Stefán Kristjánsson, sem er að verða stórmeistari fljótlega. Stefáni hefur ekki gengið sem best undanfarið og spái ég að Ingvar veiti honum samúðarjafntefli.
Héðinn vann frækinn sigur og er efstur ásamt 2 öðrum, Chris Ward, sem vann Löngumýrarskjóna (eldri), og Innu Gaponenko, eiginkonu Meijers, sem Ingvar Þór væóleitaði á skákborðinu í 1. umferð. Það kæmi mér ekki á óvart þó Héðin næði stórmeistaraáfanga núna.
Mörg jafntefli voru á toppborðunum, en jafnan löng. Ég tók nú ekki alveg eftir því, hvað fór þar fram, enda átti ég nóg með mína skák, sem var síðust að klárast. Við vorum lengi vel fjórir eftir, á tveimur borðum hlið við hlið, meðan aðrir kláruðu. Þar vann vinur vor Robert Harðarson Lagerman einhvern Bandaríkjamann í hörku skák. Speaking of....hann er akkúrat núna að sigla inn á BSÍ á "morgunfund" en við hittumst stundum á BSÍ að morgni og tökum stöðuna, skáklega séð.
"Litli bróðir" S. Bergsson yngri komst á blað í gær. Hann vakti mikla lukku í gær með nýja starfinu, en hnn er orðinn leikfimi kennari í Hlíðaskóla. Þeir sem þekkja manninn, hljóta af kíma a.m.k. aðeins. En hann er seigur strákurinn.
Nú, önnur merkileg úrslit voru, að "my friend Rúna' Ber' " þ.e. Rúnar Berg með dönskum framburði, hélt áreynslulítið jafntefli gegn Sigurbirni, svartteflandi Sævar væóleitaði jafnteflisvélina Jón Árna, sem tapar næstum aldrei með hvítu. Kallinn er nýgiftur og hefur sjaldan teflt betur en síðan þá. Hann er til alls líklegur í þessu móti, ef heilsan heldur.
Bragi Þorfinnsson, "Löngumýrarskjóni (yngri)", vann Indverjann Jha Sriram, en hann er eiginmaður konunnar með langa nafnið, sem vann Hjörvar í 1. umferð. Eg mæti honum í dag, þ.e. þeim indverska.
(Myndir: efst til hægri: Ingvar Þór; neðar til vinstri: Björn Löngumýrarskjóni, neðar til hægri, Sigurbjörn, neðst: Davíð Oddsson er reyndar ekki með á mótinu, en er vel tiltækur skákmaður).
Athugasemdir
Takk fyrir fögur orð í minn garð Snorri, en ég lofa því að berjast áfram af fullum krafti og þjálfa mig upp í að nota tímann betur. Þetta var að mínu mati sú skák sem ég hef lært mest af gegn þér. Annars skemmtileg grein.
Hrannar Baldursson, 13.4.2007 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.