Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 4. hluti

klefi1Það er ljóst af þessari frétt, að margir meintir hryðjuverkamenn ganga lausir. Ég ku vera einn þeirra. Mér var reyndar sleppt aftur eftir handtökuna. Komið hafði í ljós, að ég var sárameinlaus og alls ekki líklegur til að vera viðriðinn sprengjuárásir á flugvélar eða önnur tæki í eigu vestrænna aðila.

En þetta var engu að síður frekar óskemmtileg lífsreynsla, eins og ég hef rakið í nokkrum hlutum. 

Ég gerði hlé á frásögninni í gær þegar ég náði loksins að dotta smástund á dýnulausa blikkrúminu, með hendurnar sem kodda og jakkann sem ábreiðu. Mér hafði verið sagt að búast við að vera fluttur fyrir æðra yfirvald, þar sem líklegt yrði, að ég fengið c.a. 20 ára fangelsi og milljóna dollara fjársektir.

Ég hafði varla náð að blunda nema nokkrar mínútur þegar ég hrökk upp við einhvern hávaða. Ég sá engan og ekkert gerðist. Ég lá þarna bara og beið þess fyrirsjáanlega. Ég yrði semsagt settur í djeilið með ótíndum glæponum.

Ég tautaði nokkur uppörvunarorð fyrir munni mér og lyfti huga mínum hærra. Ég var hræddur. Hvað gera menn í svona aðstæðum?  Ja, þarna dugði ekki að leita til Darwins, hann er dauður. Vísindi eða fræði hjálpuðu ekkert. Ég hóf því að tauta það sem mundi af gömlum sálmum, lyfti huga mínum upp til hæða og leitaði þar liðstyrks.

Svona aðstæður er ekki hægt að útskýra fyrir þeim, sem ekki hafa reynt þær. Ég var hræddur. Allt í lagi að viðurkenna það. En eftir að hafa farið með stutta bæn lagðist ég aftur og sofnaði.

Ég veit ekki hvað eiginlega gerðist næst, en ég heyrði skyndilega rödd, eins og í morgunsvalanum. "Óttast eigi, óttast eigi". Ég reis upp og fann þá, að óttinn var farinn. Ég var ekki lengur hræddur. Þetta var eitt af þessum mómentum, sem maður gleymir aldrei. Ég get ekki útskýrt hvernig mér leið. En í hjarta mér var friður.

Þá var skyndilega barið á rimlana og vörðurinn benti mér að fylgja sér. Íslenskur sendiráðsstarfsmaður var kominn á staðinn og vildi eiga tal af mér.

Ég man ekki alveg tímaröðunina í þessu, hvort sendiráðsstarfsmaðurinn hefði komið þarna áður eða ekki. En núna, þegar ég fer að hugsa um þetta betur, held ég eiginlega að hann hafi verið kominn fyrir fyrri yfirheyrslunar. En hann sagði amk að sendiráðið væri að gangast í málinu. Og ég bað hann að hringja heim til foreldra minna og láta þau vita.

En í öllu falli hafði Friðrik Jónsson sendiráðsritari verið staddur á flugvellinum "fyrir tilviljun". Æ, ég er eitthvað voðalega vantrúaður á tilviljanir. En hann hafði séð mig leiddan burtu í járnum og kannast við gripinn. Jú, við höfðum setið í sendiráðsbústað Jóns Baldvins og Bryndísar rúmum þremur árum áður og rætt um heima og geima. Og hann mundi eftir fanganum.

Hvað ætli hefði gerst, ef Friðrik hefði ekki verið þarna staddur "fyrir tilviljun"? Þá hugsun þori ég eiginlega ekki hugsa til enda. Og ekki var verra, að þarna var kominn maður sem hafði greinilega hæfileika til að bjarga nauðstöddum skákmönnum, en ég sá hann síðar í sjónvarpinu vera að hjálpa Fischer að komast á milli farartækja á leiðinni til Íslands (að mér sýndist amk). Og báðir höfðum við verið handteknir af bandarískum yfirvöldum.

En Friðrik sagði, að verið væri að vinna í málinu. Já, ég var ekki lengur hræddur.


mbl.is Sprengjuárásir í Afganistan þrefölduðust á milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bid spennt eftir næsta hluta. Thetta er agalegt ad lesa tetta og eg fæ bara enn meiri obeit a Bandariska kerfinu en eg hafdi (og eg helt ad tad væri ekki hægt!). Alveg otrulegt thessi mannrettindabrot sem teir fremja og neita sidan ad svara fyrir neitt.
Flaug einmitt sjalf i Juni 2002 til USA og tad var svaka spenningur og madur spurdur bak og fyrir og mætti donaskapi og leidindum. Ædislegt ad koma sidan yfir til Canada tar sem hlutirnir voru og eru allt adrir!!

Iris (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 13:00

2 identicon

Hlekkirnir á annan og þriðja hlut vísa á sama stað -> 2. hluta.

gulli (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 13:09

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Takk fyrir.

Pétur Gunnarsson, 20.3.2007 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband