Þegar ég var handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 1. hluti

Dálitlar umræður áttu sér stað hér í gær um þann atburð, þegar ég var handtekinn af Könunum fyrir að vera terroristi. Þetta gerðist 2. janúar 2002, ef ég man rétt.

Ýmsar sögur hafa gengið um þennan atburð, flestar ósannar. Í ofanálag þurfti ég, undir hótunum um 20 ára fangelsi og milljóna dollara sektir, að skrifa undir skýrslu, sem var röng, rétt til að sleppa heill á húfi frá Bandaríkjunum. Í þessu samhendi benti ég á, að úr því  svona var komið fram við mig, hvernig ætli Kanarnir komi fram við meinta eða raunverulega terrorista í Guantanamo eða í Írak/Afghanistan?

En svona var þetta framsett:

Úr Mbl. 4. janúar 2002.

ÍSLENSKUR maður, sem var á heimleið frá Washington í Bandaríkjunum í fyrrakvöld, var handtekinn og færður í fangageymslur á flugvellinum eftir að hafa sagt að hann væri "alla vega ekki með sprengjur í skónum". Þurfti hann að dúsa um þrjá og hálfan klukkutíma í steininum áður en fulltrúar lögreglunnar og bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) ákváðu að láta mál hans niður falla.

Friðrik Jónsson, sendiráðsritari í Washington, var fyrir tilviljun staddur á flugvellinum þegar atvikið átti sér stað. "Maðurinn var í innrituninni hjá Flugleiðum þar sem verið var að fara yfir þessar hefðbundnu öryggisspurningar. Þar var hann meðal annars spurður að því hvort hann hefði pakkað sjálfur í töskurnar sínar. Í einhverju gríni svaraði hann því til að það hefði hann gert og alla vega væri hann ekki með sprengjur í skónum. Þá var hann umsvifalaust handtekinn og færður í fangageymslur."

Friðrik segist hafa tekið eftir manninum þegar búið var að handtaka hann og verið var að flytja hann í fangaklefa. Hafi hann þegar látið vaktstjóra Flugleiða á staðnum vita um að hann væri frá sendiráðinu. Í kjölfarið ræddi hann við yfirmann lögreglunnar á flugvellinum og fulltrúa FBI auk þess sem hann lét ferðamanninn vita af því að hann væri að vinna í máli hans.

Forsagan var sú, að 1998 hafði ég dvalið nokkra mánuði í Washington, þar sem ég var gestafræðimaður við Helfararsafnið. Ég kynntist þar nokkrum Íslendingum, m.a. Friðriki þessum, ágætis manni, sem starfaði þá fyrir sendiráðið í DC. Nú, fjórum árum síðar, var hann staddur á Baltimore flugvelli og varð vitni að því, þegar ég var handtekinn fyrir að vera terroristi. En ég vil ræða  þetta aðeins nánar.

  • "... eftir að hafa sagt að hann væri "alla vega ekki með sprengjur í skónum". Þurfti hann að dúsa um þrjá og hálfan klukkutíma í steininum áður en fulltrúar lögreglunnar og bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) ákváðu að láta mál hans niður falla."

Þetta er þvæla, kvótið a.m.k. Málavextir voru þeir, að meðan ég var í USA, frá 21. des til 2. jan, hafði verið í fréttum, bæði í sjónvarpi og blöðum, að vegna frægs sprengjumáls hefði verið ákveðið, að farþegar í millilandaflugi skuli fara úr skónum og eftirláta þá til gegnumlýsingar. Af einhverjum ástæðum las ég þetta þannig, að þetta væri þegar hafið, en ekki, að þetta stæði til. Þetta var því misskilningur af minni hálfu.

En þegar ég var að innrita mig hjá Flugleiðum á vellinum, spurði ég afgreiðslumanninn, sem var Kani, hvort byrjað væri að gegnumlýsa skó manna? Hann svaraði því til, að það hefði hann ekki heyrt og bætti við: "Af hverju ætti að gera það"? Ég svaraði c.a.: "Til að athuga hvort menn hefðu sprengjur"? Hann sagði þá: "Ert þú með sprengju í skónum?" Ég varð hissa og svaraði: "Nei, auðvitað ekki."

Síðan tékkaði ég mig inn, fór á Burger King og labbaði aðeins um völlinn, enda svoldið í fyrri kantinum, tímalega séð. Síðan ætlaði ég inn, en þá var komin nokkuð löng röð. Sá ég þar náungann frá FLugleiðum og spurði: Er alltaf svona mikil biðröð?

Hann vildi ekkert við mig tala og fór ég í röðina. Kom þá nokkru síðar öryggisvörður, með byssu, og spurði mig hvort ég hefði sagst hafa sprengju í skónum, hvort ég hefði verið að hóta að detóneita sprengju hér á flugvellinum? Ég neitaði því. Hann lét þá aðstoðarmann sinn hafa á mér gætur, og fór og talaði við þennan starfsmann Flugleiða. Öryggisvörður kom síðan aftur og sagði mér, að hann hefði vitni að því, að ég hefði sagst hafa haft sprengju í skónum. og hefði verið með hótanir.

Þetta var auðvitað tóm della hjá honum.

Ég var nú handtekinn, rifinn úr skónum og handjárnaður fyrir aftan bak. Ég var síðan færður, með svollu offorsi út í löggubíl fyrir utan völlinn (og þurfti að ganga þangað á sokkunum). Mér verkjaði í vinstri öxlina, þar sem ég hafði meiðst forðum, en flugvallarlöggan tók ekki í mál að færa handjárnin framfyrir. "Handtaka er ekki lautarferð drengur. Þér á ekki að líða vel!".

Hananú!  Ég var semsagt handtekinn fyrir eitthvað, sem ég sagði aldrei. En  það var aðeins byrjunin.

En ég skil ekki hvað þessi starfsmaður FLugleiða var að pæla. Hann laug. Ég sagðist aldrei hafa haft sprengju í skónum, eins og hann sagði öryggisverðinum. Hann var að segja ósatt.

Því má bæta við, daginn eftir, þegar ég komst úr landi, þá var umræddur  maður á vakt. Ég reyndi að tala við hann, en hann svaraði engu, en var skömmustulegur á svipinn, nánast rauður í framan. Hugsanlega hefur hann skammast sín fyrir að segja ósatt...vonum það amk.

En svo segir í framhaldinu og vitnað í Friðrik sendiráðsstarfsmann:

"Maðurinn var í innrituninni hjá Flugleiðum þar sem verið var að fara yfir þessar hefðbundnu öryggisspurningar. Þar var hann meðal annars spurður að því hvort hann hefði pakkað sjálfur í töskurnar sínar. Í einhverju gríni svaraði hann því til að það hefði hann gert og alla vega væri hann ekki með sprengjur í skónum. Þá var hann umsvifalaust handtekinn og færður í fangageymslur."

Af því, sem ég hef sagt áður, er þessi frásögn röng. Ég grínaðist aldrei með neinar öryggisspurningar. En þetta var sú útgáfa, sem Friðrik fékk frá Könunum og hafði enga ástæðu til að efast um.  En ég var heldur ekki umsvifalaust handtekinn...það gerðist c.a. 2 klst síðar, eftir að ég hefði spurt Flugleiðastarfsmanninn, hvort það væri alltaf svona mikil biðröð.

 Vissulega skil ég, að menn skuli hafa varann á þegar kemur að öryggi á flugvöllum. En það er algjör óþarfi að ljúgja til að búa til terrorista. Ég hélt að nóg væri af þeim fyrir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég man vel eftir þessar frétt ... Ég man líka að mér þótti þetta ekkert athugavert, enda höfum við Íslendingar svo sérstakan húmor að maður gat auðveldlega sett sig í spor þessa meinta terrorista og sá ég það alveg fyrir mér að ég yrði að taka mig á og hætta að pjalla við innritunarstarfsmenn og hef alveg sloppið við handtöku ennþá.... en sé að það nú að það hefði svo sem ekki breytt neinu í þessu máli hvað sagt var, enda allir að fara á límingunum á þessum tíma  .....  Er samt ekki frá því að sagan í blöðunum hafi verið betri, svona þegar þú ferð að segja barnabörnunum sögna í ellinni  ...

Herdís Sigurjónsdóttir, 19.3.2007 kl. 09:39

2 Smámynd: Snorri Bergz

Ég er nú svosem ekki ljós yfirlitum, en með ljósa húð. Þegar ég var við nám í Jerúsalem var ég orðinn frekar dökkur (er með dökka skeggrót og djúpa, t.d.). Þá var ég grýttur af Aröbum fyrir að vera Gyðingur, og af Gyðingum fyrir að vera Arabi.

Svona er lífið stundum flókið.

Snorri Bergz, 19.3.2007 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband