Sunnudagur, 18. mars 2007
Lesb. Mbl. fyrir 50 árum: Sagan endurtekur sig
Var að gamni mínu að fletta gömlum Lesbókum og fyrir 50 árum síðan, laugardaginn 17. mars 1957, var lítil grein í Lesbókinni eftir Odd Berset um kjarnorkuvá þá, sem steðjaði yfir á þeim tíma. (Sjá Lesbók Mbl. á www.timarit.is).
Oddur þessi ræddi hversu nasistar höfðu hótað að beita slíku leynivopni, en þeir náðu ekki að smíða slíka sprengju, þar eð af "snilld sinni" hafði Hitler hrakið marga bestu vísindamenn Þýskalands úr landi. Það voru síðan Bandaríkjamenn, m.a. með tilstuðlan þýskra flóttamanna, sem fyrstir sprengdu kjarnorkusprengju og bundu þannig enda á stríðið. Síðan ræddi hann, að Sovétmenn hefðu einnig komið sér upp slíkum vopnum. Hann segir síðan:
Nú er svo komið, að lýðræðið er eina hjálparvon mannkynsins, því að brjálaður einræðisherra mun ekki hika við, þegar honum býður svo við að horfa, að "þrýsta á hnappinn" og steypa heiminum í glötun. En í lýðræðisríki mundi slíkt ekki geta komið fyrir.
Vér vitum nú að tveir einvaldarnir í stærstu einræðisríkjum álfunar, voru báðir sinnisveikir og mjög á sama hátt. Þeim var sameiginlegt ofsóknarbrjálæði, valdafýsn og stórmennskubrjálaði.
Á þessum grundvelli verðum vér að gera oss grein fyrir því hver voði stafar af einvaldi, einkum hjá stórþjóðum. Sá voði vex hlutfallslega jafnframt því sem eyðileggingarmáttur kjarnorkuvopnanna vex.
Þessi grein gæti alveg eins verið umræðuefni manna í dag, hálfri öld síðar. Mörg einræðisríki hafa reynt að koma sér upp kjarnorkuvopnum, undir leiðsögn einræðisherra, sem líta helgi lífsins öðrum augum en t.d. í lýðræðisríkjum flestum. Má þar nefna Írak, Líbýu, Norður-Kóreu, Íran og vafalaust fleiri.
Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, var þó stöðvaður 1981 (ef ég man rétt), þegar Ísraelar réðust á kjarnorkuverið í Osirak. Síðar sagði George Bush eldri, að ef sú árás hefði ekki átt sér stað (og Bandaríkjamenn sjálfir mótmæltu og gagnrýndu á alþjóðavettvangi), myndu Írakar, með stuðningi Frakka og Rússa, hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum. Þá hefði staða mála í Miðausturlöndum jafnvel verið enn verri en hún er í dag, þ.e.a.s. ef kjarnorkustríð hefði ekki þegar brotist út. Líbýa er hætt svona löguðu, og Norður-Kórea hefur nýlega lofað að gera slíkt hið sama. En Íranir neita. Þeir vilja koma sér upp slíkum vopnum, fyrst og fremst til að geta fælt Ísrael frá því að verja sig með slíkum hætti, en þannig gætu múslimaríki ráðist á Ísrael án þess að óttast kjarnorkuvopn (meint) Ísraela meira en Ísraelar myndu óttast kjarnorkuvopn Írana.
Í dag er aðeins eitt de facto einræðisríki, sem ræður yfir kjarnorkuvopnum. Það er Rússland. Reyndar má frekar orða þetta svo, að einvaldur stjórni í lýðræðisríki. En Pútín er þó mun ábyrgari en Íransforseti, sem vísast lítur framtíðina í augum "haditha" Múhameðs, þar sem segir, að áður en Mahdi (messías) múslima geti komið aftur og stofnað alheimsríki íslams, þurfi múslimar að ráðast á Gyðinga og útrýma þeim. Ekki er sú heimsmynd neitt sérlega uppörvandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Facebook
Athugasemdir
En Pakistan? Lýðræði?
Ingólfur Gíslason, 18.3.2007 kl. 16:02
Að nafninu til, amk. En skuggalegt er það samt.
Snorri Bergz, 18.3.2007 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.