Ömurleg þjónusta á LSH

monaMig langar að ræða hér tvennt:

1. Slysadeildin í Fossvogi: Á síðasta rúmu hálfu ári hef ég vísast komið oftar en aðrir Íslendingar á slysadeildina í Fossvogi. Flestar heimsóknir mínar voru hins vegar til lyfjagjafar, eftir að hafa fengið einhvers konar blóðeitrun sl. haust. Fékk ég þann óþverra við að horfa á leik með Liverpool, og síðar sló mér niður, líka meðan ég horfði á Liverpool-leik. Það er greinilega stórhættulegt! En síðan kom til sögunnar smá vesen, t.d. tékk vegna árekstrar og svoleiðis.

Starfsfólkið á Slysó er afar gott og hef ég ekkert út á það að setja. En það er hreinlega bara gæði, en ekki magn. Það er forkastanlegt, að menn þurfi að bíða kannski 6-7 klst. eftir því, að komast að. Og ekki þannig, að það fólk hafi neitt sérstakt að gera þarna á meðan, nema horfa á RUV og lesa gömul tímarit.

Maður hefur undanfarið frétt af fólki, sem hefur beðið 7 klst eftir því að komast að. Ég á hreinlega ekki orð yfir þessu. Þegar ég var þarna síðast sat ég lengi vel við hliðina á konu, sem var með sár á fingri/hendi og þurfti aðeins að sauma nokkur spor. Þegar ég kom þarna um sjö leytið á Þorláksmessu hafði hún þegar beðið þarna  í c.a. 3 klst. Hún komst síðan inn um tíu eða hálf ellefu, og kom aftur út eftir c.a. 3-5 mínútur. Ég skil ekki svona forgangsröðun. Það hefði mátt hleypa henni inn, klára dæmið á nokkrum mín. og senda hana heim. Nei, þess í stað þurfti hún að bíða þarna hálft kvöldið, með jólaundirbúninginn eftir.

Sjálfur komst ég inn kl. um 11, ef ég man rétt. Þá var mér ekki lengur illt í hálsinum! Fékk skoðun og talinn hafa fengið smá högg, en þetta ætti að vera allt í lagi. Það reddaði kvöldinu að þá skoðaði mig flottur kvenlæknir, smá sárabót eftir ömurlegt kvöld.

En jæja, það er hreint út sagt óþolandi að sjúklingar á eiginlegri BRÁÐAMÓTTÖKU stærsta spítala landsins þurfi að bíða tímunum saman eftir því að komast að. Þetta er því ekki bráðamóttaka lengur, heldur slysamóttaka - slysó, eins og í gamla daga.

Ég vil einfaldlega mótmæla þessu. Spítalinn hlýtur að geta gert betur en þetta. Þetta er alveg til háborinnar skammar.

2. Spítalinn.

Jæja, læknarnir náðu að tjasla Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra saman. Það var gott. Fékk hann að vera þarna í c.a. viku, ef ég hef tekið rétt eftir, eða a.m.k. hartnær viku. En ekki eru allir jafn lukkulegir með spítalann. Eiginmaður frænku minnar, maður rétt innan við áttrætt, veiktist fyrir rúmlega ári og fór í hjartaþræðingu og eitthvað fleira. Hann hefur verið nokkuð veikur af og til síðan. En nú gerðist það í fyrrakvöld, að hann veiktist illa og var fluttur á spítalann einhvern tíma um miðnætti. (Mamma hringdi í frænku um tíuleytið og þá var hann enn heima, en veikur - og hefur þá verið fluttur á spítalann skömmu síðar.) Hann var síðan sendur HEIM VEIKUR UM KLUKKAN SEX AÐ MORGNI. ÉG ÍTREKA: HANN VAR SENDUR HEIM VEIKUR KLUKKAN SEX AÐ MORGNI...klukkan sex að morgni!! Hann var síðan fluttur aftur á spítalann eftir hádegi, ENN VEIKUR OG MUN VERRI EN ÞEGAR HANN VAR ÚTSKRIFAÐUR.

Hvurslags frammistaða er þetta eiginlega? Af hverju er verið að senda heim veikt fólk, og það mjög veikt gamalmenni? Eru læknarnir gengnir af göflunum? Hvaða fávitaháttur er þarna eiginlega á ferðinni? Eru þeir að reyna að losna við hann í gröfina eða hvað? Það versta er, að þetta er ekki í fyrsta skipti, að þessi sami maður hefur verið sendur heim fárveikur og orðið að leggjast aftur inn eftir nokkra klukkutíma.

Þessi maður hefur borgað skatta og skyldur til samfélagsins í um sextíu ár. Hann hefur alltaf verið dugnaðarforkur, unnið mikið og tekið þátt í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi, er iðnaðarmaður. En nú á að henda honum fyrir úlfana. Þetta er farið að minna á Euthenasia nasistanna. Ég vil fá útskýringar á þessu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband