Álafoss

Það var fyrir tveimur eða þremur árum, að ég fór upp í Álafosskvos með útlending, sem hingað hafði komið og viljað fræðast um eitt og annað í sögu Íslands. Hér var nánar tiltekið á ferðinni kona, sem hefur verið búsett í Askelon í Ísrael síðustu árin og fengið brennandi áhuga á ýmsu sem snertir búsetu ættmenna sinna í Evrópu. Hún bað mig að sýna sér staði, sem væru mikilsverðir í sögu Gyðinga á Íslandi.

Það er nú svo, að Gyðingar hafa komið afar lítið við sögu Íslands. Helst hefði mátt sýna henni hús Nathans & Olsens á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis, sem hefur tvöfalda tengingu, eða gömlu lögreglustöðina við Pósthússtræti, þaðan sem Gyðingum var vísað úr landi, aftur til Þýskalands, eða Hallærisplanið, þar sem Bernburg spilaði forðum í húsi, sem hét þá Hótel Ísland, ef ég man rétt.

En ég fór með hana upp í Álafosskvos, þar sem Hans Mann Jakobsson, þýskur Gyðingur vann um tíma hjá Sigurjóni á Álafossi. Það hefur vísast bjargað lífi hans. Þá hafði ég ekki komið þangað uppeftir í mörg ár, en ég varð strax hrifinn af staðnum. Mér fannst þetta vin í eyðimörku stórborgarinnar, rólegur og friðsæll staður sem snart mann djúpt. Það var eitthvað sérstakt við Álafosskvosina, eitthvað sem var ekki og er ekki hægt að útskýra fyrir þeim, sem ekki hafa komið þarna.

Nú, þessi vegur um Álafosskvosina. Ég veit voðalega lítið um þennan veg, en fyrir mitt leyti vil ég halda öllu raski sem lengst frá þessum stað. Ég hef ekki hugmynd um í raun, hvort nýi vegurinn raski kyrrð og ró staðarins, en það breytir mig í raun litlu. Ég vil óska, að bæjaryfirvöld í Mosó reyni að finna einhverja aðra leið fyrir vegagerð sína. Ég vildi óska, að Álafosskvosin fengi að vera í friði fyrir breytingum nútímans, þar sem allt snýst um hraða og peninga. Getum við ekki skilið eftir þetta svæði til minningar um glæsta fortíð.

Já, Álafoss svæðið er sérstakt. Þar unnu t.d. á fjórða áratugunum margir útlendingar, þám amk einn Þjóðverji, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægann á stríðsvöllum síðari heimsstyrjaldar í úrvalssveitum Heinrichs Himmlers. Og þar unnu margir aðrir merkilegir karakterar. Þar fór líka fram merkileg starfsemi, alveg frá upphafi iðnbyltingar á Íslandi. Þar var einnig fyrsta úthverfi Reykjavíkur (ef við undanskiljum Hafnarfjörð), osfrv. Af nægu mætti taka.

Álafosskvosin skipar sérstakan stað í sögu Íslands og ætti að vera varðveitt til komandi kynslóða. Beinum eldspúandi drekum okkar annað.


mbl.is Húsfyllir á tónleikunum Lifi Álafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband