Föstudagur, 2. febrúar 2007
2. febrúar 1893
fæddist föðurafi minn, Ingimundur Sveinsson í Meðallandi. Þegar ég fæddist var hann bóndi að Melhóli í Meðallandi. Hann hafði þá búið þar í nokkra tugi ára.
Melhóll var tvíbýli. Á hinu heimilinu bjó Gísli "á Melhól" Tómasson, þekktur maður víða um land, ekki síst í Skaftafellssýslu. Hann var athygliverður karakter, kunnastur fyrir að tengja sig blóðböndum við einhverja erlenda kónga. Flestir, held ég, "fíluðu" kallinn, en sumir þoldu hann ekki. En þegar ég var að alast upp, þá man ég eftir honum sem "manninum með súkkulaðið". Hann rak nefnilega litla sjoppu upp á háalofti á "gamla bænum", þar sem hann bjó, en er nú ónothæfur. Hann gaukaði stundum að mér gotteríi. Gísli er nú dáinn, en sonur hans býr í nýlegu húsi á jörðinni, sem næst stendur gömlu Leiðvöllum.
Ég man ekki mikið frá þessum tveimur og hálfa ári, sem ég dvaldi hjá foreldum mínum og ömmu Völu og afa Munda að Melhóli. Man þó eftir einstaka frændum mínum sem komu í heimsókn, m.a. einum sem varð síðar hreppstjóri eða oddviti Síðuhrepps, sem er V-Skaftafellssýsla austan Víkur. Ég man eftir okkur búa til snjókall uppi á reykkofanum, sem stóð c.a. 50 metrum frá íbúðarhúsinu. En fáar aðrar minningar hef ég frá Melhóli, t.d. man ég ekkert eftir afa Munda fyrr en löngu síðar. Hann fluttist fljótlega eftir að mamma og pabbi fluttu suður, haustið 1972, og kom sér fyrir, ásamt ömmu, hjá dóttur sinni, Sveinbjörgu (Böggu á Læk). Þangað heimsótti ég afa og ömmu nokkuð oft. Afi lést síðan 1982 og var grafinn að Prestbakka á Síðu. Hann hafði þá verið rúmliggjandi eins lengi og ég mundi. Amma Vala lifði nokkuð lengur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.