Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Neinei, margar ágætis kratar inn á milli
Ég á mér nefnilega nokkra "uppáhalds" krata, bæði lífs og liðna. Ég er ekki alfarið á móti krötum, eins og sumir hafa haldið hér á síðustu dögum. Ég á mér jafnvel nokkra uppáhalds krata.
Meðal þeirra er Pétur G. Guðmundsson, sem að mínum dómi var fyrsti íslenski jafnaðarmaðurinn. Hann var m.a. fyrsti formaður Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur, fyrsta stjórnmálafélags jafnaðarmanna, og hafði áður verið ritstjóri/útgefandi málgagna jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar. Hann varð síðan formaður Dagsbrúnar og bæjarfulltrúi í Reykjavík, og þá er aðeins það helsta talið. Mjög vandaður og góður maður. Annar krati sem ég held upp á, var Jón Baldvinsson. Um hann var aðeins gott eitt að segja, að mínum dómi. Maður getur ekki annað en "fílað" menn, sem standa á sannfæringu sinni, en það er því miður orðið óalgengt meðal nútímakrata, sem vilja frekar láta berast með vindinum, og það oftast afleiðis. Þriðji kratinn var í raun syndikalisti, að mínum dómi, en hallaði sér að hinum og þessum stefnunum, þegar svo bar við. Það var Ólafur Friðriksson.
Ég held mikið upp á Ólaf, ekki síst eftir að hafa lesið persónuleg gögn hans, sem ég fékk á sínum tíma lánuð frá barnabarni hans, sem hlýtur að vera með skemmtilegri atvinnurekendum landsins. Ólafur fylgdi reyndar kommunum í Moskvu um tíma, en það stóð stutt og var hann m.a. handtekinn í Rússlandi 1921, og sennilega fyrsti "bolsinn" sem handtekinn var í Ráðstjórnarríkjunum, en ekki sá síðasti. Síðan gæti ég talið upp marga ágæta krata, sem maður hefur álit á, þó maður sé að jafnaði ósammála þeim um pólítík. Síðan á ég mér tvo eftirlætis kommúnista, Hendrik Ottósson og Stefán Pjetursson, sá síðarnefndi gerðist reyndar krati, eftir slæm kynni af kommúnísku martöðinni í Moskvu. Og, ok, allt í lagi, ég skal jafnframt viðurkenna virðingu fyrir Einari Olgeirssyni. En minn uppáhalds krati er Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrv. formaður Alþýðuflokksins og forsætisráðherra.
Ég og aðrir sagnfræðingar þekkja hann pólítískt fyrst og fremst fyrir ráðherradóm hans í Þjóðstjórninni, á tíð síðari heimsstyrjaldar, en einnig fyrir að vera í forsæti Stefaníu, þegar Ísland gekk í NATO. En Stefán Jóhann Stefánsson á meira að baki. Ég tengist honum sjálfur með svipuðum hætti og Ólafi Friðrikssyni, en á sínum tíma fékk ég persónuleg gögn hans lánuð, með samþykki tveggja sona hans, Björns nágranna míns í Grænuhlíðinni og Ólafs, föður Sigurjóns, fyrrv. bókavarðar, og Braga, skálds og Sykurmola. Báðir eru þessir ágætu menn nú látnir. Um þá hef ég gott eitt að segja og var Björn nágranni minn í mörg ár og hafði ég gott eitt af honum að segja, og það reyndar mjög gott. Sonur hans er Gunnar Björnsson, bloggari og bankastarfsmaður. Með þeim feðgum og nokkrum öðrum stofnaði ég Taflfélagið Helli 1991. Gunnar hefur í raun haldið því félagi gangandi allar götur síðan og á skákhreyfingin honum mikið að þakka. Hann er jafnframt alþjoðlegur skákdómari og ritstjóri www.skak.is. Ég ætla þó að forðast að tala vel um þennan félaga minn til margra ára, enda gæti mér þá reynst erfiðara en ella að stríða honum með lélegu gengi Samfó, eða Liverpool, á msn. Sjálfur er Gunnar reyndar með stríðnari mönnum og höfum við brallað ýmislegt á þeim vettvangi í gegnum tíðina. En nóg af ættfræðinni.
Það sem kom mér mest á óvart hvað snerti Stefán Jóhann Stefánsson var, að í fórum hans fann ég margar smásögur, að ég held óbirtar. Margar þeirra voru afburða vel skrifaðar og þótti mér stundum nóg um, þar eð maður fann til vanmáttar gegn þessari afburða stílfimi, sem Stefán sýndi þar af sér. Skora ég á afkomendur Stefáns Jóhanns að gefa þessar sögur út. En í þessu samhengi kemur það mér ekki á óvart, að barnabarn Stefáns, Bragi Ólafsson, skuli skrifa jafn vel og skemmtilega og raun ber vitni, en síðasta bók hans ku vera, að mati sérfræðinga, ein best skrifaða skáldsaga síðari ára. Í mínum huga er þetta genítískt. En Stefán var jafnframt ágætis stjórnmálaforingi, þótt vissulega hafi hann gert mistök, eins og allir aðrir. Hann stóð fast gegn kommúnismanum, eftir að hafa reyndar verið svolítið spenntur fyrir "austræna andanum" um tíma, þegar hann var að stíga sín fyrstu skref á pólítíska svellinu. Og í mínum huga er hann faðir þess besta í jafnaðarstefnunni á Íslandi, "hægri-kratismanum". Hugsanlega mætti þó taka Jón Baldvinsson þar í reikninginn, eða Pétur G. Guðmundsson, en ég vel Stefán því á hans tíð urðu línur skýrari og greinarmunur var gerður á, hverjir væru hægri kratar og hverjir stóðu til vinstri í Afl.
Það má vera, að ástæða þess að mér líkar svo vel við Stefán Jóhann sé að nokkru leyti komin til af góðum kynnum mínum af afkomendum hans, og lestri persónulega gagna hans. Hið sama mætti segja um Ólaf Friðriksson. Maður getur verið andstæðingur stefnumála manna, en þegar maður fer að kynnast þeim "persónulega", af lestri einkaskjala þeirra, fer manni að þykja vænt um þá, hafi þeir verið góðir og gegnheilir menn. Svo var í þessum tilvikum. En hvað Stefán Jóhann snertir, þá kemur einnig til ánægja með margskonar störf hans og skoðanir. Hann var t.d. meðal foringja Friðarvinafélagsins, sem barg þýskum flóttamönnum, sem Hermann Jónasson reyndi að reka úr landi. Hann hafði jafnframt forgöngu um, að veita þeim hjálp úr félagslega kerfinu, þegar hann var orðinn félagsmálaráðherra. Síðan hefur maður ákveðna hneigingu til, að halda upp á þá, sem kommúnistar voru á móti. En í heildina litið tel ég, að Stefán Jóhann Stefánsson hafi verið merkasti stjórnmálamaður jafnaðarmanna á 20. öldinni, ásamt Jóni Baldvinssyni. En af einhverjum ástæðum hefur krötum farið smám saman hnignandi, þegar liðið hefur á söguna og afburðafólki fækkað í forystu þeirra. Kannski það segi sitt um vandræði Samfylkingarinnar í dag?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.