1. maí 1923: fyrsta kröfugangan. 3. hluti

1. hluti

2. hluti

 

 

althyduflokkurinnUm hádegisbil tóku jafnaðarmenn að safnast saman við Bárubúð með kröfu­spjöld og rauða fána. Kröfugöngunefndin greindi viðstöddum frá göngu­leiðinni og lagði lokahönd á undirbúninginn. Nú blöktu rauðir fánar í há­degis­golunni og áttu nú vel við ljóðlínur Jóhannesar frá Kötlum: „Nú blakta rauðir fánar í mjúk­um morgunblænum/ og menn af svefni rísa og horfa í aust­ur­veg.”[1]

Hinn rauði fáni sósíalista blakti nú í fyrsta skipti í kröfugöngu á Ís­landi og undir honum gengu menn af stað um hálfþrjú leytið. Fremstur í flokki gekk merkis­berinn, með hinn rauða fána á lofti. Á eftir honum þrammaði Lúðrasveit Reykja­víkur, sem lék undir á göng­unni og hófu menn jafnvel upp raust sína í söng: „Sko roð­ann í austri” og „Inter­nat­­ionale”, al­þjóðasöng sósíalista. Þar á eftir kom stjórn Alþýðu­sam­bands­ins og tveir og tveir verka­menn saman í halarófu. Gengið var eftir Von­arstræti, Lækjar­götu, Bók­hlöðustíg, Laufásvegi, Skálholts­stíg, Bjarg­ar­­stíg, Freyju­götu, Baldurs­götu, Skólavörðustíg, Kárastíg, Njáls­götu, Vita­­stíg, Lauga­­­­veg, Banka­str­æti, Austurstræti, Aðalstræti, Vestur­götu, Bræðra­­borgar­stíg, Tún­götu, Kirkju­stræti, Pósthússtræti, Austur­str­æti, Lækjar­götu og Hverfisgötu, og safnast saman til fundar við Al­þýðu­­húsið á horni Ing­ólfs­stræt­is.[2]

 

   leninÍ grein Péturs Péturssonar um kröfugönguna birtast nokkrar skemmtilegar myndir úr göngunni. Í þeirri fyrstu sjást göngumenn halda af stað frá Bárunni með Kjartan Ólafsson fánabera í fararbroddi, en síðan má greina Héðin Vald­imarsson, Jón Baldvinsson, Harald Guðmundsson, Björn Blönd­al Jónsson, Stefán Jóhann Stefánsson og fleiri, síðan framsóknarkonur. Á síðari myndum má þó greina Hendrik Ottósson og félaga hans úr Áhugaliði alþýðu, sem gengu fremstir þegar halarófan var komin á Laugaveg, um­kringd­um forvitnum krakkaskara. Hendik var þá einmitt borða, sem táknaði forystu göngunnar.[3] Það var vísast vel vð hæfi.

 

Gangan fór að mestu vel fram, en víð­ast hvar fylgdust áhorfendur með af gang­stétt­um eða úr hús­glugg­­um. Björn Bjarna­son, síðar formaður Iðju, sagði svo frá, að gangan hafi farið frið­sam­lega fram, að öðru leyti en því, að „kastað var að okkur kerskni­yrðum af fólkinu á gangstéttunum, en enginn að­súgur.” Hann mundi einna mest eftir þessu fólki, því

  

Reykjavík var lítill bær í þá daga, menn þekktu þá í sjón alla bæjarbúa og mér er svo minnisstætt að fólkið sem á gangstéttunum stóð var að benda á eina og eina mann­eskju og segja „þarna er þessi og þarna er þessi sem vinnur þarna og þarna.” Maður heyrði það á fólkinu sem á gang­stéttunum stóð, að því fannst gangan hálfgerður, og sumum alger kjánaskapur. Að labba þarna um göturnar haldandi á nokkrum spjöldum, það þótti ekki merkilegt 1923.[4]

  

Lítið markvert gerðist því á hinni löngu göngu frá Bárubúð, upp í Þing­holtin, þaðan vestur í bæ og svo upp á Hverfisgötu. Vagn­hestur einn fældist þó á Lauga­vegi, líkast til við lúðrablástur göngumanna, en stökk þá Ólafur Friðriks­son á hestinn og náði að hemja æði hans, að því að aðdáandi hans greindi frá.[5] Víða í fylkingunni mátti líta hina rauðu fána jafnaðarmanna, auk nokk­urra tuga kröfu­borða og spjalda, þar sem slagorð jafnaðarmanna voru áletruð. Jafn­að­ar­menn voru þó ekki þeir einu, sem notuðu daginn til að leggja áherslur á kröfur sínar. Nokkrir drengir bættust nú í hópinn með eigin kröfuspjöld: „Það, sem við biðjum um, er Blöndahls brjóstsykur”, „Fleiri lít­il kaffihús”, „Fleiri hljóð­­færa­hús”,[6] en Ólafur Friðriksson rak þá Litla kaffi­húsið neðarlega á Lauga­veg­­inum, og eiginkona hans Hljóðfærahúsið í Austurstræti.

   

Kröfur og slagorð verkamanna að þessu sinni voru af ýmsum toga, s.s.:[7]

  • Framleiðslutækin þjóðareign
  • Einkasala á afurðum landsins
  • Vinnan ein skapar auðinn
  • Fátækt er enginn glæpur
  • Atvinnubætur gegn atvinnuleysi
  • Átta tíma vinna, átta tíma hvíld, átta tíma svefn
  • Enga tolla á nauðsynjavörur
  • Algert bann á áfengi
  • Fullnægjandi alþýðutryggingar
  • Réttláta kjördæmisskipan
  • Átta þingmenn fyrir Reykjavík
  • Kosningarétt 21 árs
  • Engan réttindamissi vegna fátæktar
  • Enga helgidagavinnu
  • Enga næturvinnu.
  • Næga dagvinnu
  • Engar kjallarakompur
  • Mannabústaði
  • Bærinn á að byggja
  • Bæjarlandið í rækt
  • Vökulögin bestu lögin.
  • Áfram þá braut
  • Fátækralögin eru svívirðing
  • Ófæra menn úr embættum
  • Rannsókn á Íslandsbanka
  • Niður með vínsalana
  • Er sjómannslífið ekki nema 2000 króna virði?
  • Hvar er landsspítalinn?

Á fundinum við Alþýðuhúsið hóf Hallgrímur Jónsson ræðuhöld og síðan hver af öðrum: Héðinn Vald­imars­son, Ólafur Friðriksson, Einar Jóh­­­anns­son bú­fræð­ing­ur og síðast Felix Guðmundsson. Skipulagðri dag­skrá lauk síðan um fjögur­leytið. Alþýðu­blaðið taldi, að um eða yfir 500 manns hafi tekið þátt í göngunni, en síðan hafi síðan 3-4 þúsund verkamenn safnast saman við Alþýðuhúsið. Hendrik Ottósson taldi síðar, að „það sé nokkurnveginn rétt.” Blaðið taldi jafn­framt, að and­stæð­­­ingar jafnaðarmanna hefðu ekki sýnt af sér neinn fjandskap, með ör­fáum undantekningum þó. „Enginn efi er á að kröfuganga þessi hefir á margan hátt mikil áhrif haft á almenning í bænum, ýtt við hugum þeirra í ýmsum efn­um og vakið þá til alvarlegrar umhugsunar um alvarleg mál, og munu þess bráð­lega sjást merki.” Ólafur Friðriksson, sem talaði um viðgang jafnaðar­stefnunnar, vitnaði í orð skáldsins, sem sagði: „Hér þarf vakandi hönd, hér þarf vinnandi hönd, til að velta í rústir og byggja á ný”.[8] Þessi hending sómaði sér vel í munni Ólafs, sem öðrum fremur hafði reynt að framkvæma þessa ósk skáldsins á Íslandi.


[1] Jóhannes Jónasson frá Kötlum: „Morgunsöngur”, í Ég læt sem ég sofi (1932).

[2] „Kröfugangan”, Abl. 2. maí 1923. „Tvær myndir úr sögu 1. maí á Íslandi — 1923 og 1931”, Þjóðviljinn 3. maí 1944.

[3] Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 57-59.

[4] „,Maður skildi ekki þýðingu þess þá’” (rætt við Björn Bjarnason), Þjóðviljinn 1. maí 1973. Margrét Ottósdóttir greindi þó frá því, að alla „þessa leið var æpt og hrópað að okkur og skítkastið dundi yfir; sumir köstuðu mas [meira að segja] grjóti”, en göngumenn ekki skipt sér af því, fyrr en kom að girðingunni á horni Hverfisgötu, þegar tveir strákar, bræður og synir íhaldsbroddborgara, hafi tæmt þolinmæði hennar. Hafi hún rokið á þá og „slóst við þá þarna á horninu.” Sjá; „Það varð lítið eftir af hvítu skónum” (viðtal við Margréti Ottósdóttur), Þjóðviljinn 1. maí 1923.

[5] Pædagogos: „Snarræði”, Abl. 5. maí 1923. Sjá einnig; Felix Guðmundsson: „Opið bréf til séra Jes Gíslasonar”, Abl. 1. okt. 1923.

[6] „Kröfugangan”, Mbl. 3. maí 1923. Um Blöndahls-brjóstsykurinn, sjá: Guðjón Friðriks­son: „Magnús Th. S. Blöndahl”, í Gils Guð­munds­son (ritstjóri): Þeir settu svip á öldina. Íslenskir athafnamenn III (Rvk, 1989), 177.

[7] „Kröfur og kjörorð borin í kröfugöngunni 1. maí 1923”, Þjv. 1. maí 1953. V[ilhjálmur] S. V[il­hjálmsson]: „Fyrsta kröfugangan 1. maí 1923”, Abl. 1. maí 1935.

[8] „Kröfugangan”, Abl. 2. maí 1923. (Ræða frummælanda á útifundinum, Hallgríms Jóns­sonar, birtist síðan í Alþýðublaðinu 3. og 5. maí.) Hendrik Ottósson: Vegamót, 51. Sjá einnig mynd af ræðuhöldum á Alþýðuhússlóðinni, 63.

 í Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996),


mbl.is Almannahagsmunir ráði för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiki á ensku eða íslensku?

eða: Hvað finnst fólki?

1. maí 1923: Fyrsta kröfugangan: 2. hluti

Fyrsti hluti:

 

communismHendrik Ottósson kynnti síðan hátíðahöldin og tilefni þeirra formlega í Al­þýðublaðinu, enda var hann potturinn og pannan í öllum undirbún­ingi þeirra. Hann rakti þar sögu dagsins og hefur væntanlega bitið í tunguna þegar hann sagði frá því, að 2. alþjóðasambandið hafi á sínum tíma komið þeim siði á, að halda Haymarket-daginn hátíðlegan og „beita sér fyrir því, að verka­menn legðu niður vinnu 1. maí til þess að láta auðvaldið og fylgifiska þess verða vara við hreyfinguna í öllum löndum og krefjast 8 stunda vinnu­dags.” Það lægi beint við, að verkalýðs­hreyf­ing­unni hafi einkum tekist að innleiða frídag þennan í þeim löndum, þar sem jafnaðar­menn væru sterkir, en annarsstaðar hafi auðvaldið reynt að and­æfa, og stundum með góðum árangri. Í Englandi, Skandinavíu og víða í Þýska­­landi hafi verka­menn fengið að reka erindi sín 1. maí með friði og spekt, en ann­ars staðar, einkum í Frakklandi, hafi auðvaldið „sjaldan getað horft á kröfugöngu verkamanna án þess að áreita þá á einhvern hátt, og hafa jafnvel stundum orðið blóðugar skærur.” En nú væri röðin komin að ís­lenskum verka­mönnum, að taka undir með félögum sínum erlendis, og bera fram kröfur sínar 1. maí, ásamt því að minnast þeirra, sem fallið hafa í baráttu fyrir öreigalýðinn. Þetta sé „helgur dagur, — sann­helgur dagur”, sem verkamönnum beri skylda til að halda há­tíð­leg­an.[1]

    Að kvöldi 28. apríl hélt Alþýðuflokkurinn fjölmennan fund í Báruhúsinu, meðal annars til að ræða Íslandsbankamálið, sem þá lá þungt á jafn­aðar­mönnum, ekki síst Ólafi Friðrikssyni, sem hafði á liðnum árum átt í deilum við bankann, jafnvel fyrir dómstólum. Taldi hann, að óstjórnin væri slík í bank­anum, að ekki yrði þolað lengur og samþykkti fundurinn kröfu þess efnis, að opinber rannsókn fari fram á starfsemi bankans. Enginn af banka­stjórum hans, eða þingmönnum og ráðherrum, sem boðið hafði verið til fundar, sá sér fært að mæta til leiks. Næsta mál var „kröfuganga alþýð­unn­ar”, og héldu margir ræður þess efnis, að hvetja menn til dáða og „ganga rösk­lega eftir réttmætum kröfum sínum.” Hendrik talaði fyrstur og tóku aðrir jafnan undir ræðu hans. Að lokum var það samþykkt, að skora á at­vinnu­rekenda og verkstjóra, að veita verkamönnum frí á þessum degi.[2] Mánudaginn 30. apríl birtist síðan á­varp nokkurra verkalýðs­félaga á forsíðu Alþýðublaðsins:  

Til alþýðunnar í Reykjavík Fulltrúaráð verklýðsfélaganna í Reykjavík hefir ákveðið, að gengin skuli kröfuganga á morgun, 1. maí, sama dag sem alþýðan um allan heim heldur hátíðlegan og ber fram kröfur sínar. Þar sem fjölmargir alþýðu­menn eru nú burtu frá heimilum sínum og geta því ekki sótt þessa kröfu­göngu, er þess meiri ástæða fyrir þá, sem dvelja hér í bænum, til þess að fjölmenna. Við skorum á alt alþýðufólk, konur, karla og börn, að mæta á morgun kl. 1. e.h. í Bárubúð. Mætið í vinnuklæðum, ef ekki er tækifæri til að hafa fataskifti.
 

Undirritaðir voru: Héðinn Valdimarsson frá Dagsbrún, Sigurjón Á. Ól­afs­­son, Sjó­mannafélaginu, Ólafur Friðriksson, Jafn­­­aðar­mannafélaginu, Guð­mund­ur Ól­afs­­son, Stein­­­smiðafélaginu, Erlendur Erlendsson, Iðnnema­fél­­ag­inu, Guð­mundur Oddsson, Bakarasveina­fél­aginu, og Gunnar Einarsson, Hinu íslenzka prentara­fél­agi.[3] Athygli vekur, að nafn Jóns Baldvinssonar for­s­eta var þar ekki að finna.

   Kröfugöngunefndin birti eigin aug­­lýsingu á forsíðu Alþýðublaðsins og mátti þar einnig lesa baráttugrein, þar sem sagði m.a.:  

 

Alþýðumenn og konur! Á morgun eigið þið að safnast saman til þess að gera skyldu ykkar! Það er skylda ykkar að mótmæla misskiftingu auð­æfanna, — fá­tæktinni, höfuðmeinsemd núverandi þjóðskipulags, sem að eins er haldið við vegna hagsmuna örfárra einstaklinga. Það er skylda ykkar að mótmæla hinum illræmdu þrælalögum, sem kölluð eru fá­tækra­­lög, sem leyfa aðra eins svívirðu og þá, að menn séu fluttir í járn­um á einhverja ákveðna staði, sem þeir ekki vilja vera á, — að eins fyrir þá sök, að þeir eru fátækir.
 

Höfundur lét sér þó ekki nægja, að mótmæla kapítalismanum og hreppa­flutn­ing­um ómaga, heldur hélt áfram að brýna lesendum sínum sk­yldu þeirra, að mót­mæla ofþrælkun vegna langra vinnudaga, spill­ingu í em­bættis­veitingum, heimsku­legri kjördæmaskiptingu, og krefjast þjóð­nýt­ingar fram­leiðslutækjanna. „Á morgun er helgi dagur hjá jafn­aðar­mönnum um allan heim. Á morgun ganga jafnaðarmenn hvarvetna undir blaktandi fánum um göt­ur borganna og sýna auðvaldinu mátt sinn, mátt samtakanna. Íslenzkra al­þýða! Á morgun átt þú að sýna, að þú sért ekki eftirbátur alþýðu annarra landa.”[4] Dagur var að kvöldi, en að morgni reis maísól hins vinnandi manns:  

Að morgni hins 1. maí fóru sendiboðar til þess að hvetja verkamenn og konur til þátttöku. Þetta var erfitt verk og óvinsælt, því atvinnuleysi var og lítið til hnífs og skeiðar hjá alþýðu. Fólk sem fór úr vinnu vissi gerla, að það átti ekki afturkvæmt. Bezt gengu fram konur úr Verkakvenna­félaginu, en móttökurnar sem þær fengu voru misjafnar.[5]
 

Fremstar fóru valkyrjur þrjár, Caroline Siemsen, Jónína Jónatansdóttir og Jóh­anna Egilsdóttir (amma Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns) en þær gengu tvisvar á milli stakkastæðanna og reyndu að fá verkakonur til að taka þátt í kröfugöngunni. Jafnan uppskáru þær að­eins andúð „og það var kastað í þær skít og grjóti og ó­kvæðis­orðin flugu yfir”, jafnvel klám­fengin. Einn verk­stjóri kastaði hörð­um saltfiski í Caroline og skipaði starfsfólki sínu að gera hið sama. Hún gafst ekki upp, en peysuföt henn­ar rifnuðu í at­gangn­um.[6]

[1] Hendrik J. S. Ottósson: „1. maí”, Abl. 26. apríl 1923.

[2] „Alþýðuflokksfundur”, Abl. 1. maí 1923.

[3] „Til alþýðunnar í Reykjavík” (áskorun), Abl. 30. apríl 1923.

[4] Hörður: „1. maí”, Abl. 30. apríl 1923.

[5] „Djarfmannlegt áræði er eldstólpinn”, Þjóðviljinn 1. maí 1973.

[6] „Það varð lítið eftir af hvítu skónum” (viðtal við Margréti Ottósdóttur), Þjóðviljinn 1. maí 1973. „Djarfmannlegt áræði er eldstólpinn”, Þjóðviljinn 1. maí 1973. Hendrik Ottósson: Vegamót, 48.


mbl.is Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí 1923: Fyrsta kröfugangan. Söguleg upprifjun, 1. hluti.

comin1communismÍ aprílbyrjun 1923 lagði Hendrik Ottósson, úr andstöðuarmi kommúnista, fram þá tillögu í fulltrúaráði verka­lýðs­félaganna í Reykjavík, að halda 1. maí hátíðlegan að hætti erlendra jafn­aðar­­manna. Upphaf þessa dags mátti rekja til þess, að í kröfu­göngu verka­­manna fyrir átta stunda vinnu­degi, á Haymarket-torgi í Chicago, 1. maí 1886, réðist lög­regl­an til at­­­­lögu og varð mannfall nokk­uð. 2. al­þjóða­­sam­bandið ákvað því síðar, í minn­­ingu píslarvotta þessara, að gera 1. maí að al­þjóð­legum bar­áttudegi verka­lýðsins fyrir kröfunni um átta stunda vinnu­­dag.[1] Verka­lýðs­félögin í nágranna­lönd­unum höfðu þegar fest daginn í sessi og víkkað út merkingu hans, svo hann tæki einnig til annarra hagsmuna verkamanna. En hér á Íslandi hafði spurningin um sér­stakan verka­manna­dag ekki alvar­lega komið til tals fyrr en á nýári 1923.

  Áður höfðum við rætt þetta í stjórn Jafnaðarmannafélagsins, en ekki orðið á eitt sáttir um það. Ólafur Friðriksson var vantrúaður á að tillaga þess efnis myndi ná samþykki fulltrúaráðsins, einkum vegna þess að þessi dagur væri ekki heppi­legur vegna tíðarfars. Við ræddum það líka á Vesturgötu 29, en Ólafur sótti sjaldan þá fundi, sem þar voru haldnir. Eiginlega var heldur ekki til þess ætl­azt. Var hann opt þungyrtur í garð „Vesturgötuklíkunnar”. Taldi hana sam­blástur gegn sér. 

Það virðist þó hafa verið „Vesturgötuklíkan”, sem frumkvæðið átti að því, að halda verkalýðshátíð 1. maí. Áhugalið alþýðu hafði komið sama í hús­næði sínu í kjallara Suðurgötu 14 að kvöldi 1. maí 1922, sungið verka­lýðs­söngva, drukkið kaffi og hlustað á ræður foringjanna. Það var þessi hópur, sem stóð nú fremstur í flokki þeirra, sem börðust fyrir kröfugöngu 1. maí 1923.[2]

Tillaga Hendriks var samþykkt í Fulltrúaráðinu, eftir nokkrar um­ræður. Aðeins einn fulltrúi greiddi at­kvæði gegn tillögunni, væntanlega Pét­ur G. Guðmundsson, sem sjálfkrafa greiddi atkvæði gegn öllum tillögum Hendriks, en aðrir voru þó hræddir við hana, þar sem hún hlyti að vera dul­búinn kommúnismi, úr því Hendrik væri flytjandinn. Sérstök 1. maí nefnd var kosin og var hún skip­uð þeim Ólafi Frið­riks­syni formanni, Þuríði Frið­riks­dóttur, Hendriki Ottós­syni, Erlendi Erlends­syni og Felix Guðmunds­syni.[3] 

Upphaf 1. maí göngunnar 1923 má því rekja til kaffisamsætis hjá Ólafi Frið­rikssyni einu ári áður, þar sem Hendrik Ottósson og félagar voru komnir saman til skrafs og ráðagerða, ef túlka má orð Vilhjálms svo. Pétur Pét­urs­son fræða­þulur telur hins vegar, í grein í Nýrri sögu 1996, að upphaf kröfu­göngu þeirrar hafi átt sér stað í umræðum í Jafnaðar­mannafélaginu 28. maí 1922 í samhengi við væntanlega skemmtigöngu full­trúaráðs verka­lýðs­fél­aganna þá um sumarið. Síðan hafi Guðjón Jónsson verkamaður lagt til, að verkalýðsfélögin ætti að eign­ast sinn hátíðisdag, eins og væri annars staðar og var tekið undir þetta, og Erl­endur minnst á 1. maí. Hendrik Ottósson hafi verið meðal þeirra, sem skrif­uðu undir fundargerðina, en ekki væri skráð ræða frá honum um þetta mál, sem væri óvenjulegt. Pétur segir síðan, það „vekur undrun að Hendrik Ottósson skuli stað­hæfa í fjölda greina og frá­sagna að hann hafi átt frumkvæði að fyrstu kröfu­göngunni en þegja um for­göngu Ólafs og annarra, sem kvöddu sér hljóðs og mælti með því ný­mæli.”[4]

Þessi athugasemd um Hendrik er ósanngjörn, enda var maður sá í litlu upp­áhaldi frá fræðaþulinum.[5] Það er alls ekki ólíklegt, að Hendrik hafi fyrstur manna vakið máls á þessu 1. maí 1922, enda hafði hann sjálfur orðið vitni að mætti kröfuganga, þegar hann stundaði nám í Danmörku nokkrum árum áður. En í öllu falli áttu umræður Áhugaliðsfélaganna sér stað fyrr í tíma en þær, sem fóru fram í Jafnaðarmannafélaginu, og nokkuð sömu mennirnir sem mættu á báða fundi. En vissulega er jafn óþarft að breiða yfir þátt Guð­jóns Jónssonar og annarra fundarmanna, eins og minnka þátt Hendriks í at­burðarásinni.

En á hinn bóginn er ljóst, að engin kröfuganga hefði farið fram 1923 hefði Hendrik Ottós­son ekki komið fram með tillögu sína í full­trúa­ráðinu og fylgt henni eftir með stuðningi félaga sinna. En í öllu falli var nú kröfuganga verkalýðsins skipulögð í fyrsta skipti 1. maí, hver sem má eigna sér hugmyndina, og var Hendrik Ottósson þar í fararbroddi, en hvergi bólaði á Guðjóni, svo vitað sé.Durgur nokkur hefur síðan vakið broddborgara bæjarins af værum blundi, með grein sinni í Alþýðublaðið 25. apríl, þar sem boðuð voru harð­­­­skeytt mót­­mæli verkalýðsins 1. maí, en fulltrúaráð verka­­lýðsfélag­anna hefði ein­mitt sam­þykkt, að gangast fyrir kröfugöngu á þeim degi. Þá yrðu kröfu­spj­öld á lofti, fánar á stöngum og marsérandi lýður: „Slík­­ar kröfu­göngur tíðkast hjá verklýðnum alls staðar í heiminum, — fram að þessu alls staðar nema á Íslandi.” Durgur hét því, að slagorð yrðu höfð í frammi gegn aðgerðaleysi bæjaryfirvalda og ríkisins, og þótt eng­in spj­öld munu bera níð gegn „Sigurði slefa” forsætisráðherra, „þá verða vafalaust einhver merki samt borin fram gegn stjórninni.”[6]


[1] Sjá m.a.; „Bandarískur verkalýður átti upptökin að því að gera 1. maí að baráttudegi”, Þjv. 23. apríl 1953. „Í dag”, Abl. 1. maí 1925. F[riðrik] H[alldórsson]: „1. maí”, Vinnan (apríl 1943), 31-33.

[2] V[ilhjálmur] S. V[ilhjálmsson]: „Fyrsta kröfugangan 1. maí 1923”, Abl. 1. maí 1935.

[3] Hendrik Ottósson: Vegamót, 47. Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 65.

[4] Pétur Pétursson: „Svipmyndir og frásagnir um fyrstu kröfugönguna á Íslandi”, Ný saga (1996), 62, 64.

[5] Í einum af nokkrum heimsóknum og símtölum höfundar til Péturs í Garðastrætið 1995-2004 barst Hendrik oft í tal, jafnan í tengslum við flóttamenn Gyðinga á Íslandi um 1938, og lýsti þá Pétur yfir andstöðu við Hendrik, ekki síst vegna skrifa hans um „Hvíta stríðið”, þar sem hann hefði beinlínis viðurkennt, að ríkisstjórnin hefði í sjálfu sér haft á réttu standa í deilunum við Ólaf, en það hefði engu skipt þá, þar eð málið hafi verið hentugt til að koma íhaldinu frá völdum. Þetta vildi Pétur ekki viðurkenna, enda var og er stuðningur hans við Ólaf í því máli nánast sálu­hjálparatriði (sbr. kafla 4).

[6] Durgur: „Kröfuganga 1. maí”, Abl. 25. apríl 1923. Með „Sigurði slefa” var átt við Sigurð Egg­erz forsætisráðherra.


Miðaldra Meat Loaf eftirlíking?

Þessi síða er nú varla mjög marktæk; hún taldi Sylvíu Nótt sigurstranglega síðast!

 

 


mbl.is Ekki hrifnir af Eiríki og Valentine Lost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar 1. maí var fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi

Jæja, opinber útgáfa er þannig, að 1. maí 1923 hafi dagur verkalýðsins verið haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti. Þá var reyndar fyrsta kröfugangan haldin. En ári áður höfðu nokkrir kommúnistar haldið daginn hátíðlegan.

Þeir héldu þó daginn ekki hátíðlegan með opinberum hætti, heldur hittust í laumi á fundarstað sínum, sungu söngva og voru jolly. Þeir héldu svo áfram með því, að laumast upp í Öskjuhlíð og vígðu þar hinn rauða fána verkalýðsins, þrátt fyrir haglskúr og erfiðar ytri aðstæður. Þar voru Ólafur Friðriksson, þáverandi leiðtogi kommúnista, Hendrik Ottósson, Kristmann Guðmundsson skáld, Friðrik Arason (sem síðar gekk í frönsku útlendingahersveitina, vinur Einars Olgeirssonar), Vilhjálmur S. Vilhjálmsson "ungliðaforingi" og síðar Hannes á horninu, og fleiri.1]

[1] „Hannes á horninu”, Abl. 1. maí 1943.


Bloggfærslur 1. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband