Miðvikudagur, 6. desember 2006
David Bronstein (1924-2006)
Fyrrverandi áskorandi um heimsmeistaratitilinn í skák, David I. Bronstein (félagi í Taflfélagi Reykjavíkur) lést í gær, 5. desember, í Minsk í Hvíta-Rússlandi, skv. fréttum.
Andlát Bronsteins (f. 1924 nærri Kiev) spurðist út í morgun á Chessclub.com, sem rekur internet skákklúbbinn ICC. Menn voru ekki vissir hverju skyldi trúa, uns þessar fréttir fengust staðfestar.
Með Bronstein er farinn einn frumlegasti og skemmtilegasti skákmaður sögunnar. Eftir hann liggja meðal annars tvær bækur í ísl. þýðingu, tveggja binda verkið Baráttan á borðinu. Hann kom nokkrum sinnum til Íslands og tefldi m.a. í Deildakeppni Skáksambands Íslands fyrir Taflfélag Reykjavíkur.
Blessuð sé minning hans
Skák | Breytt 7.12.2006 kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. desember 2006
Porto - Arsenal í kvöld
Leikurinn í kvöld gæti orðið spennandi. Okkur nægir jafntefli, en það er jafnan erfitt að spila upp á jafntefli, það vita skákmenn allra manna best.
Wenger segir, að Walcott litli fái fleiri tækifæri með aðalliðinu, nú þegar Henry er "meiddur", en er ekki tilbúinn að færa hann frá vængnum í framlínuna, þar sem hann spilar m.a. með England U-21 landsliðinu, en það sagðist hann myndu gera í framtíðinni, um það bil þegar hann keypti hann. Strákurinn sé annars ekki sami leikmaður og í janúar, þegar hann var keyptur. En höfum í huga, að Henry var vængmaður þegar Wenger keypti hann og gerði að framherja. En annars held ég að "meiðsli" Henrys sé ekki aðeins í höfðinu á honum, heldur inni í höfðinu á honum. Grunar að hann sé orðinn þunglyndur eða eitthvað svoleiðis. Það, að honum sé illt í hnakkanum eða hálsinum, getur varla þýtt mánuð utan liðsins. Það hlýtur eitthvað meira að vera að. En Wenger hefur engar áhyggjur, því Adebayor, van Persie, Walcott og aðrir ungir leikmenn muni sjá um að skora mörkin. Sjálfur telur Henry, að Cesc Fabregas muni skipta sköpun fyrir liðið, hann muni sjá um að vinna leikina.
Nú, auk Henrys eru langtímameiðslahrókarnir Lauren og Diaby enn meiddir, en Rosicky meiddist síðan nýlega og verður ekki með út árið. Síðan er Gallas víst enn meiddur og spurning með Senderos. Og Ljungberg er síðan alltaf meiddur, líka þegar hann er ómeiddur. Porto ku aðeins eiga við lítilsháttar meiðslavandræði og gætu komið bandbrjálaðir til leiks.
Líklegt lið, að mínu mati:
Lehmann
Eboue, Toure, Senderos/Djorou, Clichy
Hleb, Fabregas, Silva, Flamini, v.Persie
Adebayor
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. desember 2006
Vonbrigði


![]() |
Forseti Íslands og Svíakonungur verndarar nýs fræðasafns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir | Breytt 11.12.2006 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. desember 2006
365 Media Group
Jæja, nú heldur farsinn um 365 áfram. Fjársterkir menn berjast þar greinilega um yfirráðin, ekki endilega af því að mikil gróðavon sé svosem fyrir hendi, nema hvað það er alltaf sterkt að eiga slíkan fjölmiðarisa, eins og sést hefur vel undanfarið og löngum áður, þegar eigendur fjölmiðla beita þeim fyrir vagn sinn. Þetta hefur Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og blaðamaður, m.a. fjallað um síðustu misseri, t.d. þar og hér, hvað snertir gamla Tímann, og hér hvað snertir Fréttablaðið.
En ég vil benda á eitt smáatriði, nefnilega það, að 365 mun varla verða sterkt útrásarfyrirtæki, amk ekki í Englandi og undir sama nafni. Ég hef nefnilega fengið reglulega tölvupósta frá 365 Media Group, sem rekur m.a. vefritið Teamtalk og hefur gert um nokkra hríð. Ég þekki þar ekki vel til, og veit ekki hverjir eiga hverja, en sendandi þessara fréttapósta skráir sig "365 Media Group", svo mikið veit ég. 365 á Íslandi getur e.t.v. leikið sér í Danmörku, en fyrirtækið gæti lent í vandræðum, reyni það að skrá þetta nafn sitt í Englandi og reka þar einhverja starfsemi. Kannski væri betra að kalla þetta bara Baugur-Fons Media Group
![]() |
Straumur Burðarás selur allan sinn hlut í 365 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. desember 2006
Kemur lítið á óvart
Jæja, skýrsla Íraksnefndar Bandaríkjamanna er nú komin fram. Þar kemur ekki mikið á óvart svosem. Ég skrifaði einmitt um þetta efni hér fyrr í morgun og taldi þá líklegt, að Bandaríkjastjórn muni leggja fram drög um brottflutning herliðs frá Írak, og taldi að herinn myndi hverfa smám saman á brott, eins og frá Keflavík, og vera orðinn óvirkur þar suðurfrá fyrir árslok 2007. Í skýrslu þessari voru þó engar dagsetningar nefndar, en mér sýnist innihaldið vera af svipuðum toga og ég spáði fyrir.
Viðbætur að kvöldi: Jæja, nú var ég að frétta úr fjölmiðlum, að reyndar hafi þarna verið nefnd dagsetning, "í ársbyrjun 2008", sem er nokkurn veginn það sama og árslok 2007. Stundum er gott að vera spámannlega vaxinn!
Jafnframt kemur þarna fram vísan í vandamál svæðisins almennt, þar á meðal deilu Ísraela og Palestínumanna. Um þetta skrifaði ég í morgun:
Jafnframt er líklegt, að Bandaríkjamenn reyni að gera einhvern pakkadíl við íslamska heiminn og taki með ályktanir um Miðausturlönd í víðari skilningi, allt frá Ísrael/Palestínu til Afghanistans. Hafa ber í huga, að James Baker, aðal skýrsluhöfundur og ráðgjafi George W. Bush, er annar aðaleigenda Baker og Botts lögfræðifyrirtækisins, sem annast málefni Saudi Arabíu-stjórnar í Bandaríkjununum og hefur hagsmuni að gæta í, að halda Ríad-stjórninni ánægðri. Spurning hvort t.d. friðaráætlun Saudi Arabíu frá 2002 verði hluti af þeim pakkadíl, sem Bandaríkin muni gera við Íraka og íslamska heiminn á næstunni?
Ég veit ekki hvað Írökum mun finnast um þessa skýrslu, en mig grunar að hún eigi eftir að skila litlu árangri, a.m.k. ekki árangri í friðarátt. Ennfremur er ljóst, að tvö "lobbí" munu nú takast á í Bandaríkjunum, annars vegar "Ísraelslobbíið" og hins vegar "Arabalobbíið". Hið fyrrnefnda hefur jafnan verið sterkt á Capitol Hill, ekki síst á stjórnartíð Clintons og síðan á fyrri kjörtímabili Bush yngra. En nú hefur George dobbeljú greinilega tekið að halla sér að genginu sem veitti föður hans ráð, James Baker þriðja og öðrum, sem hafa meiri áhuga á góðum samskiptum við Araba en Ísrael. Hugsanlega hefur "pabbi gamli" átt þar hlut að máli, en hann var sá forseti Bandaríkjanna, sem var síst vinsamlegum Ísraelum á stjórnartíð sinni og mjög andvígur Ísrael meðan hann var hjá C.I.A. Hann vissi t.d. af árás Egypta, Sýrlendinga og co á Ísrael 1973, en bannaði að sú vitneskja yrði látin Ísraelum í té. Jafnframt sýndi hann af sér töluverða óvinsemd á köflum, en vegna Flóabardaga varð hann að friða Ísraela, til að forða því að Flóabandalagið myndi springa við, að Ísraelar hefðu svarað Scud árásum Saddams Husseins. En annars var George eldri lítt merkilegur forseti, þegar á heildina er litið. En nóg um hann.
Mig grunar, að framhaldið verði nú, að þessi tvö mál, Íraksmálið og deila Ísraela og Palestínumanna, verði ekki aðskilin framvegis, heldur tekið fyrir í einum pakkadíl...og Afghanistan jafnvel bætt inn í pakkann. Mun þá Bush vísast kaupa sér aflátsbréf með því að þrýsta ennfrekar á Ísraela, en gert hefur verið undanfarið, að gefa eftir og láta undan kröfum Araba, án þess að fá mikið í staðinn. Slíkt gæti keypt frið um skamma hríð, en ekki varanlega, meðan ráðandi öfl meðal Palestínumanna, Sýrlendinga, Írana, og fleiri nágrannaríkja Ísraels hafa enn ekki gefið eyðingu Ísraels upp á bátinn.
En hvað um Írak? Kemst þar á lýðræði? Það tel ég útilokað, nema um skamma stund. Lýðræði er fjarlægt hugsun Araba, þar sem frá örófi alda hefur tíðkast að sterkur höfðingi stjórni óskoraður. Tilraunir til lýðræðis, s.s. í Egyptalandi, hafa aðeins skapað lýðræðislega kjörinn einræðisherra, Hosni Mubarak, sem þó er einna skásti þjóðhöfðinginn á svæðinu. Í raun merkir orðið "lýðræði" í þessum menningarheimi, að fólk fær að kjósa sér einræðisherra...slíkt mun vísast gerast í Írak fyrr eða síðar, annað hvort beint eða í kjölfar veikra ríkisstjórna, sem munu standa máttlitlar á brauðfótum uns hinn sterki foringi kemur fram, vísast úr hernum.
Kemur þá ekki í ljós, að Íraksstríðið hefur því einu skilað, að skipt var um einræðisherra? Spurningin er síðan, hvort sá eigi eftir að verða eitthvað skárri en Saddam?
![]() |
Sagt skipta sköpum í Írak að Bandaríkjastjórn og þingið taki höndum saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.12.2006 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. desember 2006
Stefnubreyting í Írak?
Jæja, nú er von á Íraksskýrslu nefndar, sem skammstöfuð er eins og nafn formanns evrópusósíalistaflokksins. Breytingar á stefnu Bandaríkjanna liggja í loftinu, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu. Í breytingaferli þessu er James Baker þriðji, fyrrverandi utanríkisráðherra Bush gamla og formaður Íraksnefndarinnar, innsti koppur í búri.
Þegar Bandaríkin og fylgiríki þeirra réðust á Írak var ég í þeim hópi, sem lýsti yfir verulegum efasemdum um innrásina. Ég var ekki endilega á móti henni, sem slíkri, en taldi hana mjög vafasama, og taldi að Bandaríkin, og enn síður fylgiríkin, væru tilbúin að lenda í öðru Víetnam og þar að auki efaðist ég um, að ef Saddam yrði steypt af stóli, myndi ekkert betra taka við.
Íslam skiptir heiminum í tvo hluta: Dar al islam og Dar al Harb (vona að ég muni þetta rétt); heim íslams annars vegar, og heim stríðs hins vegar. Heimur íslams nær yfir öll þau ríki, sem íslam hefur einu sinni stjórnað, þar á meðal núverandi Ísrael, Balkanskagi, Spánn, suðurhluti Frakklands og svæði norður af Svartahafi, auk t.d. svæða í Kína og á Indlandi (t.d. Kasmír); eða þar sem múslimar eru í meiri hluta og ættu að stjórna. Önnur svæði eru löggild stríðssvæði fyrir hermenn íslams, sem skuli, þegar tækifæri er til, heyja jihad gegn heiðingjunum og koma á íslamskri stjórn út um allan heim. Jafnframt er óviðundandi að heiðingjarnir stjórni nokkru svæði í heimi íslams, jafnvel "fólk bókarinnar", þ.e. einkum kristnir menn, Gyðingar, Saraþústrumenn og Hindúar. Það á t.d. við um Ísrael, Líbanon (þar sem kristnir menn áttu lengi vel í fullu tré við múslima og Drúsa um stjórn landsins), Kasmír osfrv.
Af þessari ástæðu var ljós, að múslimar gætu aldrei sætt sig við stjórn Bandaríkjanna í Írak, ekki einu sinni leppstjórn þeirra, eða stjórn sem sæti í skjóli þeirra. Íslam getur umborið t.d. stjórn kaþólskra manna á Spáni, Sikiley og víðar, enda voru þessi lönd ekki hluti af kjarnasvæði íslams, en um Írak gildi öðru. Þar sátu kalífarnir forðum, í Bagdad (sem var þriðja sæti kalífanna, á eftir Mekku/Medínu og Damaskus), og því er það algjörlega útilokað, að samþykkja veru herliðs Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra þar. Írak er ekki jafn heilög jörð og svæðið umhverfis Mekku og Medínu, en nógu heilög til að hundruðir manna séu tilbúnar að sprengja sig í loft upp til að frelsa.
Það sem kemur mér mest á óvart er, að ekki sé meiri óöld í Írak en raun ber vitni.
En Bandaríkjamenn munu aldrei ná að berja andstöðu Íraka og erlendra trúbræðra þeirra niður. Ég held að Bush-stjórnin sé loksins að fatta það núna. Og Blair-stjórnin fylgir væntanlega á eftir. Og síðan Geir-stjórnin. Ég geri ekkert mál út af því, þótt Íslendingar hafi verið á lista hinna viljugu þjóða. Við vorum þar bara til skrauts, svipað og þegar frambjóðendur í prófkjörum birta lista í blöðunum yfir stuðningsmenn sína, sem sumir munu jafnvel ekki kjósa umræddan flokk í kosningum. En ég hefði frekar óskað, að ríkisstjórn Íslands hefði látið þetta vera.
En hver verður framtíð Íraks? Að mínum dómi væri farsælast, blóðsúthellingalega séð, að stofna þrjú "heimastjórnarsvæði" (eða jafnvel ríki) á landsvæði núverandi Íraks; Kúrdistan, og svæði súnníta og sjía. Írak hefur þegar einu sinni verið skipt, þegar Bretar launuðu vinsamlegum sheikhum vinsemdina og bjuggu til Kúveit úr litlu en olíuauðugu svæði syðst í landinu, og mætti jafnvel skipta aftur, en ég tel þó ólíklegt að landsmenn samþykki slíka skiptingu, nema auðvitað Kúrdar. Ennfremur myndu þá fleiri vandamál skapast, t.d. ef Kúrdar færu að krefjast þeirra kúrdísku svæða, sem liggja í Íran og Tyrklandi. Persónulega hef ég mikla samúð með Kúrdum, en ég tel ólíklegt að þeir nái sínu fram, til þess eru Tyrkir og Íranir of sterkir.
En hvað munu Bandaríkjamenn gera í framhaldinu? Líklegast munu þeir halda herliðinu áfram í Írak, en áskilja sér rétt til að fækka hermönnum smám saman, rétt eins og þeir gerðu í Keflavík, og fara frá Írak ekki seinna en í árslok 2007. Jafnframt er líklegt, að Bandaríkjamenn reyni að gera einhvern pakkadíl við íslamska heiminn og taki með ályktanir um Miðausturlönd í víðari skilningi, allt frá Ísrael/Palestínu til Afghanistans. Hafa ber í huga, að James Baker, aðal skýrsluhöfundur og ráðgjafi George W. Bush, er annar aðaleigenda Baker og Botts lögfræðifyrirtækisins, sem annast málefni Saudi Arabíu-stjórnar í Bandaríkjununum og hefur hagsmuni að gæta í, að halda Ríad-stjórninni ánægðri. Spurning hvort t.d. friðaráætlun Saudi Arabíu frá 2002 verði hluti af þeim pakkadíl, sem Bandaríkin muni gera við Íraka og íslamska heiminn á næstunni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.12.2006 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)