Þriðjudagur, 5. desember 2006
Lengsta hatrið
Ekkert hatur mannsins hefur varað eins lengi og andsemítismi, eða gyðingahatur. Engin þjóð hefur þurft að þola jafn mikið hatur, jafn lengi, og Gyðingar. Á hverjum degi birtast a.m.k. hundruðir hatursfullra og ósannra/villandi greina um Gyðinga í heiminum, flestar í ríkjum múslima. Á Vesturlöndum hefur þessi plága að miklu leyti legið niðri frá því skömmu eftir síðari heimsstyrjöld, en á undanförnum árum hefur orðið aukning á þessu fyrirbæri, ekki síst í þeim löndum, þar sem múslimar eru fjölmennir, og oftar en ekki borið fram af múslimum. Í seinna stríði var íslamski heimurinn nær algjörlega á bandi Hitlers, nema einna helst sú ætt sem nú ræður ríkjum í Jórdaníu. Hitler féll, en andsemítisminn ekki. Og áður en Guðmundur Steingrímsson byrjar að segja að þetta sé hatursáróður, þá er þetta því miður staðreynd, sem óþarfi er að fela...ekki síst fyrir manni af slíku ætterni. En þetta er aðeins inngangurinn að því umræðuefni, sem er til umfjöllunar hér, stutt yfirlit yfir stöðuna, eins og hún er í dag.
Ég horfði um daginn á fréttaþátt um andsemítisma. Að vísu kom þar lítið á óvart, enda hef ég rannsakað nokkuð sögu andsemítisma og hvað andsemítismi er, ekki síst þegar ég var gestafræðimaður við The United States Holocaust Memorial Museum 1998 og við nám í háskóla, þar sem ég skrifaði ritgerð hjá forstöðumanni The Center for Antisemtism Studies eða eitthvað svoleiðis, þ.e.a.s. Hebrew University of Jerusalem. En það sem sló mig mest í þessum fréttaþætti var, að sjá hvernig evrópskir þjóðernissinnar hafa enn á ný valið sér Gyðinga sem skotmörk, þó tiltölulega fáir Gyðingar séu búsettir þar, jafnvel í austurhluta Evrópu, þar sem Gyðingar hafa löngum verið fjölmennastir. Andsemítismi hefur í hundruðir ára verið útbreiddur í Rússlandi/Ráðstjórnarríkjunum og Póllandi, og jafnvel í Frakklandi, þar sem Dreyfusar-málið var einna þekktasta dæmi þessa. En maður hélt að þetta heyrði sögunni til, nema frá hendi ofstækismanna eins og Le Pen og síðan íslamskra klerka. Fréttir því lútandi fær maður reglulega frá Simon Wiesenthal stofnuninni, sem ég styrkti einhvern tíma um nokkrar krónur, en losna ekki við uppfrá því. En mikil var undrun mín þegar ég las eftirfarandi frétt í morgun:
More anti-semitism in France. A young group of students from a Jewish school in the 19th arrondissement in Paris were prevented by the driver from getting on bus 251 in Bobigny after he had noticed that they were wearing kippas (gyðingahúfu, innskot "Hvala"). The National Bureau for Vigilance Against Anti-Semitism is demanding that the Minister of Transport take disciplinary measures and press criminal charges against the driver. (Frétt upphaflega frá franskri fréttastofu)
Þessi atburður hafði ekkert með að gera ástandið í Miðausturlöndum og ekki var bílstjórinn, að því að ég best veit, múslimi, svo ekki er heldur hægt að kenna þeim um þetta. Þessi maður var einfaldlega Frakki af rómönskum ættum, vísast afkomandi einna þeirra leiguliða, sem þjónuðu aðlinum á lénstímanum í Frankaríki forðum.
Eins og venjulega eru til margir þeir, sem þola ekki þá sem á einhvern hátt stinga í stúf við "normið", þá sem eru öðruvísi á einhvern hátt en allur fjöldinn, hvort sem þeir séu litaðir á hörund, útlendingar eða t.d. Gyðingar. Mig grunar, að slíkt sé töluvert útbreitt í Frakklandi, þar sem ekki má lengur bera trúartákn, t.d. höfuðslæður, krossmen eða annað slíkt, í skólum og einhverjum öðrum opinberum stofnunum eða stöðum. Ég er samt ekki viss um hvort þessi lög hafa þegar tekið gildi, eða taki gildi bráðlega -- hef ekki nennt að fylgjast með þessu fáránlega máli. Frakkar vilja steypa alla í sama form, amk hið ytra og hafa náð að koma þessari hugsun inn hjá Evrópusambandinu, þar sem smám saman á að gera alla eins, eins og sagði í laginu forðum: "Litlir kassar, litlir kassar, allir eins." Það er þessi hugsun, sem gerir mig afar fráhverfan Evrópusambandinu...ég vil að menn fái að hafa sína sérstöku í friði fyrir öðrum, hvort sem það séu trúarbrögð, pólítískar skoðanir, sérstakar venjur eða óvenjulegur framgangsmáti, eða annað. Menn eiga ekki að þurfa að sæta áreiti vegna þess hverjir þeir eru, sé það öðrum að skaðlausu. Þótt ég skilji t.d. ekki hvað fær menn til að vera sósíalistar, KRingar, Spursarar eða annað þaðan af verra, virði ég rétt þeirra til að vera á annarri skoðun en ég, en fer jafnframt fram á, að þeir virði minn rétt, mína sérstöðu.
Í menntaskóla sat ég fjögur ár í frönskutímum, fór síðan til Frakklands beint eftir útskrift, eða svo gott sem. En ég hef sem betur fer aldrei þurft að fara þangað aftur...Ég er ekki á móti Frakklandi, sem slíku, en mér finnast hrokafull viðhorf Frakka til þeirra, sem eru öðruvísi en þeir (túristar, eða útlendingar almennt) ekki vera til fyrirmyndar. Þá er ég ekki endilega að tala um persónur, heldur að því að virðist vera opinber stefna franska ríkisins og maður gat endalaust hlegið að í Yes Minister og Yes Prime Minister, svo eitt dæmi sé tekið. Margir Frakkar eru ágætir, en í mínum vinahópi hafa allir að ég held farið til Frakklands og allir orðið fyrir vonbrigðum -- ekki með Frakkland, heldur Frakka. Frakkar eru þó ekki alslæmir, t.d. hafa þeir marga góða kosti, sem t.d. Þjóðverjar hafa ekki, og öfugt. Og vísast sjá útlendingar margt athugavert við íslensku þjóðarsálina. Ástæða þessa er sú, að við erum ekki öll eins, og eigum ekki að vera eins. Hver einstaklingur á hafa sérstöðu, hver þjóð á að hafa sín þjóðareinkenni. Gens una sumus -- við erum öll ein fjölskylda, en ég fengi andköf ef systir mín fengi skalla eins og ég. Við eigum ekki að vera eins, fjölbreytileiki er kostur, ekki galli, og hann þurfum við að virða. Jafnvel við þá sem bera höfuðslæður eða kippa. Sjálfur bar ég reglulega arabískan höfuðfatnað, þegar ég var í Egyptalandi eða Austur-Jerúsalem, og kippa, þegar ég var í Vestur-Jerúsalem. Þessi höfuðfatnaður gerir enga menn að verra fólki, eitt og sér, ekki frekar en menn verði vitlausari við að vera skeggjaðir eða klæðist leðurjakka. Útlit og klæðaburður fólks skiptir minna máli en innræti þess...hugsanlega með þeirri undantekningu, að svartröndóttur fatnaður ætti ekki að sjást á nokkrum manni, sér í lagi þeim sem eru í stuttbuxum.
Saga | Breytt 11.12.2006 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Hrafninn flýgur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Breskir iðnaðarmenn að meika það?

![]() |
Rassskoran mest pirrandi í fari iðnaðarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Búið að "afmeyja" Kárahnjúka

![]() |
Borað í gegn um aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Aulahúmor | Breytt 7.12.2006 kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Úr pólítíkinni
Skemmtileg grein birtist á Vefþjóðviljanum (www.andriki.is) í morgun. Þar segir m.a. frá því, að þjóðin sé samtaka um vantraust á þá þrjá þingmenn Samfylkingarinnar, sem nú ætli að draga sig í hlé.
Formaður Samfylkingarinnar hélt ræðu á dögunum og útskýrði þar fyrir öllum hvernig stæði á því undri að Samfylkingin hefði, þrátt fyrir vonir þjóðarinnar, ekki enn komist til valda. Á því reyndist vera skýring sem ekki tengdist stefnu flokksins og alls ekki formanninum. Þjóðin treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar, sagði formaður flokksins og virtist sjálf ekki gera neinn ágreining við þjóðina um það vantraust, en bætti við öruggur í fasi að frá og með næstu kosningum myndi þetta allt breytast.
Í framhaldinu segir síðan, að sami þingflokkur verði áfram næsta kjörtímabil (vísast miðað við nánast óbreytt fylgi) að þessum þremur þingmönnum, sem hverfa á braut. Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir hætta, og Guðrúnu Ögmundsdóttur var (ó)skiljanlega hafnað.
Það er því brotthvarf þeirra Rannveigar, Jóhanns og Guðrúnar sem veldur því að þjóðin, sem í dag treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar til neins, mun á morgun láta drauminn rætast og kjósa þau Ingibjörgu Sólrúnu, Jóhönnu, Lúðvík, Ástu Ragnheiði og félaga.
Formaðurinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sýnir ekki pólítíska ábyrgð í málinu, þar eð hún ber sjálf ábyrgð á slakri stöðu flokksins, málefnaskorti, stefnuskorti, almennum leiðindum og vantrausti kjósenda á flokknum, já flokknum, en ekki bara þingflokknum. Kjósendur virðist þess í stað flykkjast um Vinstri græna, sem hafa frá upphafi haft skýra stefnu og haldið sig við hana, meðan Samfylkingin skiptir um stefnu eftir því hvernig vindurinn blæs og nýjustu skoðanakannanir sýna, að landsmenn hafi áhuga á. Þessi tækifærissinnaði vinstriflokkur, klofinn í herðar niður milli hægri krata og gamalla komma og kvennalistakellinga, mun vonandi fá það sem hann á skilið, afhroð í næstu kosningum.
En talandi um vinstri græna og gamla komma, þá heldur Vefþjóðviljinn áfram og snýr sér nú að hinum sósíalistaflokknum, Vinstri hreyfingunni-grænu framboði, og ræðir aðeins um nýafstaðið prófkjör flokksins á höfuðborgarsvæðinu og segir, að þar hafi frambjóðendur m.a. komist í öruggt þingsæti, skv. skoðanakönnunum, með aðeins 400 atkvæði að baki sér.
Á dögunum var haldinn aðalfundur Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Aðeins um fimmtánhundruð manns tóku þátt í fundinum enda var hann aðeins opinn fyrir reykvíska félagsmenn á tilteknum aldri og auk þess haldinn á einum stað í bænum og það um miðjan virkan dag. Ekki var því við öðru að búast en fundurinn yrði fámennur og hvor formannsframbjóðandi hlyti aðeins um sjöhundruð atkvæði eða svo. Öðru máli gegnir hins vegar um glæsilegt prófkjör vinstrigrænna nú um helgina þar sem flokksmenn á öllum aldri og ekki aðeins úr Reykjavík heldur einnig Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og öðrum sveitarfélögum suðvesturkjördæmis komu á einhvern þriggja kjörstaða og kusu. Þar mættu samtals um þúsund manns til að velja á milli þrjátíu frambjóðenda svo að hver frambjóðandi hefur að meðaltali dregið langt yfir 30 kjósendur á kjörstað. Til að gera prófkjörið enn glæsilegra mátti svo kjósa þrjá frambjóðendur í hvert sæti.
Það eru því fleiri ungir sjálfstæðismenn í Heimdalli en vinstri grænir á höfuðborgarsvæðinu; þ.e. fleiri sem komast frá til að taka þátt í kosningu á vinnu/skólatíma í miðri viku, en kusu í prófkjöri á frídegi hjá VG á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þetta er víst öll "stórsóknin", sem Vinstri grænir voru að státa sig af. Síðan hnykkja andríkismenn út með: "Annars er sérstakt að á aðalfundi Heimdallar hafi tvær ungar konur fengið um sjöhundruð félaga sína til að kjósa til sig formennsku í litlu félagi. Hvers vegna fengu þær ekki þetta fólk til að skrá sig í Vinstrihreyfinguna grænt framboð og kjósa sig á þing?"
En um prófkjör VG. Fyrir nokkrum mánuðum síðan lagði ég hart að Katrínu Jakobsdóttur, varaformanni VG, að drífa sig nú á þing hið snarasta. Hún gaf ekki afdráttarlaust svar, en mig grunaði, að hún hefði þá þegar ákveðið að bjóða sig fram. Rök mín voru, að þrátt fyrir að ég væri í raun ekki algjörlega sammála neinu öðru í stefnu VG en andstöðu við inngöngu í EB, væri skárra að fá gáfaða konu inn á þing, þó hún hefði að mínum dómi rangar skoðanir, en vitleysinga með rangar skoðanir. Og nóg er af slíku fólki á þingi. Katrín náði síðan góðri kosningu í fyrsta sæti í einum af þremur kjördæmunum, sem í hlut áttu. Síðan bauð Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, sig líka fram og fékk kosningu í 2. sætið, vísast í liði með Ögmundi, sem gæti orðið frambærilegasti stjórnmálamaður landsins, myndi hann skipta um skoðun á flestum málum og hætta þessu nöldri. Báðar þessar konur, sem ég þekki en þó mismikið, eru frambærilegar, Lilja þó að vísu óreynd á þessum vettvangi, en um hæfileika hennar og vitsmuni þarf ekki að fjölyrða; og er þar að auki ein yndislegasta kona sem ég þekki.
En mér sýnist, að þessar tvær hæfu konur séu fulltrúar tveggja arma: Lilja er meira græn en rauð, Katrín meira rauð en græn (+Lilja femínisti, Katrín sósíalisti); rétt eins og Ömmi er meira rauður en Steingrímur (nema í útliti), en Steingrímur virðist vera fulltrúi "Ragnars Arnalds armsins" gamla, fyrst og fremst þjóðernissinni af 30. mars 1949 skólanum og ætti kannski frekar heima í Frjálslynda þjóðernissinnaflokknum nema fyrir það, að hafa smitast af bæði rauðu og grænu með árunum. SJS var þó meira rauður í gamla daga...rétt eins og Ómar Ragnarsson.
En að Alþingi. Með Lilju og Katrínu á Alþingi mun meðalgreindarvísitala þingmanna hækka nokkuð, þó á móti komi að nokkrir "frjálslyndir" og Árni Johnsen verða þar víst á næsta þingi...ja, svo ekki sé talað um ónefnda framsóknarmenn. En vera þessara manna þar er og verður auðvitað "tæknileg mistök" kjósenda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Gleði- og friðarjól?
Það var fyrir c.a. 20 árum, að maður að nafni Óskar Rútsson hélt ræðu um, að jólavesenið væri nánast orðið óþolandi og hann vildi helst losna við að taka þátt í þessari vitleysu. Ég tek undir með Óskari. Þetta er orðið ofboðslega þreytandi. Jólalögin hljóma í flestum útvarpsstöðum, alltaf sömu lögin, ár eftir ár. Auglýsingar hrynja yfir landsmenn eins og mý á mykjuskán og allt snýst um, að láta fólk eyða sem mestu af peningum fyrir jólin.
Ég reyni að hafa útvarpið lokað í desember og myndi vísast hafa sjónvarpið lokað líka, hefði ég sjónvarp á skrifstofunni, þar sem ég dvel lengst af. En þó komst ég ekki hjá því, að heyra Pálma Gunnarsson syngja hið sígilda lag: "Gleði- og friðarjól". Þar kemur m.a. fram hvatning um, að gleyma ekki Guði í öllu jólastressinu. Ég held að sú hvatning sé því miður of seint fram komin. Það er orðið langt síðan mér óraði fyrir, að jólin hefðu eitthvað með trúarbrögð að gera, önnur en ásatrú og önnur forn trúarbrögð Germana kannski, enda eru jólin fyrst og fremst vetrarsólstöðuhátíð með kaupmennskuívafi. Fæðing Jesú, samkvæmt sagnfræðilegum heimildum og vísindalegum útreikningum, mun hafa átt sér stað í lok mars, ef miðað er við frásagnir guðspjallanna. Hef ég heyrt, að 28. mars sé líklegasti dagurinn. Fæðingin var ekki í desember, en kaþólska kirkjan setti þessa hátíð á í desember til að blíðka "heiðingjana", svo þeir fengju að halda hátíðir sínar hátíðlegar áfram, þrátt fyrir að vera innlimaðir í kirkjuna.
En allt í lagi, menn mega halda fæðingu Jesú hátíðlega hvenær sem menn vilja, en ég yrði persónulega ekki sáttur við, að halda afmælið mitt í desember, enda á ég afmæli í byrjun apríl. Ef menn vilja halda upp á afmæli einhvers væri sniðugra að halda það á afmælisdaginn, eða svona um það bil. Og síðan er mesti brandarinn: hverjir mæta í afmæli einhvers og gefa gjafir innbyrðis, í stað þess að gefa afmælisbarninu? Mig grunar reyndar, að sá sem hlutfallslega fæstar gjafir fær á jólunum sé afmælisbarnið sjálft.
Ég var reyndar einu sinni staddur í Betlehem á jólunum, það var fyrir c.a. 5-6 árum síðan. Þá gekk ég, ásamt félaga mínum, frá Jerúsalem niður til Betlehem, gegnum vegatálma Ísraelshers og inn í borgina. Þar skoðaði ég fæðingarkirkjuna, sem auðvitað er ábyggilega ekki staðsett á fæðingastað Jesú -- rétt eins og Grafarkirkjan er alls ekki staðsett á gröf Jesú -- og hélt síðan í rúnt um svæðið, uns farið var heim undir kvöld. Þetta voru gleðileg jól af minni hálfu. En ég held reyndar að fáir þarna á svæðinu hafi munað eftir Guði...í Betlehem snúast jólin um að selja minjagripi og halda pólítískar æsingaræður gegn síonistum.
En aftur að jólunum 2006. Ég kemst vísast ekki hjá því að gefa nánustu ættingjum gjafir, sérstaklega börnunum hans bróður míns -- fjögur stykki alls -- og mæta í jóladinner hjá mömmu og pabba. En að öðru leyti mun ég reyna að taka sem minnstan þátt í þessari vitleysu. Ég held reyndar, að ég prófi þennan veturinn að halda upp á afmælið 28. mars, eða 3. apríl. Þá gætum við Jesú haldið upp á afmælið okkar saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Lítil umferð á landinu

![]() |
Vegir víðast auðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Aulahúmor | Breytt 7.12.2006 kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)