Miðvikudagur, 27. desember 2006
Hefur Morgunblaðið lítið "sjálfsálit"?
Ég segi hér:
Morgunblaðið er besta blað á Íslandi. Mbl.is er besti fréttavefur landsins, og þótt víðar væri leitað.
En Morgunblaðið segir hér á blogginu, að:
Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins.
Aha, ef fullyrðing mín hér að ofan, endurspeglar "ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins", hlýtur blaðið að hafa mjög lítið sjálfsálit.
Ég held, að Moggamenn þurfi að endurskoða þetta og segja, að bloggin hér "þurfi ekki að endurspegla....", því það er orðið svolítið þreytt, að það sé alveg sama hvað menn blogga hér á blog.is, Mogginn er alltaf á öndverðri skoðun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Leslie Lynch King jr. látinn
Hann fæddist Leslie Lynch King jr. í Omaha, Nebreska, 14. júlí 1913, en áður en hann fagnaði sínum fyrsta afmælisdegi höfðu foreldrar hans skilið. Móðir hans giftist þá aftur, manni að nafni Ford. Hann tók þá upp nafnið Gerald Rudolff Ford, eftir stjúpföður sínum. Ford varð ágætis íþróttamaður og komst á íþróttaskólastyrk til University of Michigan, þar sem hann lauk BA-gráðu. Hann hélt áfram námi og kláraði laganám við Yale-háskólann.
Ford þjónaði í bandaríska flotanum á tíð síðari heimsstyrjaldar. Við heimkomuna hellti hann sér út í stjórnmálin með heimssýn, sem þótti full frjálsleg. Fyrir stríðið höfðu Repúblikanar almennt verið einangrunarsinnar, þjóðernissinnaðir, þröngsýnir og nánast fastir í þeirri heimsmynd, sem þróast hafði í lok fyrra stríðs. Ford kom með nýjan og ferskan andblæ inn í stjórnmálin, ásamt mörgum öðrum af hinni nýju kynslóð stjórnmálamanna. Í þeim krafti sínum hlaut hann ágæta kosningu til fulltrúardeildar Bandaríkjaþings 1948 fyrir Michigan og sat í því embætti til 1973. Þá hafði hann verið leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni frá 1963. Árið 1973 var bandarískt samfélag klofið, m.a. vegna Víetnam-stríðsins og mannréttindabaráttu minnihluta hópa. Og Richard Nixon, Bandaríkjaforseti, var í vandræðum vegna Watergate-málsins. Nú gerðist það, að Spiro Agnew varaforseti sagði af sér og var þá Ford skipaður varaforseti, sá fyrsti, sem ekki hafði verið sérstaklega kosinn í það embætti. Ári síðar, 1974, sagði Nixon af sér og Ford tók við. Hann varð þá einnig fyrsti forsetinn, sem ekki hafði verið kosinn.
Ford-stjórnin annaðist brotthvarf Bandaríkjahers frá Víetnam og hafði í kjölfarið mikil áhrif á þá þíðu, sem komst á milli stórveldanna tveggja um þessar mundir. En hann hafði kefli að fótum sér. Annars vegar var hann harðlega gagnrýndur fyrir að veita Richard Nixon, fráfarandi forseta, sakaruppgjöf og einnig fyrir að ná ekki tökum á verðbólgunni. Bandarískt efnahagslíf var óvenju illa statt og var forsetanum vitaskuld kennt um, þótt ástæður þess hafi ekki síður verið þær, að Demókratar réðu fulltrúadeild Bandaríkjaþings og höfðu þar mikinn meiri hluta. Tilraunir Fords til umbóta strönduðu því á þinginu, þar sem Demókratar komu í veg fyrir helstu breytingar, stundum til þess eins að höggva í forsetann.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings rak öfluga stjórnarandstöðu og tókst jafnframt að koma allri sökinni á forsetann, þegar í ljós kom, að efnahagslífið var á hraðri niðurleið. Því fór svo, 1976, að Ford beið lægri hlut fyrir Jimmy Carter, Demókrata frá Suðurríkjunum. (Heimild: Wikipedia)
Undirritaður hefur tvisvar setið námskeið um sögu Bandaríkjanna, fyrst hér heima hjá Bergsteini Jónssyni heitnum, en síðar við Háskólann í Leicester í Englandi. Í síðari skiptið var nokkuð rætt um forseta Bandaríkjanna, kosti þeirra og galla. Mér er það sérstaklega minnisstætt, þegar kennarinn, maður að nafni Bailey (ef ég man rétt) ræddi um forsetakosningarnar 1976 og sagði eitthvað á þá leið, að aldrei fyrr hafi jafn vanhæfir menn verið í framboði til forseta. Kannski hef ég tekið þetta inn á mig, en ég er, eftirá að hyggja, eiginlega sammála honum. Carter var hvorki búinn persónutöfrum Ronalds Reagans né gáfum Williams Clintons. Ford var á svipuðum slóðum, en virðist þó hafa verið persónulega betur útbúinn en Carter, sem að mínum dómi var og er ekki mikið ofan á brauð.
En Ford náði því, að verða elsti forseti Bandaríkjanna og var rúmum mánuði eldri en Ronald Reagan, þegar hann lést nú 26. desember 2006, 93 ára að aldri.
![]() |
Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Góð frétt um Wilson Muuga
http://www.intermost.ru/news/82515/
Þetta er eitt það merkilegasta, sem ég hef séð um strand Wilson Muuga. Ég birti svo hér að neðan gamla mynd af Wilson Muuga.
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Megrun eftir jólin: Auðveld leið fyrir alvöru karlmenn til að missa kíló
Ekkert mál. Ég missti 1 kíló í dag.
Ég.....
....snyrti bara bringuhárin.
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Eitthvað er verulega rotið í Túrkmenistan
Bíðum aðeins við: af hverju þarf að velja þá, sem mega bjóða sig fram. Hvurslags bananaríki er þetta?
![]() |
Sex forsetaframbjóðendur valdir í Túrkmenistan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Alltaf sami áróðurinn í RUV
Jæja, enn á ný skýst áróðursútvarp PLO fram á sjónarsviðið, nú með merkilegum fréttum frá jólahaldi í Betlehem, þar sem Ísraelar eru gerðir að skotspæni, eins og venjulega, og fyrir fréttunum ber RUV formann PLO-félagsins og setur engar athugasemdir við málflutning hans, sem að venju er hlutdrægur og áróðurskenndur.
Nú, jæja, Ísraelar hindruðu víst aðgang pílagríma að Betlehem, skv. Sveini! Merkilegt, því ferðamálaráðuneyti Ísraels var með non-stop áætlunarferðir til Betlehem með pílagríma.
Geta þessir áróðursmeistarar á fréttastofu útvarps ekki leyft okkur að vera í friði frá þessum stanslausa anti-Ísrael áróðri þeirra á sjálfum jólunum?
En nú loksins átta ég mig á því, að það er orðið of seint að einkavæða RUV. Fréttastofa útvarps hefur a.m.k. fyrir alllöngu skipt um eigendur. Sveiattan. En eins og Jónas Kristjánsson sagði eitt sinn: "Óþverrinn smitar". Já, hann smitast frá fréttastofu útvarps.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Aðferð til að lækna menn af vondum fíknum?
Ætli þetta megi ekki líka nota á:
- fótboltafíkla
- spilasjúklinga
- dópista
- sósíalista
- KR-inga
- nöldurskjóður
- umferðardóna
osfrv?
![]() |
Telja sig hafa fundið leið til að stöðva löngun í áfengi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Bethune 2006
Jæja, þá er áramótaveislan framundan. Akkúrat fyrir ári síðan var ég um borð í Flugleiðavél á leiðinni til Lundúna. Þaðan hélt ég til Hastings, á suðurströnd Englands, og tók þar þátt í elsta og frægasta skákmóti í heimi. Þar gekk mér vel, heilt yfir litið, þó ég hafi klúðrað málum að lokum og misst af áfanga að alþjóðlegum meistaratitli í skák. En koma tímar, koma ráð.
Nokkrir félagar mínir úr skákinni eru nú staddir við ferjuhöfn í eða við Dover, á leiðinni yfir sundið. Stefna þér á að taka þátt í opnu skákmóti, sem fer fram í bænum Bethune í Frakklandi. Meðal þeirra er Björn Þorfinnsson, af Löngumýrarættinni, en hann er einmitt á myndinni hér til vinstri, en hún er tekin þegar við sóttum Moskvu heim 2003.
Af um hundrað keppendum eru strákarnir á topp 30, eins og meðfylgjandi þátttökulisti gefur til kynna:
1 | g | FEDORCHUK Sergey A. | 2599 F | SenM | UKR | IDF | Les Echecs de Vincennes |
2 | g | L'AMI Erwin | 2593 F | SenM | NED | ||
3 | g | SHCHEKACHEV Andrei | 2561 F | SenM | RUS | IDF | Echiquier de Meaux Beauval |
4 | g | BURMAKIN Vladimir | 2559 F | SenM | RUS | ||
5 | g | DEGRAEVE Jean-Marc | 2551 F | SenM | FRA | HNO | Orcher la Tour |
6 | g | SAVCHENKO Stanislav | 2532 F | SenM | UKR | PRO | Marseille Duchamps |
7 | m | NINOV Nikolai | 2500 F | SenM | BUL | CAZ | La Tour Hyéroise |
8 | m | TISSIR Mohamed | 2490 F | SenM | MAR | IDF | Echiquier de Meaux Beauval |
9 | m | ABERGEL Thal | 2474 F | SenM | FRA | IDF | Chess 15 |
10 | m | GHARAMIAN Tigran | 2467 F | SenM | FRA | NPC | Lille Université Club Echiquier du Nord |
11 | g | GRABARCZYK Miroslaw | 2463 F | SenM | POL | PRO | Marseille Duchamps |
12 | m | GLADYSZEV Oleg | 2463 F | SenM | RUS | LOR | Club d'Echecs Metz Fischer |
13 | f | FELLER Sebastien | 2424 F | MinM | FRA | IDF | Evry Grand Roque |
14 | m | FOISOR Ovidiu Doru | 2422 F | SenM | ROM | DSA | Echiquier Grenoblois |
15 | m | VAN DER STRICHT Geert | 2414 F | SenM | BEL | CHA | Reims Echec et Mat |
16 | m | FOISOR Cristina Adela | 2401 F | SenF | ROM | DSA | Echiquier Grenoblois |
17 | m | MARHOLEV Dimitar | 2391 F | SenM | BUL | CAZ | La Tour Hyéroise |
18 | m | SIMON Olivier | 2388 F | SenM | FRA | IDF | J.E.E.N. Paris |
19 | m | THORFINNSSON Bragi | 2387 F | SenM | ISL | ||
20 | SWINKELS Robin | 2379 F | CadM | NED | |||
21 | m | GIFFARD Nicolas | 2372 F | Vet | FRA | IDF | Cavalier Bleu Drancy |
22 | f | BJORNSSON Sigurbjorn | 2335 F | SenM | ISL | ||
23 | m | FOISOR Sabina-Francesca | 2326 F | CadF | ROM | DSA | Echiquier Grenoblois |
24 | f | JOSSIEN Arnaud | 2322 F | SenM | FRA | NPC | L'Echiquier Cappellois |
25 | f | THORFINNSSON Bjorn | 2317 F | SenM | ISL | ||
26 | f | LE QUANG Kim | 2305 F | SenM | BEL | IDF | Bagneux |
27 | MORELLE Ludovic | 2297 F | SenM | FRA | IDF | Echecouen | |
28 | JOSSIEN Remy | 2263 F | SenM | FRA | NPC | L'Echiquier Cappellois | |
29 | KJARTANSSON Gudmundur | 2246 F | JunM | ISL |
Skák | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. desember 2006
Óvinir ríkisins?
Ég hef verið að glugga í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, nú síðustu daga. Bókin er að mörgu leyti mjög athygliverð og að mínum dómi ein af bestu bókum ársins. Ég hef svosem ekki mikið við hana að athuga, fræðilega, enda skortir mig gögn og þekkingu á ákveðnum atriðum, sem þar eru rædd. Þegar ég les fræðibækur sagnfræðinga set ég mig jafnan í ákveðnar stellingar; sumum treysti ég ekki til að hafa unnið vinnuna sína, jafnan af fyrri reynslu, en öðrum treysti ég og les bókina án þess að hafa smásjá á vinnubrögðum og efnisinnihaldi. Guðni er einn þeirra, sem ég treysti til að fara með rétt mál, þ.e. ég treysti vinnubrögðum hans og heilindum Það mál er því afgreitt.
En mér finnst samt vanta svolítið framan á bókina, t.d. erlendar skýrslur um íslenska kommúnista frá því snemma á þriðja áratugnum, þar sem m.a. íslensk stjórnvöld eru vöruð við starfsemi þeirra. En auðvitað getur enginn sagnfræðingur fundið allar heimildir. Þetta atriði skiptir þó engu máli fyrir samhengið.
En mig langar til að draga hér fram gamlan pistil, sem ég skrifaði fyrir löngu, en hafði aldrei fyrir að birta. Hann kallaði ég þá DRAUMSÝN KOMMÚNISTA og birti hér óbreytta.
Á fjórða áratugnum komst í tísku að líta í austurveg. Gerska ævintýrið var í uppsveiflu og skósveinar stálbóndans í Kreml streymdu hverjir á fætur öðrum austur til Bjarmalands. Í kennslustofum Kominterns fengu föngulegir ungir Íslendingar uppfræðslu í fagnaðarerindi sósíalismans og útbreiðslu þess til föðurhúsa sinna. Nokkrir Íslendingar sóttu til að mynda Lenín-skólann í Moskvu þar sem mönnum var kennt að skipuleggja og reka undirróðursstarfsemi og vopnaskak hvers kyns. Aðrir sátu í Vestur-háskólanum svokallaða (KÚNMZ) og lærðu þar marxísk fræði og annað misjafnlega gagnlegt. Sovét-Ísland var draumur margra mætra manna og þegar þeir losnuðu loks við timburmenn byltingarinnar afréðu þeir að stofna sérstakan kommúnistaflokk á Íslandi 1930, þótt vitaskuld hafi háu herrarnir í Moskvu orðið að samþykkja ráðahaginn fyrir sitt leyti. Markmið kommúnistaflokksins var að koma á sósíalísku skipulagi á Íslandi í stíl við það sem reist hafði verið á rústum rússneska keisaradæmisins. Markmið íslenskra kommúnista komu mjög skilmerkilega fram í ritdeilu Einars Olgeirssonar við Jónas frá Hriflu á fjórða áratugnum. Deildu þeir félagarnir hart um samvinnustefnu og kommúnisma og þá þjóðfélagsgerð sem fylgismenn hvorrar stefnunnar um sig lögðu fram á vettvangi stjórnmála. Í síðustu svargrein Einars fjallaði hann um framtíðarsýn kommúnista fyrir Ísland. Þar boðaði hann þjóðnýtingu, aukin útgjöld ríkisins, aukin viðskipti við sósíalísk eða hálf-sósíalísk lönd, útrýmingu frjálsrar samkeppni, innrætingu æskulýðsins, ríkiseinkasölur, erlendar lántökur og fleira í þeim moll.[1] Hann taldi einnig að alþýðan þyrfti ekki að óttast auðmagnið í landinu en
[ú]rhrakið úr íslenzkri auðmannastétt kemur til með að beita öllum ráðum, allt frá skemmdarverkum og til vopnaðrar uppreisnar, ef það þorir Vopnuð uppreisn auðvaldsins gegn lýðræðinu, líklega studd frá Þýskalandi, er vafalaust langhættulegasta formið, sem mótspyrna auðvaldsins gegn lögum og rétti lýðræðisins getur tekið á sig. En það er um leið langhættulegasta formið fyrir auðmannastétt Íslands.[2]
En hvernig átti alþýðan að ná völdum? Jú, með því að sameina vinstri flokkana þrjá: Kommúnistaflokkinn, Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn undir stjórn kommúnista. En galli var á gjöf Njarðar. Alþýðuflokkurinn og Framsókn þurfa að losna við óttann af hringa- og bankavaldinu, flokksprincipið í embættaveitingum, yfirhylminguna með afbrotum sinna manna, yfirdrottnunarafstöðuna til alþýðunnar og metinginn og misklíðina milli flokkanna [og] verjast spillingunni í þeim sjálfum.[3] Þegar slíkum hrösunarhellum hefði verið rutt úr vegi myndi öflug vinstri stjórn undir forystu kommúnista taka völdin á Íslandi. En hvað svo? Hvað myndi gerast ef kommúnistar kæmust til valda? Einar Olgeirsson ímyndaði sér að alþýðuflokkarnir þrír næðu völdum á Íslandi í kosningum 1942. Næstu árin færu í framkvæmd sósíalískrar atvinnustefnu í ætt við búskap Kremlarbóndans. Að lokinni fyrstu fimm ára áætluninni, árið 1947, væri ástand þjóðfélagsins orðið breytt:
Undir stjórn þessa sameinaða flokks alþýðunnar hafði Ísland upplifað slíkar framfarir að engin dæmi þektust þess fyrri í sögunni. Landinu hafði verið gerbreytt úr landi, þar sem atvinnuleysi, gjaldeyrisvandræði, fátækt og basl ríkti og í land þar sem stórkostlegur iðnaður starfaði á grundvelli almennrar virkjunar fossanna og hagnýtingar hinna auðugu fiskimiða Landbúnaðurinn var orðinn gerbreyttur Aðbúnaður verkalýðsins hafði gerbreyst
Síðan yrðu kosningar haldnar hið sama ár. Efnahagur landsins væri í blóma, bændaflokkurinn hættur störfum og
Íhaldsflokkurinn var horfinn, nokkrir af forsprökkum hans höfðu verið gerðir landrækir fyrir landráð, en leyfarnar af flokknum leystust upp, eftir að heildsalar og stóratvinnurekendur hurfu úr sögunni Stéttamunurinn var horfinn, svo stéttaflokkar voru ekki lengur til og ekkert rúm fyrir þá í hinu sósíalistíska þjóðfélagi. Að vísu höfðu nokkrir fjárglæframenn sem flúðu af landi til Lundúna árið 1940, þegar Landsbankinn varð gjaldþrota og öll óstjórn valdaklíkunnar varð þjóðinni opinber, gefið úr blað erlendis og ráðist á hinn sameinaða flokk alþýðunnar og sakað hann um einræði, af því að hann var eini stjórnmálaflokkurinn í landinu, og höfðu þessir menn reynt allskonar spellvirki, einu sinni tekist að eyðileggja Sogsstöðina um stundarsakir, en einkum þó reynt með erlendu fé að magna flokk gegn alþýðunni í landinu, en aldrei tekist.[4]
Þetta var nú líka draumurinn í Sovétríkjunum og sjá menn langa þrautasögu þjáninga og harðstjórnar. En Íslendingar lærðu ekkert af mistökum annarra. Stefna íslenska Kommúnistaflokksins var því að koma á fót samskonar skipulagi og ríkti í Sovétríkjunum þegar Íslendingar hefðu komist gegnum erfiðleika lýðræðisins til sósíalisma.[5] Ísland skyldi því verða ólýðræðislegt sósíalistaríki að sovéskri fyrirmynd. Þetta var hin nýja lífssýn sem Íslendingum var boðin í kreppunni og margir aðhylltust. Og til að reyna að koma því á koppinn seldu menn Öxar við ána úr landi og fluttu inn internasjónalinn. Trúnaður þessara rauðleitu byltingarsinna var fyrst og fremst við Sovétríkin og stálbóndann í Moskvu. Íslensk vitund hafði nú vikið fyrir marx-stalínískri alþjóðahyggju í hugum margra og fór þeim fjölgandi sem hugsuðu svo. Hefði draumsýn Einars Olgeirssonar orðið að veruleika myndi Ísland hafa orðið að litlu sovétríki. Reynsla þjóða sem lentu undir stálhælnum geta gefið vísbendingar um hvernig staðið hefði verið að málum hér á Íslandi. Mannréttindi hefðu verið afnumin í sovéskum stíl, efnahagur landsins eyðilagður með vonlausum efnahagsstefnum og aðgerðum stalínismans. Síðar meir, eftir stríðið, hefðu síðan rússneskar hersveitir komið til landsins til að verja Íslendinga gegn ágangi heimsvaldasinna. Og eins og í öðrum fylgiríkjum Sovétmanna hefðu kannski verið flutt hingað kjarnorkuvopn, í varnarskyni. Og þetta óskuðu sér og boðuðu sömu menn og síðar mögluðu einna mest gegn hersetu Bandaríkjanna á Íslandi og kjarnorkuvígbúnaði Atlantshafsbandalagsins! Það er víst ekki sama hver er, Jón eða séra Jón.
Kannski voru þessir menn óvinir ríkisins...eða a.m.k. óvinir þjóðarinnar, úr því þeir óskuðu henni þess, að komast undir kúgun og áþján morðóðra glæpamanna úr austurvegi? En sú draumsýn, sem kommúnistar höfðu 1938, var auðvitað ekki sú sama og þeir höfðu 1968, og enn síður 2006. En var réttlætanlegt að hafa eftirlit með starfsemi þeirra? Það er auðvitað spurning, sem erfitt er að svara. Slíkt hlýtur að hafa verið bundið við persónur og aðstæður. Hvað snerti harðlínukommúnista, tel ég það réttlætanlegt, miðað við það hugarfar, sem þá var ríkjandi. Hafa ber í huga, að þessir menn höfðu þá stefnu, beint eða óbeint, að selja Ísland á vald erlends einræðisríkis, sem hafði fram að því ekki sýnt neitt það af sér, sem réttlætt gæti slíka hollustu. Vestrænar ríkisstjórnir munu hvarvetna hafa haft eftirlit með starfsemi kommúnista og ekki að ósekju. Og af hverju ekki hér? En þó voru ekki allir þeir, sem tóku þátt í starfsemi herstöðvarandstæðinga í raun og veru kommúnistar. Ég get skilið eftirlit með starfsemi Sósíalistaflokksins, meðan hann var sem harðsvíraðastur, en hvað snertir herstöðvarandstæðinga, fæ ég ekki skilið hvaða ástæður lágu þar að baki. En auðvitað er auðvelt að fletta fingur nú í dag, þegar andrúmsloftið er frábrugðið því sem var. En þeir, sem í dag gagnrýna þessar hleranir af sem mestu móði, verða að hafa í huga, að kommúnistar höfðu stefnu, sem bæði hættuleg hagsmunum ríkis og þjóðar; það fyrrnefnda vildu þeir færa á vald annars ríkis; setja Ísland í einskonar "Sovétbandalag". Og sömu menn, og/eða pólítískir arftakar þeirra eru nú fremstir í flokki þeirra, sem berjast gegn Evrópusambandinu, sem er einskonar póstmódernísk útgáfa af gömlu Sovétblokkinni. Ég verð að viðurkenna, að ég sé lítinn mun. En gott að íslenskir sósíalistar skuli hafa áttað sig á þessu; betra fyrr en síðar.
[1] Leið íslenzku þjóðarinnar úr gjaldþroti auðvaldsins til velmegunar sósíalismans Réttur XXII (1937), 1-25.[2] Sama heimild, 31-32.[3] Sama heimild, 25.[4] Kosningar á Íslandi sósíalismans Þjóðviljinn, 16. janúar 1938.[5] Leið íslensku þjóðarinnar, 28.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. desember 2006
Úlfur í sauðargæru
Já, lítill jólafriður í Landinu helga. En mikið er ræða patríarksins þunnur þrettándi, þar sem gleymir að geta þess, sem raunverulega er að gerast í Landinu helga, a.m.k. hvað snertir kristna menn í Landinu helga. Hann sagði m.a. í viðtali:
Christians are part of Palestinian society, and the Palestinians are Christians and Muslims. No one is going to flee because of Islamic influence, but because of the lack of work, or the political tension provoked by the curfew. But there is no Muslim persecution of Christians, and in fact they share the same hope of one day having an independent state.
Ég hef nýlega rakið hið gagnstæða. Kristnum mönnum fjölgar í Ísrael, en fækkar stöðuglega á svæðum Palestínumanna, enda sitja þeir víða undir ofsóknum, stundum jafnvel alvarlegum og fyrir opnum tjöldum. Þeim er skelfilega mismunað undir stjórn PLO og Hamas; það er aðal ástæðan fyrir því, að þeir flýja umvörpum. Michel Sabbah var að ljúgja. Hann hefur áður lofað árásir íslamskra öfgamanna, réttlætt sjálfsmorðsárásir, og hegðað sér fyrst og fremst eins og liðsmaður palestínskra öfgahreyfinga, ekki kaþólsku kirkjunnar. Hann hefur ekki falið and-semítískar tilhneigingar sínar og hvatt til þess, að Ísrael verði eytt, og notaði m.a. jólaprédikun sína 2000 til þess arna. Prédikarnir hans eru jafnan fyrst og fremst pólítískar, eins og prédikanir íslamskra klerka. Báðir nota púltið til að koma pólítískum áróðri sínum áleiðis; báðir segja í aðalatriðum það sama. Báðir enduróma stefnu hinna háu herra í Ramallah og Gasa: Sabbah ómar stefnu Fatah, íslömsku klerkarnir virðast flestir hallari undir Hamas. Þetta er farið að minna á Þýskaland nasista, þegar stóru kirkjurnar báðar endurómuðu nær aðeins það, sem nasistarnir leyfðu þeim -- og voru jafnvel nokkuð sáttar við svoleiðis kenningar. En boðskapurinn er að gruni til hinn sami, hvort sem í hlut eiga prelátar í Berlín 1936 eða Betlehem 2006.
![]() |
Fordæmdi innbyrðis átök Palestínumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)