Aldraðir, Hrafnista og umönnunarstörf

"Já, ég reyki", sagði miðaldra maðurinn, sem ég hitti hér á kaffistofunni í morgun. "Af hverju ekki?" spurði hann sjálfan sig og aðra. "Ég reyki til að drepast áður en ég þyrfti að fara á Hrafnistu".

Í sjálfu sér kom þetta mér ekki á óvart. Ég þekki aðeins til á Hrafnistu og fyrir mitt leyti get ég tekið undir með þessu manni. Ég ætla ekki, alls ekki, að eyða ellinni á slíku heimili.

Hugmyndin er ágæt svosem, að safna gömlu og illsjálfbragða fólki saman á einn stað og ala önn fyrir því. En gallinn er, að af einhverjum ástæðum er aðbúnaður þeirra frekar slæmur. Eftir því sem ég hef heyrt, eru stundum margir saman í litlu herbergi, maturinn slakur, bakkelsið vont, fátt starfsfólk, lítið að gera sér til dægrastyttingar, osfrv.

Ég hef þá skoðun, að starfsfólk vinni að jafnaði betur, þegar það er ánægt í vinnunni. Ég veit ekki um marga, sem eru ánægðir í vinnu t.d. á Hrafnistu. Þar er vinnuálag mikið, launin lág, mórallinn slæmur, því sökum þess, að launin eru lág, reyna sumir að komast eins ódýrt frá vinnunni og mögulegt er. Því lendir álagið á þeim, sem eru samviskusamir, þrátt fyrir allt. Og síðan bætist við, að sumir kunna ekki til verka, eru óvanir eða óhæfir. Álagið eykst þá enn frekar á hina. Og þetta fólk á nánast ekkert frí, því það er hringt í tíma og ótíma til að fá það til að vinna aukavaktir, þar eð sumir mæta ekki til vinnu, eða þá að ekki er nægjanlega skipað á vaktir. Stöðuglega er verið að auglýsa eftir fólki, en hvernig á fólk að nenna að vinna fullt starf fyrir kaup, sem er ekki mikið hærra og atvinnuleysisbætur eða örorkubætur?

En hvernig á fólk, sem vinnur nokkuð erfiða vinnu og fyrir skítakaup, að hafa ánægju af vinnunni og þarmeð að sinna gamla fólkinu vel? Laun þeirra eru smánarleg, svo ekki sé meira sagt. Aldraðir, sem hafa byggt upp þetta samfélag, sem við njótum í dag, eru núna settir út í horn og sagt að éta það sem úti frýs.

Ég kem því aftur að upphafinu: Er eitthvað svo gaman að verða aldraður, þegar þetta er sú framtíð, sem blasir við? Auðvitað eru aldraðir ekki allir í sama bási. Sumir standa ágætlega og hafa jafnvel það góða heilsu, að þeir geta búið heima hjá sér og hugsað um sig sjálfir. En sumir geta það ekki og þurfa að leita á náðir geymslustaða eins og Hrafnistu. Eg tek fram, að ég er ekki beinlínis að gagnrýna þá, sem reka Hrafnistuheimilin, heldur skil ég ekki hvernig stendur á því, að ríkisvaldið, sem sýgur úr okkur skatta á allar hendur, skuli ekki getað séð af stærri hlut af kökunni til að hugsa bærilegra um þá, sem byggðu þetta þjóðfélag upp?

Eg tek síðan fram, að ég er ekki sósíalisti, heldur hægri maður. En ég lít svo á, að sómasamleg umhyggja fyrir öldruðum sé eitt af þeim verum, sem ríkisvaldið eigi að sjá um, miklu frekar en t.d. að setja stóreflis fjárhæðir í að reka útvarpsstöðvar eða önnur samkeppnisfyrirtæki, sem betur færu í rekstri einkaaðila. Þetta er bara spurning um að forgangsraða verkefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband