Miðvikudagur, 3. janúar 2007
Ný ríkisstjórn í burðarliðnum?
Ég hef stundum sagt, að betra sé að lesa vel skrifaðan texta, sem maður er ekki endilega sammála, en illa skrifað efni, sem liggur manni nærri. Erlendur í Unuhúsi hélt því fram fyrir um 75 árum og er það enn í gildi og ég tek undir. M.a. af þeim sökum les ég reglulega róttæklingasíðuna Múrinn, þó ég sé jafnan ekki sammála mörgu þar svosem. En nú skrifar Ármann Jakobsson um hvað taki við að loknum kosningum og gefur sér, og ekki án raka, að VG vinni kosningasigur. Hann segir m.a.:
Venjurnar eru hins vegar allskýrar og ljóst er að ef VG fær meira en 15% fylgi er nánast ekki forsvaranlegt fyrir aðra flokka að leita ekki eftir samstarfi við flokkinn. Þá er líka mikilvægt að forystumenn flokksins séu raunsæir og sleppi öllum leikrænum tilburðum eins og þeim að fara í viðræður fjögurra flokka. Möguleikarnir eru ansi skýrir. Annað hvort nær stjórnarandstaðan meirihluta og myndar stjórn. Hinn kosturinn er að stjórnin haldi og þá er eðlilegt að sá stjórnarandstöðuflokkur sem mestu bætir við sig myndi stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þjóðin á mikið undir að það yrði þá VG en ekki t.d. Frjálslyndiflokkurinn.
Ég tel þessa grein Ármanns mjög athygliverða. Ég hef áður sagt hér, en nenni ekki að fletta niður eftir færslulista og linka á, að líklegt er, að í sumar taki við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og VG. Ástæður:
1. Ríkisstjórnin annað hvort fellur eða stendur það tæpt, að ekki sé verjandi að halda samstarfinu áfram.
2. Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar "fimmtu herdeildar", mun vísast láta evruna og aðild að Evrópusambandinu, verða kosningamál, og hugsanlega framsóknarmenn líka. Með það í huga er ólíklegt, að VG eða Haarde verði til í slaginn með þeim eftir kosningar.
3. Kominn tími á breytingar. Menn eru farnir að verða þreyttir á þessu samstarfi, báðir flokkar held ég.
Skilyrði þau, sem Ármann nefnir eru þrenns konar: 1. Ísland herlaust land og haldi sér frá stríðsþátttöku og þess háttar, 2. Ekki fleiri virkjanir eða stóriðju. 3. Velferðarmál, oþh. Við fyrstu sýn virðast þessi atriði ekki ættu að standa í vegi fyrir stjórn andevruflokkanna. Björn Ingi ræðir þetta og segir VG vera að setja Samfó þá skilmála, að verði núverandi stjórnarandstaða við völd, verði SJS forsætisráðherra, annars fari VG í stjórn með "íhaldinu". En það yrði óásættanlegt fyrir Imbu 5. herdeild, sem þráir stólinn. Hún gæti ekki liðið að SJS yrði forsætisráðherra, og varla Samfó þingmennirnir heldur.
En a.m.k.: ég ítreka, að ég tel eina raunhæfa stjórnarmynstrið í vor vera samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.