Guantanamo

Vonandi færir árið 2007 okkur þær fréttir, að Guantanamo fangabúðunum verði lokað og tímasetning tilkynnt. Þessi smánarblettur á vestrænni menningu og "lýðræði" getur ekki haldið áfram að grassera. Það þarf að stinga á kýlið og það strax.

Persónulega efast ég lítið um þær fréttir, sem borist hafa af meðferð fanga í þessum búðum og hef engar ástæður til að ætla, að þær séu mikið ýktar, ef nokkuð. Frekar tel ég, að öll sagan sé enn ekki sögð. Fyrir nokkrum árum héldu fulltrúar Bandaríkjastjórnar að ég, undirritaður, væri hryðjuverkamaður og köstuðu mér í dýflissu, þar sem meðhöndlunin var vægast sagt ömurleg. En ef svoleiðis var komið fram við sakleysislegan Íslending, hvernig ætli þeim líði þarna í Guantanamo? Skora ég á menn að horfa á The Road to Guantanamo í þessu samhengi.

300px-Guantanamo_Bay_mapGuantánamo fangabúðirnar voru reistar, í núverandi mynd,  í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana 11. september 2001 og innrás Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra í Afghanistan skömmu síðar, en áður höfðu þar staðið gæslubúðir fyrir HIV-smitaða flóttamenn. Þær standa í flotastöð Bandaríkjahers við samnefndan flóa, syðst á Kúbu, en þar hafa Bandaríkin haft aðstöðu frá því 1898, þegar Bandaríkin sigruðu "nýlenduveldi" Spánverja í stríði. Búðirnar skiptast í aðalatriðum í þrjár meginbúðir, Delta, Iguana og X-Ray, en þeirri síðastnefndu hefur reyndar verið lokað.

Í þessum búðum eru fangar geymdir án dóms og laga. Sök þeirra flestra var, að hafa verið staddir í Afghanistan við innrás Bandaríkjanna. Flestir þeirra voru vísast á mála hjá Talibönum eða öðrum róttækum samtökum múslima, þeim sem Bandaríkin og flest Evrópuríki skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Í þessum búðum hafa fangar, sem ekki hafa fengið tækifæri til að sanna sakleysi sitt (og bandarísk stjórnvöld heldur ekki hirt um að sanna sekt þeirra), verið pyntaðir og meðhöndlaðir af hrottaskap. Lengi vel héldu bandarísk stjórnvöld því fram, að þessir menn nytu ekki verndar Genfarsáttmálans, þar eð þeir væru hryðjuverkamenn, en ekki hermenn, en í júní 2006 dæmdi Hæstiréttur Bandaríkjanna gegn því viðhorfi og féllst dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna á dóminn í júlí. Fangar þessir eiga því rétt á vernd Genfarsáttmáls, í teoríunni, en í framkvæmd virðist virðing bandarískra gæslumanna fyrir lögum og rétti vera afskaplega takmörkuð.

250px-GuantanamoÍ nóvember 2006 höfðu 340 fangar, af 775, verið leystir úr haldi, þeirra á meðal tveir Bretar, sem sagt hafa sögu sína. Af þeim 435 sem eftir eru, eru 110 á lista yfir þá, sem sleppt verður fljótlega. Af hinum 325 munu "aðeins" um 70 koma fyrir dómstóla og standa fyrir máli sínu. Hinir 250 virðast eiga að hírast þarna, eins konar stríðsfangar, sem sitja munu inni vísast þangað til stríðinu gegn hryðjuverkum verður lokið. Ergo: Þessir menn gætu allt eins setið þarna til eilífðarnóns, eða uns Guantanamo kemst aftur undir stjórn Kúbu, hvenær svosem það verður, og þá verið fluttir annað.

Af þeim, sem sleppt hefur verið, hafa nokkrir verið fangaðir að nýju í Afghanistan eða Pakistan, þar sem þeir hafa tekið þátt í bardögum með Talibönum eða bandamönnum þeirra. Vísast hefur það orðið til að draga úr vilja Bandaríkjastjórnar til að leysa fleiri úr haldi.

En í öllu falli standa Guantanamo búðirnar sem opið sár, Bandaríkjunum til viðvarandi smánar.

 


mbl.is Skjöl um slæma meðferð fanga í Guantánamo fangabúðunum birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband